Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
Stefán Þ. Karlsson - enn deyr Breiðvíkingur
10.6.2010 | 15:35
Breiðvíkingurinn Stefán Þorkell Karlsson ljósmyndari andaðist heima hjá sér þann 2. júní síðastliðinn. Af Breiðvíkingum á tímabili drengjavistunar, 1953-1972, hafa þar með andast að lágmarki 33 af 126 drengjum eða rúm 26% (en óljóst er með afdrif eins til þriggja til viðbótar).
Stefán fæddist 15. maí 1954 og var því 56 ára. Hann var vistaður á Breiðavík aðeins 10 ára gamall, í september 1964 og var vistaður vestra í tæp 2 ár, "losnaði" í ágúst 1966.
Stefán átti 5 eigin börn, með fjórum mæðrum, og var fósturfaðir tveggja til viðbótar. Breiðavíkursamtökin senda þeim og öðrum aðstandendum sínar innilegustu samúðarkveðjur. Formaður samtakanna, Bárður Ragnar Jónsson (sem var samtíða Stefáni vestra) minnist hans í athugasemdadálki við færslu þessa.
Jarðarförin fer fram frá Digraneskirkju þriðjudaginn 15. júní kl. 15.
Minningargreinar úr Morgunblaðinu er að finna í athugasemdadálk færslunnar. Blessuð sé minning Stefáns.
Trúmál og siðferði | Breytt 18.6.2010 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Lögin um sanngirnisbæturnar
26.5.2010 | 12:48
1. gr.
Gildissvið og yfirstjórn.
Lög þessi mæla fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007.
Dómsmála- og mannréttindaráðherra fer með yfirstjórn og framkvæmd laga þessara.
2. gr.
Skilyrði þess að krafa sé tekin til meðferðar.
Sá sem vistaður var á stofnun eða heimili sem lög þessi taka til getur krafist sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum, enda liggi fyrir skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 og innköllun sýslumanns. Sýslumaður tekur afstöðu til krafna en sá sem krefst bóta getur leitað til úrskurðarnefndar skv. 7. gr. uni hann ekki niðurstöðu sýslumanns.
3. gr.
Skilyrði sanngirnisbóta.
Greiða skal sanngirnisbætur úr ríkissjóði á grundvelli laga þessara hafi vistmaður orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi meðan á vistun hans stóð, sem olli honum varanlegum skaða.
Með illri meðferð eða ofbeldi er átt við:
a. hvers kyns refsiverða líkamlega valdbeitingu gagnvart barni og aðra líkamlega valdbeitingu þar sem valdið er óþarfa sársauka,
b. ógnandi, vanvirðandi eða niðurlægjandi athafnir gagnvart barni,
c. athafnir til þess fallnar að misbjóða barni eða vanrækja á annan hátt uppeldi þess svo mjög að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska sé mikil hætta búin.
Með varanlegum skaða er átt við varanlegar neikvæðar líkamlegar, sálrænar eða félagslegar afleiðingar.
4. gr.
Fjárhæð sanngirnisbóta.
Við ákvörðun fjárhæðar sanngirnisbóta skal litið til:
1. alvarleika ofbeldis eða illrar meðferðar, þ.m.t. með tilliti til tímalengdar vistunar og annarra aðstæðna sem kunna að hafa gert reynsluna sérlega þungbæra,
2. alvarleika afleiðinga ofbeldis eða illrar meðferðar, bæði afleiðinga sem unnt er að leggja læknisfræðilegt mat á og annarra erfiðleika og missis tækifæra sem rekja má til hinna bótaskyldu atvika.
Við ákvörðun fjárhæðar sanngirnisbóta skal einnig, eftir því sem unnt er, tekið mið af dómaframkvæmd á sambærilegum sviðum. Bætur til einstaklings skulu aldrei vera hærri en 6 millj. kr. Hámark þetta breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.
Nú hefur vistmaður verið vistaður á fleiri en einni stofnun eða heimili sem falla undir lög þessi og er þá heimilt að ákveða bætur til bráðabirgða og taka þá ákvörðun til endurskoðunar jafnóðum og fleiri skýrslur nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 og innkallanir vegna þeirra liggja fyrir. Við endanlegt mat skal líta til fyrrgreindra þátta með heildstæðum hætti, þó þannig að heildarbætur rúmist innan marka þess sem getur í 2. mgr.
Bætur allt að 2 millj. kr. skal greiða út í einu lagi. Bætur umfram það og allt að 4 millj. kr. skal greiða út 18 mánuðum eftir fyrstu greiðslu. Bætur umfram 4 millj. kr. og allt að 6 millj. kr. skal greiða út 36 mánuðum eftir fyrstu greiðslu. Bótafjárhæð skal bundin vísitölu neysluverðs frá því að hún er ákveðin í sáttaboði skv. 6. gr. eða úrskurði skv. 9. gr.
5. gr.
Innköllun.
Þegar nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur lokið skýrslu um könnun sína á starfsemi heimilis eða stofnunar skal ráðherra fela tilteknum sýslumanni að gefa út innköllun. Innköllun skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði, svo og tvívegis í útbreiddu dagblaði. Þar skal skorað á þá sem dvalið hafa á tiltekinni stofnun eða heimili á tilgreindu tímabili er skýrslan tók til og telja sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum þessum að lýsa kröfum sínum innan þriggja mánaða frá síðari birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði.
Sýslumaður ákveður form innköllunar og gefur út eyðublað fyrir þá sem hyggjast lýsa kröfum sínum. Á eyðublaðinu skal sá er lýsir kröfu tilgreina svo sem kostur er dvalartíma á stofnun eða heimili og helstu ástæður þess að hann telur sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum þessum. Þar skal einnig gefinn kostur á að veita sýslumanni heimild til aðgangs að gögnum um viðkomandi, í vörslum nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, þ.m.t. hljóðupptökum og endurritum vitnaskýrslu, eða hjá öðrum stjórnvöldum.
Nú er kröfu ekki lýst innan þess frests sem greinir í 1. mgr. og fellur hún þá niður. Víkja má frá þessu í allt að tvö ár frá því að kröfulýsingarfresti lýkur ef sýnt þykir að þeim sem lýsir kröfu var það ekki unnt fyrr eða önnur veigamikil rök mæla með því.
6. gr.
Sáttaboð.
Að loknum kröfulýsingarfresti skal sýslumaður fara yfir þær kröfur sem lýst hefur verið og önnur tiltæk gögn. Hann skal afla staðfestingar nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 á því að viðkomandi hafi verið vistaður á því heimili eða stofnun sem um ræðir. Telji sýslumaður að líkur standi til að bótaskilyrði laga þessara séu uppfyllt skal hann að höfðu samráði við ráðherra gera viðkomandi einstaklingi skriflegt og bindandi sáttaboð. Að öðrum kosti skal hann synja kröfu með rökstuddu bréfi. Málsmeðferð af hálfu sýslumanns skal vera einföld og henni skal hraðað eins og kostur er. Honum er óskylt að taka munnlegar skýrslur af þeim sem gera kröfur. Skal hann eftir því sem kostur er fjalla samtímis um allar kröfur er lúta að einu og sama heimilinu eða stofnuninni.
Hafni sá sem kröfu hefur lýst sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfs sýslumanns leitað til úrskurðarnefndar skv. 7. gr.
Fallist sá sem kröfu hefur lýst á sátt samkvæmt þessari grein með skriflegum hætti felur það í sér afsal allra frekari krafna á hendur ríki og eftir atvikum sveitarfélögum, sbr. 13. gr., vegna vistunar á viðkomandi stofnun eða heimili. Gjalddagi er fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að sýslumanni berst skriflegt samþykki viðtakanda bótanna.
7. gr.
Úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur.
Ráðherra skipar, án tilnefningar, nefnd þriggja manna og þriggja til vara til þess að taka afstöðu til krafna um sanngirnisbætur samkvæmt lögum þessum ljúki málum ekki á grundvelli 6. gr. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu skipaðir til allt að þriggja ára í senn. Einn nefndarmaður skal fullnægja skilyrðum til að vera hæstaréttardómari (lögfræðingur - innskot fþg), en hann skal jafnframt vera formaður nefndarinnar. Einn skal vera læknir og einn sálfræðingur. Um sérstök hæfisskilyrði gilda reglur stjórnsýslulaga. Varamenn skulu fullnægja sömu hæfisskilyrðum og aðalmenn.
Kostnaður við störf úrskurðarnefndarinnar greiðist úr ríkissjóði, sbr. þó 13. gr. Nefndinni er heimilt að ráða sér starfslið í samráði við ráðherra.
8. gr.
Meðferð bótakrafna af hálfu úrskurðarnefndar.
Í erindi til úrskurðarnefndar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. skal greina helstu rök fyrir því að viðkomandi eigi ríkari rétt en niðurstaða sýslumanns ber vott um. Úrskurðarnefndin getur kvatt þann sem leitað hefur til nefndarinnar til viðtals þar sem aflað verður nánari upplýsinga um grundvöll kröfunnar. Þá getur hún sömuleiðis leitað eftir afstöðu sýslumanns til kröfunnar eða kvatt aðra einstaklinga til viðtals, t.d. fyrrverandi starfsfólk á stofnun eða heimili.
Úrskurðarnefndinni er heimilt að óska eftir umboði þess sem kröfu gerir til að afla læknisfræðilegra gagna um heilsufar hans, ef slík gögn skipta sérstöku máli að áliti nefndarinnar. Slík gagnaöflun skal vera á kostnað nefndarinnar.
Úrskurðarnefndin skal hafa aðgang að hljóðupptökum og endurritum viðtala sem nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur tekið sem lið í rannsókn sinni á stofnun eða heimili, sem og að öðrum skjallegum gögnum sem síðarnefnda nefndin býr yfir.
Nú telur sá sem kröfu gerir að skýrsla sem hann kann að hafa gefið skv. 3. mgr. sé ófullnægjandi við mat á rétti hans til sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum, eða hann óskar af öðrum ástæðum eftir því að tjá sig nánar um atriði sem skýrslan tekur til, og skal þá úrskurðarnefndin heimila honum að gefa skýrslu á ný, eða leggja fram skriflega greinargerð. Úrskurðarnefndin skal meta framkomna framburði heildstætt.
Úrskurðarnefndin skal ljúka meðferð hverrar kröfu eins fljótt og auðið er.
9. gr.
Ákvörðun um bætur.
Úrskurðarnefndin skal kveða upp skriflegan úrskurð þar sem tekin er afstaða til kröfu þess sem leitar til nefndarinnar um bætur. Tilgreina skal helstu röksemdir sem niðurstaðan er reist á.
Við mat á því hvort nægilega sé í ljós leitt að bótaskilyrði 3. gr. séu uppfyllt, og við mat á þeim atriðum sem greinir í 4. gr., skal úrskurðarnefndin líta til fyrirliggjandi gagna og þess hvernig frásögn viðkomandi samræmist því sem vitað er um aðstæður á viðkomandi stofnun eða heimili, einkum á grundvelli skýrslu nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007.
Nú hefur sá er kröfu gerir notið aðstoðar lögmanns við gerð kröfu og aðra ráðgjöf og skal þá úrskurðarnefndin jafnframt hugsanlegum sanngirnisbótum úrskurða hæfilegan kostnað samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu lögmannsins. Að jafnaði skal ekki úrskurða hærri þóknun en svarar til 10 klst. vinnu.
Úrskurður nefndarinnar er endanlegur á stjórnsýslustigi. Ekki er hægt að bera niðurstöðu um bótarétt skv. 3. og 4. gr. undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur liggur fyrir. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að úrskurðurinn var kynntur aðila máls og málsókninni skal beint að úrskurðarnefndinni.
Gjalddagi bóta er 1. dagur næsta mánaðar eftir að úrskurður er kveðinn upp.
10. gr.
Tengiliður vegna vistheimila.
Ráðherra skipar sérstakan tengilið sem koma skal með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal hann aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Eftir 1. janúar 2013 getur ráðherra lagt niður starf tengiliðs að fenginni tillögu úrskurðarnefndar.
11. gr.
Framsal krafna og aðilaskipti fyrir erfðir.
Ekki er heimilt að framselja kröfu samkvæmt lögum þessum, nema hún sé viðurkennd og fjárhæð hennar ákvörðuð af úrskurðarnefnd. Bætur eru undanþegnar aðför skv. 46. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
Krafa um bætur samkvæmt lögum þessum erfist í samræmi við erfðalög, nr. 8/1962, hafi tjónþoli lýst kröfu skv. 5. gr. Hafi tjónþoli fallið frá áður en honum var unnt að lýsa slíkri kröfu erfist krafan til eftirlifandi barna sem geta hvert um sig eða sameiginlega fylgt henni eftir. Um aðgang að gögnum í vörslu vistheimilisnefndar og annarra stjórnvalda varðandi kröfu á þessum grundvelli fer samkvæmt ákvæðum 5. og 8. gr.
12. gr.
Ýmis ákvæði.
Um sanngirnisbætur samkvæmt lögum þessum fer skv. 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Óheimilt er að skuldajafna kröfum ríkisins, sveitarfélaga eða stofnana þeirra á móti greiðslum samkvæmt lögum þessum.
Aðrar greiðslur sem einstaklingur kann að njóta, t.d. á grundvelli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, eða úr lífeyrissjóðum, hafa ekki áhrif á ákvörðun sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum. Greiddar sanngirnisbætur mynda ekki heldur stofn til frádráttar vegna slíkra annarra greiðslna, né hafa áhrif á réttindi einstaklinga í almannatryggingakerfinu að öðru leyti.
Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um gögn úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur. Gögnin skulu gerð almenningi aðgengileg að þeim tíma liðnum sem getur í upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1996.
Ráðherra er heimilt að gefa út og birta í B-deild Stjórnartíðinda, að fenginni tillögu sýslumanns eða úrskurðarnefndar, nánari reglur um viðmið við ákvörðun fjárhæða, meðferð bótakrafna, aðgang sýslumanns eða úrskurðarnefndar að gögnum hjá sveitarfélögum, stofnunum þeirra og ríkisstofnunum, fyrirkomulag greiðslu bóta, viðmiðunarfjárhæð vegna lögmannskostnaðar og önnur atriði sem varða framkvæmd laga þessara.
13. gr.
Ábyrgðarskipting.
Hafi sveitarfélag rekið heimili eða stofnun skal ráðherra efna til viðræðna við viðkomandi um skiptingu kostnaðar af bótagreiðslum og starfi sýslumanns og úrskurðarnefndar.
14. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á Alþingi 19. maí 2010.
Sanngirnisbæturnar í lög leiddar
19.5.2010 | 15:24
Frumvarpið um sanngirnisbæturnar varð að lögum í nótt með atkvæðum allra þingmanna. Því má búast við því að fljótlega verði sýslumanni falið að "innkalla kröfur", það er að segja auglýsa að þeir sem telja sig eiga rétt til sanngirnisbóta geti gert til þess kröfu.
Einnig liggur fyrir að setja saman Úrskurðarnefnd fyrir þau tilvik þar sem kröfuhafar kjósa að samþykkja ekki sáttatilboð sýslumanns. Og svo liggur fyrir að skipa einstakling í hina tímabundnu stöðu "tengiliðs" sem vera skal væntanlegum kröfuhöfum til liðsinnis (en þess utan gera lögin ráð fyrir því að ríkið greiði allt að 10 klukkustunda lögfræðivinnu).
Breytingar urðu á frumvarpinu í meðförum allsherjarnefndar þingsins, en þær snúa aðallega að framkvæmd og málsmeðferð, en merkilegasta framlag nefndarinnar er þó að taka afdráttarlaust fram að tilvísun í frumskjalinu um "samtímaviðmið" er hafnað, þ.e. að við ákvörðun um bætur skyldi taka mið af þeim viðmiðunum, t.d. í uppeldismálum, sem ríkjandi voru áður fyrr.
Hér er hægt að hlusta á Valgerði Bjarnadóttur, framsögumann nefndarinnar, lýsa nefndaráliti og breytingum:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20100518T222557&end=2010-05-18T22:48:19
Og hér má hlýða á Þór Saari tjá sig um málið fyrir löggildinguna í nótt:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100518T224116
Og loks bætti Birgir Ármannsson nokkrum orðum við:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100518T224432
Bótamálið snyrt og skýrt
18.5.2010 | 15:56
Frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur til handa þeim semurðu fyrir illri meðferð og/eða ofbeldi á vistheimilum ríkisins er nú komið úr Allsherjarnefnd þingsins og raunar sett í umræðu í dag eða í kvöld í þinginu.Allsherjarnefnd mælir eindregið og einróma með samþykkt frumvarpsins, en hefur sett fram nokkrar breytingatillögur, sem miða að því að gera framkvæmdina einfaldari og skjótari. Þá er einnig rétt að benda á að nefndin þrengir mjög ákveðinn texta í greinargerð frumvarpsins um samfélagsviðmiðanir, þ.e. þrengir möguleika ríkisins á að bera fyrir sig viðmiðanir sem fyrr giltu en gilda ekki lengur.
Þótt málið sé á dagskrá þingsins í dag (í kvöld) er ekki víst að það takist að koma því að , en þá frestast önnur umræða um málið framyfir sveitarstjórnarkosningar, en eftir sem áður er almenn samstaða um að gera frumvarpið að lögum fyrir þinglok.
Nefndarálitið fylgir hér sem viðhengi, en er einnig að finna á þessari slóð:
http://www.althingi.is/altext/138/s/1121.html
En frumvarpið sjálft er á þessari slóð
http://www.althingi.is/altext/138/s/0860.html
Frumvarpið á leið úr Allsherjarnefnd
8.5.2010 | 21:38
Nú í lok vikunnar voru Bárður formaður og Ragnar lögfræðingur Breiðavíkursamtakanna boðaðir á fund Allsherjarnefndar þingsins til að ræða sanngirnisbótafrumvarpið.
Bárður og Ragnar notuðu vitaskuld tækifærið til að koma að ýmsum athugasemdum að og boðskap öðrum, en sem kunnugt er ríkir þó fyrir mestan partinn sátt um frumvarpið. Er líklegt að nefndin afgreiði fljótlega frumvarpið í aðra umræðu og eftir það ætti það að geta hlotið tiltölulega skjóta afgreiðslu, enda þverpólitískt réttlætismál sem almenn samstaða ríkir um. Ekki er nokkur ástæða til að ætla annað en að frumvarpið verði að lögum fyrir sumarhlé þingsins.
Búast má við því að félögum verði hóað saman til Alþingis við lokaafgreiðsluna.
Nafnabreyting á Breiðavíkursamtökunum?
20.4.2010 | 21:14
Á aðalfundi Breiðavíkursamtakanna eftir viku, 27. apríl, er fyrirhugað að leggja fram neðangreindar breytingatillögur við lög samtakanna og eru þær hér með lagðar fram til kynningar og umræðu. Einna stórtækustu breytingarnar fela í sér að nafni samtakanna verði breytt og að samþykkt verði heimildarákvæði um stofnun sérfélaga um hveert vistheimili undir hatti móðurfélagsins. Lagt er til að nafni samtakanna verði breytt í Vistheimilasamtökin.
Breiðavíkursamtökin eru samtök um fyrrum vistbörn allra vistheimila á vegum hins opinbera, þau eru regnbogasamtök, en tillagan um nafnabreytingu kemur til vegna þess að mörgum fyrrum vistbörnum annarra vistheimila hefur þótt samtökin um of miðast við þetta tiltekna og kannski frægasta vistheimilið, Breiðavík. Tillagan miðar að því að koma til móts við þessar raddir og standa þá vonir til þess að fyrrum vistbörn annarra vistheimila gangi frekar til liðs við samtökin en reyndin hefur verið. Sem stendur eru 88 félagar í samtökunum. Aðild er ekki bundin við vistun, heldur opin fyrir alla einstaklinga sem áhuga hafa á vistunarmálum hins opinbera. Allt áhugasamt fólk er hvatt til að ígrunda breytingatillögurnar og ræða, og svo til að ganga í samtökin og sækja aðalfundinn (sjá auglýsingu í síðustu færslu).
Breytingatillögur við lög Breiðavíkursamtakanna.
1.gr. verði svo:
Félagið heitir Vistheimilasamtökin.[1]
2. gr. verði svo:
Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík[2].
6.gr. verði svo:
Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum[3].
7.gr. verði svo:
Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári[4]. Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert[5]. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. viku fyrirvara, með auglýsingu í dagblaði eða eftir öðrum viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir.[6] Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál[7].
Ný 10. grein verði svo:
Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum önnur mál. [8]
Núverandi 10. gr. verði 11. gr[9].
[1] Tillaga að nafnabreytingu samtakanna.
[2] Heimili samtakanna var tilgreint í Lauganesskirkju. Ekki þarf að tilgreina heimilisf. nánar en svona.
[3] Í óbreyttum lögum er kjörtímabil 2 ár með hlutakosningu árlega. Hér eru lagðar til árlegar kosningar á stjórninni allri.
[4] Afnuminn er lágmarksfjöldi stjórnarfunda en tilgreindur lágmarksfjöldi félagsfunda.
[5] Hér er fundartíminn fyrir aðalfund gerður sveigjanlegri með því að bæta fyrri hluta maí við.
[6] Hér er afnumin skylda til að auglýsa líka félagsfundi í dagblaði og opnað fyrir öðrum aðferðum til aðalfundarboðs sem síðasti félagsfundur starfsársins hefur lagt blessun á.
[7] Orðalagi um dagskrá breytt í samræmi við breytingar á stjórnarkjöri.
[8] Skýrir sig sjálft.
[9] Skýrir sig sjálft.
Að særa út gamlan draug
25.3.2010 | 09:18
Eftir skamma stund mælir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fyrir frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilum fyrri tíma. Þetta er frumvarp sem smíðað var í samráði við meðal annars Breiðavíkursamtökin og sátt náðist loks um, þannig að frumvarpið nýtur stuðnings og því fylgir von um skjóta afgreiðslu.
Þó er eitt og annað þarna sem hefði þurft að vera öðru vísi, fyrir utan að hámarksbætur eru í rauninni lágar, þegar hoft er á verstu tilvikin. En hvað um það; í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins (ekki í ákvæðinu sjálfu, 3. gr.) er að finna "draug" sem leitað verður til þingsins með að særa burt.
Í þessari grein er nánar fjallað um hvað teljist ofbeldi og ill meðferð. Í þessum athugasemdum við þriðju greinina er að finna texta sem reynst gæti stórhættulegur í höndunum á þröngsýnum embættis-ribböldum. Svona hljómar textinn sá í frumvarpsathugasemdunum:
"Ætlast er til þess að við túlkun á framangreindum hugtökum frumvarpsins verði litið til þeirra samfélagsviðmiða sem voru ríkjandi á þeim tíma er atvik gerðust. Við sakarmat í skaðabótarétti er hefðbundið að líta til þeirra reglna og viðmiða sem ríkjandi voru er tjón átti sér stað. Þannig geta seinni tíma reglur og viðmið almennt ekki orðið grundvöllur þess að sök sé slegið fastri vegna atburða sem áttu sér stað í fortíðinni. Við túlkun á hugtökunum ill meðferð og ofbeldi samkvæmt frumvarpinu verður að líta til sambærilegra sjónarmiða, en ljóst er að almenn viðhorf til uppeldis barna hefur breyst umtalsvert á undanförnum áratugum. Framkoma og orðfæri gagnvart börnum er annað en áður var og skilningur á þörfum þeirra, þar á meðal fyrir umhyggju, er annar en áður. Ekki er unnt að fella undir hugtökin illa meðferð eða ofbeldi atriði sem, þrátt fyrir að teljast óásættanleg núna, voru í samræmi við gildandi viðmið á umræddum tíma og tíðkuðust þar af leiðandi mun víðar en á þeim heimilum og stofnunum sem hér eru til umfjöllunar, t.d. á einkaheimilum og spítölum. Af sömu ástæðu er ekki unnt að fella undir hugtökin athafnir eða athafnaleysi sem voru í samræmi við ríkjandi stefnu stjórnvalda á umræddum tíma".
Hættan við þetta sjónarhorn er augljóst. Einhverjum gæti dottið í hug að það hafi verið eðlilegt samfélagsviðmið 1950-1980 að senda "óþekk" börn í vítisvist á einangruðum stað í hendurna á ofbeldisfullum togarajaxl; lemja og berja til hlýðni almennt og yfirleitt og láta strita og kveljast sér til "góðs".
Þingið þarf að kveða upp úr með að "samfélagsviðmið" í anda Þórhalls Hálfdánarsonar sé ekki að flækjast fyrir sómakæru nútímafólki. Misgjörðir við börn voru misgjörðir við börn og þau sköðuðust til lífstíðar, þótt einhverjum vitleysingjum í fullorðins tölu þess tíma hafi dottið sú þvæla í hug að þau hefðu bara gott af þessu!
fþg
Þingfundur hefst í dag kl. 10:30 og er frumvarpið um sanngirnisbætur þriðja mál á dagskrá. Að líkindum hefst umræða um það mál um eða upp úr kl. 11. Hvetjum fyrrum vistbörn til að mæta á þingpallana, fagna frumvarpinu en huga að draugnum (gengið inn um dyr sem snúa að Dómkirkjunni).
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sanngirnisbótafrumvarpið komið - rætt á morgun
24.3.2010 | 14:49
Ríkisstjórnin lagði frumvarpið um sanngirnisbætur formlega fram á þingi í gær (23. mars) og samkæmt okkar heimildum stendur til að fara í fyrstu umræðu á morgun, 25. mars. Breiðavíkursamtökin hvetja alla félagsmenn og annað áhugafólk til að mæta á þingpalla og hlýða þar á umræðurnar.
Frumvarpið má lesa á þessari slóð: http://www.althingi.is/altext/138/s/0860.html
Þingpallar Alþingis taka ekki við nema liðlega 30 gestum, svo félagsmenn eru hvattir til að mæta tímanlega. Tímasetning umræðunnar liggur ekki fyrir ennþá, en reynt verður að uppfæra þessa færslu til að svara þeirri spurningu.
NÝTT:
Þingfundur hefst á morgun kl. 10:30 og er frumvarpið um sanngirnisbætur þriðja mál á dagskrá. Að líkindum hefst umræða um það mál um eða upp úr kl. 11. Hvetjum ykkur til að mæta á þingpallana (gengið inn um dyr sem snúa að Dómkirkjunni).
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna
19.3.2010 | 13:31
Sögulegur áfangi
12.3.2010 | 11:54
Í dag kl. 13:30 verður kynnt frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum vistheimila ríkisins, sem þola máttu óviðunandi misgjörðir á árum áður.
Frumvarp hafði áður verið smíðað, í stjórnartíð Geirs H. Haarde, en því var illa tekið af samtökum fyrrum vistbarna, enda hugmyndir sem þar komu fram um "sanngjarnar" bætur frámunalega nánasarlegar auk þess sem boðuð aðferðarfræði við ákvörðun bótanna sem þótti fráhrindandi svo vægt sé til orða tekið.
Stjórnvöld settu málið þá í frost og svo helltist Hrunið yfir samfélagið. Ljós í því myrkri var að við tóku skilningsríkari stjórnvöld. Eitthvert fyrsta verk Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra var að biðja þessi fyrrum vistbörn afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar. Síðan hafa verið í gangi hægfara viðræður og þreifingar, við Breiðavíkursamtökin og aðra aðila, en með afleiðingar Hrunsins yfir hausamótunum. Smám saman náðist að breyta aðferðarfræðinni og viðmiðunum öðrum. Fulltrúar ríkisins í þessum viðræðum, yfirleitt lögfræðingar, hafa flestum stundum verið helteknir af lagahyggju og múlbundnir við fyrirliggjandi lagasetningu um bætur og dóma á grundvelli hennar, þótt sama löggjöf sé meira og minna samin af tryggingafélögum landsins í því skyni að hafa bætur sem allra lægstar og jafnframt skorti skilning á því tækifæri sem við hendina var að marka nýtt fordæmi, ný viðmið, nýja forvörn. Á sama tíma varð fulltrúum Breiðavíkursamtakanna ljóst að vegna aðstæðna í samfélaginu, eftir Hrunið, var ekki við því að búast að fallist yrði á ítarkröfur og að til málamiðlunar yrði að koma sem fæli í sér eftirgjöf á höfrðustu væntingum.
Breiðavíkursamtökin (sem eru opin samtök vistbarna allra vistheimilanna og stuðningsaðila) töldu um leið að úrlausn mætti ekki dragast til muna lengur en orðið væri. Samráð stjórnvalda hefur verið gott og viðræður vinsamlegar og þær leiddu til niðurstöðu nú í vikunni. Frumvarpið mun tilgreina hámarks upphæð bóta, sem gjarnan hefði mátt sjást hærri og sem leitað verður til Alþingis um að hækka, eins og gengur, en á félagsfundi samtakanna í gær var samhljóða samþykkt að frumvarpið væri orðið svo viðunandi að ekki yrði lagst gegn framlagningu þess. Stjórn samtakanna taldi enda að ekki yrði lengra komist að svo stöddu og ekki réttmætt að bíða með lagasetningu lengur.
UPPFÆRSLA (texti visis.is):
"Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur vegna misgjörða á stofnunum og heimilum.
Samkvæmt frumvarpinu geta bætur numið allt að 6 milljónum króna til hvers einstaklings.
Þar er kveðið á um bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á tilteknum heimilum og stofnunum fyrir börn.
Við mat á því hvort bótaskilyrði eru uppfyllt verður ekki einvörðungu litið til líkamlegra og sálrænna afleiðinga af vistinni heldur einnig félagslegra eins og missis tækifæra.
Þá segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni að náið samráð hefur verið haft við Breiðavíkursamtökin við vinnslu frumvarpsins og hefur meðal annars verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra um erfðarétt barna vistmanna sem fallnir eru frá.
Þá verður skipaður sérstakur tengiliður við fyrrverandi vistmenn sem munu aðstoða við kröfugerð á hendur ríkinu og leiðbeina um önnur úrræði sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á eins og varðandi menntun og endurhæfingu.
Málsmeðferð verður í tveimur þrepum samkvæmt frumvarpinu.
Dómsmála- og mannréttindaráðherra, sem fara mun með framkvæmd laganna, mun fela tilteknum sýslumanni að gefa út innköllun, fara yfir lýstar kröfur og gera viðkomandi sáttaboð telji hann líkur á að bótaskilyrði séu uppfyllt. Lögð er áhersla á hraða og einfalda málsmeðferð af hálfu sýslumanns.
Uni fyrrverandi vistmaður ekki sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann snúið sér til sérstakrar úrskurðarnefndar sem komið verður á laggirnar. Þar mun fara fram ítarlegri könnun á aðstæðum viðkomandi einstaklings og honum gefinn kostur á að gefa munnlega skýrslu. Á báðum stigum verða sönnunarkröfur vægari en venja er í skaðabótamálum.
Erfitt er að áætla kostnað fyrir ríkið af bótagreiðslum, m.a. vegna þess að rannsókn er ekki enn lokið á öllum þeim heimilum sem falla undir lögin. Komið hafa út skýrslur um Breiðavíkurheimilið, Heyrnleysingjaskólann, Bjarg og Kumbaravog. Skýrslur um Reykjahlíð, Silungapoll og Jaðar eru væntanlegar síðar á árinu.
Síðustu skýrslurnar verða um Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins og munu koma út árið 2011. Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis er tekið það dæmi að ef 100 manns eigi rétt á bótum og hljóti meðalbætur þá verði kostnaður ríkisins 300 milljónir króna auk kostnaðar af starfi úrskurðarnefndar og málskostnaðar.
Frumvarpið var unnið af starfshópi sem í áttu sæti Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, formaður, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðilegur ráðunautur félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra, Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður og Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild HÍ.
Starfshópurinn skilaði af sér fullbúnu frumvarpi fyrr í vikunni nema hvað ákvörðun um hámarksfjárhæð bóta og erfðarétt var vísað til forsætisráðherra.
Frumvarpið verður nú sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til frekari meðferðar og væntanlega lagt fram á Alþingi í næstu viku."Fá bætur vegna illrar meðferðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)