Pex og kex - vel sóttur félagsfundur

Félagsfund Samtaka vistheimilabarna, sem haldinn var þriðjudaginn 22. febrúar, sóttu 42 manns og þar af voru 2 viðmælendur, þau Guðrún Ögmundsdóttir tengiliður vistheimila og séra Bjarni Karlsson sóknarprestur í Laugarneskirkju.

 

Guðrún sagði frá framvindu mála hjá vistmönnum og -konum Breiðavíkur er varðaði framgang sýslumannsins á Siglufirði og að menn mættu eiga von á bréfi þaðan mánudaginn 28. febrúar.

 

Séra Bjarni talaði um fyrirgefninguna og hvernig við getum unnið úr okkar málum er varða æskuuppeldið og þær þjáningar sem hver og einn hefur orðið fyrir í þeim efnum. Guðný Sigurgeirsdóttir nýr félagi og æskuvinur sr. Bjarna sagði okkur frá því hvernig hún hafi tekið til í sínum málum undanfarin þrjú ár, hafi hún leitað á náðir Jesú Krists í bænum hans og fundið ró í bænum hans.

 

Miklar umræður fóru fram og fyrirspurnir voru mestar er varðaði framgang mála hjá „Sýsla“ á Siglufirði og ekki voru allir sáttir eins og gefur að skilja því mennirnir eru misjafnir eins og þeir eru margir.

 

En allt fór þó vel fram og bauð Unnur Millý uppá kleinur og kex sem hún verslaði sjálf og við hin í stjórninni færum henni bestu þakkir fyrir.

 

Fundi var slitið af formanni rétt fyrir 23:00 og fóru menn sáttir af fundi.

 

Kær kveðja að norðan

Marió H. Þórisson ritari stjórnar.

Félagsfundur SVB með góðum gestum

breidavikurdrengir 4 Stjórn Samtaka vistheimilabarna (SVB, áður Breiðavíkursamtakanna) minnir á komandi félagsfund þriðjudagskvöldið 22. febrúar næstkomandi kl. 19:30 í fundarsal Reykjavíkurakademíunnar í JL-húsinu.

Að þessu sinni er boðið upp á tvo gesti á fundinum. Í annað sinn kemur tengiliður vistheimila á okkar fund og gerir grein fyrir störfum tengiliðs og svarar spurningum. Þá mætir á fundinn og flytur erindi séra Bjarni Karlsson og mun ekki síst fjalla um fyrirgefninguna. Enn fremur eru líkur til þess, en óstaðfest enn, að Pétur Tyrfingsson sálfræðingur mæti til að ræða um sálfræðiþjónustu og annað því tengt, vegna fyrrum vistbarna vistheimila hins opinbera.

Fundurinn er opinn öllum sem hafa verið vistaðir utan heimilis síns og þeim sem áhuga hafa á barnaverndarmálum.

75% Breiðvíkinga með bótakröfu - næsta innköllun auglýst í dag

brv drengir Alls fær sýslumaðurinn á Siglufirði 119 kröfur um sanngirnisbætur frá fyrrum vistmönnum Breiðavíkur og erfingjum látinna vistmanna Breiðavíkur. Vistmenn á Breiðavík voru alls 158 og því koma fram bótakröfur vegna 75% þeirra. Innköllun krafna vegna vistmanna Kumbaravogs og Heyrnleysingjaskólans hefst í dag, 3. febrúar, samkvæmt auglýsingu í blöðum dagsins.

Viðtöl hófust hjá tengilið vistheimila vegna Breiðavíkurbarna þann 11. október síðastliðinn og síðasta krafan fylltist út 26. janúar. Alls höfðu 191 einstaklingar hringt og rætt við tengilið til að fá ýmsar upplýsingar og bóka viðtalstíma. Af 119 kröfum á umsóknareyðublaði voru 17 frá erfingjum látinna Breiðvíkinga, en alls eru látnir Breiðvíkingar (tímabilsins 1953-1980) nokkuð á fjórða tuginn.

Auk þess að veita liðveislu vegna kröfuumsókna vann tengiliður í ýmsum öðrum málum fyrir eða vegna Breiðvíkinga; svo sem Félagsþjónustu sveitarfélaga (gert samkomulag eftir því sem mál bárust vegna stuðningsþjónustu við einstaklinga sem þess óskuðu og þurftu á að halda), sálfræðinga (sem haft hafa einstaklinga í viðtölum vegna vistunar, svo og til að koma nýjum einstaklingum í viðtöl), einstaklinga/fagmenn með sérþekkingu á þessum málaflokki, lögfræðinga vegna einstaklingsmála og ráðgjöf til lögfræðinga, samtöl við starfsmenn heimila/stofnana sem hafa með fyrrum vistmenn að gera (geðhjálp,athvörf,félagsþjónusta ofrv.), Reykjavíkurborg (starfandi er teymi starfsmanna í þessum málaflokki og er tengiliður aðili að því) og ráðuneyti málaflokksins. Fyrir utan samstarf við aðila eins og Vistheimilanefnd (Spanó-nefnd) og Breiðavíkursamtökin (nú Samtök vistheimilabarna).

Innköllun krafna vegna skýrslu nr. 2 er auglýst í blöðum dagsins og nær til fyrrum vistmanna Kumbaravogs (1965-1984) og Heyrnleysingjaskólans (1947-1992). Í auglýsingunni kemur fram að kröfur þurfi að berast fyrir 20. maí en annars fellur rétturinn niður.  Kröfu má lýsa á eyðublaði sem er að finna á www.sanngirnisbætur.is eða hjá tengilið vistheimila (sjá upplýsingar hér til vinstri á síðunni).

Nú í byrjun febrúar eru 4 ár liðin frá því að málefni Breiðavíkur og fleiri heimila komust í kastljós fjölmiðlanna.

UPPFÆRSLA um sálfræðiþjónustu:

Tengiliður vistheimila hefur unnið í samstarfi við ýmis sveitarfélög vegna kostnaðar við sálfræðiþjónustu við einstaklinga sem dvalið hafa á þeim stofnunum sem lög um sanngirnisbætur ná til.  

Þar sem stór hluti þessara einstaklinga kemur frá Reykjavík var búið til sérstakt teymi hjá Reykjavíkurborg sem er með þessi mál og er Tengiliður aðili að því teymi.  Um er að ræða fagfólk með mikla reynslu og þekkingu á úrræðum og stuðningi.  Gert hefur verið samkomulag við nokkra sálfræðinga til að sinna þessum hóp (bæði frá Reykjavík og öðrum sveitarfélögum).  Nokkrir hafa þegar nýtt sér þessa þjónustu sveitarfélaganna og má búast við að fleiri notfæri sér  slíkt eftir því sem fleiri heimili bætast við vegna innköllunar um sanngirnisbætur.


Stjórn SVB skipti með sér verkum

 Stjórn Samtaka vistheimilabarna (áður Breiðavíkursamtakanna) hefur komið saman og skipt með sér verkum. Á nýafstöðnum aðalfundi var Erna Agnarsdóttir kjörin formaður, en verkaskipting stjórnar er að öðru leyti þessi: Unnur Millý Georgsdóttir varaformaður, Þór Saari gjaldkeri, Marinó Hafnfjörð Þórisson ritari og Esther Erludóttir meðstjórnandi.

Hér að neðan og í viðhengi eru lög samtakanna eins og þau nú gilda:

Lög Samtaka vistheimilabarna samþykkt á aðalfundi 25. janúar 2011

1.gr.

Félagið heitir Samtök vistheimilabarna.

2. gr.

Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur samtakanna er að vera málsvari og hagsmunasamtök fólks sem vistað hefur verið á vegum hins opinbera á upptökuheimilum, einkaheimilum og öðrum sambærilegum stofnunum og beita sér fyrir forvarnar- og fræðslustarfi gegn ofbeldi af öllu tagi á börnum á fósturheimilum.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því að styðja félagsmenn og halda uppi markvissu forvarnar- og fræðslustarfi.

5. gr.

Samtökin eru opin öllum sem hafa áhuga á barnaverndarmálum og sögu þeirra.

6.gr.

Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

7.gr.

Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári. Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. 30 daga fyrirvara, með viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir, svo sem með tölvupósti eða símleiðis. Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál.

8.gr.

Ekki er um árgjald að ræða heldur eru samtökin fjármögnuð með styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess er innheimt greiðsla fyrir fræðsluerindi á vegum félagsins. Öll vinna sem félagsmenn inna af hendi í þágu samtakanna er sjálfboðavinna.

9.gr.

Dagleg fjársýsla starfsjóðs er í höndum gjaldkera samtakanna en öll stærri fjárútlát skulu lögð fyrir stjórn til samþykktar.

10.gr.

Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum „önnur mál“.

11.gr.

Fari svo að félagið verði lagt niður þá verður sú ákvörðun tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (fjórir/fimmtu).  Eignir þess skulu renna til félaga/samtaka er starfa í svipuðum tilgangi skv. ákvörðun aðalfundar.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tvær tilkynningar á dag um ofbeldi gegn börnum

 Betur virðist fylgst með því en áður að ekki sé verið að fara illa með börn, miðað við eftirfarandi frétt í dag í Fréttablaðinu og visir.is:

"Barnaverndarstofu berast um tíu tilkynningar á viku frá heilbrigðisstofnunum landsins þar sem grunur leikur á að börn hafi verið beitt ofbeldi. Heilbrigðis­stofnanir tilkynntu um 634 tilvik árið 2009, en það er 30 prósentum meira en árið áður, þegar fjöldinn var 450.

Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu, segir tilkynningum almennt hafa fjölgað umtalsvert milli áranna 2008 og 2009. „Ég tel þetta stafa af því að heilbrigðisstarfsmenn séu meðvitaðri um tilkynningaskylduna," segir Steinunn.

Um helmingur allra tilkynninga sem berast til stofnunarinnar er skoðaður nánar, en nær allar tilkynningar sem berast frá heilbrigðisstofnunum. „Það er langoftast ástæða til þess að skoða þær frekar," segir Steinunn.
Um 90 prósent þeirra tilvika sem Barnaverndarstofa telur ekki ástæðu til að kanna frekar eru tilkynningar frá lögreglu.

Jón M. Kristjánsson, formaður Félags slysa- og bráðalækna, segir mikinn áhuga vera fyrir því að efla samstarf heilbrigðisstofnana og Barnaverndarstofu enn frekar. Nauðsynlegt sé að koma á skýrari vinnureglum um í hvaða tilvikum tilkynning sé send til barnaverndaryfirvalda.

„Oft kemur upp vafi varðandi hvað beri að tilkynna og hvað ekki," segir Jón. „Erfiðasti hlutinn af greiningunni er þegar um minni sjáanlega áverka á börnunum er að ræða, sem við sjáum tiltölulega oft." Jón minnist þar á brot á útlimum ungbarna og þegar börn hafa verið hrist. Það fari þó mikið eftir eðli og tegund brota og áverka á börnunum, aldri þeirra og ástæðum áverkanna.

Jón var fundarstjóri á fyrirlestri um málið á Læknadögum í gærdag, þar sem einnig kom fram að mikilvægt væri fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana að fá einhvers konar endurgjöf um stöðu þeirra barna sem hafi orðið fyrir ofbeldi. Mikilvægt sé að starfsfólk fái að vita hvernig börnunum reiði af. Á grundvelli þess geti barnaverndaryfirvöld þá skilað skýrslu til heilbrigðisstofnana á ársfjórðungs fresti. - sv".


Samtök vistheimilabarna (SVB)

Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna var haldinn í gær, 25. janúar 2011, og er þess fyrst að geta að á fundinum var samþykkt sú lagabreyting að nafn samtakanna skuli eftirleiðis vera „Samtök vistheimilabarna“.

    Á 33ja manna fundinum var samþykkt með þorra atkvæða gegn einu að breyta um nafn samtakanna og er það hugsað sem liður í frekari útvíkkun samtakanna, en reynslan þykir hafa sýnt að það hefur hamlað vexti samtakanna að kenna þau við eitt vistheimilanna umfram önnur. 2008 var sú lagabreyting samþykkt að samtökin yrðu „regnbogasamtök“ fyrrum vistbarna allra vistheimila á vegum hins opinbera og stuðnings- og áhugamanna um málefnið. Í sérstakri kosningu um nokkur nöfn hlaut nafnið „Samtök vistheimilabarna“ kosningu í fyrstu umferð.

    Fyrir utan nafnabreytinguna má geta þess að á aðalfundi fyrir ári var samþykkt lagabreyting sem heimilar stofnun undirfélaga í samtökunum um hvert vistheimili fyrir sig.

    Í nýja stjórn Samtaka vistheimilabarna (áður Breiðvíkursamtakanna) voru kjörin:

Erna Agnarsdóttir, formaður og meðstjórnendurnir

Unnur Millý Georgsdóttir,

Þór Saari,

Esther Erludóttir og

Marinó Hafnfjörð Þórisson.

Í varastjórn voru kjörin Sigurveig Eysteinsdóttir og Georg Viðar Björnsson.

Í skýrslu fráfarandi stjórnar segir meðal annars: "Núverandi stjórn skilar af sér nokkuð sátt við frammistöðu sína, en jafnframt þess alviss að nú sé komið að „kynslóðaskiptum“ innan samtakanna. Tímabært sé að fylgja eftir útvíkkun samtakanna og að fulltrúar annarra vistheimila en drengjaheimilisins Breiðavík (1953-1973) taki sem mest við, með meirihluta í nýrri stjórn. Fráfarandi stjórn þakkar fyrir sig og óskar nýrri stjórn og samtökunum öllum velfarnaðar á nýju starfsári".


Aðalfundi seinkað um rúma klukkustund

Félagsmenn Breiðavíkursamtakanna eru minntir á aðalfund samtakanna sem fram fer þriðjudagskvöldið 25. janúar næstkomandi. Sú breyting hefur hins vegar verið ákveðin að færa fundartímann svolítið aftar um kvöldið eða til kl. 20:45 (en ekki 19:30) vegna þess að fundartíminn gamli rakst á við mikilvægan lansleik í handbolta sem fáir vilja missa af.

Fundurinn hefst því kl. 20:45 þriðjudagskvöldið 25. janúar og fer fram í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar við Hringbraut (JL-húsinu).Sem sagt; horfa á leikinn og drífa sig svo á fundinn, sem hefst ekki seinna en kl. 21.

Einnig er sem fyrr minnt á áskorun síðasta félagsfundar: "skorað er á fyrrum vistmenn annarra heimila (eða aðstandendur þeirra) en Breiðavíkur (1954-1972, drengjaheimili) að taka við keflinu sem allra mest". Þegar liggja fyrir nöfn 4 áhugasamra einstaklinga og vantar til viðbótar minnst 3 sem eru til í að setjast í aðal- eða varastjórn. Það þarf 5 í stjórn og 2 í varastjórn.


Stolin æska eða Vistheimilasamtökin?

EstherEsther Erludóttir boðar tillögu á aðalfundi samtakanna um nafnabreytingu úr "Breiðavíkursamtökin" yfir í "Stolin æska". Það er hér með tilkynnt, en þess má geta að þetta nafn varð undir í nafnakosningu á stofnfundi samtakanna 29. apríl 2007.

Nú eru breyttir tímar og vaxandi vilji til þess að nafn samtakanna endurspegli ekki aðeins eðli þeirra heldur hafi ekki yfir sér stimpil eins vistheimilis umfram önnur.

Þegar hefur komið fram tillaga frá tveimur félögum um nafnabreytingu yfir í "Vistheimilasamtökin" og stefnir því í skemmtilegar kosningar um nýtt nafn samtakanna.


Styttist í að kröfufrestur Breiðvíkinga renni út

Síðasti dagur innköllunar kröfu (umsóknar) um sanngirnisbætur vegna vistunar á Breiðavíkur-vistheimilinu er fimmtudagurinn 27. janúar.

Samkvæmt upplýsingum Guðrúnar Ögmundsdóttur, tengiliðs vistheimila, eru þegar innsendar kröfur vegna Breiðavíkur að nálgast hundraðið og 7 viðtöl bókuð í þessari viku. Alls voru að talið er 158 börn vistuð á Breiðavík 1952-1979. Af 127 einstaklingum sem voru vistbörn 1952-1973 eru 34 látnir, en börn þeirra erfa kröfuréttinn. Af þeim nálægt 31 sem vistuðust vestra 1973-1979 munu 2-4 vera látnir, en það eru óstaðfestar upplýsingar.

Breiðvíkingar (og börn látinna) eru hér með hvattir til að hafa innköllunarfrestinn í huga. Tengiliður vistheimila er talsmaður kröfugerðar fyrrum vistbarna og veitir ljúflega liðveislu í því skyni. Kontakt-upplýsingar vegna tengiliðs er að finna hér til vinstri á síðunni.

Jafnframt minnir stjórn samtakanna á aðalfund samtakanna þriðjudagskvöldið 25. janúar, samanber færslur hér fyrir neðan. 


"... og stuggað í burtu"

"Allir vildu segja eitthvað um þann hroðalega órétt sem þessir samnemendur okkar urðu fyrir.  "Af hverju að hrúga öllum með námserfiðleika í sama bekkinn" heyrðist.  "Af hverju gátu þau ekki bara verið með okkur í bekk" sagði annar.  Þetta hafði greinilega hvílt á fleirum en mér.  Það var gott að finna það. Vinkona var nánast í áfalli því hún hafði reynt að hafa upp á nemendum úr A og B bekk og í gegnum gamlar símaskrár, náði sambandi við suma.  Henni var mætt með fálátssemi og stuggað í burtu eins og óþægilegri minningu.  Sumir höfðu flutt af landi brott aðrir vildu ekkert með þessa endurfundi að gera.  3 nemendur í þessum tossabekkjum höfðu svipti sig lífi".

Teitur Atlason í DV-bloggi um Hagaskóla ca. 1990.

Sjá nánar hér.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband