Tvær tilkynningar á dag um ofbeldi gegn börnum

 Betur virðist fylgst með því en áður að ekki sé verið að fara illa með börn, miðað við eftirfarandi frétt í dag í Fréttablaðinu og visir.is:

"Barnaverndarstofu berast um tíu tilkynningar á viku frá heilbrigðisstofnunum landsins þar sem grunur leikur á að börn hafi verið beitt ofbeldi. Heilbrigðis­stofnanir tilkynntu um 634 tilvik árið 2009, en það er 30 prósentum meira en árið áður, þegar fjöldinn var 450.

Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu, segir tilkynningum almennt hafa fjölgað umtalsvert milli áranna 2008 og 2009. „Ég tel þetta stafa af því að heilbrigðisstarfsmenn séu meðvitaðri um tilkynningaskylduna," segir Steinunn.

Um helmingur allra tilkynninga sem berast til stofnunarinnar er skoðaður nánar, en nær allar tilkynningar sem berast frá heilbrigðisstofnunum. „Það er langoftast ástæða til þess að skoða þær frekar," segir Steinunn.
Um 90 prósent þeirra tilvika sem Barnaverndarstofa telur ekki ástæðu til að kanna frekar eru tilkynningar frá lögreglu.

Jón M. Kristjánsson, formaður Félags slysa- og bráðalækna, segir mikinn áhuga vera fyrir því að efla samstarf heilbrigðisstofnana og Barnaverndarstofu enn frekar. Nauðsynlegt sé að koma á skýrari vinnureglum um í hvaða tilvikum tilkynning sé send til barnaverndaryfirvalda.

„Oft kemur upp vafi varðandi hvað beri að tilkynna og hvað ekki," segir Jón. „Erfiðasti hlutinn af greiningunni er þegar um minni sjáanlega áverka á börnunum er að ræða, sem við sjáum tiltölulega oft." Jón minnist þar á brot á útlimum ungbarna og þegar börn hafa verið hrist. Það fari þó mikið eftir eðli og tegund brota og áverka á börnunum, aldri þeirra og ástæðum áverkanna.

Jón var fundarstjóri á fyrirlestri um málið á Læknadögum í gærdag, þar sem einnig kom fram að mikilvægt væri fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana að fá einhvers konar endurgjöf um stöðu þeirra barna sem hafi orðið fyrir ofbeldi. Mikilvægt sé að starfsfólk fái að vita hvernig börnunum reiði af. Á grundvelli þess geti barnaverndaryfirvöld þá skilað skýrslu til heilbrigðisstofnana á ársfjórðungs fresti. - sv".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband