Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Eyðublaðið er komið á Netið

Á vefsíðu Sýslumannsins á Siglufirði er nú eyðublaðið komið, þar sem frumkröfur um sanngirnisbætur eru settar fram (sjá hér).

Þar kemur eftirfarandi fram:

"Umsóknareyðublaðið er í tveimur hlutum. Annar hlutinn er umsóknareyðublaðið sjálft sem unnt er að skila rafrænt eða fylla út, prenta út og skila með pósti. Hinn hluti umsóknarinnar er eyðublað þar sem umsækjandi getur veitt sýslumanni heimild til að afla gagna sem kunna að vera til staðar hjá rannsóknarnefnd vistheimila eða öðrum opinberum aðilum um dvöl hans á vistheimili. Ekki er skylda að veita þessa heimild en ef hún verður veitt þá þarf að prenta hana út og undirrita með eigin hendi umsækjanda. Skal undirritun hans vera vottuð af tveimur aðilum, eða tengilið vegna vistheimila.

Reynt hefur verið að gera umsóknareyðublaðið einfalt í sniðum og miðað er við að ekki þurfi neina sérþekkingu til að fylla það út. Hafi umsækjandi farið í viðtal hjá rannsóknarnefnd sem kannaði starfsemi vistheimila samkvæmt lögum nr. 26/2007, eru líkur á að þau gögn sem nefndin hefur aflað nægi til að meta bótarétti hans. Hafi umsækjandi ekki farið í viðtal hjá nefndinni, þarf hann að gefa ítarlega fyrir atvikum sem áttu sér stað á vistheimili þar sem hann dvaldi og hann kann að verða kallaður í viðtal hjá sýslumanni til að gefa munnlega skýrslu. Umsækjandi getur lagt fram þau viðbótar gögn sem hann telur að varpi ljósi á málið. Þar getur t.d. verið um að ræða læknisfræðileg gögn.

Í 1. hluta eyðublaðsins þarf umsækjandi að gefa almennar upplýsingar eins og nafn og kennitölu. Dvalarstaður og sími þarf einnig að koma fram, því vera kann að sýslumaður þurfi að afla frekari upplýsinga hjá umsækjanda. Ef umsækjandi hefur fengið einhvern annan aðila til að annast umsóknina, þarf umboðsmaður hans að hafa gilt umboð til starfans og þarf að skila því með umsókninni.

Í 2. hluta eyðublaðsins þarf umsækjandi að gefa upplýsingar um á hvaða vistheimili hann dvaldi. Ekki er unnt að fá greiddar bætur vegna annarra heimila en þarna eru talin upp, þar sem lögin eru takmörkuð við þessi heimili. Ef umsækjandi hefur dvalist á fleiri en einu af þessum heimilum, þarf að skila umsókn vegna hvers og eins þeirra. Nauðsynlegt er að tilgreina tíma dvalar. Síðan þarf umsækjandi að rekja eftir minni hvernig dvölin var og hvaða harðræði hann sætti. Hafi umsækjandi farið í viðtal hjá rannsóknarnefnd með starfsemi vistheimila, þá er hægt að vísa til þess að upplýsingar um dvölina sé að finna í gögnum nefndarinnar og hafi hann engu að bæta við það sem þar kemur fram þarf ekki að fylla þennan lið út að öðru leyti. Þessum lið má skila í sérstakri greinargerð ef umsækjandi óskar þess.

Í 3. hluta eyðublaðsins þarf umsækjandi að tilgreina hvaða tjóni hann hefur orðið fyrir í lífi sína vegna afleiðinga dvalar á vistheimili. Tjón skal rakið í eins skipulögðu máli og umsækjanda er unnt og engu sleppt sem umsækjanda finnst sjálfum skipta máli. Þarna þarf einnig að tilgreina hvaða skaðabætur umsækjandi fer fram á að fá greiddar. Rétt er að taka fram að bætur og bótaréttur verður að jafnaði metinn að álitum svo fjárhæðin sem umsækjandi kann að nefna bindur hvorki hann eða sýslumann ekki við ákveðna tölu.

Í 4. hluta eyðublaðsins er þess óskað að umsækjandi veiti upplýsingar um þau gögn sem skipt geta máli og honum er kunnugt um. Sé honum ekki kunnugt um nein fyrirliggjandi gögn má sleppa þessum reit. Rétt er að hafa í huga að því nákvæmari upplýsingar sem gefnar eru því auðveldara verður að meta tjón það sem umsækjandi hefur orðið fyrir".

ATH: Eyðublaðið virðist loks komið í lag hjá sýslumanni og tenglarnir þá virkir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innköllun vegna Breiðavíkur birt

FYRSTA INNKÖLLUN VAR BIRT Í FRÉTTABLAÐINU OG MORGUNBLAÐINU, LAUGARDAGINN 9, OKTÓBER. HÚN ER VEGNA VISTHEIMILISINS BREIÐAVIKUR:

INNKÖLLUN SANNGIRNISBÆTUR

Í samræmi við ákvæði laga nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 og tóku gildi hinn 28. maí 2010, hefur sýslumanninum á Siglufirði verið falið að gefa út innköllun, fara yfir kröfur og gera þeim sem eiga rétt á bótum skrifleg sáttaboð. Skal sýslumaður eftir því sem kostur er fjalla samtímis um allar kröfur er lúta að sama heimilinu.

Á grundvelli þessa er nú kallað eftir kröfum frá þeim sem dvöldu á:

Vistheimilinu Breiðavík

Hér með er skorað á alla þá sem dvöldu á vistheimilinu Breiðavík einhvern tíma á árabilinu 1952-1979 og urðu þar fyrir illri meðferð eða ofbeldi sem olli varanlegum skaða, að lýsa kröfu um skaðabætur fyrir undirritaðri fyrir 27. janúar 2011. Kröfu má lýsa á eyðublaði sem er að finna á vefnum www.sanngirnisbætur.is og hjá tengiliði vegna vistheimila.

Allar kröfur skulu sendar sýslumanninum á Siglufirði, Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði.

Verði kröfu ekki lýst fyrir 27. janúar 2011, fellur hún niður.

Bent er á að unnt er að leita aðstoðar tengiliðar vegna vistheimila við framsetningu og skil á bótakröfu. Aðstoð tengiliðar er að kostnaðarlausu. Skrifstofa tengiliðar er að Tryggvagötu 19, 101 Reykjavík. Sími tengiliðar er 545 9045.

Siglufirði 11. október 2010
Ásdís Ármannsdóttir sýslumaður

http://www.syslumenn.is/syslumadurinn/fjallabyggd/inkollun_krafna/

Framsetning krafna /eyðublað

Eftir hádegi miðvikudaginn 13. október verður komið á vefinn www.sanngirnisbætur.is eyðublað sem unnt verður að skila rafrænt. Eyðublaðið er einfalt í sniðum og það þarf ekki sérþekkingu til að fylla það út og setja fram kröfur. Nokkrum dögum síðar verður unnt að senda umsóknir inn með rafrænum hætti. Til að það sé unnt þarf veflykill ríkisskattstjóra að vera fyrir hendi. Samhliða er annað eyðublað þar sem sá sem lýsir kröfu getur veitt sýslumanni heimild til að afla gagna sem flýtt geta fyrir og einfaldað meðferð málsins. Þar er aðallega um að ræða gögn sem varðveitt eru hjá vistheimilanefnd (Spanó-nefnd), en einnig önnur gögn sem skipt geta máli.

Þangað til eyðublaðið kemur er unnt að fá það sent í tölvupósti. Þeir sem vilja fá eyðublaðið strax geta óskað eftir þvi á netfanginu halldor@syslumenn.is

 


Tengiliður byrjaður - innköllun í vikulok

Á góðum félags- og kynningarfundi Breiðavíkursamtakanna í gærkvöldi (þriðjudag) var tengiliður vistheimila, Guðrún Ögmundsdóttir, gestur fundarins og nýttu um 30 fundarmenn tækifærið vel til að fá hjá henni upplýsingar um framgang sanngirnisbótamálanna.

Enn er verið að útbúa aðstöðu fyrir tengiliðinn, en skrifstofa Guðrúnar verður í Tollhúsinu við Tryggvagötu (gengið inn Kolaportsmegin heyrðist skrifara) og símanúmerið 545-9045. Sérstök vefsíða er í smíðum og sérstakt netfang rétt að fæðast. 

Mjög margar spurningar voru uppi, ábendingar, tillögur og athugasemdir, sem of langt mál væri að týna til hér, en sem fullvíst má telja að gagnist tengiliðnum í startholunum. Guðrún lagði enda mikla áherslu á að hún væri "talsmaður ykkar og ykkar kröfugerðar" og einskis annars og var gerður góður rómur að hennar málflutningi á fundinum. Hjá henni kom fram að þrátt fyrir að starfsemin væri vart hafin væri hún búin að bóka 17 eða 18 viðtöl í næstu viku.

Þá kom fram hjá henni að ráðgert sé að fyrsta innköllun bótakrafna verði birt í dagblöðum fyrir eða um næstu helgi. Byrjað verður á Breiðavík, þ.e. fyrstu skýrslu, og svo koll af kolli. Tengiliður veitir allar nánari upplýsingar.

ATH - FYLGIST VEL MEÐ VEFSÍÐU SÝSLUMANNSINS Á  SIGLUFIRÐI:

http://www.syslumenn.is/serstok-verkefni/onnur-verkefni/sanngirnisbaetur/


Um Návígi, tengilið og frestun á fundi

Væntanlegir kröfuhafar um sanngirnisbætur bíða nú í vaxandi óþolinmæði eftir því að lögin um bæturnar taki almennilega gildi, en dráttur hefur verið á uppsetningu og gangsetningu stöðunnar "tengiliður vistheimila" (sem á að liðsinna kröfuhöfum) og mótun verklagsreglna frá hendi sýslumanninum á Siglufirði og dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu.

Stjórn Breiðavíkursamtakanna hefur ákveðið að fresta um eina viku félagsfundi, þannig að hann verði ekki næstkomandi þriðjudagskvöld (28. september) heldur þriðjudagskvöld viku síðar eða  5. október og muni hann þá hefjast kl. 19:30 en ekki kl. 20:00.

Fyrir utan að enn er margt óljóst með starfsemi tengiliðsins (staðsetning, símanúmer, netfang og fleira) þá liggur einnig fyrir að næstkomandi þriðjudagskvöld kl. 21:25 verður mjög fróðlegur þáttur sýndur í Sjónvarpinu, nánar tiltekið mun Þórhallur Gunnarsson fjalla um vistheimilamálin í þætti sínum Návígi. Í þættinum verður meðal annars fjallað um nýjstu skýrslu Spanó-nefndarinnar og fólk tekið tali. Það er því tvöföld ástæða til að fresta fundinum.

Drátturinn á framkvæmd sanngirnisbótalaganna er að verða óviðunandi. Tengiliður átti að taka til starfa 1. september og þótt Guðrún Ögmundsdóttir hafi á pappírnum hafið störf 20. september þá er öll umgjörðin utan um starfið enn í lausu lofti; engin skrifstofa, enginn sími, ekkert netfang. Sömuleiðis hafa engin svör borist við tveimur bréfum til forsætisráðuneytisins um ýmis atriði, annars vegar frá formanni samtakanna fyrr í sumar og hins vegar frá samtökunum frá því fyrir þremur vikum. Drög að reglugerð um framkvæmd laganna liggur fyrir og snerta bréfin meðal annars efni draganna, án þess þó að leitað hafi verið umsagnar samtakanna.  Væntanlegir kröfuhafar finna eðlilega fyrir vaxandi óþolinmæði.

Í von um að staðan verði orðin mótaðri og stjórnvöld búin að girða sig í brók er félagsfundinum því frestað um viku og félagsmenn hvattir til að láta ekki Návígis-þáttinn framhjá sér fara. Fjölmenna svo á félagsfund þriðjudagskvöldið 5. október kl. 19:30 í salnum í JL-húsinu, þar sem hægt verður að spyrja nýjan tengilið spjörunum úr.

Stjórnin.

Hér að neðan er textinn í drögum að reglugerð, sem sýslumaður heffur haft í smíðum. Sérstök athygli er vakin á 11., 14. og 18. greinunum:


1. gr.

 Ríkissjóður greiðir sanngirnisbætur á grundvelli laga nr. 47/2010 til þeirra sem voru vistaðir sem börn á vist- eða meðferðarheimilum á vegum ríkisins og falla undir gildissvið laga nr. 26/2007 og máttu sæta ofbeldi eða illri meðferð meðan á dvölinni stóð.

 

Þau heimili sem falla undir gildissvið laga nr. 26/2007 eru:

a)      vistheimilið Breiðavík 

b)      Heyrnleysingjaskólinn  

c)       vistheimilið Kumbaravogur 

d)      skólaheimilið Bjarg  

e)      vistheimilið Reykjahlíð

f)       vistheimilið Silungapollur

g)      heimavistarskólinn Jaðar

h)      Upptökuheimili ríkisins

i)        Unglingaheimili ríkisins

 

2. gr.

 

Með ofbeldi er átt við háttsemi sem felst í líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Líkamlegt ofbeldi telst öll sú háttsemi gagnvart vistmanni sem fólgin er í líkamlegri valdbeitingu sem veldur sársauka og telst ekki lögmæt aðferð til sjálfsvarnar, eða til að afstýra ofbeldi eða eignaspjöllum á þeim tíma sem atburðurinn átti sér stað. Undir kynferðislegt ofbeldi fellur öll kynferðisleg háttsemi gagnvart vistmanni, hvort sem það var í formi kynferðislegrar misneytingar, kynferðislegs áreitis eða með því að særa blygðunarsemi vistmanns.

 

Ill meðferð telst öll valdbeiting sem veldur óþarfa sársauka, til dæmis í formi refsinga, enda hafi valdbeitingin ekki verið liður í lögmætum aðgerðum í formi sjálfsvarnar eða til að afstýra ofbeldi eða eignarspjöllum. Þá fellur niðurlægjandi og vanvirðandi framkoma einnig undir illa meðferð. Getur þetta átt við athafnir bæði starfsmanna og vistmanna á viðkomandi heimilum. Ill meðferð einskorðast ekki eingöngu við beinar athafnir gagnvart vistmanni, heldur einnig athafnaleysi starfsmanna vistheimilis eða annarra aðila á vegum hins opinbera.

 

3. gr.

 

Dómsmála- og mannréttindaráðherra skipar tengilið sem sinnir því hlutverki að miðla upplýsingum til þeirra sem falla undir gildissvið laga nr. 26/2007 og veitir þeim aðstoð eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum nr. 47/2010.

 

4.gr.

 

Sýslumaðurinn á Siglufirði fer með þann hluta málaflokksins sem varðar verkefni sýslumanns. Sýslumaður gefur út innköllun krafna og auglýsir þær. Sýslumanni er heimilt að auglýsa innköllun krafna vegna eins eða fleiri heimila í einu. Fyrsta innköllun mun varða vistheimilið Breiðuvík, önnur innköllun Heyrnleysingjaskólann, þriðja innköllun vistheimilið Kumbaravog og vistheimilið Bjarg, fjórða innköllun vistheimilið Reykjahlíð, vistheimilið Silungapoll og heimavistarskólann Jaðar og  fimmta innköllun mun varða Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins.

 

5. gr.

 

Með innköllun skorar sýslumaður á alla þá sem hafa verið vistmenn á viðkomandi heimili á þeim tíma sem könnun nefndar skv. lögum nr. 26/2007 náði yfir og telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi eða illri meðferð á meðan á dvölinni stóð, að gefa sig fram og lýsa kröfu um skaðabætur vegna þess tjóns sem þeir urðu fyrir.

 

6. gr.

 

Innköllun skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði og viðurkenndu útbreiddu dagblaði, en auk þess er sýslumanni  heimilt að birta innköllun á vefsíðum ef hann telur það æskilegt. Á milli birtinga skulu líða hið minnsta 14 dagar. Í auglýsingum skal koma fram að allar kröfur skuli berast sýslumanninum á Siglufirði innan þriggja mánaða frá birtingu síðari innköllunar. Berist krafa ekki innan frestsins telst hún niður fallin. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði í allt að tvö ár ef veigamikil rök mæla með því.

 

7. gr.

 

Sýslumaður lætur í té sérstakt eyðublað sem bótakröfu skal skilað á. Þar kemur fram nafn og kennitala umsækjanda, hvar hann var vistmaður og á hvaða tíma, hvaða skaðabætur hann gerir og í hverju ofbeldi eða ill meðferð var fólgin. Á eyðublaðinu er umsækjanda unnt að veita sýslumanni heimild til aðgangs að þeim gögnum sem kunna að vera til staðar hjá nefnd skv. lögum nr. 26/2007. Þar með talið eru hljóðupptökur og endurrit af skýrslum. Vistmanni er einnig unnt að veita sýslumanni heimild til að afla annarra gagna sem kunna að vera til staðar hjá sveitarstjórnum og varða dvöl hans á vistheimili og afskipti félagsmálayfirvalda af málum hans síðar. Verði þessar heimildir ekki veittar fær sýslumaður ekki aðgang að gögnunum. Honum er þó heimilt án sérstakrar heimildar að leita staðfestingar hjá nefnd skv. lögum nr. 26/2007 um að viðkomandi hafi dvalið á vistheimili á þeim tíma sem tilgreindur hefur verið. Skal eyðublaðið undirritað með eigin hendi umsækjanda og skal hann geta sannað á sér deili.

 

8. gr.

 

Að loknum innköllunarfresti yfirfer sýslumaður kröfur sem borist hafa og þau gögn sem fyrir hendi eru. Sýslumanni er ekki skylt að taka skýrslu af þeim sem kröfu gerir, en honum er það heimilt ef kröfuhafi samþykkir. Skýrslu má gefa símleiðis ef slíkt þykir henta. Sá sem gerir kröfu getur ekki krafist þess að koma á fund sýslumanns.

9. gr.

 

Hafi einstaklingur verið vistaður á fleiri en einni stofnun sem lögin taka til, skal hann lýsa kröfu vegna hverrar dvalar fyrir sig eftir því sem innköllun fer fram. Skal fjallað um dvöl hans á hverjum stað sérstaklega án tillits til dvalar hans á annarri stofnun eða heimili.

 

10. gr.

 

Að lokinni yfirferð tekur sýslumaður afstöðu til fyrirliggjandi krafna fyrir hvert heimili. Sýslumaður metur þau gögn sem fyrir hendi eru. Telji sýslumaður líkur til þess að tiltekinn einstaklingur hafi sætt ofbeldi eða illri meðferð meðan hann dvaldi á vistheimili og það hafi haft varanlegar afleiðingar, telst fullnægt skilyrðum til greiðslu bóta.

 

11. gr.

 

Telji sýslumaður að vistmaður hafi orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi meðan hann dvaldi á heimili sem fellur undir ákvæði laga nr. 26/2007 og það hafi haft varanlegar afleiðingar, skal honum gert sáttaboð um greiðslu miskabóta. Ekki verða greiddar bætur vegna fjártjóns. Við ákvörðun um fjárhæð miskabóta skal sýslumaður taka mið af almennri réttarframkvæmd í skaðabótamálum og dómafordæmum í málum sem geta á einn eða annan hátt talist sambærileg. Bætur skulu taka mið af:

 

a)      alvarleika misgjörða eins og til dæmis hvort um hafi verið að ræða gróft líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Við mat á alvarleika skal hafa til hliðsjónar lengd vistunartíma og annarra atriða sem kunna að hafa gert dvölina þungbæra.

 

b)      alvarleika afleiðinga ofbeldis eða illrar meðferðar. Afleiðingar skulu metnar eftir missi tækifæra síðar í lífinu, tapi lífsgæða og andlegra afleiðinga misgjörðanna.

 

Skulu vistmanni metin miskastig, annarsvegar eftir alvarleika misgjörða og hinsvegar eftir alvarleika afleiðinga misgjörðanna. Mest geta miskastigin orðið 25 af hundraði vegna alvarleika misgjörða og 75 af hundraði vegna afleiðinga misgjörðanna. Fyrir fullan 100 stiga miska samkvæmt mati þessu skal greiða vistmanni kr. 6.000.000.

12. gr.

 

Telji sýslumaður forsendur til greiðslu bóta skal hann gera einstaklingi sem lýst hefur kröfu, skriflegt og bindandi sáttaboð þar sem boðnar verða bætur eftir mati sýslumanns. Sýslumanni er óskylt að rökstyðja sáttaboð. Telji sýslumaður ekki forsendur til bótagreiðslu skal hann hafna kröfunni skriflega og rökstyðja höfnunina. Skulu sáttaboð og hafnanir krafna er varða tiltekið heimili sendar öllum er lýst hafa kröfu vegna dvalar á því heimili samtímis. Skulu öll sáttaboð og tilkynningar um höfnun krafna sendar í ábyrgðarpósti, eða með öðrum sannanlegum og viðurkenndum hætti.

 

13. gr.

 

Vistmaður tekur eða hafnar sáttaboði. Veittur verður 30 daga frestur til að taka boðinu. Verði sáttaboði ekki tekið innan þess frests, telst því hafnað. Taki vistmaður boðinu áritar  hann  það með nafni sínu í votta viðurvist. Taki hann sáttaboði telst hann hafa afsalað sér frekari bótum vegna málsins.

14. gr.

 

Ekki er gert ráð fyrir greiðslu lögmannskostnaðar vegna framsetningar kröfu til sýslumanns, enda er gert ráð fyrir því að tengiliður geti aðstoðað vistmann nægilega við að setja fram kröfu og reifa hana.

 

15. gr.

 

Meðferð sýslumanns á umsókn um sanngirnisbætur verður ekki kærð til dómstóla.

 

16. gr.

 

Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur til allt að þriggja ára, án sérstakrar tilnefningar. Skipa skal jafn marga til vara. Einn nefndarmaður skal fullnægja skilyrðum þess að vera skipaður hæstaréttardómari og verður hann formaður nefndarinnar. Í nefndinni skal eiga sæti einn læknir og einn sálfræðingur. Varamenn skulu fullnægja sömu skilyrðum og aðalmenn. Er nefndinni heimilt að ráða sér starfslið í samráði við ráðherra.

 

17. gr.

 

Hafi vistmaður hafnað sáttaboði sýslumanns eða hafi kröfu hans verið hafnað, getur hann innan þriggja mánaða lagt mál sitt fyrir úrskurðarnefndina. Berist erindi ekki innan þess frests telst niðurstaða sýslumanns endanleg niðurstaða málsins.

 

18. gr.

 

Í erindi til úrskurðarnefndar skal greina helstu ástæður þess að niðurstöðu sýslumanns verði ekki unað og færa rök fyrir því að viðkomandi eigi ríkari rétt en niðurstaða sýslumanns ber vott um. Getur nefndin kallað til viðtals þann sem leitað hefur til hennar eða aðra sem varpað geta skýru ljósi á málið. Henni er það þó ekki skylt. Nefndin getur leitað eftir rökstuðningi sýslumanns fyrir afstöðu hans. Ber sýslumanni þá að veita slíkan rökstuðning. Úrskurðarnefndin hefur aðgang að öllum þeim gögnum sem nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur aflað og varða þann sem leitað hefur til hennar, án sérstakrar heimildar hans. Á þetta við um skjalfest gögn, afrit af hljóðupptökum og önnur gögn sem máli kunna að skipta. Telji úrskurðarnefndin þörf á að afla annarra gagna er varpað geta ljósi á málið og eru í vörslu opinberra aðila getur hún það að veittri heimild eða eftir umboði málsskotsaðila. Ef umsækjandi bóta telur að skýrsla sem hann hefur gefið á öðru stigi málsins sé ófullnægjandi, getur hann óskað eftir því að gefa aðra skýrslu fyrir úrskurðarnefndinni, eða skila til hennar greinargerð þar sem helstu atriði málsins koma fram.

 

19. gr.

 

Úrskurðarnefndinni er heimilt að veittu umboði umsækjanda að óska þess að læknir leggi mat á heilsufar hans ef telja má að það skipti máli við úrlausn nefndarinnar. Skal kostnaður sem hlýst af því greiddur úr ríkissjóði.

 

20. gr.

 

Hafi umsækjandi leitað aðstoðar lögmanns við framlagningu bótakröfu sinnar fyrir úrskurðarnefndina, er henni heimilt samhliða ákvörðun um bætur, að ákveða greiðslu kostnaðar sem af því hefur hlotist, enda liggi fyrir sundurliðuð og réttmæt tímaskýrsla lögmannsins. Ekki skal þó greiða hærri kostnað vegna þessa en kr. 150.000.

 

21. gr.

 

Úrskurðarnefndin metur sjálfstætt þau gögn sem hún hefur aflað og fyrir hana hafa verið lögð og tekur ákvörðun á grundvelli þeirra. Skal nefndin við úrlausn máls hafa til hliðsjónar réttarframkvæmd við ákvörðun skaðabóta og fordæmi dóma sem telja má á einhvern hátt sambærilega. Skal nefndin hraða úrlausn hvers máls eins og auðið er. Að lokinni yfirferð kveður nefndin upp skriflegan rökstuddan úrskurð. Skal niðurstaða nefndarinnar send umsækjanda í ábyrgðarpósti eða með öðrum viðurkenndum hætti.

 

22. gr.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er endanleg meðferð málsins á stjórnsýslustigi. Verði ekki höfðað mál fyrir héraðsdómi, til að hnekkja úrskurði hennar innan sex mánaða frá því úrskurður var kveðinn upp, telst hann endanleg niðurstaða málsins.

 

23. gr.

 

Allur kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

 


Skýrslan um Reykjahlíð, Jaðar og Silungapoll

Skýrsluna um Reykjahlíð, Jaðar og Silungapoll má nálgast rafrænt á þessari slóð.

Eftirfarandi er útlegging Morgunblaðsins á skýrslunni og kynningu hennar:

Meiri líkur en minni eru á því að hluti þeirra barna sem dvöldu á vistheimilinu Reykjahlíð í Mosfellsdal á tímabilinu 1961-1972 hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu karlmanns sem tengdist forstöðukonu heimilisins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu vistheimilanefndar.

Í þessari skýrslu Vistheimilanefndar var fjallað um þrjú heimili. Vistheimilið Reykjahlíð, Silungapoll og heimavistaskólann að Jaðri.

Vistheimilið Reykjahlíð í Mosfellssveit var starfrækt af Reykjavíkurborg á árunum 1956-1972. Það var ætlað fyrir 7-14 ára börn. 144 börn voru vistuð á heimilinu þann tíma sem það starfaði.

Vistheimilið Silungapollur var rekið af Reykjavíkurborg á árunum 1950-1969. Það var ætlað fyrir börn á árunum 3-7 ára. Þar voru vistuð 951 barn á starfstíma heimilisins.

 Heimavistarskólinn að Jaðri var rekið af fræðsluyfirvöldum í Reykjavík á árunum 1946-1973. Skólinn var ætlaður drengjum á aldrinum 7-13 ára sem ekki áttu samleið með öðrum börnum í skóla. Lengst af voru 25-30 drengir í skólanum ár hvert en 378 einstaklingar voru í skólanum á starfstíma hans. Stúlkur voru einnig í skólanum um tíma.

Aðeins 74 af þeim 951 einstaklingum sem dvöldu á Silungapolli komu fyrir nefndina, en þar af gat nefndin stuðst við framburð 60 einstaklinga. Hafa ber í huga að börnin voru mjög ung þegar þau dvöldu á heimilinu. Vistheimilanefnd telur ekki séu forsendur til að álykta með þeim hætti að meiri líkur en minni séu á að þeir vistmenn sem komu fyrir nefndina hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi á Silungapolli í þeirri merkingu sem lögin skilgreina sem nefndin starfar eftir.

Nefndin gerir hins vegar athugasemdir við starfsemi vistheimilisins að Silungapolli. Hún telur verulega gagnrýnisvert að á Silungapolli hafi verið á sama tíma verið vistuð börn vegna barnaverndarstarfs og hins vegar börn sem dvöldu sumarlagt á vegum Rauða kross Íslands.  Húsakostur hafi ekki verið fullnægjandi og of mörg börn hafi verið á heimilinu. Eftirlit hafi verið takmarkað og ekki fullnægjandi.

Nefndin skiptir umfjöllun um Reykjahlið í tvennt, en tvær forstöðukonur stýrðu heimilinu þann tíma sem það starfaði.  Nefndin komst að sömu niðurstöðu og hvað varðar Silungapoll, að þegar á heildina er litið verði ekki talið að vistmenn hafi sætt yllri meðferð eða ofbeldi af hálfu starfsmanna eða annarra vistamanna. Hins vegar hafi vistmenn sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu gestkomandi einstaklings. Þetta er sambærilegt tilvik og var á Kumbaravogi þar sem gestkomandi maður beitt börn kynferðislegu ofbeldi þó atvik og aðstæður sé ekki með alveg sama hætti.

Kynferðislegt ofbeldi

Tveir af  fimm körlum sem gáfu skýrslu greindu frá kynferðislegu ofbeldi. Annar þeirra, en hann dvaldi á heimilinu á fyrri hluta þessa tímabils, sagðist hafa orðið vitni að kynferðislegu ofbeldi gagnvart mjög ungri stúlku sem dvaldi á heimilinu, hún hefði líklega verið tveggja til þriggja ára á þessum tíma.

Fram kemur í skýrslunni að á Reykjahlíð hefði oft dvalið næturlangt karlmaður  sem tengst hefði forstöðukonunni, sem starfaði á árunum 1961-1972. Vitni sem kom fyrir nefndina segir að hann hafi í eitt tilgreint skipti orðið vitni að því er karlmaðurinn hefði farið með fingurna upp í kynfæri stúlku sem þar dvaldi.

Minntist hann þess að vistmenn á heimilinu hefðu rætt um það sín á milli að maðurinn væri að misnota stúlkur á heimilinu kynferðislega. Sagði hann að lokum að sér fyndist sárt að ræða um þessa minningu og að hún hefði að ákveðnu marki orðið til þess að mynda hjá honum napra afstöðu til karlmanna.

Hinn maðurinn greindi frá því að hann hefði mátt þola kynferðislegt ofbeldi af hálfu karlmanns sem starfaði af og til við smíðar og þess háttar á heimilinu. Rétt er að taka fram að ekki er um sama manninn að ræða, að því er segir í skýrslunni.

Hann hefði mætt góðu viðmóti og athygli frá þessum karlmanni og hænst að honum en hann verið í brýnni þörf fyrir athygli á þessum tíma vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna. Maðurinn hefði í eitt tilgreint skipti beitt sig kynferðislegu ofbeldi, bæði með því að þvinga hann til munnmaka og reyna að eiga við hann mök í endaþarm. Hann hefði hljóðað upp þegar maðurinn reyndi að setja getnaðarliminn inn í endaþarminn. Hann taldi að starfsfólk hefði orðið þess vart að eitthvað óeðlilegt ætti sér stað. Samt sem áður hefði maðurinn ekki látið af störfum og háttsemi mannsins ekki verið kærð til lögreglu. Honum fannst viðmót forstöðukonunnar breytast gagnvart sér eftir þetta atvik. Þetta hefði verið honum erfið lífsreynsla og að hann væri mjög bitur vegna þess.

Úr hópi þeirra níu kvenna sem greindu með neikvæðum hætti frá dvöl sinni greindu fjórar frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu fyrrgreinds karlmanns sem tengdur var forstöðukonunni og dvaldi af og til næturlangt á heimilinu. Tvær konur greindu frá því að hafa orðið vitni að því þegar hann beitti stúlkur kynferðislegu ofbeldi en áður hefur verið gerð grein fyrir frásögn karlmanns sem kvaðst hafa orðið vitni að því er maðurinn beitti barnunga stúlku kynferðislegu ofbeldi.

Þá greindu aðrar tvær konur frá því að hafa merkt að hegðun vistmanna tók breytingum þegar maðurinn dvaldi á heimilinu. Konurnar sem upplýstu um háttsemi mannsins dvöldu allar á fyrri hluta þessa tímabils, hluti þeirra einnig á síðari hluta tímabilsins, og voru þær á aldrinum 6-16 ára þegar þær dvöldu á heimilinu.

Frásagnir þriggja kvenna úr hópi fyrrgreindra fjögurra sem greindu frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins voru mjög áþekkar um háttsemi hans. Konurnar voru á aldrinum 6-12 ára á þeim tíma er maðurinn vandi komur sínar á heimilið en hann lést samkvæmt opinberum upplýsingum árið 1966.

Greindu þær frá því að hann hefði í skjóli nætur komið inn á herbergi þeirra, sest á rúmstokkinn og beitt þær kynferðislegu ofbeldi. Tvær greindu frá því að hann hefði farið með fingurna inn fyrir nærbuxurnar sem þær klæddust og átt við kynfærin.

Ein greindi frá því að hann hefði gert tilraun til þess en ekki tekist en þess í stað nuddað sængina við kynfæri hennar. Fjórða konan greindi frá því að hafa orðið fyrir mjög grófu kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins en frásögn hennar var ólík hinna og ótrúverðug að mati nefndarinnar.

Tvær konur úr þessum hópi greindu frá því að hafa upplýst forstöðukonuna um kynferðisofbeldi mannsins. Hún hefði brugðist illa við frásögn þeirra og ásakað þær um að segja ósatt um háttsemi hans, látið niðrandi orð falla um þær og beitt þær hótunum ef þær létu ekki af ásökunum í hans garð.

Eins og að ofan er getið greindu tvær konur frá því að hafa orðið vitni að kynferðislegu ofbeldi mannsins gagnvart öðrum stúlkum. Önnur þeirra, sem er ein þeirra þriggja sem að ofan er getið og kvaðst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu mannsins, greindi frá því að hann hefði beitt stúlkur sem hún deildi herbergi með samskonar ofbeldi og hana sjálfa sem hefði falist í því að hann átti við kynfæri þeirra.

Þá greindi kona sem dvaldi á heimilinu á unglingsaldri frá því að hafa orðið vitni að kynferðislegu ofbeldi mannsins gagnvart barnungri stúlku en um sömu stúlku er að ræða og karlmaður sem dvaldi á heimilinu greindi frá að hafa séð verða fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins.

Var frásögn hennar um háttsemi mannsins mjög áþekk lýsingum fyrrgreindra þriggja kvenna sem greindu frá að hafa sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins inni á herbergi á vistheimilinu. Kvaðst hún minnast þess sérstaklega að heyra börnin hvísla sín á milli þegar maðurinn kom á heimilið að mögulega færi hann inn til stúlkunnar.

Mikil spenna hefði myndast í barnahópnum við komu hans og hún verið mjög kvíðin fyrsta kvöldið sem maðurinn hefði komið á heimilið eftir að dvöl hennar hófst, en hún hefði deilt herbergi með stúlkunni. Maðurinn hefði um kvöldið eða í byrjun nætur komið inn á herbergið. Kvaðst hún hafa heyrt þegar hann settist á rúmið hjá stúlkunni og verið þar í einhvern tíma, líklega 10 mínútur. Hún hefði ekki séð hvað hann var að gera við stúlkuna en heyrt hljóð þegar hann sat á rúminu hjá henni og þá verið sannfærð um að eitthvað óeðlilegt ætti sér stað. Þetta hefði átt sér stað í þetta eina skipti svo hún vissi til en hún hefði fljótlega eftir þennan atburð verið flutt í annað herbergi og því ekki haft vitneskju um hvort fyrrgreindur maður hefði oftar haft í frammi slíka hegðun gagnvart stúlkunni.

Konurnar tvær sem upplýstu um að hegðun vistmanna hefði breyst þegar maðurinn var gestkomandi á heimilinu greindu frá því að ótti eða spenna hefði myndast hjá vistmönnum þegar hann var gestkomandi á heimilinu.

Önnur þeirra var á aldrinum 8- 9 ára og hin á aldrinum 6-8 ára. Önnur greindi frá því að ein stúlka hefði grátið mikið vegna komu hans á heimilið. Minntist hún þess að stúlkur sem voru með henni í herbergi hefðu verið með belti á náttfötunum og axlabönd til að varna því, að hún taldi, að hann leitaði á stúlkurnar kynferðislega.

Á hinn bóginn kvaðst hún sjálf ekki hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hans hálfu né hafa orðið þess vör að hann hefði slíka háttsemi í frammi við stúlkurnar sem hún deildi herbergi með eða við önnur börn á heimilinu. Hin konan greindi einnig frá því að stúlkur hefðu sofið með belti og axlabönd að hún teldi til að varna því að maðurinn leitaði á þær kynferðislega. Hún hefði þó ekki orðið fyrir því af hans hálfu eða orðið vitni að því gagnvart öðrum stúlkum. Samt sem áður hefði koma mannsins á heimilið valdið henni vanlíðan og ótta við að hann beitti hana ofbeldi. Auk þessa greindi þriðja konan frá því að hafa sofið með belti og axlabönd þegar hún dvaldi á heimilinu og hafa fundist það einkennilegt þar sem hún hefði ekki vanist því heima frá sér.

Tvær konur greindu frá því að hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi af hálfu drengja á heimilinu. Önnur þeirra dvaldi þar á fyrri hluta þessa tímabils þegar hún var 9 ára og hin dvaldi á heimilinu á seinni hluta þessa tímabils þegar hún var 12 ára. 

Auglýstu í fjölmiðlum

Á annað þúsund einstaklingar voru vistaðir þessum stofnunum á starfstíma þeirra. Nefndin leitaðist við að hafa upp á þeim einstaklingum sem dvöldu á þessum stofnunum og birti m.a. auglýsingar í fjölmiðlum þar sem þeim var boðið að hafa samband við nefndina.

Aðeins um 4% þeirra sem dvöldu á Silungapolli höfðu samband við nefndina. Hlutfallið var um 29% í Reykjahlið og 14% á Jaðri.

Formaður Vistheimilanefndar er Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, en með honum í nefndinni sitja Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Land­spítalanum, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og  Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Þuríður B. Sigurjónsdóttir lög­fræðingur.

Nefndin var upphaflega skipuð af forsætis­ráð­herra með erindisbréfi, í apríl 2007. Nefndinni var í fyrstu falið að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950-1980 og skýrsla um hana kom út í ársbyrjun 2008.

Í apríl það ár voru samþykkt lög um að nefndin skyldi starfa áfram og var þá tekin ákvörðun um að sjö tilgreindar stofnanir skyldu í fyrstu sæta könnun. Þetta voru Vistheimilið Kumbaravogur, Heyrnleysingjaskólinn, Stúlknaheimilið Bjarg, Vistheimilið Reykjahlíð, Heimavistarskólinn Jaðar, Uppeldisheimilið Silungapollur og Upptökuheimili ríkisins/Unglingaheimili ríkisins  

Nefndin hefur lokið við áfangaskýrslu um könnun á starfsemi Heyrnleysingjaskólans  Kumbaravogs og Bjargs og var hún birt opinberlega í ágúst á síðasta ári.

 

 


Guðrún verður tengiliður

Vísir, 15. sep. 2010 12:00

Guðrún Ögmundsdóttir er tengiliður vegna vistheimila

Guðrún Ögmundsdóttir félagsráðgjafi sinnir starfi tengiliðar vegna vistheimila. Mynd/ E. Ól.
 
Guðrún Ögmundsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi alþingismaður, hefur verið ráðin í starf tengiliðar vegna vistheimila. Hún mun hefja störf 20. september næstkomandi.

Fram kemur í frétt á vef stjórnarráðsins að starf tengiliðar felst í að koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal tengiliðurinn aðstoða fyrrverandi vistmenn, sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar, við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun.

Sýslumaðurinn á Siglufirði annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

Rýnt ofan í kröfugerðina

Sælir félagar. Stjórn Breiðavíkursamtakanna hefur ákveðið að halda félagsfund þriðjudagskvöldið 14. september kl. 20 (eftir 6 daga) í fundarsalnum hjá ReykjavíkurAkademíunni við Hringbraut (JL-húsinu fyrir ofan Nóatún).
 
Á dagskrá: Framfylgd sanngirnisbótamálsins og önnur mál.
 
Vonandi verður þá ljóst hver hafi verið ráðinn starfsmaurinn "Tengiliður vistheimila", ljóst hverjar reglur sýslumanns verða, hvenær auglýst verður eftir kröfum og þar með hvenær kröfulýsingarfrestur byrjar að tikka hjá þeim sem fyrsta skýrsla Spanó-nefndarinnar nær til.
 
Farið verður yfir öll þessi mál og reynt að svara spurningum sem uppi kunna að vera.
 
Við sjáumst þá öll hress og baráttuglöð 14. september.
 
Stjórnin

Lögfræðikostnaður bara endurgreiddur vegna úrskurðarnefndar

Samtökin hafa fengið staðfest frá forsætisráðuneytinu þann skilning, sem fram hefur komið sjá sýslumannsembættinu á Siglufirði, að ákvæðið um endurgreiddan lögfræðikostnað (allt að 10 klst) eigi eingöngu við í þeim tilvikum að synjun eða óásætttanlegt sáttatilboð fari fyrir úrskurðarnefnd.

Þetta þýðir að ríkið hafi ekki hugsað sér að endurgreiða lögfræðivinnu sem felur í sér aðstoð við að útfylla upphaflega kröfugerð til sýslumanns með til þess gerðu eyðublaði.

Í svari um þetta segir talsmaður ráðuneytisins: "Hugsunin var sú að málsmeðferð á fyrsta stigi yrði sem einföldust, fljótlegust og ódýrust" og þann skilning má lesa að kröfuhafar sjálfir og með aðstoð sérstaks tengiliðs geti annast um upphaflegu kröfugerðina. "Hugsunin var sú að málsmeðferð á fyrsta stigi yrði sem einföldust, fljótlegust og ódýrust", segir ráðuneytið.

 Eftirfarandi er að finna á slóð sýslumanna:

"Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur falið sýslumanninum á Siglufirði að annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur til barna vegna illrar meðferðar sem þau sættu við dvöl á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins. Skulu greiðslur á bótum miðaðar við skýrslu nefndar sem kannað hefur starfsemi hvers heimilis fyrir sig.

Heimilin sem um er að ræða eru:

a)    vistheimilið Breiðavík 

b)     Heyrnleysingjaskólinn 

c)     vistheimilið Kumbaravogur 

d)     skólaheimilið Bjarg 

e)     vistheimilið Reykjahlíð

f)      vistheimilið Silungapollur

g)     heimavistarskólinn Jaðar

h)     Upptökuheimili ríkisins

i)      Unglingaheimili ríkisins

Rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur kannað starfsemi heimilanna á tilteknu tímabili og skilað skýrslum um starfsemi þeirra, þó að undanskildum tveimur síðustu heimilunum, en skýrslum vegna þeirra verður skilað á árinu 2011.

Starf tengiliðar

Ráðinn verður tengiliður sem skal veita þeim aðstoð sem telja sig eiga rétt á bótum. Tengiliðurinn mun hafa starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu og annast upplýsingagjöf og aðstoð við framsetningu á bótakröfum til ríkisins.

Reiknað er með að tengiliður hefji störf þann 1. september nk. og framsetning bótakrafna geti hafist skömmu síðar.

Skilyrði bótagreiðslu

Skilyrði fyrir bótagreiðslu eru að viðkomandi hafi verið vistmaður á einu af þeim heimilum sem talin eru upp hér að ofan á því tímabili sem athugun rannsóknarnefndar nær yfir og hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi sem leiddi til varanlegs skaða.

Innköllun krafna

Þegar tengiliður hefur hafið störf mun sýslumaður gefa út innköllun krafna vegna eins eða fleiri heimila í einu. Munu auglýsingarnar birtast tvívegis í dagblöðum og verður skorað á alla þá sem voru vistmenn á viðkomandi heimili á tilgreindum tíma og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan á dvölinni stóð, að setja fram kröfu um bætur til sýslumanns. Viðkomandi getur óskað aðstoðar tengiliðar við framsetningu kröfunnar.

Framsetning krafna /eyðublað

Kröfur skulu settar fram á sérstöku eyðublaði sem verður aðgengilegt á netinu og víðar. Umsækjandi bóta þarf að geta sannað á sér deili verði þess krafist. Á eyðublaðinu verður unnt að veita sýslumanni heimild til að afla allra gagna sem kunna liggja fyrir hjá rannsóknarnefnd vegna heimilanna. Verði sú heimild ekki veitt, má búast við að sönnun tjóns verði erfiðari en ella. Rétt er þó að hafa í huga að ekki voru allir sem gætu átt rétt á bótum kallaðir til viðtals hjá nefndinni.

Frestur til að leggja fram bótakröfu eftir síðari birtingu innköllunar er þrír mánuðir.

Berist krafan ekki innan frestsins fellur hún niður.

Tengiliður mun veita aðstoð við framsetningu kröfu ef þörf krefur. Ekki er gert ráð fyrir að tjónþoli þurfi aðstoð lögmanns við að setja fram kröfu og verður kostnaður vegna starfa lögmanns ekki greiddur sérstaklega.

Sáttaboð sýslumanns

Þegar innköllunarfresti er lokið fer sýslumaður yfir kröfurnar og tekur afstöðu til þeirra. Kröfum sem hann telur ekki á rökum reistar skal hafnað með rökstuddu bréfi. Telji sýslumaður grundvöll til bótagreiðslu, skal hann gera viðkomandi sáttaboð. 

 Úrskurðarnefnd

Tjónþoli getur hafnað sáttaboði sýslumanns eða samþykkt það. Hafni hann boðinu, eða hafi kröfu hans verið hafnað, getur hann innan þriggja mánaða skotið málinu til úrskurðarnefndar. Skal nefndin yfirfara kröfuna og öll gögn með ítarlegum hætti og kveða upp úrskurð. Er tjónþola heimilt að ráða sér lögmann til aðstoðar til að reka mál fyrir nefndinni og mun ríkissjóður greiða kostnað sem af því hlýst, en þó eigi hærri en kr. 150.000.  Úrskurður nefndarinnar er endanlegur og verður honum ekki hnekkt nema fyrir dómi.

Greiðsla bóta

Ef fallist verður á bótakröfu, hvort sem það er á grundvelli sáttaboðs eða með úrskurði úrskurðarnefndar, verða bætur undir tveimur milljónum króna greiddar út strax. Nemi bætur hærri fjárhæð verða þær greiddar með afborgunum. Bætur bera ekki vexti en eru verðtryggðar.

Bætur eru skattfrjálsar og munu ekki skerða aðrar greiðslur eins og t.d. úr lífeyrissjóðum eða almannatryggingum.

Kröfur njóta erfðaréttar

Ef tjónþoli hefur sett fram kröfu til sýslumanns en andast áður en krafa hans er tekin til meðferðar, fer um kröfuna eftir erfðalögum. Geta þá lögerfingjar hans haldið kröfunni frammi. Lögerfingjar eru börn viðkomandi eða fjarskyldari ættingjar. Ef tjónþoli hefur látist áður en krafa var sett fram geta börn hans haldið henni frammi. Í slíkum tilvikum getur sönnun tjóns orðið erfið

Búast má við að fyrstu bætur verði greiddar snemma ársins 2011.

Nánari upplýsingar veita Halldór eða Ásdís hjá sýslumannsembættinu á Siglufirði í síma 460 3900. Einnig má senda fyrirspurnir á netfangið halldor@syslumenn.is.


Skýrslu um Silungapoll, Reykjahlíð og Jaðar frestað

Vistheimilanefnd hefur frestað um tvo mánuði útgáfu skýrslu um starfsemi Silungapolls, Reykjahlíðar og heimavistarskólans Jaðars. Til stóð að ljúka við skýrsluna og kynna efni hennar nú um mánaðamótin. Róbert R. Spanó formaður nefndarinnar segir að könnun nefndarinnar undanfarin misseri hafi hins vegar verið afar umfangsmikil.

Þegar hafi verið rætt við um 200 manns, fyrrverandi vistmenn, nemendur og fleiri. Gagnaöflun nefndarinnar hafi verið tímafrek og hafi henni borist mörg skjöl. Um 1.500 börn og unglingar dvöldu á þessum stofnunum og voru þær starfræktar um árabil. Stefnt er að því að birta skýrsluna 31. ágúst.

frettir@ruv.is


Bótakröfur settar fram í september

Visir.is: "Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur falið sýslumanninum á Siglufirði að annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins. Þá mun dómsmála- og mannréttindaráðuneytið auglýsa á næstu dögum laust til umsóknar starf tengiliðar sem meðal annars hefur það hlutverk að koma á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum.


Verkefni sýslumanns felst meðal annars í því að skora á þá sem telja sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum um sanngirnisbætur að lýsa kröfum sínum með auglýsingu eða svo kallaðri innköllun í Lögbirtingablaði og dagblaði. Þeir sem telja sig eiga rétt til bóta skulu lýsa kröfum sínum innan þriggja mánaða frá síðari birtingu í Lögbirtingablaði á sérstöku eyðublaði sem sýslumaður útbýr. Hann skal jafnframt fara yfir þær kröfur sem berast og taka afstöðu til þeirra. Að því búnu skal hann gera viðkomandi einstaklingi skriflegt og bindandi sáttaboð að höfðu samráði við ráðherra, að því er fram kemur í tilkynningu frá dómsmála- og mannaréttindaráðuneytinu.

Embætti sýslumannsins á Siglufirði annast alla umsýslu og afgreiðslu mála hjá bótanefnd samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Er starfsmaður bótanefndar staðsettur hjá embættinu. Hjá embættinu er því bæði til staðar þekking og reynsla við meðferð bótakrafna sem gerir embættið vel í stakk búið til þess að takast á hendur þessi verkefni.

Tengiliður ráðinn fyrir ágústlok

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið mun á næstu dögum auglýsa laust til umsóknar starf tengiliðar sem skal leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna eftir að sýslumaður hefur kallað eftir þeim. Hann skal einnig aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Um fullt starf að ræða og ráðgert er að starfsstöð tengiliðar verði hjá opinberri stofnun á grundvelli þjónustusamnings.

Gert er ráð fyrir því að búið verði að ráða í starf tengiliðar fyrir ágústlok og stefnt er að því að innköllun krafna hefjist í september".

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband