Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Rífandi stemning á félagsfundi BRV
28.11.2008 | 14:06
Það var vel mætt á fjörugan félagsfund hjá Breiðavíkursamtökunum í gærkvöldi, þar sem staða og horfur í málefnum samtakanna voru rædd í þaula. Nánari frásögn upp úr fundargerð kemur síðar og vonandi um helgina, en óhætt er að segja að andi fundarins hafi lotið að efldu félagsstarfi og nýrri sókn í hagsmunamálum, ekki síst bótamálunum, sem undanfarið hafa setið á hakanum vegna hrunsins á fjármálakerfi landsins.
Á fundinum var samþykkt tillaga þess efnis að kjósa þriggja manna "skemmtinefnd" og efla þannig innbyrðis samstöðu og um leið fjalla um fleira en það sem grafalvarlegt er. Bótamálin hafa verið nokkuð fyrirferðarmikil undanfarið, en langur vegur frá að það sé eina og jafnvel ekki aðalmálið hjá félagsmönnum. Áríðandi sé að huga vel að þeim málum en jafn mikilvægt að félagsmenn komi saman á léttari nótunum til að hífa upp andann og styrkja hver annan.
Nánar um fundinn sem fyrst!
Breiðavík og viðurlög í bótamálum
27.11.2008 | 12:08
Skyldi koma að því að Breiðavíkurbörnin og önnur fórnarlömb óviðunandi vistunarúrræða hins opinbera verði að láta reyna á viðurlög vegna seinagangs við ákvörðun og afgreiðslu bóta þeim til handa? Ljóst er að fjármálakreppan hefur ýtt til hliðar hástemmdum loforðum stjórnvalda um bætur og BRV hafa auðsýnt þolinmæði, en hún varir ekki að eilífu og í kvöld koma félagsmenn Breiðavíkursamtakanna saman á félagsfundi að ræða stöðu og horfur. Ljóst er að ýmsum þykir nóg komið af þolinmæði.
BRV hvetur alla félagsmenn og áhugafólk um félagsaðild til að mæta á félagsfundinn í kvöld til að ræða málin:
FÉLAGSFUNDUR HJÁ BREIÐAVÍKURSAMTÖKUNUM
Breiðavíkursamtökin halda almennan félagsfund í félagsmiðstöðinni við Aflagranda í kvöld fimmtudaginn 27. nóvember kl. 20:30.
Dagskrá:
1. Staðan í baráttu-, hagsmuna- og bótamálum samtakanna og starfið framundan.
2. Önnur mál.
Stjórnin.
![]() |
Vantar viðurlög gagnvart stjórnvöldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Myndið svigrúm til að gera betur við "smælingjana"
21.11.2008 | 18:10
Það er ágætt að ríkisstjórnin ætli að "mælast til þess" að laun æðstu ráða- og embættismanna verði lækkuð, að líkindum um 5-15%. Breiðavíkursamtökin leggja til að laun þessara manna verði skert um aukalegar prósentur til að mynda rými fyrir mannsæmandi bótum til handa Breiðavíkurdrengjum og öðrum fórnarlömbum ömurlegra vistunarúrræða hins opinbera.
Breiðavíkursamtökin hafa "haldið sig á mottunni" að undanförnu. Upp gaus mikil reiði þegar forsætisráðuneytið kynnti nánasarlegar hugmyndir sínar um "bætur" og voru viðræður að fara í gang um vonandi góðar lagfæringar á þeim hugmyndum, þegar Hrunið Mikla dundi yfir. Samtökin vildu í kjölfarið veita stjórnvöldum svigrúm til að takast á við efnahagsvandann - sýna þeim smá tillitsemi. Nú er hins vegar að birta yfir, búið að tryggja lán og koma hlutunum í sæmilegt stand, þannig að eðlilegt líf geti tekið við að nýju. Einnig hefur að undanförnu farið vaxandi óþolinmæði meðal félaga í samtökunum og því ekki seinna að vænna að láta af tillitseminni við stjórnvöld og blása til sóknar á ný. Samtökin boða því til félagsfundar:
FÉLAGSFUNDUR HJÁ BREIÐAVÍKURSAMTÖKUNUM
Breiðavíkursamtökin halda almennan félagsfund í félagsmiðstöðinni við Aflagranda næstkomandi fimmtudag 27. nóvember 2008 kl. 20:30.
Dagskrá:
1. Staðan í baráttu-, hagsmuna- og bótamálum samtakanna og starfið framundan.
2. Önnur mál.
Stjórnin.
![]() |
Óska eftir launalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Breiðavíkursamtökin taka þráðinn upp á ný
20.11.2008 | 13:59
Núna þegar peningarnir beinlínis streyma inn í landið og þjóðin að verða rík á ný er tími til kominn að Breiðavíkursamtökin leggi af hófstillta tillitsemi sína (vegna Hrunsins) og taki upp þráðinn á ný í baráttu sinni fyrir mannsæmandi bótum og í aðhaldi sínu að stjórnvöldum í vistunarmálum hins opinbera.
Bloggsíða BRV vill nefna það hér og biðja menn um að láta boðskapinn dreifast, að ætlunin er að halda félagsfund um miðja næstu viku, en nánari tímasetning verður tilkynnt sem fyrst. BRV vill hvetja félagsmenn og áhugasama einstaklinga um félagsaðild að fjölmenna á fundinn, en því miður hefur mæting ekki verið upp á marga fiska undanfarið.
Fylgist með - takið þátt í umræðunni.
![]() |
Lána Íslandi 350 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Georg Viðar og Friðrik Þór í "Ísland í dag"
8.9.2008 | 21:45
Georg Viðar Björnsson, varaformaður BRV, og Friðrik Þór Guðmundsson, ritari stjórnar, voru í viðtali í "Ísland í dag" fyrr í kvöld.
Endilega tjáið ykkur um viðtalið, en tengil á það er að finna hér.
DV stekkur á Johnsen-samlíkinguna
7.9.2008 | 23:05
Árni Johsen á við þrjá Breiðavíkurdrengi

Árni krefst fimm milljóna í skaðabætur.
Friðrik Þór Guðmundsson, ritari Breiðavíkursamtakanna, fjallar á vefsíðu sinni um skaðabótamál Árna Johnsen gegn Agnesi Bragadóttur, blaðakonu Morgunblaðsins. Árni krefur Agnesi um 5 milljónir króna vegna ummæla sem Agnes lét um hann falla.
Friðrik Þór bendir til samanburðar á bæturnar sem ríkið bauð Breiðavíkurdrengjunum, um 375 þúsund til tvær milljónir króna. Friðrik segir að með þessu megi ætla að Árni sé fjórfalt skaddaðri eftir Agnesi en meðal Breiðavíkurdrengur.
Geir noti svigrúmið vel
6.9.2008 | 13:15
"Ráðuneytið mun ekki svara frekari yfirlýsingum af hálfu samtakanna opinberlega heldur halda áfram að leita leiða til að leysa málið með fullnægjandi hætti" segir forsætisráðuneytið. Það er út af fyrir sig ágætt, ekki satt, núna þegar staðan í yfirlýsingunum er 2:1 fyrir forsætisráðuneytið!
En, allt í lagi, leggjum til hliðar þá staðreynd sem blasir við að skilningur manna á stöðu og þróun þessa máls sé ólíkur. Þrátt fyrir reiðina og hneykslanina fara samtökin létt með að svara í sömu mynt og lýsa yfir að þau svari ekki þessari síðari yfirlýsingu ráðuneytisins, þótt ástæða væri til. Það er sjálfsagt mál að gefa Geir áfram svigrúm, enda treyst á að það svigrúm verði nýtt fljótt og vel. Ástæða til að óska honum og hans mönnum velfarnaðar í því vandasama starfi. Nú hefur það ágæta fólk líka gott vegarnesti í þá vinnu: Álit margra (annarra) ráðamanna og Þjóðarsálarinnar á þessum frumvarpsdrögum.
Annars þetta: Samtökin "fóru" ekki með málið "í fjölmiðla". Fjölmiðlar sóttust fast eftir upplýsingum og tókst að grafa þær upp. Við svo búið var ekki annað hægt en að svara fjölmiðlum og nýta tækifærið til að efna til lýðræðislegrar umræðu um málið.
![]() |
Vonbrigði að fá ekki nauðsynlegt svigrúm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Yfirlýsing frá Breiðavíkursamtökunum
4.9.2008 | 21:11
1. Á fundi með stjórnarmönnum Breiðavíkursamtakanna (BRV) og lögmanni þeirra Ragnari Aðalsteinssyni þann 11. ágúst sl. sagði Páll Þórhallsson lögfræðingur forsætisráðuneytisins aðspurður að frumvarpsdrögin um bætur hefðu verið kynnt í ríkisstjórninni og samþykkt þar. Yfirlýsing ráðuneytisins nú er í andstöðu við þetta ótvíræða svar Páls Þórhallssonar.
2. Á sama fundi 11. ágúst sl. var beðið um trúnað í tvær vikur og það var að fullu virt og rúmlega það.
3. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur BRV var boðaður á fund í ráðuneytinu föstudaginn 29. ágúst. Greinilegt var af þeim fundi að dæma að málinu hafði verið haldið í sama farvegi og á fundinum 11. ágúst; engu hafði verið hnikað til þótt samtökin hefðu gert alvarlegar athugasemdir við drögin strax á fundinum 11. ágúst og með ítarlegu bréfi þann 15. ágúst.
4. Við svo búið sáu BRV ekkert því til fyrirstöðu að efna til félagsfundar 3. september og taka þátt í opinberri umræðu um málið og þróun þess.
5. BRV geta ekki annað en harmað framgöngu forsætisráðuneytisins í þessu máli og hvetja forsætisráðherra til að koma böndum á framgöngu sinna manna. BRV hafa engan áhuga á því að munnhöggvast við ráðuneytið um atriði sem ekki lúta að kjarna málsins. Hann felst ekki síst í brotum stjórnvalda gagnvart börnunum og foreldrum þeirra, í því líkamslega og andlega harðræði sem þessi börn bjuggu við, í þeirri vinnuþrælkun sem þessum börnum var boðið upp á, í þeirri vanrækslu sem átti sér stað á lögbundinni skólaskyldu, í sviptingunni á friðhelgi einkalífsins og í hinni sáru einangrun og aðskilnaði frá vinum og venslamönnum sem börnin þurftu að þola. Af öllu þessu er ljóst að hin ömurlega nauðungarvist hefur rýrt verulega tækifæri og getu viðkomandi einstaklinga til að lifa eðlilegu, mannsæmandi lífi og fóta sig í samfélaginu.
4. september 2008,
stjórn Breiðavíkursamtakanna
![]() |
Harma framgöngu forsætisráðuneytisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað þarf að segja við Breiðavíkurdrengi?
4.9.2008 | 21:05
Enginn þorir að segja neitt við Breiðavíkurdrengi? Hvað þarf að segja við Breiðavíkurdrengi? Að þeir skuli sætta sig við að hafa verið beittir harðræði af stjórnvöldum og af þeim sem höfðu drengina í umsjá sinni eftir að sannarlega höfðu verið brotin lög og grundvallarmannréttindi á foreldrum þeirra? Að málið skuli kyrrt liggja af því að svona var nú tíðarandinn og mannréttindi þá afstæð samkvæmt þessu?
Ég tek undir að málið er "fáránlegt" þótt ég notaði kannski annað orð til að lýsa þeim fáránleika en orðið fáránlegt; dapurlegt, sorglegt, þungbært öllum sem hlut að eiga, íþyngjandi og þá ekki bara meðan á umræðunni hefur staðið heldur allt frá þeim tíma sem drengirnir voru vistaðir fjarri fjölskyldum sínum og upp á náð ókunnugra komnir.
Þjóðverjar í dag vilja gjarnan axla ábyrgð á grimmdarverkum nasista og atburðunum í þriðja ríkinu; þeir líta svo á að sagan megi ekki endurtaka sig og til að svo verði ekki þarf að axla ábyrgð á því sem undan hefur farið og læra af því, það er partur af ábyrgðinni. Ef við gerðum ekki slíkt væri enn verið að bjóða niður niðursetninga.
Af hverju ber ég ábyrgð sem skattgreiðandi á syndum fortíðar; það er af því að við búum í samfélaginu, öll saman, styrkur samfélagsins felst í þeirri kennd, að menn séu ekki allir í stríði við alla. Auðlindir samfélagsins eru á einhvern hátt sameign þess, kynslóðirnar ávaxta sitt pund í samræmi við árferði hverju sinni og mæta þeim kostnaði sem fylgir því að reka samfélagið. Við stefnum ekki aftur að því að bjóða niður niðursetninga heldur reynum við að hjálpa fólki með félagslegri aðstoð og innan Félagsþjónustunnar er talað um hjálp til sjálfshjálpar.
Af því við erum partur af sögunni, sem á einhvern hátt er óslitin þótt hún sé víða rofin, ber maður ábyrgð á því sem gerðist í fyrndinni.
Ég veit ekki um afkomendur hreppsómaganna; mér þykir það ekki koma þessu máli við nema óbeint. Það kemur virðingu eða virðingarleysi ekkert við hvort menn treysti sér til að gera greina fyrir sálrænum áföllum sínum. En oft bera menn harm sinn í hljóði.
Hvað snertir skaðann þá er hann í mörgum tilvikum greinilegur og öllum ljós sem til þekkja. Margir hafa svipt sig lífi eða farist á voveiflegan hátt; margir búa við andleg örkuml, margir hafa gengið þjáningaleið í samfélaginu og illa tekist að fóta sig; hvort bara megi kenni dvölinni á Breiðavík um það er auðvitað álitamál en hún gaf mönnum ekki góð spil til að spila úr í lífinu.
Bæturnar eiga að koma fyrir skilgreind brot á þessum mönnum, fyrir allt það sem þeir fóru á mis við vegna einangrunar Breiðavíkur, vegna meðferðar starfsfólks á drengjunum, vegna framgöngu barnaverndaryfirvalda, ríkisvaldsins og vegna mannréttindabrotanna, bæði á drengjunum og svo gegn foreldrum þeirra. Ég læt þetta nægja í bili.
Bárður
(ofangreint er svar formanns BRV við athugasemd í síðustu færslu og fannst ritstjóra rétt að búa til sérstaka færslu úr því)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gífurleg vonbrigði og reiði vegna bótatillagna
4.9.2008 | 13:04
Á félagsfundi Breiðarvíkursamtakanna í gær gætti mikillar reiði og vonbrigði þegar stjórnarmenn kynntu fyrir félagsmönnum þær hugmyndir um bætur sem fram koma í frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar. Fundarmenn voru á einu máli um að hugmyndirnar um bætur á bilinu 375 þúsund til liðlega tveggja milljóna króna væru fjarri því að vera sanngjarnar bætur og væru aukinheldur blaut tuska í andlit Breiðavíkurdrengjanna og annarra fyrrum vistbarna sem máttu þola ofbeldi, nauðungarvist, nauðungarvinnu, einangrun frá heimili og fjölskyldu, glötuð tækifæri og menntun og fleira.
Hver og einn einasti fundarmanna sem til máls tók taldi fyrirliggjandi bótatillögur algerlega ófullnægjandi og að ferillinn til að sækja sér þessar bætur væri í ofanálag íþyngjandi. Var á sumum að skilja að bótahugmyndirnar væru svo lágar að það tæki því varla að sækja sér þær og þá ekki síst miðað við þá íþyngjandi vinnu sem fylgir því að óbreyttu að sækja sér bæturnar. Rifjuðu menn upp yfirlýsingu forsætisráðherra um að "Norska leiðin" yrði farin, en Norðmenn hafa greitt til muna hærri bætur vegna sambærilegra mála. "Norska leiðin" samsvarar um það bil 15 milljón króna bótum, en þar komu sveitarfélög einnig að greiðslu bóta.
Fundarmenn töldu einsýnt að mjög erfitt yrði fyrir þá að sanna skaða og miska þetta 40 til 50 árum eftir vistunina og stjórnin hefur enda viðrað annarskonar viðmiðun um bætur, þ.e. að greiða fólkinu ígildi launa í samræmi við dvalartímann, samkvæmt Dagsbrúnartaxta framreiknuðum og með vöxtum. Nánar verður gerð grein fyrir þessum hugmyndum síðar, en upphæðirnar sem koma út úr slíkum viðmiðunum eru til muna hærri en hjá forsætisráðuneytinu (en vaxtaprósentan getur skipt sköpum).
Breiðavíkursamtökin eru opin samtök og taka yfir öll vistheimili hins opinbera, en ekki bara Breiðavík. Fundarmenn voru hins vegar sammála um töluverða sérstöðu Breiðavíkur og töldu menn einsýnt að taka þyrfti á því vistheimili sérstaklega. Frumvarpið væri hins vegar tilraun til að ná til allra heimilanna sem til greina geta komið og einkenndist ljóslega af því að ríkið væri að reyna að lágmarka "tjón" sitt.
Vegna yfirlýsingar úr forsætisráðuneytinu, þar sem ráðuneytið harmar að samtökin hafi kynnt frumvarpsdrögin, sem væru vinnuskjal og háð trúnaði, er rétt að taka fram að ráðuneytið segir ekki alla söguna. Það er rétt að ráðuneytið kynnti stjórnarmönnum BRV drögin 11. ágúst (fyrir tæpum mánuði síðan). Þá þegar voru gerðar alvarlegar athugasemdir við ýmsilegt í drögunum og þá ekki síst bótaupphæðirnar. Viku síðar sendi lögmaður samtakanna, Ragnar Aðalsteinsson, ráðuneytinu ítarlegar athugasemdir með bréfi. Í kjölfarið var Ragnar síðan boðaður á fund ráðuneytismanna og var ljóst af þeim fundi að mótmælin og athugasemdirnar hefðu að engu skilað sér í formi nýrra hugmynda hjá ráðuneytinu. Eftir þennan fund leit stjórnin svo á að trúnaðinum væri aflétt, hið minnsta gagnvart félagsmönnum BRV. Þess utan taldi stjórnin að full ástæða væri til að ræða efni draganna úti í samfélaginu. Rétt er að taka það fram að sjálf frumvarpsdrögin voru ekki lögð fram á fundinum í gær og þessum skrifara ekki ljóst hvernig drögin sjálf bárust fjölmiðlum í gær.
Stjórn BRV kemur saman til fundar í dag um framhaldið, með félagsfundinn sem vegarnesti.
![]() |
Birt án samþykkis ráðuneytis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |