Gífurleg vonbrigði og reiði vegna bótatillagna

Mynd 453016Á félagsfundi Breiðarvíkursamtakanna í gær gætti mikillar reiði og vonbrigði þegar stjórnarmenn kynntu fyrir félagsmönnum þær hugmyndir um bætur sem fram koma í frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar. Fundarmenn voru á einu máli um að hugmyndirnar um bætur á bilinu 375 þúsund til liðlega tveggja milljóna króna væru fjarri því að vera sanngjarnar bætur og væru aukinheldur blaut tuska í andlit Breiðavíkurdrengjanna og annarra fyrrum vistbarna sem máttu þola ofbeldi, nauðungarvist, nauðungarvinnu, einangrun frá heimili og fjölskyldu, glötuð tækifæri og menntun og fleira.

Hver og einn einasti fundarmanna sem til máls tók taldi fyrirliggjandi bótatillögur algerlega ófullnægjandi og að ferillinn til að sækja sér þessar bætur væri í ofanálag íþyngjandi.  Var á sumum að skilja að bótahugmyndirnar væru svo lágar að það tæki því varla að sækja sér þær og þá ekki síst miðað við þá íþyngjandi vinnu sem fylgir því að óbreyttu að sækja sér bæturnar. Rifjuðu menn upp yfirlýsingu forsætisráðherra um að "Norska leiðin" yrði farin, en Norðmenn hafa greitt til muna hærri bætur vegna sambærilegra mála. "Norska leiðin" samsvarar um það bil 15 milljón króna bótum, en þar komu sveitarfélög einnig að greiðslu bóta.

Fundarmenn töldu einsýnt að mjög erfitt yrði fyrir þá að sanna skaða og miska þetta 40 til 50 árum eftir vistunina og stjórnin hefur enda viðrað annarskonar viðmiðun um bætur, þ.e. að greiða fólkinu ígildi launa í samræmi við dvalartímann, samkvæmt Dagsbrúnartaxta framreiknuðum og með vöxtum. Nánar verður gerð grein fyrir þessum hugmyndum síðar, en upphæðirnar sem koma út úr slíkum viðmiðunum eru til muna hærri en hjá forsætisráðuneytinu (en vaxtaprósentan getur skipt sköpum).

Breiðavíkursamtökin eru opin samtök og taka yfir öll vistheimili hins opinbera, en ekki bara Breiðavík. Fundarmenn voru hins vegar sammála um töluverða sérstöðu Breiðavíkur og töldu menn einsýnt að taka þyrfti á því vistheimili sérstaklega. Frumvarpið væri hins vegar tilraun til að ná til allra heimilanna sem til greina geta komið og einkenndist ljóslega af því að ríkið væri að reyna að lágmarka "tjón" sitt. 

Vegna yfirlýsingar úr forsætisráðuneytinu, þar sem ráðuneytið harmar að samtökin hafi kynnt frumvarpsdrögin, sem væru vinnuskjal og háð trúnaði, er rétt að taka fram að ráðuneytið segir ekki alla söguna. Það er rétt að ráðuneytið kynnti stjórnarmönnum BRV drögin 11. ágúst (fyrir tæpum mánuði síðan). Þá þegar voru gerðar alvarlegar athugasemdir við ýmsilegt í drögunum og þá ekki síst bótaupphæðirnar. Viku síðar sendi lögmaður samtakanna, Ragnar Aðalsteinsson, ráðuneytinu ítarlegar athugasemdir með bréfi. Í kjölfarið var Ragnar síðan boðaður á fund ráðuneytismanna og var ljóst af þeim fundi að mótmælin og athugasemdirnar hefðu að engu skilað sér í formi nýrra hugmynda hjá ráðuneytinu. Eftir þennan fund leit stjórnin svo á að trúnaðinum væri aflétt, hið minnsta gagnvart félagsmönnum BRV. Þess utan taldi stjórnin að full ástæða væri til að ræða efni draganna úti í samfélaginu. Rétt er að taka það fram að sjálf frumvarpsdrögin voru ekki lögð fram á fundinum í gær og þessum skrifara ekki ljóst hvernig drögin sjálf bárust fjölmiðlum í gær. 

Stjórn BRV kemur saman til fundar í dag um framhaldið, með félagsfundinn sem vegarnesti.


mbl.is Birt án samþykkis ráðuneytis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SVB

 Mætur maður, sem af persónulegum ástæðum óskar nafnleyndar, hefur sent síðunni eftirfarandi hugleiðingu og spurningar og þær birtar með glöðu geði. Viðbrögðin koma síðar.

"Nokkrar spurningar í snúnu máli

Það virðist enginn þora að segja neitt, hvorki við Breiðavíkurdrengi og allt góða fólkið sem rís nú upp og vill fá meiri pening úr opinberum sjóðum til handa þeim sem voru sendir (frá ömurlegum aðstæðum) til Breiðavíkur. Og pólitíkusar með forsætisráðherra í fararbroddi telja þetta almennt viðhorf. Ég er ekki viss um að svo sé þó menn af ýmsum ástæðum telji sér ekki í hag að viðra skoðanir sínar þess efnis.

Ég er í það minnsta á því að þetta mál sé fáránlegt. Ber Þjóðverji dagsins í dag ábyrgð á helför gyðinga í tíð Adolfs? Af hverju ber ég ábyrgð á því sem skattgreiðandi dagsins í dag að þarna var pottur brotinn? Reyndar jafnvel á þeirra tíma mælikvarða. En þetta var fyrir 50 árum. Tímarnir voru allt aðrir. Á þetta mál vilja menn setja mælistiku dagsins í dag sem er skakkt. Að drengir hafi verið látnir vinna var viðtekið. Eiga allir þeir sem voru í sveit og töldust góðir ef þeir unnu fyrir mat sínum að senda hinu opinbera (skattgreiðendum) bakreikning nú 50 árum síðar, framreiknað með vöxtum og verðbótum? Dagsbrúnartaxti. Hvar á það að enda? Afkomendur hreppsómaga, þeirra sem settir voru á sveit... hvað um þá?

Og svo þykir þeim sem vilja peningana fyrir neðan virðingu sína að gera grein fyrir hinum meinta skaða og af hverju þeir ættu að fá bætur. Eins og ég héldi því fram við tryggingarfélag að húsið mitt væri brunnið til kaldra kola en neitað að sýna rústirnar. Og teldi móðgun ef það tæki ekki mín orð fyrir því.

Nú má ekki skilja orð mín þannig að ég hafi ekki samúð með þeim sem þarna dvöldu, greinilega við ömurlegar aðstæður. Ég skil hins vegar ekki hvernig það getur staðið upp á Íslendinga dagsins í dag að bæta nú fyrir það með peningum auk þess sem ég er hræddur um að þeir séu býsna margir sem þættust á sömu forsendum, það er ef menn ætla að fallast á að Breiðavíkurdrengjum beri bætur í formi milljóna, vera í aðstöðu að senda ríkinu reikning.

Kannski byggja þessar spurningar og hugleiðingar á misskilningi. En með kveðju og von um að talsmenn samtakanna eigi svör við þessum spurningum mínum,

Efasemdamaður."

SVB, 4.9.2008 kl. 15:15

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Skattgreiðandi dagsins í dag tekur í arf frá forverum sínum bæði eignir og skuldir. Þó viðkomandi beri ekki siðferðislega ábyrgð á forverum sínum ber viðkomandi fjárhagslega ábyrgð á þeim. Á þeim grundvelli ber ríkið í dag fjárhagslega ábyrgð á að greiða skaðabætur vegna löngu liðinna atburða.

Skaðabætur vegna Breiðavíkurmálsins eru af þrennum toga: 

  • Miskabætur.
  • Bætur fyrir menntun sem drengirnir fóru á mis við.
  • Laun vegna nauðungavinnu.
Til að koma í veg fyrir íþyngjandi dómsmál jafnt fyrir skattgreiðendur sem og drengina væri eðlilegast að greiða skaðabætur byggða á grunnupphæð og lengd vistar á Breiðuvík og er þá ekki úr vegi að miða við að meðalupphæðin verði svipuð og í Noregi.

Héðinn Björnsson, 4.9.2008 kl. 17:04

3 Smámynd: SVB

Svar frá Bárði formanni vegna athugasemdar nr. 1:

"Nokkrar spurningar í snúnu máli“

Enginn þorir að segja neitt við Breiðavíkurdrengi? Hvað þarf að segja við Breiðavíkurdrengi? Að þeir skuli sætta sig við að hafa verið beittir harðræði af stjórnvöldum og af þeim sem höfðu drengina í umsjá sinni eftir að sannalega höfðu verið brotin lög og grundvallarmannréttindi á foreldrum þeirra? Að málið skuli kyrrt liggja af því að svona var nú tíðarandinn og mannréttindi þá afstæð samkvæmt þessu?

Ég tek undir að málið er "fáránlegt" þótt ég notaði kannski annað orð til að lýsa þeim fáránleika en orðið fáránlegt; dapurlegt, sorglegt, þungbært öllum sem hlut að eiga, íþyngjandi og þá ekki bara meðan á umræðunni hefur staðið heldur allt frá þeim tíma sem drengirnir voru vistaðir fjarri fjölskyldum sínum og upp á náð ókunnugra komnir.

Þjóðverjar í dag vilja gjarnan axla ábyrgð á grimmdarverkum nasista og atburðunum í þriðja ríkinu; þeir líta svo á að sagan megi ekki endurtaka sig og til að svo verði ekki þarf að axla ábyrgð á því sem undan hefur farið og læra af því, það er partur af ábyrgðinni. Ef við gerðum ekki slíkt væri enn verið að bjóða niður niðursetninga.

Af hverju ber ég ábyrgð sem skattgreiðandi á syndum fortíðar; það er af því að við búum í samfélaginu, öll saman, styrkur samfélagsins felst í þeirri kennd, að menn séu ekki allir í stríði við alla. Auðlindir samfélagsins eru á einhvern hátt sameign þess, kynslóðirnar ávaxta sitt pund í samræmi við árferði hverju sinni og mæta þeim kostnaði sem fylgir því að reka samfélagið. Við stefnum ekki aftur að því að bjóða niður niðursetninga heldur reynum við að hjápa fólki með félagslegri aðstoð og innan Félagsþjónustunnar er talað um hjálp til sjálfshjálpar.

Af því við erum partur af sögunni, sem á einhvern hátt er óslitin þótt hún sé víða rofin, ber maður ábyrgð á því sem gerðist í fyrndinni.

Ég veit ekki um afkomendur hreppsómaganna; mér þykir það ekki koma þessu máli við nema óbeint. Það kemur virðingu eða virðingarleysi ekkert við hvort menn treysti sér til að gera greina fyrir sálrænum áföllum sínum. En oft bera menn harm sinn í hljóði.

Hvað snertir skaðann þá er hann í mörgum tilvikum greinilegur og öllum ljós sem til þekkja. Margir hafa svipt sig lífi eða farist á vofveiflegan hátt; margir búa við andleg örmkuml, margir hafa gengið þjáningleið í samfélaginu og illa tekist að fóta sig; hvort bara megi kenni dvölinni á Breiðavík um það er auðvitað álitamál en hún gaf mönnum ekki góð spil til að spila úr í lífinu.

Bæturnar eiga að koma fyrir skilgreind brot á þessum mönnum, fyrir allt það sem þeir fóru á mis við vegna einangrunar Breiðavíkur, vegna meðferðar starfsfólks á drengjunum, vegna framgöngu barnaverndaryfirvalda, ríkisvaldsins og vegna mannréttindabrotanna, bæði á drengjunum og svo gegn foreldrum þeirra. Ég læt þetta nægja í bili.

Bárður

SVB, 4.9.2008 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband