Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Börn dagsins í dag eru líka í vanda

Hér fyrir neðan eru tvær fréttir úr Fréttablaðinu á síðasta ári sem ástæða er til að rifja upp, til áréttingar því að slæm meðferð á börnum og unglingum er ekki fortíðarvandi og einskorðast að sjálfsögðu ekki við vistunarúrræði. Ofbeldi og vanræksla eru því miður víða fyrir hendi.

 

 

Fréttablaðið, 04. nóv. 2007 00:30

Á fjórða þúsund börn í vanda

Fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu sex mánuðum þessa árs reyndist vera 3.567, en í sumum tilvikum var tilkynnt oftar en einu sinni um sama barn. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda hér á landi fjölgaði mjög á milli ára 2006 og 2007, um ríflega eitt þúsund. Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs voru þær 3.321 talsins en samtals 4.383 á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Þetta sýna nýjar niðurstöður Barnaverndarstofu sem hefur nú borið saman fjölda tilkynninga milli fyrstu sex mánaða beggja ára. Samkvæmt þessu er aukningin á fjölda tilkynninga milli ára tæp 32 prósent. „Ég finn til með öllum þessum börnum hvort sem þau eru ársgömul eða á unglingsaldri," segir Guðjón Ólafur Jónsson, formaður Barnaverndar Reykjavíkur. Hann segir að mörg þeirra mála sem koma inn á borð hjá Barnavernd séu vegna vímuefnaneyslu foreldra en það sé þó ekki einhlítt.

Samtals 3.078 tilkynningar voru af höfuðborgarsvæðinu og 1.305 af landsbyggðinni. Fjöldi barna sem tilkynnt var um reyndist vera 3.567, en í sumum tilvikum var tilkynnt oftar en einu sinni um sama barn. Til samanburðar var tilkynnt um 3.092 börn á fyrstu sex mánuðum ársins 2006, þannig að aukningin milli ára er 15 prósent. Barnaverndarnefndir hófu könnun á högum 1.487 barna af þeim sem tilkynnt hefur verið um á þessu ári.

„Því miður er það þannig að mál fólks sem hefur verið í langvarandi vímuefnaneyslu koma ítrekað inn á borð til okkar," segir Guðjón. Hann segir að vissulega spyrji starfsmenn Barnaverndar sig hvort ekki sé oftar ástæða fyrir forræðissviptingu en raun ber vitni. „Það er samt mjög harkaleg aðgerð að taka barn frá foreldri og því þarf að fara mjög varlega í þeim efnum." Fimm til tíu foreldrar eru sviptir forræði barna sinna á ári.
Fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda má einkum skýra með fjölda lögregluskýrslna, að því er fram kemur hjá Barnaverndarstofu. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 bárust barnaverndarnefndum 1.813 tilkynn­ingar frá lögreglu en á árinu 2007 voru þær 2.568.

Tilkynningum um kynferðis­ofbeldi gagnvart börnum fjölgaði á milli ára. Fyrstu mánuði 2006 voru þær 172 en 226 á árinu 2007. Fjöldi tilkynninga sem berast í gegnum Neyðarlínuna 112 hefur staðið í stað milli ára. Samtals voru tilkynningar 346 bæði árin 2006 og 2007. Hins vegar tekur Barnaverndarstofa fram að fleiri tilkynningar sem bárust í gegnum Neyðarlínuna voru raunverulegar barnaverndartilkynningar í ár heldur en í fyrra, því sumt af því sem tilkynnt er til Neyðarlínunnar flokka nefndir ekki sem barnaverndartilkynningar.
jss@frettabladid/karen@frettabladid.is

 
Fréttablaðið,
03. júlí. 2007 06:15

Fimmti hver nemandi hefur sætt ofbeldi

 

Um tíunda hvert barn sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd.

Um fimmti hver nemandi í 7. og 9. bekk sem svaraði spurningalistum Barnaverndarstofu sagðist hafa sætt líkamlegu ofbeldi á heimili sínu. Svipað hlutfall sagðist hafa sætt ofbeldi í skóla. Um þriðjungur barnanna sögðust hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi í einhverri mynd.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Barnaverndarstofu sem birtar voru í gær. Um forprófun á spurningarlistum var að ræða og úrtakið því aðeins rúmlega 100 börn. Af þeim orsökum bendir Barnaverndarstofa á að varhugavert sé að alhæfa út frá niðurstöðunum, en þær gefi vísbendingar um reynslu barna af ofbeldi. Rannsóknin var gerð fyrir Alþjóðasamtök gegn ofbeldi og vanrækslu á börnum (ISPCAN).
Í könnuninni voru börnin spurð um hvort einhver á heimilinu hafi barið þau, löðrungað eða flengt með lófanum. Tæplega átta prósent sögðu það gerast stundum, og um tíu prósent sögðu það hafa gerst, en ekki á síðasta ári. Börnin sögðu að í um helmingi tilfella hafi það verið fullorðnir einstaklingar sem beittu ofbeldinu.

Einnig var spurt um kynferðislegt ofbeldi. Tæplega einn af hverjum tíu greindi frá því að viðkomandi hafi sætt kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd. Til dæmis sögðu um fimm prósent barnanna að einhver á heimili þeirra hafi reynt að neyða þau til að hafa við sig samfarir.

(allar feitletranir og undirstrikanir fþg)


„Sannleikurinn er sár en hann verður að koma fram“

viglundur og Maron„Sannleikurinn er sár en hann verður að koma fram,“ segir Víglundur Þór Víglundsson í Blaðinu (nú 24 stundir) þann 11. júlí 2007, en Víglundur var vistaður í Breiðavík árin 1966 til 1968. Við rifjum hér upp viðtalið.

 

„Hann, ásamt fleirum sem hafa dvalið á upptökuheimilum, skrifar á heimasíðu Breiðavíkursamtakanna um reynslu sína af heimilunum. Ákvörðun var tekin um að nafngreina alla gerendur þar og takast á við afleiðingarnar ef einhverjir verða ósáttir við það.

„Það er auðvitað sárt fyrir afkomendur gerendanna að lesa slæmar lýsingar um skyldmenni sín en þetta er líka sárt fyrir okkur og okkar afkomendur.“

Margir sem dvöldu á upptökuheimilum hafa gefið sig fram eftir opnun síðunnar í fyrradag og viljað ganga í samtökin.

 
Víglundur var sjö ára þegar hann var fyrst sendur í vistun vegna erfiðra heimilisaðstæðna. Hann segir enga óreglu hafa verið á heimili sínu heldur hafi móðir hans orðið þunglynd eftir skilnað. „Hún kynntist svo öðrum manni og hef ég á tilfinningunni að ég hafi verið fyrir.“

 

Þegar Víglundur var ellefu ára var hann sendur til Breiðavíkur. „Ég hafði náttúrlega ekki hugmynd um hvað beið mín. Þetta var alveg allt í lagi fyrst en svo kynntist ég mannvonsku af verstu gerð.“

Allan tímann í Breiðavík mátti Víglundur sæta miklum barsmíðum. „Mín dvöl var algjör martröð. Þegar ég hitti strákana aftur sem voru með mér í Breiðavík þá voru þeir hissa á að ég skyldi hafa lifað þetta af og væri enn á lífi. Ég hlýt bara að hafa verið svona sterkur.“

 

Þegar líða tók að lokum dvalar Víglundar var hann orðinn elstur þar. Segir hann forstöðumanninn þá hafa notað sig til þess að sýna hinum strákunum hvað væri gert til þess að ala fólk upp. „Hann barði mig ekki í einrúmi heldur alltaf fyrir framan alla. Stundum varð ég svo bólginn að andlitið á mér var allt afskræmt“.

 
Fékk viðurnefnið Villi tígull

 
Ein sterkasta minning Víglundar er þegar hann gerði tilraun til að
strjúka. Var hann þá settur í gluggalaust herbergi þar sem var kolniðamyrkur, heitt og algjör þögn. „Forstöðumaðurinn gekk svo illa frá mér eftir strokutilraunina að meira að segja konan hans kom og reyndi að stoppa hann. Hún skipti sér vanalega ekki af barsmíðunum.“

Í marga mánuði eftir þetta var hann með tígullaga far eftir steininn í hring forstöðumannsins á gagnauganu og fékk þá viðurnefnið Villi tígull“.


Þegar harðneskjan mætir börnum og unglingum

Breiðavíkursamtökin hafa verið opnuð fyrir félagsaðild allra sem láta sér varða barnaverndarmál í fortíð og nútíð, einkum vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda á öllum tímum og öllum landshlutum. Nafni félagsins hefur ekki verið breytt en tilgangur félagsins er að vera regnbogasamtök og einskorðast ekki við tiltekið illræmt vistheimili við Breiðavík á Vestfjörðum.

Þessu fylgir að félagaskráin er nú opin fyrir aðild allra áhugasamra og áhyggjufullra einstaklinga, hvort heldur þeir hafi sem barn og/eða unglingur verið skjólstæðingur barnaverndaryfirvalda, hafi komið að barnaverndarmálum á annan beinan eða óbeinan hátt eða eru einfaldlega áhugasamir stuðningsmenn málefnisins.

Við hvetjum áhugasama einstaklinga til að gerast félagar í samtökunum; einkum fólk með beina eða óbeina reynslu af téðum vistunarúrræðum eða vilja leggja málefninu lið almennt.

Sendið óskir um félagsaðild á Netfang ritara samtakanna og ritstjóra þessarar síðu:

lillokristin@simnet.is

svo má líka óska eftir félagsaðild með kommenti við bloggfærslur hér. Kannski rétt að geta þess að engin eru félagsgjöldin. 


Breiðavíkursamtökin - allt áhugafólk um barnavernd velkomið

bardurrjonsson

Nú er rétt liðlega ár frá því Breiðavíkurmálið var tekið fyrir í fjölmiðlum; mér þykir það ótrúlegt að ekki lengri tími sé liðinn. Breiðavík hefur verið með mér nánast alla mína ævi. Það er ekkert undarlegt við það.

 

Ég dvaldist í  Breiðavík um tveggja ára skeið og þótt ég væri ekki að velta mér upp úr því mótar samt reynslan úr æsku lífið og Breiðavík vildi ég bara gleyma.

 

Ég vissi alltaf að mikið óréttlæti hafði verið framið á okkur sem sendir höfðu verið til Breiðavíkur en leit svo á að þar sem heimurinn væri nú eins og hann er næðist aldrei fram réttlæti í því efni. Kannski að þar verði breyting á.

 

Breiðavíkursamtökin voru svo stofnuð í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla. Þessi samtök Breiðavíkurdrengja voru ætluð öllum sem höfðu dvalið á stofnunum, heimilum og einkaheimilum á vegum ríkisins og Barnaverndar. Það kom fljótt í ljós að þessi takmörkun sneið félaginu fullþröngan stakk og þótt það hafi gert mikið gagn sem vettvangur til að hittast á hefur ekki gengið nógu vel að skilgreina viðfangsefnin og átta sig á því hvernig þessi hagsmunasamtök mjög svo ólíkra einstaklinga geta best beitt sér í málum þeirra.

 

Á fyrsta aðalfundi Breiðavíkursamtakanna, þann 17. maí, s.l., var því ráðist í að breyta lögum félagsins, opna það fyrir öllum sem vilja leggja þessari baráttu lið og láta sig hag barna og hlutskipti í fortíð og nútíð skipta máli.

 

Eitt verkefni félagsins er að gera sögu barnaverndar í íslensku samfélagi skil.

 

Annað verk sem liggur fyrir vinnst fyrst og fremst á pólitískum vettvangi en það snýst um væntanlegar bætur til þeirra sem dvöldu á þessum heimilum.

 

Breiðavíkurskýrslan markaði tímamót í íslenskri stjórnsýslu. Yfirvöld brugðust við henni með frumvarpi sem átti að taka fyrir á vorþingi en ljóst er að því verður frestað fram á haustið; við í samtökunum erum sátt við það. Það þarf að vanda sig og það er ekki einfalt mál að greiða bætur til þessa hóps.

 

Á aðalfundinum var ég kosinn formaður samtakanna. Ég hafði ekki sóst sérstaklega eftir því starfi. Ég hef látið hafa eftir mér að mér hefði verið sama þótt Breiðavíkurmálið hefði aldrei komið upp á yfirborðið. Mér rann samt blóðið til skyldunnar og þessvegna samþykkti ég að tala við Bergstein Björgúlfsson og Kristinn Hrafnsson þegar þeir komu að máli við mig í sambandi við myndina Syndir feðranna, það var árið 2004/5. Margt hefur gerst eftir það.

 

Nú þreifar ný stjórn Breiðavíkursamtakanna sig áfram en með mér völdust í stjórn þeir Georg Viðar Björnsson, varaformaður og fráfarandi formaður, Friðrik Þór Guðmundsson, ritari, Þór Saari, gjaldkeri, og Ari Alexander Ergis Magnússon, stjórnarmaður og  leikstjóri myndarinnar Synda feðranna (ásamt Bergsteini). Ég vil bjóða þessa ágætu menn velkomna til starfa fyrir félagið og ég hlakka til samstarfsins við þá.

 

 

Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband