Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Afsökunarbeiðni fagnað!
12.3.2009 | 11:56
Það er mikið gleðiefni að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur nú fyrir hönd hins opinbera loks gert það sem fyrrum vistbörnin á Breiðavík og víðar hafa lengi beðið eftir og forveri hennar, Geir H. Haarde, heyktist á að gera; biðja þau afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þau voru látin sæta.
Þetta eru merk tímamót í málinu. Sjálfsagt halda ýmsir að bótagreiðslur séu þessum fyrrum vistbörnum efst í huga, en auðvitað eru númer eitt, tvö og þrjú viðurkenningin á því að óhæfuverk hafi átt sér stað og að beðist sé afsökunar á því.
Þetta er gott veganesti fyrir Breiðavíkurbörnin og önnur fyrrum vistbörn á vegum hins opinbera, sem í kvöld koma saman á félagsfundi Breiðavíkursamtakanna að ræða sín mál. Þar verður afsökunarbeiðni forsætisráðherrans vafalaust vel fagnað.
Fundurinn er í kvöld að Aflagranda 40 og hefst kl. 20:30.
![]() |
Afsökunarbeiðni vegna Breiðavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ekkert karp - mætum á félagsfund!
18.2.2009 | 16:59
Um leið og við tökum undir með ASÍ, sem segir samkvæmt viðtengdri frétt að á meðan hrikti í grunnstoðum samfélagsins og fjölskyldum og fyrirtækjum blæðir, horfi þjóðin upp á karp og hráskinnaleik á Alþingi sem engu máli skipti og engu skili, þá minnir stjórn Breiðavíkursamtakanna á félagsfund næsta þriðjudagskvöld, þar sem við ræðum hagsmunamál félagsmanna (en þau skipta miklu máli).
Það eru að vísu uppi vonir um að nýja félagshyggjustjórnin taki betur á málefnum samtakanna en fráfarandi ríkisstjórn. Víst er að sumir hinna nýju ráðherra hafa ótvírætt orðað skilning sinn á því að bæta þurfi þeim upp skaðann almennilega, sem þurftu að ganga í gegnum það sem margir í samtökunum voru neyddir til.
Félagsmönnum ætti að vera kunnugt um það núorðið, en rétt að endurtaka það: Félagsfundir verða haldnir reglulega kl. 20:30 síðasta þriðjudagskvöld hvers mánaðar í samkomusalnum að Aflagranda 40. Að óbreyttu hið minnsta. Næsti félagsfundur verður því næsta þriðjudagskvöld 24. febrúar.
Ekki var sérlega góð mæting síðast og nauðsynlegt að bæta úr því. Líkast til verður reynt að gera aðra tilraun til myndunar skemmtinefndar, svo einnig megi leggja áherslu á léttari svið tilverunnar. Allir saman nú!
Áhugasömum er bent á að Breiðavíkursamtökin eru opin öllum áhugamönnum um vistunarmál hins opinbera í fortíð, nútíð og framtíð.
![]() |
Þingmenn sýna þjóðinni lítilsvirðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Breiðavíkurdrengir stigu fram fyrir 2 árum síðan
7.2.2009 | 22:44
Nú eru liðin 2 ár frá því að Kastljós og DV vörpuðu sannkallaðri samfélagslegri sprengju inn í þá tiltölulega slétta og fellda tilveru okkar á Íslandi. Miðaldra karlmenn stigu fram úr skuggaveröldum sínum og sögðu frá því hvernig skilningsvana opinber yfirvöld stóðu að því að berja þá og svívirða sem börn og unglinga hálfri öld fyrr.
"Breiðavíkurdrengirnir" áunnu sér aðdáun samlanda sinna. Umfjöllunin um þá leiddi til blaðamannaverðlauna. Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og heit strengd. Sanngirnisbótum var lofað.
Og hvað hefur þá gerst? Svo gott sem ekki neitt. Fyrri ríkisstjórn lagði fram frumvarp um að borga drengjunum um það bil flatskjár-virði af bótum og kannski rúmlega það ef þeir gætu sannfært geðlækna nógu vel um skaða sinn. Með miklum gráti og ógurlegum gnístri tanna mætti hífa sanngirnisbæturnar upp í bíl-virði.
Ofbeldinu hafði sum sé ekki linnt. Spurning með næstu ríkisstjórn.
Ofangreint er samhljóða bloggi sem Friðrik Þór Guðmundsson skrifaði á blogg sitt og hann leyfir sér að birta hér. Sömuleiðis sér hann ástæðu til að bæta við kommenti sínu vegna þeirrar færslu, sem er svona:
Búinn að vera að hugsa um furðulegt mál í allan dag. Í samræðu um annað sagði maður mér að hann væri nýbúinn að lesa bókina "Óhreinu börnin hennar Evu" eftir Kristján Sigurðsson (fyrrum forstöðumann á Breiðavík og síðar forstöðumanns Unglingaheimilis ríkisins í Kópavogi).
Ég hváði. Ég sit í stjórn Breiðavíkursamtakanna, hef talað við ótal félagsmenn, reyni að fylgjast með allri fjölmiðlaumfjöllun, en samt hefur það gjörsamlega farið framhjá mér að á síðasta ári hafi þessi bók komið út. Ég fór að "gúggla" og fann EKKERT um þessa bók nema bókasafnsfræðilegar tilkynningar. Hvergi ritdóm að sjá, hvað þá fjölmiðlaumfjöllun aðra.
Er málið virkilega svona gleymt og grafið í fjölmiðlum og annarri umræðu að svona bók um þetta efni hefur enga athygli og umræðu vakið?
Ég fór og keypti bókina í dag í M&M á Laugavegi. Afgreiðslukonan átti erfitt með að finna bókina; hún hafði verið sett í hilluna "heilsufræði". Skrifa kannski um efnið þegar ég er búinn að lesa.
Hvað gerir ný ríkisstjórn fyrir Breiðavíkursamtökin?
2.2.2009 | 15:27
Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna skrifar:
Í dag, 2. febrúar, eru liðin tvö ár frá því Breiðavíkurmál komust í hámæli. Þann 11. ágúst sl. fékk stjórn Breiðavíkursamtakanna að sjá drög að frumvarpi um bætur til barna á vistheimilum; um frumvarpið var svo fjallað í fjölmiðlum í byrjun september mánaðar, þremur vikum síðar hrundi efnahagskerfi þjóðarinnar.
Breiðavíkurdrengir sættu sig ekki við bæturnar sem frumvarpið gerði ráð fyrir; það hefur ekkert breyst þrátt fyrir kreppuna og átökin í samfélaginu og við þessar erfiðu aðstæður þurfum við að sækja mál okkar. Það verður forvitnilegt fyrir okkur Breiðavíkurdrengi að sjá hvernig ný stjórnvöld taka á málum okkar, hvort niðursetningshugsun valdhafanna verði áfram ráðandi eða hvort stjórnmálamenn á öðrum stað í litrófinu sjái sóma sinn í því að greiða þessum mönnum ríflegar bætur, gera þeim seinni hluta ævinnar bærilegan.
Um það snúast bæturnar, að þær skipti máli á einhvern hátt annan en að duga fyrir sólarlandaferð eða annarri neyslu; margir sem dvöldu á Breiðavík búa við fátækt, örorku eða aðra félagslega erfiðleika. Það er kannski þreytandi og ekki til að afla vinsælda að þurfa sífellt að standa í þessu þrasi um fjármuni; að samtökin ættu að snúast um eitthvað annað en bæturnar; að ætíð sé þörf á að vekja athygli á kjörum barna sem búa við lakt veganesti; að vinna markvisst í anda annarrar hugmyndafræði en markaðsaflanna að því að bæta kjör þeirra sem þannig búa í samfélaginu. En það er bara þannig að þrátt fyrir stórfelld áföll samfélaga hætta þau ekki að vera til; þau þurfa að gera upp sögu sína og partur af sögu þessarar þjóðar er Breiðavík og ofbeldið, óréttlætið og svívirðingin sem þar var.
Við höldum því ótrauðir áfram þar til mál okkar komast í höfn.
Kveðjur
Bárður R. Jónsson
![]() |
Stjórnarskiptin vekja athygli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Breiðavíkursamtökin ræða ástand og horfur
20.1.2009 | 15:59
Nú þegar Alþingi er komið saman í skugga mikillar reiðiöldu hefur stjórn Breiðavíkursamtakanna ákveðið að blása til félagsfundar til að ræða ástand og horfur í málefnum sínum. Félagsfundur verður haldinn í húsnæði félagsþjónustunnar við Aflagranda næstkomandi þriðjudag, 27. janúar, kl. 20:30.
Fyrri hluti félagsfundarins verður á alvarlegu nótunum; rætt um starfsemi samtakanna og horfur með bótafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Í síðari hluta fundarins tekur við léttara spjall og líkast til mun skemmtinefnd samtakanna láta taka til sín með einhverjum hætti.
Mætum öll - verum virk.
Stjórnin.
![]() |
Þingfundi haldið áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bætur og lögbrot - grein eftir Hafstein Haraldsson
2.1.2009 | 12:12
Hafsteinn Haraldsson, Breiðavíkurdrengur, hefur sent síðunni neðangreinda grein, sem við hér birtum um leið og við óskum öllum farsældar á nýju ári.
Þarna var það ríkið sem framdi brot á öllum lögum og reglum landsins í þessum málaflokki - stjórnsýslulög, barnaverndarlög og önnur landslög og alþjóðalög - á þessum börnum sem voru aðeins 7 til 14 ára.
Ríkið svipti börnin ærunni og allri mannlegri reisn, lét það í launalausa barnaþrælkun og skipti þá engu máli aldur eða líkamsburðir. Þeim var nauðgað og þau voru lamin og svelt, þurftu að þola svívirðingar og einangrun og ofbeldi af öllu tagi og lifðu í stanslausum ótta og sálarkvölum í vistinni. Þau komust hvergi undan til að verja sig eða segja frá þeim viðbjóði og hörmungum sem áttu sér stað fyrr en þeim var sleppt að lokinni afplánun og þá hlustaði enginn. Þau voru látin bera harminn í hljóði alla ævi með misjöfnum árangri.
Öll eru þessi börn hafa komið misjafnlega illa út úr lífinu og mörg eru dáin, sum sviptu sig lífi, önnur eru inn og út úr fangelsum eða í ræsinu og óreglu, restin hefur aldrei verið í góðum málum.
Þeir sem höfðu sig mest í frammi þarna í Breiðavíkurvistinni, sem frömdu ódæðið á þessum börnum, eru dánir; forstöðumaðurinn Þórhallur Hálfdánarson sem var þeirra verstur og kona hans Guðmunda Halldórsdóttir. En svo eru það dóttir þeirra hjóna Málmfríður Þórhallsdóttir og maðurinn hennar Þórður J. Karlsson en þau voru hluti af starfsfólkinu sem var ráðið til að láta þessum börnum líða vel í vistinni - þau brugðust börnunum líka og tóku bæði beinan og óbeinan þátt í ódæðinu á drengjunum. Þau búa núna í Hafnarfirði og láta sem ekkert hafi gerst, en lögðu það þó á sig að mæta fyrir Breiðavíkurnefndina til að ljúga því að ekkert af þessu væri rétt sem eftir drengjunum er haft. En skýrslan lýgur ekki, þar er gjörningurinn sannaður í einu og öllu og skýrslan er mjög vel gerð hjá þeim nefndarmönnum og fengu þeir til liðs við sig einn virtasta sérfræðing í heimi, Dr. Gísla H. Guðjónssonar, prófessors í réttarsálfræði til að vinna að gerð hennar.
Alþingismenn voru fljótir að gleyma eins og vanalega, miðað við þær smánarbætur sem átti að bjóða.
Ráðnir voru sérfræðingar í nefnd sem fengu meira í sinn vasa en bæturnar sem bjóða átti vistmönnum. Svo vill ríkisstjórnin láta fara út í meiri kostnað og stofna nýja nefnd - láta fólkið rifja aftur upp þennan hrylling, þessa mannskemmandi afplánun sem þarna fór fram, til að meta það hversu lítið þeir komast af með að greiða í bætur fyrir ódæðið. Og gera vistmönnum erfiðara fyrir með að sækja kröfur sínar.
Ég held að við vistmenn eigum að gera skírar kröfur og nota þá lögin og þau fjölmörgu lögbrot og launaþjófnað sem unnin voru á vistmönnum, sem eru svo greinileg og tala fyrst og fremst um öll þau lögbrot sem unnin voru á okkur bæði í upphafi og á meðan á vistinni stóð. Og krefjast hið minnsta 15 milljóna króna á mann með fyrirvara um að síðan megi það vera mat hversu vistin var skaðleg fyrir hvern og einn til viðbótar. Og láta þá Breiðavíkurskýrsluna duga til að skera úr um það, en ekki að fá menn aftur í upprifjun á þeim hryllingi sem þeir þurftu að þola. Þannig mat væri líka mjög erfitt í framkvæmd og yrði bara til þess að gera vistmönnum erfiðara fyrir. Matið yrði geðþóttaákvörðun sem ekki er rétt, og margir myndu ekki mæta og yrðu þá útundan.
Svo er rétt að krefjast þess að fá bæði opinberlega og skriflega afsökunarbeiðni fyrir hvern og einn.
KV., Hafsteinn Haraldsson.
Eru þetta sanngjarnar "sanngirnisbætur"?
19.12.2008 | 20:50
Svo virðist sem að ríkisstjórnin geti hugsað sér að borga um 150 fyrrum vistbörnum (lifandi og dánarbúum) um 700 til 750 þúsund krónur "á kjaft" að meðaltali sem sanngirnisbætur fyrir ofbeldið og mannréttindabrotin önnur sem áttu sér stað á vistheimilinu í Breiðavík 1952-1979. Það er að segja miðað við að öll þessi fyrrum vistbörn og fulltrúar dánarbúa geti fært sérstakri matsnefnd fram sönnur á því að skaði hafi átt sér stað.
Í frumvarpi til fjáraukalaga vegna 2008 er að finna liðinn " Bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn" og hljóðar upp á 125 milljónir króna. Þessi upphæð er eyrnamerkt því eina vistheimili sem rannsakað hefur verið af Spanó-nefndinni svokölluðu; Breiðavík, og nær til alls tímabils þess vistheimilis, 1952-1979. Það er því ljóst að öll um 150 vistbörn þessa tímabils eru undir. Þess utan er reiknað með að af þessari upphæð sé tekið vegna kostnaðar við nefnda matsnefnd. Slíkar nefndir eru dýrar og ef gert er ráð fyrir því að um 15 milljónir fari í nefndina þá standa um 110 milljónir eftir sem dreifast skulu á um 150 vistbörn (og dánarbú). meðaltalan er 733 þúsund krónur (þess má geta að í viðtalinu er sá misskilningur uppi að innan við 100 eigi rétt á þessum bótum - það átti að vera tala lifandi Breiðavíkurdrengja frá tímabilinu 1952-1972).
Ljóst er, eins og fram kemur í viðtali við formann BRV hér að neðan, að þessi tala er ekki komin fram eftir samráð og samþykki samtakanna. Forsætisráðuneytið hefur ekki svarað málaleitan samtakanna um stöðu málsins og miðað við það reiknar ríkisstjórnin líkast til ekki með að semja um aðra upphæð. Breiðavíkurbörnunum er því væntanlega ætlað að "take it or leave it". Það verður verkefni þeirra nú um hátíðarnar að meta hvort þeim finnist "sanngirnisbæturnar" sanngjarnar. Við fögnum öllum skoðanaskiptum hér á blogginu okkar.
Innlent | mbl.is | 16.12.2008
Bótafjárhæðin vonbrigði
Þetta er svo sem í takt við það sem búast mátti við en engu að síður mikil vonbrigði, segir Bárður Ragnar Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna. Ríkisstjórnin hefur í frumvarpi til fjáraukalaga, farið fram á 125 milljóna króna framlag til að greiða bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn. Fyrst og fremst er um að ræða bætur til drengja sem vistaðir voru á Breiðavík um og eftir miðja síðustu öld.
Í frumvarpinu segir að fjárhæðin sé ætluð til að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem hafa orðið fyrir varanlegu tjóni á vistheimilum fyrir börn og kostnað úrskurðarnefndar í þeim málum, enda liggi fyrir skýrsla frá svokallaðri Breiðavíkurnefnd um að óforsvaranlega hafi verið staði að málum við vistun á stofnun eða heimili eða í rekstri þess.
Skilyrði bótagreiðslu er að umsækjandi hafi hlotið varanlegt tjón og leiði líkur að því að það sé vegna vistunar á stofnun eða heimili sem undir lög um Breiðavíkurnefndina fellur, illrar meðferðar eða ofbeldis afhendi starfsmanna þar eða annarra vistmanna. Sérstakri nefnd er ætlað að taka afstöðu til bótakrafna.
Innan við 100 manns eru í þeim hópi sem á bótarétt samkvæmt þessari skilgreiningu. Verst ku ástandið hafa verið á árunum 1952 til 1972. Á fjórða tug manna sem dvöldu á Breiðavík á þeim árum eru látnir. Samkvæmt drögum að frumvarpi sem samið var í forsætisráðuneytinu renna bótagreiðslur til aðstandenda þeirra sem dvöldu á Breiðavík og eiga bótarétt en eru látnir.
Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna segir það í raun það eina jákvæða sem er að finna í frumvarpsdrögunum.
Við getum ekki sætt okkur við að þurfa að mæta fyrir nefnd sem skipuð er geðlæknum og lögfræðingum. Mælikvarðinn sem settur er, finnst okkur óviðunandi. Ég hef áður vísað til sambærilegra mála í Noregi og uppgjörs þar og geri enn. Ég tel að það ætti að greiða hverjum og einum sem þarna var vistaður 15 milljónir króna að lágmarki, það eigi eitt yfir alla að ganga. Þetta eru menn sem aldrei hafa náð að fóta sig í lífinu. Leiddust út í áfengis- og fíkniefnaneyslu, afbrot og enduðu í fangelsum. Sumir eru þar enn og aðrir inn og út af geðdeildum, segir Bárður R. Jónsson.
Hann segir að ekkert samráð hafi verið haft við Breiðavíkursamtökin eftir að drög að frumvarpi um svokallaðar sanngirnisbætur vegna misgjörða við vistun á opinberum stofnunum eins og Breiðavíkurheimilinu komust í umræðuna. Forsætisráðuneytið átaldi að samtökin hefðu farið með frumvarpið í fjölmiðla án samþykkis eða samráðs við ráðuneytið.
Ég sendi fyrirspurn um stöðu málsins í byrjun mánaðar en hef engin svör fengið enn. Þeir hafa ekkert rætt við okkur frá 11. ágúst síðastliðnum. Miðað við orðalag fjáraukalaganna þá býst ég ekki við að neitt hafi breyst frá því í sumar. En samráðinu lauk þegar frumvarpsdrögin komust til fjölmiðla, segir Bárður R. Jónsson.
Eins og áður segir er sótt um 125 milljónir króna í fjáraukalögum vegna bótagreiðslna og reksturs úrskurðarnefndar. Að því gefnu að 100 einstaklingar eigi rétt til bóta, kemur um eða innan við ein milljón króna í hlut hvers fyrir sig.
Hvers konar uppgjör yrði það? Mér finnst greinilegt á öllu að athugasemdir okkar við frumvarpsdrögin hafi ekki verið teknar til greina. Stjórnvöld vilja sleppa sem billegast frá þessu. Þetta breytir engu en ég vil að menn geti sagt að bæturnar breyti einhverju, gefi þeim sem urðu fyrir tjóni, nýja von, segir Bárður R. Jónsson.
![]() |
Bótafjárhæðin vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það vantar sjálfboðaliða - það vantar félaga á skrá!
8.12.2008 | 14:53
Þrátt fyrir nokkra viðleitni hafa enn ekki skilað sér framboð eða uppástungur um fólk til að manna skemmtinefnd samtakanna. Á síðasta félagsfundi var samþykkt að setja á laggirnar þriggja manna skemmtinefnd til að sinna "léttari" verkefnum samtakanna, eins og að koma saman að spila eða bara drekka kaffi og borða kökur undir spjalli, þar sem alvarlegri málefni samtakanna eru ekki endilega í forgrunni. Ástæða er til að árétta ósk um sjálfboðaliða í nefnd þessa - koma svo!
Einnig er ástæða til að ýta á eftir ósk ritara stjórnar samtakanna um átak meðal núverandi félaga um að koma áhugasömu fólki inn í samtökin. Enn hafa "aðeins" 49 einstaklingar skráð sig, en mjög líklegt er að fjölmargir bæði Breiðavíkur"drengir" og fyrrum vistbörn af öðrum heimilum telji sig sjálfkrafa vera félaga í samtökunum. Eðli málsins samkvæmt er EKKI hægt að skrá fólk inn í samtökin að því óforspurðu. Vegna þess að sumt fólk kann að vera á móti því að tilehyra svona samtökum. Þess vegna verður félagsaðild að vera byggð á frjálsri innskráningu. Þá er rét að árétta að Breiðavíkursamtökin eru opin regnhlífarsamtök um málefni vistbarna allra visteimila hins opinbera og inn í samtökin velkomin bæði fyrrum vistbörn OG áhugafólk/stuðningsfólk sem vill leggja málefninu lið.
Sendið ábendingar/óskir varðandi skemmtinefnd eða félagsaðild á netfangið:
lillokristin@simnet.is eða hringið í 864 6365. Friðrik Þór.
Breiðuvíkurdrengirnir, eftir Rúnar Kristjánsson
6.12.2008 | 17:25
Breiðuvíkurdrengirnir
Þeir voru sviknir og sendir burt
og sársaukinn fylgdi þeim.
Um líf þeirra oft er lítið spurt
sem langar að komast heim.
Í Breiðuvík máttu þeir kúra í kvöl
og kyssa á píslarvönd.
Sendir í þessa Satans dvöl
af svikulli ríkishönd.
Að hugsa um drengina er þjáðust þar
á þjáningavítis slóð.
Og sukku í kvalræðis myrkan mar
er mynd sem er ekki góð.
Því sálarlíf þeirra var sært og meitt
og svívirðan dæmafá.
Það öryggi reyndist ekki neitt
sem átti að vernda þá.
Þar lífið varð allt svo ljótt og grátt
og lokað á hlýju og ást.
Því yfirgefnir á allan hátt
þeir urðu er verndin brást.
Og innri kvölin varð engu lík
er ekkert gaf von um björg.
Það blæddi um hjörtu í Breiðuvík,
þau brustu þar líka mörg.
Sú saga af böli er beisk og römm
og braut menn niður í svað.
Og það verður alltaf þjóðarskömm
sem þarna gat átt sér stað.
Rúnar Kristjánsson
Breiðavíkursamtökin huga að efldu starfi
1.12.2008 | 13:41
Það er óhætt að segja að hugur hafi verið í fólki á vel sóttum félagsfundi BRV sl. fimmtudagskvöld, þegar félagsmenn komu saman til að ræða hagsmunamál sín. Að stjórnarmönnum slepptum tóku um tuttugu fundarmenn til máls og þótt áherslur hafi á köflum verið misjafnar þá er óhætt að segja að fundurinn hafi boðað aukna samstöðu og eflda sókn. Hér að neðan er fundargerð félagsfundarins (skrásett af FÞG).
Fundargerð félagsfundar BRV 27. nóvember 2008.
Dagskrá:
1. Hagsmunamál félagsins; staða og starfsemin framundan. 2. Önnur mál. Fundarstjóri og -ritari: FÞG.
Bárður Ragnar Jónsson formaður BRV gerði grein fyrir stöðu mála. Fram kom að hrun fjármálakerfis landsins hefði haft mikil áhrif á það starf sem komið var í gang gagnvart stjórnvöldum í bótamálum og hefði stjórn BRV meðvitað ákveðið að hlé yrðu á þeim viðræðum meðan stjórnvöld fengju andrými til að kljást við hinn mikla vanda. Augljóslega væri hætta á því að samtökin glötuðu samúð og skilningi meðal þjóðarinnar ef hart væri gengið eftir bótum akkúrat á meðan á mestu krísuaðgerðunum stæði. Fjarri sé þó að um nokkra eftirgjöf sé að ræða. Í samráði við Ragnar Aðalsteinsson lögmann hefði og verið ákveðið að senda forsætisráðuneytinu bréf eftir helgina til að inna eftir fréttum og óska eftir áframhaldandi fundarhöldum. Formaðurinn taldi að á næstu vikum hlyti meginþunginn á starfsemi samtakanna að liggja í bótamálinu, en áhersla á önnur baráttumál myndi aukast í kjölfarið.
Formaðurinn kom inn á þau vandræði sem verið hefðu uppi vegna heimasíðu samtakanna; að þótt miklir peningar hefðu farið í hana væri hún mjög illa notendavæn og enn unnið í málinu. Þá nefndi formaðurinn að nú styttist í að samtökin fengju skrifstofuherbergi til leigu í JL-húsinu hjá ReykjavíkurAkademíunni gegn sanngjarnri leigu og standa vonir til þess að slík aðstaða marki tímamót fyrir eflda starfsemi.
Þór Saari, gjaldkeri BRV greindi stuttlega frá fjármálum samtakanna og er ljóst að þau eru ekki til vandræða þótt fjárráð séu ekki mikil.
Mælendaskrá var síðan opnuð og tóku fjölmargir til máls:Tómas, Gunnar Júl., Gunnar Snorra, Konráð Ragnars, Óli Svend, Gísli Már, Maron, Sigurður, Ester, Hannes, Jón Guðmunds, Sigurgeir Friðriks, Víglundur, Eymar Einars, Jóhannes Bjarna auk stjórnarmanna. Stjórnin fékk eðlilega ákúrur fyrir fremur dapurt félagsstarf að undanförnu og margar spurningar voru bornar fram um bótamálið og skort á fundarhöldum og upplýsingagjöf. Stjórnin fékk þó einnig hrós. Ritari stjórnar gat þess að félagaskrá samtakanna væri mjög ófullkomin og lítt gengi að fjölga félögum - ekki mætti gleyma því að ekki væri hægt að skrá öll fyrrum vistbörn í félagið; fólk yrði að óska eftir inngöngu. Þess má geta að eftir fundinn teljast félagsmenn "aðeins" vera 48, en vistbörn á hinum umdeildum vistheimilum auðvitað margfalt fleiri. hvatti FÞG mætta til að fá öll "vistbörn" sem þau þekktu til inn í samtökin.
Á fundinum var samþykkt tillaga um að efla starfsemi félagsins hvað "léttari" samkomur varðar, þ.e. að huga einnig vel að félagslífi á borð við spilakvöld og slíkt. Var samþykkt tillaga um kosningu í þriggja manna "skemmtinefnd" í því skyni. Hins vegar var felld tillaga þess efnis að beina því til forsætisráðuneytisins að greiðslur til fyrrum vistbarna eigi að hefjast þegar í stað og nema 250 þúsund krónum á mánuði þar til málin yrðu gerð upp, en helsta mótbáran gegn þessu var að slík tillaga eða krafa myndi flækja alla samningsgerð. Þá kom og til tals að fyrrum vistbörn, sem ekki voru í Breiðavík, séu enn ekki farin að líta á samtökin sem sín, líkast til vegna nafnsins og þeirrar áherslu sem lögð hefði verið á Breiðavíkurheimilið í umræðunni. Þessu yrði að breyta, en rifja má upp að fyrir síðasta aðalfund var nafnabreyting rædd en henni ekki hrint í framkvæmd.
Fjölmargt annað kom fram sem þarfnaðist ekki sérstakrar bókunar og fleira ekki gert. FÞG.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)