Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þingið, svínin og lægst settu "dýrin"

 Það er vel til fundið hjá Þjóðarhreyfingunni að gefa þingmönnum bókina "Animal farm" um leið og sú krafa er gerð að afnema Eftirlaunalögin svokölluðu (eða ósiðlegu hluta þeirra). Eins er ánægjulegt að heyra þingmenn nú tala um að setja sér siðareglur (þótt það gangi illa). Hvað Breiðavíkursamtökin varðar reynir nú brátt á hversu vel þingmenn vilja gera við þau fyrrum börn og unglinga sem fyrrum kollegar þeirra "dæmdu" til nauðungarvistar og -vinnu og til einangrunar og ofbeldis á Breiðavík og víðar. Því miður benda fyrstu vísbendingar til þess að ekki eigi að bæta skaðann af neinni rausn

Breiðavíkursamtökin blása nú í samræmi við það til tímabærs félagsfundar á morgun miðvikudag 3. september í félagsmiðstöð félagsþjónustunnar við Aflagranda, kl. 17. Áríðandi að allir félagar mæti sem vettlingi geta valdið.

 

Fundartilefnið er frumvarpssmíð ríkisstjórnarinnar um bætur til handa fyrrum vistmönnum að Breiðavík og fleiri vistheimilum hins opinbera. Þetta frumvarp hefur verið í smíðum og hefur stjórnarmönnum BRV og Ragnari Aðalsteinssyni lögfræðingi verið kynnt drög frumvarpsins. Óhætt er að segja á þessari stundu að drögin vekja ekki upp hrifningu og ætlunin að ræða málin á fundinum.

 

Fylgist með blogginu og aðalsíðu samtakanna og látið alla félaga vita.


mbl.is Þingmenn fá Animal Farm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtökin almannaheill stofnuð

Það er ástæða til að fagna stofnun samtakanna Almannaheill og óska aðstandendum til hamingju; Aðstandendafélagi aldraðra, Blindrafélaginu, Bandalagi íslenskra skáta, Geðhjálp, Gróðri fyrir fólk í landnámi Ingólfs, Heimili og skóla, Hjálparstofnun kirkjunnar, Krabbameinsfélagi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Landvernd, Neytendasamtökunum, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Það var og er kominn tími til að fólk og félög sem starfa í þágu almennings og góðs málstaðar finni sér sameiginlegan flöt og leggi í "útrás". Aldrei að vita nema Breiðavíkursamtökin óski eftir inngöngu, enda berjast samtökin fyrir almannaheill, þ.e. að hagsmunum barna og unglinga sem barnaverndaryfirvöld hafa afskipti af og grípa til vistunarúrræða vegna. Barnaverndaryfirvöld eru auðvitað nauðsynleg í samfélaginu - en þarfnast aðhalds. Því miður sýnir reynslan að ekki allir sem að barnaverndarmálum koma stjórnast af góðmennsku og náungakærleik. 


mbl.is Samtökin almannaheill stofnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bótamálið má ekki dragast úr hömlu

Síðasta miðvikudag (18. júní) var frétt í Sjónvarpinu með viðtali við þá mætu konu, Ásu Hjálmarsdóttur, móður Breiðavíkurdrengsins Konráðs Ragnarssonar. Fréttin í heild var þörf áminning (sjá hér). Áminning um að stjórnvöld dragi ekki að óþörfu að bæta fyrrum vistbörnum hins opinbera þá nauðung og ofbeldi sem þau upplifðu, í þessu tilfelli Breiðavíkurdrengjum.

Ekki tókst að ljúka samningu, framlagningu og samþykkt bótafrumvarps á þingi sl. vor og héðan af gerist því ekkert fyrr en með samþykkt frumvarps að hausti. Það liggur alveg ljóst fyrir að margir Breiðavíkudrengjanna eru ekki heilsuhraustir og tveir hafa látist það sem af er árinu, að því er fram kemur í fréttinni. Það er því slæmt ef bæturnar dragast að óþörfu, en hins vegar um leið mikilvægt að vanda til verka - því bæturnar verða að vera sómasamlegar og í þeim verður fólgið mikilvægt fordæmi hvað bætur varðar til fyrrum vistbarna annarra vistheimila. Það hefði þannig ekki komið á óvart ef þingið hefði, vegna flýtis og nísku, samþykkt í hraði allt of lágar bætur.

Mikilvægt er að sumarið sé í þessu sambandi vel nýtt og komist að niðurstöðu um raunhæfar bætur, þannig að þegar þing kemur saman þá renni frumvarp í gegn eins og bráðið smér. Breiðavíkursamtökin (regnbogasamtök fyrrum vistbarna hvers kyns vistunarúrræða barnaverndaryfirvalda) vilja taka þátt í þessari vinnu og gera það. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur er þar samtökunum innan handar, en lögfræðilega og félagslega er allsendis ekki um einfalt mál að ræða.

Bloggsíðan óskar Ásu til hamingju með skeleggt viðtal og gott aðhald að stjórnvöldum og sendir Konráði syni hennar einlægar óskir um bætta heilsu.


Bætur - af því að lög voru brotin á foreldrum og börnum

Hvers konar og hversu háar bætur eru réttlátar þegar bæta skal skaða og miska vegna brota á börnum og foreldrum þeirra, svo varðar líkamlegu ofbeldi, kynferðislegri misnotkun og launalausri vinnuþrælkun? Í viðhengdri frétt greinir frá því að ofbeldismaður hafi í einu allsherjar berserksbulli veist að karlmanni sem sat í bifreið og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið í gegnum opna rúðu í vinstri afturhurð.  Síðar um nóttina sló hann sama mann ítrekað með golfkylfu. Á sama tíma sló hann annan mann einnig með golfkylfunni og þóttu árásirnar með golfkylfunni sérstaklega hættulegar. Þolendunum voru dæmdar bætur á bilinu 100 til 300 þúsund krónur frá gerandanum. Hæfilegt? Of mikið? Of lítið?

Hvaða bætur eru réttlátar til handa þeim börnum (nú fullorðnum) sem lutu nauðungarvist að Breiðavík og víðar hér fyrr á árum? Í eftirfarandi pistli veltir formaður BRV fyrir sér bótamálunum.

"Þegar nýr drengur bættist í hópinn í Breiðavík beið hans ætíð ein spurning um leið og hinir drengirnir fengu færu á honum: Fyrir hvað varstu sendur hingað? Svörin voru svo ýmisleg eins og: Ég veit það ekki. Eða: Ég stal hjóli. Ég braust inn. En hvernig svo sem maður svaraði spurningunni var enginn sem sendur var til Breiðavíkur í vafa um að þangað var hann kominn til að taka út refsingu. 

Hvernig hefði manni líka átt að detta annað í hug. Við unnum erfiðsvinnu, lutum ströngum aga um hátta- og fótaferðartíma og okkur var bannað að fara af jörðinni og fylgst með því að við gerðum það ekki. Þetta allt er nú á almanna vitorði; í vetur kom skýrslan frá nefndinni um vistheimili og í framhaldi af því sagði Geir Haarde, forsætisráðherra, að lagt yrði fyrir Alþingi lagafrumvarp sem gerði kleift að greiða þeim mönnum sem enn væru á lífi bætur. Ekki vannst tími til að afgreiða frumvarpið á nýliðnu þingi og er það bæði vel og miður. Skiljanlega vekur það vonir hjá mönnum sem margir hverjir glíma við erfiðar aðstæður að nú batni kannski tilveran með viðurkenningu á að brotið hafi verið á þeim og fyrir það greiddir peningar. En það hefði verið vont fyrir alla ef frumvarpið hefði verið keyrt í gegn á síðustu dögum þingsins og þess vegna kannski ekki vandað til þess eins og þarf. 

En bætur fyrir hvað?

Fyrir að búa við stöðugan ótta?

Fyrir vinnuna sem adrei komu nein laun fyrir?

Fyrir barsmíðarnar og aðra misbeitingu af hendi starfsfólks?

Fyrir einangrunina frá almennu samfélagi?

Fyrir fjarveruna frá foreldrum og ættingjum?

 

Ég býst ekki við að neitt af þessu sé bótaskylt þótt að sjálfsögðu sé tekið tillit til þessa þegar Breiðarvíkurdrengir eiga í hlut því svona eru nú stundum kjörin og þarf ekki að hafa dvalið á Breiðavík til að hafa kynnst þeim. 

Nei, bæturnar eru vegna þess að lög voru brotin á foreldrum þessara drengja og á drengjunum sjálfum. Samkvæmt skýrslu Róberts Spanó fór Barnaverndarnefnd ekki að lögum við störf sín. Ekki var heldur sinnt eftirlitsskyldu með Breiðavíkurheimilinu og með aðbúnaðinum sem drengirnir bjuggu við, bæði hvað snerti skólagöngu og svo annað atlæti, voru lög þess tíma um menntun og aðbúnað barna og ungmenna brotin. Fyrir það á að greiða bætur.

Bárður R. Jónsson".


mbl.is Dómur héraðsdóms staðfestur í líkamsárásarmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfjölgun tilkynninga um ofbeldi og/eða vanrækslu

barn abuseÁ hverjum einasta degi, að jafnaði, berast barnaverndarnefndum landsins 23 tilkynningar um meintan óviðsættanlegan aðbúnað barns eða barna. Oftast um ofbeldi eða vanrækslu. Það samsvarar tilkynningu á klukkustundarfresti allan sólarhringinn eða einni tilkynningu á hverjum tuttugu mínútum yfir 8 stunda vinnudaginn. Þetta er ansi mikið og er um að ræða 15% fjölgun frá árinu á undan og var fjölgunin þá 22% frá árinu þar á undan.

Alls voru 357 börn í fóstri á árinu 2007 sem er um 15% fjölgun á síðustu fimm árum. Þetta kemur fram í ársskýrslu Barnaverndarstofu 2006-2007. Munar mestu um fjölgun tímabundinna fósturráðstafana.

En þrátt fyrir mikla fjölgun tilkynninga er ekki teljandi breyting á fjölda þeirra mála sem barnaverndarnefndir tóku til rannsóknar. Fjölgun tilkynninga þarf því ekki að endurspegla versnandi ástand og gerir það vonandi ekki. Vonandi er fyrst og fremst um að ræða aukna vitund um velferð og hagsmuni barna. Jafnframt verður að vonast til að barnaverndaryfirvöld gæti ávallt hófs í vistunarúrræðum sínum og hafi hikstalaust á hverjum tíma yfir vönduðum og faglegum mannskap að ráða.


mbl.is Alls 357 börn í fóstri árið 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einskonar fundinn ættbálkur - vitnisburður barnanna

bardurrjonsson

 Á síðasta ári kom fram á Íslandi einskonar áður lítt sem ekkert þekktur "ættbálkur", semsamanstendur af þeim fyrrum börnum og unglingum sem vistuð voru á ýmsum "heimilum" barnaverndaryfirvalda og máttu mörg hver þola ofbeldi og vinnuánauð. Í pistlinum hér að neðan sendir formaður Breiðavíkursamtakanna ákall til allra þessara einstaklinga.

 

Það er ekki einfalt að stofna samtök; oft klofna þau fljótt vegna ágreinings um markmið og persónur og til að þau lifi þarf baklandið að vera traust og baráttumálin vel skilgreind. Breiðavíkursamtökin voru því og eru enn eðli málsins samkvæmt dálítið veikburða.

 

Það fannst mér strax í upphafi og enn hefur félagatalið mikið til einskorðast við fyrrverandi vistmenn á Breiðavík og þeir hafa ekki nærri allir haft samband eða komið á fundina okkar.

 

Ég bíð líka eftir því að börnin frá Reykjahlíð gangi í félagið en ég var vistaður í Reykjahlíð frá því ég var sjö ára og þar til ég var sendur til Breiðavíkur tíu ára. Ég segi frá dvölinni í Reykjahlíð í aukaefninu sem fylgir Syndum feðranna á dvd-diskinum, mynd þeirra Bergsteins og Ara; í Reykjahlíð horfði ég upp á atburði sem ekkert barn á að kynnast og þótt einhverjir telji sig hafa mætt þar góðu atlæti er ég ekki í þeirra hópi.

 

Áður hef ég minnst á að eitt hlutverk félagsins væri að halda utan um og skrá sögu þessa tímabils í barnaverndarmálum, þ.e. tímabilið frá því um 1950 og fram til dagsins í dag.

Mikilvægasti þáttur þeirrar sögu er vitnisburður barnanna sem voru vistuð á vegum Barnaverndar.

 

Vísast safnar nefndin um vistheimili mikilvægum gögnum í því efni en þau gögn heyra sjálfsagt undir lög um persónuvernd og verða því ekki aðgengileg. Nú höfum við hug á því strax og aðstaðan verður fyrir hendi að safna reynslusögum fólks sem Barnavernd kom fyrir í vistun og vinna frekar úr þeim. Við erum ábyrg fyrir því að þessi saga gleymist ekki.

 

Bárður R. Jónsson.

(Þessi færsla er tengd frétt um týndan ættbálk af því að mörg fyrrum vistbörn á vegum barnaveerndaryfirvalda fyrri tíma eru eins og týndur ættbálkur eða gleymdur, sem nú er að koma í leitirnar...)


mbl.is Myndir nást af óþekktum ættbálki í Brasilíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórðungur Breiðavíkudrengja er látinn

Það er ekki annað hægt en að dást að því framtaki að efna táknrænnar minningarathafnar um alla þá landsmenn sem látist hafa í umferðinni sl. 40 eða frá H-deginum 26. maí 1968. Þetta er vel til fundið hjá annars árs nemendum Listaháskóla Íslands aðraða upp hundruðum skópara framan og til hliðar við Dómkirkjuna.

Ámóta mætti gera til að minnast fórnarlamba vistunarúrræða barnaverndaryfirvalda á fyrri tímum. Það væri þá hugsað sem táknmynd þeirra fórna sem íslenska þjóðin hefur fært á vistheimilum landsins. Fórna sem í flestum tilfellum hefði mátt koma í veg fyrir.

Í dag eru samkvæmt bestu upplýsingum 31 af 128 drengjum sem vistaðir voru að Breiðavík á árunum 1955-1972 látnir. Það er fjórði hver "drengur", sem er afar hátt hlutfall hjá fólki sem liðlega fimmtugt eða sextugt. Sláandi hátt hlutfall raunar. Margir aðrir lifa, en lífi sem lagt var í rúst.  Hvernig væri best að halda minningu látinna Breiðavíkurdrengja á lofti?


mbl.is Minnast fórnarlamba umferðarslysa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Telja menn að ofbeldi gagnvart börnum sé bara fortíðarvandamál

Í síðustu færslu nefndum við yfirmann í dönsku lögreglunni sem ætlaði að beita barni kynferðislegu ofbeldi, kannski öruggur í skjóli búnings síns, stöðu í samfélaginu og þess trausts sem svona menn að óbreyttu njóta. Og nú er ástæða til að staldra við Moggafrétt um að liðsmenn friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna og hjálparsamtaka hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi og að sum barnanna hafi einungis verið sex ára gömul.

Og þá er það spurning dagsins til lesenda bloggsíðunnar: Telja menn ástæðu til að ætla að ofbeldi gagnvart börnum og unglingum sé bara fortíðarvandamál og að í dag gerist ekkert misjafnt á borð við það sem gerðist að Breiðavík, Kumbaravogi og víðar?

Geta stjórnvöld gengið um hnarreist, barið sér á brjóst og fullyrt að óhætt sé að treysta því að í dag verði börn og unglingar á Íslandi ekki fyrir ofbeldi af hálfu fólks, sem stöðu sinnar vegna nýtur trausts?

Svari hver fyrir sig - og vel þegið að senda þau svör hingað!


mbl.is Börn kynferðislega misnotuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Perrarnir leynast víða

Perrarnir eru víða; þeir eru líka í lögreglubúningum, eru líka yfirmenn, eru líka "ráðsettir" heimilisfeður. Þeir kunna að koma fram sem góðu karlarnir sem treysta megi. Sumir eru svo kræfir að sækja í vinnu með börnum og unglingum. Verum á varðbergi.

"Yfirmaður hjá Kaupmannahafnarlögreglunni hefur verið handtekinn vegna gruns um að hann hafi ætlað að tæla stúlku undir lögaldri til kynmaka. Maðurinn taldi sig vera að ræða við 13 ára stúlku á netinu og í síma en í raun var „stúlkan" blaðamaður Ekstra Bladet".


mbl.is Danskur lögreglumaður reyndi að tæla 13 ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök gerast með ýmsum hætti og misalvarlegum afleiðingum

Nú virðast þingmenn allra stjórnmálaflokka sammála um að þeir hafi gert mistök við samningu og samþykkt eftirlaunalaganna svo kölluðu. Öllum verða á mistök og sem betur fer ekki alltaf sem mistök hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Eitt er að gera mistök sem fyrst og fremst fóðra vasa ráðamanna og þau mistök eru einna verst fyrir skattgreiðendur, sem gjarnan vildu sjá þennan pening renna til verðugri málefna.

Í gegnum árin hafa ráðamenn og barnaverndaryfirvöld því miður gert mörg mjög alvarleg mistök og vonandi oftast sökum vanþekkingar frekar en út af hugsunarleysi og heimsku, ef ekki illvilja. Uppsetning vistheimilisins Breiðavíkur á sjötta áratug síðustu aldar er dæmi um grafalvarleg mistök. Ákvörðun var tekin út frá óskhyggju og kjördæmapoti, en undirbúningurinn og útfærslan var mjög áfátt. Svo virðist einnig eiga við um fleiri vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda fyrr á árum og enn í dag kann pottur víða að vera brotinn.

Breiðavíkursamtökin vilja að öll verk barnaverndaryfirvalda í gegnum árin verði krufin til mergjar og af þeim lært. Það er óásættanlegt með öllu að börn og unglingar verði beint eða óbeint að fórnarlömbum barnaverndaryfirvalda eða starfsmanna á þeirra vegum. Tökum þessu alvarlega. 


mbl.is Mistök gerð við setningu eftirlaunalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband