„Faðir minn átti aldrei möguleika“

Nýtt í DV.

Faðir minn átti aldrei möguleika,“ segir Þráinn Eðvaldsson, sonur Eðvalds Magnússonar. Eðvald var einn Breiðavíkurdrengja og féll fyrir eigin hendi árið 2005. Hann svipti sig lífi kvöldið áður en til stóð að Breiðavíkurdrengir hittust allir í fyrsta sinn til þess að ræða dvölina þar.

Hlutfall þeirra vistbarna sem eru látin í dag segir sína sögu. 33 af alls 158 vistbörnum Breiðavíkurheimilisins á árunum 1952–1979 eru látin. Þess utan hefur Breiðavíkurnefndin sem leitaði vistmenn uppi greint frá því að ellefu einstaklinga hafi hún ekki fundið. Eðvald Magnússon dvaldi á Breiðavík frá 24. febrúar 1966 til 21.desember 1967. Þá var yfirmaður heimilisins Þórhallur Hálfdánarson sem viðurkennt er að hafi beitt vistbörn ofbeldi.

Gat ekki haldið heimili
Þráinn ólst upp hjá móðurforeldrum sínum því Eðvald sinnti föðurhlutverkinu illa enda glímdi hann við mikla vanlíðan öll sín ár.
Þráinn fékk samt stundum að hitta föður sinn þegar hann átti góða daga og var ekki langt leiddur af áfengis- og fíkniefnaneyslu. „Þá fórum við í bíó eða gerðum eitthvað skemmtilegt saman,“ segir Þráinn frá. „Faðir minn gat ekki annast mig. Hann hélt til að mynda aðeins einu sinni á lífsleiðinni heimili. Ég man að mér fannst nokkuð til þess koma. En það stóð ekki lengi því hann gat ekki hugsað um sjálfan sig eins og aðrir. Honum leið of illa til þess. Móðir mín var of ung til að annast mig og því kom það í hlut foreldra hennar. Hún var mér eins og systir og er enn í dag. Ég ólst upp við gott atlæti hjá ömmu og afa og það er lukkan í mínu lífi.“

Opinskátt viðtal við Þráinn Eðvaldsson í páskablaði DV

Í greininni er rangfært að Björn Loftsson hafi verið yfirmaður á þessum tíma. Það er Þórhallur Hálfdánarson sem var yfirmaður á þessum tíma.

http://www.dv.is/frettir/2011/4/20/sonur-breidavikurdrengs-berst-fadir-minn-atti-aldrei-moguleika/

 


61 af 72 höfðu skrifað undir á föstudag

 Í fyrsta hluta bréfasendinga á sáttatilboðum til Breiðavíkurbarna fóru út 72 sáttaboð, en þar var um að ræða þá kröfuhafa af alls 118 sem lifandi eru og höfðu gefið Spanó-nefndinni (Vistheimilanefnd) skýrslu. Embætti sýslumanns hafði á föstudag borist 61 undirritað sáttaboð (samþykki). Innanríkisráðuneytinu hafa verið send sáttaboðin til útborgunar um leið og þau hafa borist. Eftir því sem sýslumannsembættið best veit komu 51 sáttaboð nægilega tímanlega til að unnt væri að greiða bætur í 1. apríl og ekki annað vitað en að greiðslur hafi verið inntar af hendi í öllum þeim tilvikum, nema einu (þar kom í ljós að upplýsingar frá bótakrefjanda voru ekki fullnægjandi).  Nokkur sáttaboð bárust of seint til að unnt væri að greiða bætur þann fyrsta apríl en það verður gert strax eða fljótlega eftir helgina.

 Þetta kemur fram í svari Halldórs Þormars Halldórssonar hjá sýslumanni við fyrirspurn bloggsíðu SVB. "Þau sáttaboð sem berast á næstu dögum verða öll send ráðuneytinu jafnóðum og munu bætur verða greiddar innan 5 daga eftir að þau berast þangað. Bætur munu verða greiddar jafnóðum eftir því sem sáttaboðin berast og ekki verða geymd þar til fyrsta dag næsta mánaðar eins og ákveðið er í lögunum, enda engin ástæða til þess".

 Í öðrum hluta fóru (sl. mánudag) boð til þeirra sem lýstu kröfu en  fóru ekki í viðtal hjá vistheimilanefnd og að auki vegna einnar kröfu frá aðila sem fór í viðtal en sendi kröfuna of seint. Send voru 20 sáttaboð. Ekkert þeirra hafði borist embættinu til baka á föstudag. Sáttaboð vegna vistunar 24 látinna einstaklinga voru að fara út á föstudag og berast til viðtakenda strax í byrjun næstu viku. Frestur til að samþykkja sáttaboð eru 30 dagar frá móttöku bréfsins. "Ef einhver sáttaboð berast síðar verður metið hvort þau verði tekin til greina. Allavega verður haft samband við viðkomandi og kannað hver vilji hans sé í málinu".

  Halldór getur þess að vegna einstaklinga sem búa erlendis hefur þess verið óskað að Seðlabankinn veiti undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Var því erindi vel tekið af hálfu bankans, en sækja þarf um það sérstaklega í hverju tilviki. Undirritaður mun annast það ferli ef bótakrefjendur óska þess.

Öll sáttatilboð sem samþykkt eru hafa fyrirvara um aukinn rétt, ef slíkt kemur fram við að lög og reglur um sanngirnisbætur breytast. 

Fyrr hefur verið greint frá því að kröfuhafar vegna Breiðavíkurheimilisins hafi verið 120 alls. Þessi tala hefur verið leiðrétt og er nánar tiltekið 118. "Við athugun á kröfum vegna Breiðavíkur kom í ljós að örlítil ónákvæmni var um fjöldann. Upphaflega bárust 118 kröfur og svo komu tvær of seint (eftir 27. janúar), eða samtals 120. Kröfurnar sem komu of seint voru báðar teknar til greina. Þegar farið var nánar yfir kröfurnar varð ljóst að ein krafan var alls ekki vegna Breiðavíkur þótt hún hafi verið sett fram þannig og var hún því flokkuð með kröfum er varða annað vistheimili. Einnig varð ljóst að ein krafan var sett fram tvívegis og skráð sem tvær kröfur. Réttur fjöldi krafna er því 118.

Þegar fyrstu sáttaboðin voru send út var tveimur kröfum hafnað þar sem engin gögn fundust um að viðkomandi einstaklingar hafi verið vistaðir á heimilinu. Þessir tveir bótakrefjendur gátu líka litlar upplýsingar veitt sjálfir um vistunina. Var því talið mjög ólíklegt að þeir hafi verið vistaðir þar.


Þór Saari: Í engu samræmi við væntingar

Frétt á mbl.is: "Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að sanngirnisbæturnar sem hafa verið greiddar út vegna dvalar á vistheimilinu í Breiðavík séu smánarlegar og ósanngjarnar. Þór hyggst leita eftir því að málið verði skoðað aftur á vettvangi þingsins og að það verði leiðrétt með einhverjum hætti.

„Það er að mínu mati Alþingi til vansa ef það lætur þetta mál fá svo skammarlegan endi. Ég mun því leita eftir því við formann allsherjarnefndar, allsherjarnefnd og alla formenn þingflokka um að málið verði skoðað aftur á vettvangi þingsins með það fyrir augum að niðurstaða sýslumanns og framganga framkvæmdavaldsins verði með einhverjum hætti leiðrétt,“ sagði Þór á Alþingi í dag.

Alþingi samþykkti lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum þann 28. maí í fyrra. Sýslumaðurinn á Siglufirði hafði umsjón með fyrstu afgreiðslu bótanna fyrr í þessum mánuði.

„Afgreiðslan var í engu samræmi við þær væntingar sem lagt var upp með, hvorki af hálfu Breiðavíkurdrengja, forsætisráðherra, allsherjarnefndar eða Alþingis sjálfs, sé tekið mið af umræðunni sem var í þinginu og nefndinni um málið,“ sagði Þór.

„Sýslumaðurinn á Siglufirði virðist hafa farið út fyrir hlutverk sitt og sett upp einhverskona reikniverk byggt á stigum og hvers aðferðafræði er mjög óljós. En þess má geta að nefnd undir stjórn Viðars Más Matthíassonar lagaprófessors hafði einmitt lagt til slíkt reikniverk á sínum tíma, en það var slegið út af borðinu sem óframkvæmanlegu. Ekki er heldur kveðið á um slíkt reikniverk í lögunum,“ sagði Þór.

Hann segir að reikniverk sýslumannsins á Siglufirði hafi gert það að verkum að „sanngirnisbætur til Breiðavíkurdrengja eru smánarlegar og ekki að neinu marki sanngjarnar, og enginn þeirra er sáttur við þær.“

Margir hverjir hafi þó samþykkt bæturnar. „Bæði vegna lítt dulbúins hótunartóns í bréfi sýslumanns en ekki síður vegna þess að þeir hafa persónulega fengið nóg af málinu og því sem þeir kalla endalausa fyrirlitningu stjórnvalda í sinn garð,“ sagði Þór".

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/03/30/althingi_leidretti_sanngirnisbaetur/ 


Félagsfundur - verða fósturheimilin rannsökuð?

Félagsfundur var haldinn í Samtökum vistheimilabarna (SVB) þriðjudagskvöldið 29. mars. Sérstakt umræðuefni fundarins var framkvæmd sanngirnisbótalaganna og í því sambandi svör sem Erna formaður og Millý varaformaður hafa fengið á fundum með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra og Guðrúnu Ögmundsdóttur tengilið vistheimila.

Miklar og fjörugar umræður sköpuðust um þróun þessara mála og ljóst að mikil óánægja er með ýmislegt, ekki síst upphæðir sáttatilboða sýslumanns, tafir á framkvæmdinni og treg svör við ósk/áskorun um eingreiðslu í stað skiptra greiðslna. Fram kom að til skoðunar sé að greiða þær bætur sem samþykktar verða í einu lagi, að bréf með sáttatilboði til "restarinnar" af Breiðavíkurhópnum sé loks farið af stað, að von sé á (fjórðu) skýrslu Spanó-nefndar um U-heimilin (Upptökuheimili, Unglingaheimili) í sumar, að tengiliður leiðbeinir varðandi menntunarmöguleika en ríkið tekur þann kostnað ekki á sig og fleira.

Þór Saari þingmaður, stjórnarmaður í samtökunum, greindi frá því að hann myndi beita sér af alefli á vettvangi Alþingis og með viðræðum við einstaka ráðamenn fyrir umbótum og að líkindum taka málið upp á Alþingi.

Þá komu og til umræðu vistunarúrræði fyrri tíðar þar sem ríkið var ekki beinn aðili að og þá ekki til rannsóknar að óbreyttu, svo sem bein vistun barnaverndarnefnda á börnum á fósturheimili, einkum til sveita. Þau mál hafa ekki verið rannsökuð, en nefna má að Svíar fóru þá leið að rannsaka alla ráðstöfun barna utan heimilis fyrri ára og í áfangaskýrslu þeirrar rannsóknar kemur fram að meðferð barna á fósturheimilum var ef eitthvað er verri en á stofnunum eins og þeim sem Spanó-nefndin hefur rannsakað hér á landi.


Fundir með Ögmundi og félagsfundur á þriðjudag

Erna Agnarsdóttir formaður og Unnur Millý Georgsdóttir varaformaður SVB hittu Ögmund Jónasson innanríkisráðherra á fundi í dag til að ræða sanngirnisbótamálin í kjölfar sáttatilboða sýslumannsins á Siglufirði á dögunum. Margar spurningar hafa vaknað um framkvæmd laganna um sanngirnisbætur og upphæðir sáttatilboðanna, en margir kröfuhafanna eru óánægðir með tilboðin.

"Ég og Unnur Millý vorum að koma af fundi hjá innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni og ráðuneytisstjóra Ragnhildi Hjaltadóttur. Mjög góður fundur. Farið var yfir málin í heild sinni. Þau ætla að athuga hvernig stendur á þessum töfum á greiðslum, einnig var ákveðið að reyna að hafa aftur fund í næstu viku. Að öllum líkindum á mánudag," segir Erna á facebook-síðu samtakanna, en meðal annarra umræðuefna voru eingreiðslur, útreikningar á punktum og sú staðreynd að enginn í þessum fyrsta hópi kröfuhafa hafi náð hámarksbótum.

Ekki þykir rétt að greina nánar frá þessum viðræðum fyrr en nánari svör hafa komið á mánudags-fundinum með ráðherra. Þau verða hins vegar vonandi komin skýr þegar félagsfundur samtakanna brestur á, næsta þriðjudagskvöld kl. 19:30 á hefðbundnum fundarstað.


Nýtt - fundur á föstudag

Fundur verður haldinn í JL húsinu við Hringbraut, Reykjavíkurakademíunni
föstudaginn 18. mars klukkan 19:30

Aðal umræðu efni er útkoma bréfs sýslumanns á Siglufirði er varða bætur
Breiðavíkurheimilismanna.

Stjórnin.
 
Frétt Sjónvarpsins 19.3. um fundinn hér.

sanngirnisbætur frh.

Við Halldór áttum góðan fund með innanríkisráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins í gær fimmtudag. Meðal annars var rætt við lögfræðinga ráðuneytisins og fjallað um lagabreytingar. Því miður er ekki enn komin endanleg niðurstaða um hljóðan ákvæðis sem kveður á um að vistmaður afsali sér frekari kröfum á hendur ríki eða sveitarfélögum ef hann tekur sáttaboði sýslumanns um sanngirnisbætur. Fyrr en komin er niðurstaða í það mál er ekki unnt að senda út sáttaboðin, þar sem orðalag þeirra verður að vera skýrt svo vistmenn viti nákvæmlega að hverju þeir eru að ganga. Þykir okkur afskaplega leiðinlegt að enn skuli frestast að senda út sáttaboðin en fullvissum ykkur um að við hjá sýslumanninum á Siglufirði gerum allt sem í okkar valdi stendur til fá botn í þessi lagamál svo að unnt verði að senda sáttaboðin út sem allra fyrst. Þar sem ekki verður unnt að senda sáttaboðin út í dag verður tíminn nýttur til að fara yfir allar umsóknir, enda var niðurstaða fundarins í gær að lítillega skyldi breyta forsendum útreikninga til hagsbóta fyrir umsækjendur.

Sanngirnisbætur

Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að ekki reyndist unnt, eins og að var stefnt, að senda út í dag sáttaboð vegna sanngirnisbóta til þeirra vistmanna sem dvöldu á Breiðavík. Ástæður þessa dráttar eru þær að skv. lögum er sýslumanni gert að gera sáttaboðin í samráði við ráðherra. Vegna þessa var áætlaður fundur á mánudag eða þriðjudag, en óhjákvæmilegt reyndist að fresta fundinum og verður hann ekki haldinn fyrr en á morgun, fimmtudag. Búð er að fara yfir allar umsóknir. Sáttaboðin vegna þeirra vistmanna sem eru á lífi og fóru í viðtal hjá vistheimilanefnd eru tilbúin hjá okkur, en afla þarf frekari gagna vegna þeirra sem látnir eru og fóru ekki í viðtal. Alls eru tilbúin um 80 sáttaboð, ásamt drögum að leiðbeiningum, sem vonandi verða send til viðkomandi vistmanna föstudaginn 11. mars nk. ef allt gengur vel á fundi með ráðherra. Auk þess að kynna ráðherra sáttaboðin og útreikning þeirra, munum við leggja á það áherslu að gengið verði frá tilnefningu í úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur nú þegar, svo unnt verði að leiðbeina þeim sem hafna sáttaboði sýslumanns um næstu skref. Þá hefur sýslumaður lagt til ákveðnar breytingar á lögum um sanngirnisbætur, sem við hér við embættið teljum að verði vistmönnum til góða. Einkum er um að ræða tvö atriði: 1. Við leggjum til að allar bætur verði greiddar út í einu lagi, en greiðslum ekki skipt eins og lögin gera nú ráð fyrir.2. Við leggjum til að sanþykki sáttaboðs feli ekki í sér afsal allra frekari bóta til viðkomandi vistmanns.Ásdís Ármannsdóttirsýslumaður á Siglufirði

Fundur um sendinguna frá Sýsla

Félagsfundur Samtaka vistheimilabarna í mars-mánuði verður að gefnu tilefni flýtt og verður hann haldinn í fundarsalnum í JL-húsinu þriðjudagskvöldið 15. mars klukkan 19:30.


Aðal umræðuefni fundarins er útkoma bréfs sýslumanns á Siglufirði er varða sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum Breiðavíkur. Vegna fyrstu skýrslu Spanó-nefndarinnar, um Breiðavíkurheimilið, komu fram 120 kröfur um sanngirnisbætur. Þar af eru 17 vegna erfingja látinna fyrrum vistbarna og taka þau mál eitthvað lengri tíma, en á miðvikudag í næstu viku sendir sýslumaður þá um 103 sáttatilboð. Þessi tilboð varða hins vegar ekki bara Breiðavíkurbörnin, því þau gefa um leið tóninn fyrir bætur vegna annarra vistheimila.

Rétt er að minna á að sáttatilboð sýslumanns getur hver kröfuhafi samþykkt eða hafnað. Finnist einhverjum tilboðið of lágt er einfaldlega næsta skref að kæra tilboðið til úrskurðarnefndar og fá þá kröfuhafar á kostnað ríkissjóðs 10 klukkustunda vinnu lögfræðings sér til fulltingis. Þeir sem aftur á móti eru sáttir við tilboðið taka því einfaldlega, fá greitt fljótlega og skrifa undir afsal á frekari kröfum.


Sáttatilboð Sýsla koma "fyrstu dagana í mars"

sysli siglufirdi

Vildi bara koma þessari athugasemd frá vefsíðu sýslumanns á framfæri, ef fólk er að bíða fyrir framan póstkassann núna;-)

"Stefnt er að því að tilboð um bætur verði send flestum fyrstu dagana í mars, en skv. lögum um sanngirnisbætur er skylt að senda þeim sem dvöldu á tilteknu heimili tilboð um bætur samtímis eftir því sem unnt er."

En maður veit aldrei, kannski fá einhverjir í bréf í dag. Ekki það að manni hafi ekki grunað að þetta myndi seinka eitthvað, ríkið er svo fyrirsjánlegt í svona málum.


Bestu kveðjur,
Konni

UPPFÆRSLA AF VEF SÝSLUMANNS:

"Vegna dvalar á vistheimilinu Breiðavík bárust 120 kröfur.  Margar þeirra bárust á síðustu dögum frestsins og afla þarf gagna vegna þeirra og fjalla um þær efnislega. Stefnt er að því að tilboð um bætur verði sendar með ábyrgðarpósti eigi síðar en þann 9. mars n.k

Samþykkja þarf tilboðið innan 30 daga frá móttöku þess. Að öðrum kosti telst því hafa verið hafnað. Greiðsludagur bóta er fyrsti virki dagur næsta mánaðar eftir að tilboð hefur verið samþykkt. Rétt er að geta þess að bótakröfur vegna látinna vistmanna munu taka lengri tíma til afgreiðslu".

http://www.syslumenn.is/serstok-verkefni/onnur-verkefni/sanngirnisbaetur/

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband