Færsluflokkur: Kjaramál

Sanngirnisbótafrumvarpið komið - rætt á morgun

Ríkisstjórnin lagði frumvarpið um sanngirnisbætur formlega fram á þingi í gær (23. mars) og samkæmt okkar heimildum stendur til að fara í fyrstu umræðu á morgun, 25. mars. Breiðavíkursamtökin hvetja alla félagsmenn og annað áhugafólk til að mæta á þingpalla og hlýða þar á umræðurnar.

Frumvarpið má lesa á þessari slóð: http://www.althingi.is/altext/138/s/0860.html

Þingpallar Alþingis taka ekki við nema liðlega 30 gestum, svo félagsmenn eru hvattir til að mæta tímanlega. Tímasetning umræðunnar liggur ekki fyrir ennþá, en reynt verður að uppfæra þessa færslu til að svara þeirri spurningu.

NÝTT:

Þingfundur hefst á morgun kl. 10:30 og er frumvarpið um sanngirnisbætur þriðja mál á dagskrá. Að líkindum hefst umræða um það mál um eða upp úr kl. 11. Hvetjum ykkur til að mæta á þingpallana (gengið inn um dyr sem snúa að Dómkirkjunni).


Og þá tökum við þrjú skref áfram!

 Eins og sagt var frá hér á bloggsíðunni í gær hefur samtökunum borist bréf frá forsætisráðuneytinu og í Morgunblaðinu í dag (sbr. viðtengd frétt) tjáir Bárður R. Jónsson formaður sig um bréfið. Hann bendir réttilega á að viss atriði í bréfinu séu neikvæð, en tekur jafnframt fram að stjórnvöld vilji vinna að málinu í sátt við stjórnvöld og að útspilinu sem slíku sé fagnað.

Við ræðum efni bréfsins á félagsfundinum sem boðaður hefur verið n.k. þriðjudagskvöld (sjá síðustu færslu), en umsjónarmaður þessarar bloggsíðu bendir á neðangreinda færslu á bloggsíðu ritara stjórnar samtakanna (sem er einn og sami maðurinn!):

 "Ég er stjórnarmaður í Breiðavíkursamtökunum og tek að sjálfsögðu undir að viss atriði í nýju útspili (bréfi) forsætisráðuneytisins eru alls ekki jákvæð. Og fela jafnvel í sér afturför. En eins og Bárður formaður þá fagna ég líka (það stendur þarna í fréttinni) að unnið sé að málinu í sátt við Breiðavíkursamtökin, útspilinu er almennt fagnað og áfram munu viðræðurnar halda.

Staðreyndin er sú að viðræðurnar um bætur hafa skilað aðilum nokkuð áleiðis, þótt sumir vilji fara hraðar en aðrir og hugmyndir sumra um sanngjarnar bætur allt aðrar en hugmyndir annarra um hvað geti talist sanngjarnt í þessu efni.  Klárlega - og það er mín skoðun - eru viðræðurnar að þoka málinu áfram hvað aðferðarfræði varðar; menn eru ekki að þjarka um upphæðir eins og er. 

Og klárlega setti ráðuneytið í bréfið klásúlu sem leggst illa í fyrrum vistbörn á Breiðavík, þ.e. um mikla takmörkun á greiðslu bóta til erfingja látinna fyrrum vistbarna. Af um 150 fyrrum vistbörnum á Breiðavík 1954-1980 eru líklega 35-36 látin (sem er óhugnanlega hátt hlutfall hjá nú miðaldra fólki) og samkvæmt klásúlunni ættu aðeins erfingjar 2-3 þeirra að fá bætur (þ.e. vegna fyrrum vistbarna sem náðu að gefa Vistheimilanefnd skýrslu fyrir andlátið!). Þegar á þetta var bent í gær var ráðuneytið hins vegar fljótt að taka fram að viðkomandi orðalag yrði tekið til endurskoðunar

Ég skil gremju formannsins mjög vel og eins er ég sammála honum um að það sé takmarkað skjól í því að bera efnahagsástandið fyrir sig. Þessar bætur eru "smámunir" miðað við ýmislegt sem er að taka til sín fjármuni úr ríkissjóði. Og það má alltaf semja um tilhögun greiðslu bótanna, t.d. dreifa afborgunum. Eru menn ekki að tala um bætt efnahagsástand strax eftir næsta ár? Og enn vil ég vitna í Gylfa Ægisson: Ef það eru ekki til peningar fyrir Breiðavíkurbörnin þá eru ekki til peningar fyrir Icesave.

Ég vil persónulega ekki túlka það sem viljaleysi hjá stjórnvöldum að bótamálið gangi ekki hraðar fyrir sig. Mál þessi hafa þó þokast áfram eftir að Jóhanna tók við í forsætisráðuneytinu í upphafi þessa árs. Og það er samkvæmt vilja Breiðavíkursamtakanna að ekki var stefnt að samkomulagi um frumvarp nú á sumarþingi, heldur stefnt á haustþing, enda ástæða til að þoka hugmyndum um bótarétt og upphæðir upp á við".

 www.lillo.blog.is/blog/lillo/entry/911476/


mbl.is Ný tillaga í Breiðavíkurmálinu skref aftur á bak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistheimilabörnin og Icesave

Gylfi Ægisson tónlistarmaður sagði á dögunum: Ef það er ekki til peningur til að borga Breiðavíkurbörnum þá er ekki til peningur til að borga Icesave. Bæta má við: Tökum milljarðana þrjá sem Björgólfarnir vilja fá afskrifaða og setjum í Vistheimila-bótasjóð.

Félagsmenn í BRV athugið: Það hefur borist bréf frá forsætisráðuneytinu og í ljósi þess er boðað til félagsfundar næstkomandi þriðjudagskvöld 14. júlí kl. 20 í fundarsalnum í Reykjavíkurakademíunni (JL-húsinu) við Hringbraut.Við ræðum þar efni bréfsins og viðbrögð við því.


Tafir á skýrslu Spanó-nefndarinnar

 Nú virðist ljóst að skýrsla Vistheimilanefndar (Spanó-nefndar) um nokkur vistheimili (og stofnanir) verður ekki tilbúinn um 1. júlí eins og ráð var fyrir gert og samkvæmt tilkynningu nefndarinnar, sem segir frá í þessari frétt, þá kann að vera allt að því heilt ár að niðurstöður birtist hvað Reykjahlíð og Jaðar varðar. En aðrar niðurstöður komi þó fyrr, en tefjist samt. Því er borið við að taka eigi viðtöl við 75 til 90 fleiri einstaklinga en þá um það bil 170 sem þegar hefur verið talað við.

Það er vitaskuld bara af hinu góða að rætt sé við alla - að allir fái tækifæri á að leggja fram sinn framburð um aðbúnað og meðferð á sér og öðrum börnum á þessum stofnunum. Það verður hins vegar að harma að það hafi ekki tekist innan settra tímamarka. Ljóst er að mikill fjöldi fyrrum vistbarna bíður þess að áfangaskýrsla og síðar lokaskýrsla liggi fyrir.

  Þau heimili sem nefndin hefur skoðað að undanförnu eru: 

  1. Vistheimilið Kumbaravogur
  2. Heyrnleysingjaskólinn
  3. Stúlknaheimilið Bjarg
  4. Vistheimilið Reykjahlið
  5. Heimavistarskólinn Jaðar
  6. Upptökuheimili ríkisins
  7. Unglingaheimili ríkisins
  8. Vistheimilið Silungapollur
Könnun nefndarinnar á starfsemi vist-heimilisins Kumbaravogs, stúlknaheimilisins Bjargs og Heyrnleysingjaskólans mun nú vera á lokastigi. Í tilkynningu frá nefndinni segir einnig að könnun nefndarinnar á vistheimilinu Reykjahlíð og heimavistarskólanum Jaðri sé komin vel á veg.

Í tilkynningu frá nefndinni segir: „Könnun nefndarinnar undanfarin misseri hefur verið afar umfangsmikil. Hefur nefndin þegar rætt við 170 einstaklinga, fyrrverandi vistmenn, fyrrverandi nemendur og aðra sem nefndin hefur talið geta varpað ljósi á starfsemi þeirra stofnana sem nefndin hefur nú tekið til könnunar."
mbl.is Meðferðarheimili rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf sent til Jóhönnu Sig.

Í gær, 4. júní, var boðsent til forsætisráðuneytisins bréf frá stjórn Breiðavíkursamtakanna, sem viðbrögð og tillögur vegna Minnisblaðs ráðuneytisins, sem sagt var frá á aðalfundi samtakanna 29. apríl síðastliðinn. Efni bréfs þessa er trúnaðarmál gagnvart utanfélagsfólki, en hér verður þó reynt að segja frá því sem óhætt er að segja frá.

Svo sem félagsmönnum er kunnugt um þá hefur komist hreyfing á (sanngirnis)bótamálið eftir að Jóhanna Sigurðardóttir settist í stól forsætisráðherra og ekki síst eftir afsökunarbeiðni hennar til fyrrum vistbarna vistheimila á vegum ríkisins. Þá urðu ákveðin tímamót með fyrrnefndu Minnisblaði og viðbrögðum aðalfundar okkar við því.

Eins og félagsmenn vita hefur ráðuneytið umfram allt viljað með samkomulaginu skapa fordæmi sem ná myndi til allra vistheimila sem til rannsóknar Spanó-nefndarinnar koma og jafnframt er deginum ljósara að ráðuneytið hefur ekki áhuga á háum bótum yfir línuna, kannski ekki síst vegna efnahagsástandsins. Nú í maí hefur stjórn samtakanna brætt með sér hugmyndir að tillögum um útfærslur og leiddi sú vinna til þess að bréfið var sent í gær. Í tillögum stjórnar er gert ráð fyrir "tveggja ása flokkaskiptingu" við ákvörðun (óháðrar nefndar) á bótum.

Þar muni þolendur af hálfu tilgreindrar óháðrar nefndar raðast í flokka eftir nánar tilgreindum viðmiðunum.

Veigamestu atriðin við það mat verði annars vegar bein ætluð lögbrot/mannréttindabrot, sbr.: Líkamlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða eldri vistbarna (ekkert, lítið, nokkurt, mikið, mjög mikið), andlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða eldri vistbarna (ekkert, lítið, nokkurt, mikið, mjög mikið), andlegt og líkamlegt álag annað, vinnuþrælkun / ólaunuð barnavinna, missir skólagöngu/svipting á menntun, skortur á hvers kyns læknisþjónustu, veikindi og slys á vistunarstað, ónóg þrif og ónógur matur, skjóllítill fatnaðar barna gegn vondum veðrum og skortur á eftirfylgni/liðveislu eftir vist.

Hins vegar verði til viðmiðunar atriði af ýmiss konar félagslegum og heilsufarslegum toga, sbr.: Langtímadvöl - lengd dvalartíma (t.d. undir 1 ári, 1-2 ár, 2-3 ár, 3-4 ár, 4-5 ár o.s.frv.), einelti, einangrun viststaðar, ástæðulaus/tilefnislaus vistun, óréttmætur aðskilnaður við foreldra, sambandsleysi/sambandsbann við foreldra/ættingja,  vist frá mjög ungum aldri,   harðneskja – skortur á hlýju, afleiðingar vistunar, ótímabær dauðdagi / heilsubrestur til langtíma, svipting tómstunda/barnagamans og fleira.

 

  Stjórn samtakanna vonast auðvitað eftir jákvæðum viðbrögðum við þessum viðmiðunum og aðferðarfræði, en ekki er komið að því að ræða upphæðir ennþá. Í bréfinu var jafnframt vonast eftir skjótum viðbrögðum og áframhaldandi fundarhöldum, þannig að stjórnvöldum auðnist að leggja fram frumvarp um bætur við upphaf haustþings. Ef það gengur eftir styttist svo sannarlega í lausn þessara erfiðu mála.

Bréfið er sem fyrr segir trúnaðarmál gagnvart utanfélagsfólki, en áhugasamir félagsmenn geta fengið afrit af því sent ef þeir biðja um það í tölvupósti eða með símtali (lillokristin@simnet.is eða 864 6365).


Breiðavíkursamtökin með þingmann!

Borgarahreyfingin fagnaði sigri í nótt. Flokkurinn fékk 4...Um leið og minnt er á aðalfund Breiðavíkursamtakanna næsta miðvikudag, á tveggja ára afmæli samtakanna (sjá færslur hér á undan) þá er rétt að óska Breiðavíkursamtökunum til hamingju með að vera komin með þingmann. Einn nýrra þingmanna er Þór Saari hagfræðingur og gjaldkeri stjórnar samtakanna og er honum innilega óskað til hamingju með vegtylluna og vitaskuld skorað á hann að passa upp á málefni BRV og vistheimila almennt á þingi.

Raunar má benda á þá merkilegu staðreynd að hvorki meira né minna en 5 félagar í samtökunum voru virkir liðsmenn Borgarahreyfingarinnar, þeir Þór, Friðrik Þór Guðmundsson, Konráð Ragnarsson, Páll Rúnar Elísson og Maron Bergmann Brynjarsson, auk þess sem formaðurinn Bárður R. Jónsson var ótvíræður stuðningsmaður.  Borgarahreyfingin og Breiðavíkursamtökin áttu augljóslega samleið.

Gott útlit er fyrir því að Jóhanna Sigurðardóttir verði áfram með forsætisráðuneytið og þar með að vinveitt stjórnvöld komi áfram að samningaborðinu við samtökin. Í því sambandi er spennandi að segja frá því að í síðustu viku átti stjórn samtakanna mjög fínan fund með fulltrúum forsætisráðuneytisins, þar sem áþreifanlega þokaðist í áttina að aðferðarfræði samkomulags um sanngirnisbætur. Stjórn samtakanna bíður nú eftir minnisblaði frá ráðuneytinu sem ætlunin er að kynna á aðalfundinum.


mbl.is Nýtt Alþingi Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þá er að drífa sig á fund, félagar

Reglulegur félagsfundur Breiðavíkur samtakanna verður annað kvöld, 31. mars, síðasta þriðjudag mánaðarins að vanda. Hann verður haldinn kl. 20:30 að Aflagranda 40, eins og hingað til, en til stóð að hafa hann í fundarsal Reykjavíkurakademíunnar. Það gekk ekki eftir og því förum við á gömlu slóðirnar.

Fundarefnið er í sjálfu sér sama og venjulega, aðallega hittast og spjalla og vonar stjórnin að þessi fundur geti verið á léttari nótum en síðustu fundir. Lítill fugl hefur hvíslað því að stjórninni að á fundinn komi óvæntur leynigestur af stjórnmálakyni. 

Sjáumst hress og glöð.


Ekkert karp - mætum á félagsfund!

Um leið og við tökum undir með ASÍ, sem segir samkvæmt viðtengdri frétt að á meðan hrikti í grunnstoðum samfélagsins og fjölskyldum og fyrirtækjum blæðir, horfi þjóðin upp á karp og hráskinnaleik á Alþingi sem engu máli skipti og engu skili, þá minnir stjórn Breiðavíkursamtakanna á félagsfund næsta þriðjudagskvöld, þar sem við ræðum hagsmunamál félagsmanna (en þau skipta miklu máli).

Það eru að vísu uppi vonir um að nýja félagshyggjustjórnin taki betur á málefnum samtakanna en fráfarandi ríkisstjórn. Víst er að sumir hinna nýju ráðherra hafa ótvírætt orðað skilning sinn á því að bæta þurfi þeim upp skaðann almennilega, sem þurftu að ganga í gegnum það sem margir í samtökunum voru neyddir til.

Félagsmönnum ætti að vera kunnugt um það núorðið, en rétt að endurtaka það: Félagsfundir verða haldnir reglulega kl. 20:30 síðasta þriðjudagskvöld hvers mánaðar í samkomusalnum að Aflagranda 40. Að óbreyttu hið minnsta. Næsti félagsfundur verður því næsta þriðjudagskvöld 24. febrúar.

Ekki var sérlega góð mæting síðast og nauðsynlegt að bæta úr því. Líkast til verður reynt að gera aðra tilraun til myndunar skemmtinefndar, svo einnig megi leggja áherslu á léttari svið tilverunnar. Allir saman nú!

Áhugasömum er bent á að Breiðavíkursamtökin eru opin öllum áhugamönnum um vistunarmál hins opinbera í fortíð, nútíð og framtíð.


mbl.is Þingmenn sýna þjóðinni lítilsvirðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband