Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skýrsla um Kumbaravog, Bjarg og Heyrnleysingjaskólann

 Og þá er komin Spanónefndar-skýrsla um Kumbaravog, Bjarg og Heyrnleysingjaskólann. Fréttin sem færsla þessi er tengd við segir frá afsökunarbeiðni Jóhönnu til fyrrum vistbarna og nemenda þessara stofnana, en hér að neðan er að finna texta Eyjunnar um skýrsluna og hvað Jóhanna Forsætis er nú að boða. Einnig er neðst að finna tengil á tilkynningu forsætisráðuneytisins og skýrsluna sjálfa.

 

Innlent - þriðjudagur - 8.9 2009 - 18:16

Forsætisráðuneytið: Lög verða sett um skattfrjálsar bætur vegna misgjörða á vistheimilum. Eftirlit bætt

stjornarrad5.jpgRíkisstjórnin hefur ákveðið að sett verði almenn lög um bætur vegna misgjörða á vistheimilum og að skipuð verði bótanefnd sem tengiliður vistmanna starfar með.

Þetta eru meðal fyrstu viðbragða ríkisstjórnarinnar við skýrslu vistheimilisnefndar um Heyrnleysingjaskólann, Kumbaravog og skólaheimilið Bjarg, sem skýrt er frá í tilkynningu forsætisráðuneytisins nú undir kvöld.

Þar er einnig rætt um skattfrelsi bóta og erfðarétt vegna einstaklinga sem fallið hafa frá og jafnframt að eftirlit með vistheimilum af hálfu hins opinbera verði bætt.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem segir þessa atburði svartan blett í sögu þjóðarinnar, og Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra, báðust formlega afsökunar á misgjörðunum fyrir hönd stjórnvalda í dag. Félagsmálaráðherra viðurkennir að opinbert eftirlit með starfsemi vistheimilanna hafi í öllum tilvikum brugðist.

Samkvæmt fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins ákvað ríkisstjórnin ákvað eftirfarandi sem fyrstu viðbrögð:

“1. Starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins verði falið að semja drög að frumvarpi til laga þar sem mælt verði fyrir um greiðslu bóta til þeirra sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum er heyra undir gildissvið laga nr. 26/2007. Þar verði byggt á þeim viðræðum sem þegar hafa átt sér stað milli ráðuneytisins og Breiðavíkursamtakanna en hliðsjón höfð af niðurstöðum vistheimilisnefndar í hinni nýju áfangaskýrslu. Stefnt verði að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi fljótlega eftir að haustþing kemur saman.

2. Starfshópi á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins verði falið að undirbúa stefnumótun stjórnvalda í málefnum heyrnarlausra með hliðsjón af áður fram komnum tillögum og áfangaskýrslu vistheimilisnefndar.

3. Ítrekað verði að úrræði þau á sviði geðheilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisyfirvöld komu á laggirnar í kjölfar skýrslu vistheimilisnefndar um Breiðavíkurheimilið standi einnig til boða fyrrverandi vistmönnum á öðrum heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.

4. Félags- og tryggingamálaráðherra taki mið af áfangaskýrslunni við endurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd og eftirliti á því sviði.

Sett verði almenn lög

Að því er varðar mögulegar bætur til fyrrverandi vistmanna á heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 þá hefur forsætisráðuneytið frá því í apríl síðastliðnum átt í viðræðum og bréfaskiptum við Breiðavíkursamtökin. Er þar meðal annars rætt um hvernig megi endurbæta það frumvarp sem þáverandi ríkisstjórn hafði látið vinna vorið 2008 og kynnt hafði verið samtökunum á þeim tíma. Það frumvarp var meðal annars gagnrýnt fyrir að bætur væru of lágar og of mikil áhersla lögð á að sýnt væri fram á geðrænar afleiðingar vistunar. Síðustu samskipti voru þau að ráðuneytið sendi bréf með ákveðnum hugmyndum 8. júlí sl. og Breiðavíkursamtökin svöruðu með bréfi dags. 18. ágúst sl. Ráðuneytið hafði lýst sig reiðubúið til að útfæra bráðabirgðasátt varðandi Breiðavíkurheimilið á grundvelli núgildandi fjárheimilda en því var hafnað.

Þess vegna er áfram unnið að því að sett verði almenn lög sem geti átt við um bætur vegna misgjörða á öllum þeim heimilum sem koma til skoðunar á grundvelli laga nr. 26/2007 um vistheimilisnefnd. Áður en rætt er um fjárhæðir í einstaka tilfellum er mikilvægt að ná sátt um aðferðafræðina við ákvörðun bóta, þ.e. rammann um sátt samfélagins við þá sem eiga um sárt að binda eftir dvöl á vistheimilum fyrir börn.

Meginatriði löggjafar

Ráðuneytið sér fyrir sér að meginatriði löggjafar verði þessi:

a. Sett verði á fót bótanefnd en samhliða henni starfi tengiliður vistmanna við stjórnvöld er aðstoði fyrrverandi vistmenn við að ná fram rétti sínum, m.a. varðandi félagslega aðstoð, heilbrigðisþjónustu og menntun. Þegar skýrsla vistheimilisnefndar liggur fyrir verði auglýst eftir þeim sem telja sig eiga rétt á bótum.

b. Bótanefnd geti úrskurðað almennar bætur er nemi tiltekinni fjárhæð, sem eftir er að ákveða, og sé meginskilyrði að vistmaður hafi sjálfur orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan vistun stóð.  Ekki verði um strangar sönnunarkröfur að ræða.

c. Í sérstökum tilfellum verði heimilað að hækka bætur að álitum. Hækkun bóta geti m.a. komið til vegna alvarleika ofbeldis eða illrar meðferðar, aðdraganda vistunar eða tímalengdar vistunar.

d. Kveðið verði á um skattfrelsi bóta, erfðarétt vegna einstaklinga sem fallnir eru frá, aðgang bótanefndar að gögnum vistheimilisnefndar til að einfalda málsmeðferð og lögmannsaðstoð.

Forsætisráðherra mun nú fela starfshópi að undirbúa frumvarp á grundvelli samskipta ráðuneytisins við Breiðavíkursamtökin og í ljósi fyrstu áfangaskýrslu vistheimilisnefndar sem fjallar um þrjú heimili til viðbótar eins og áður segir. Samráð verður haft við samtök fyrrverandi vistmanna og hlutaðeigandi sveitarfélög.

Skýrsla vistheimilisnefndar verður lögð fram á Alþingi í næsta mánuði,” segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.

Skýrsla vistheimilanefndar í heild

 


mbl.is Jóhanna biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavíkurlífið um 1980

Á þessari slóð er hægt að hlusta á mjög fróðlegt viðtal Jónasar Jónassonar frá því um 1980 við nafna sinn, forstöðumann á Breiðavík um 1980, við uppeldisfulltrúa þar og tvo ónafngreinda "vistmenn".

Þetta er löngu á eftir ofbeldisfyllsta tímabilið og vistmenn orðnir miklu færri en áður, en kvartanir forstöðumannsins eru athyglisverðar; heimilið fjárvana, engin eftirfylgni eftir vistun og öll loforð um umbætur vanalega svikin. Uppeldisfulltrúinn er ekki glöð heldur og enn síður piltarnir tveir sem rætt er við - og einhver depurð að svífa yfir vötnunum, hálfgert vonleysi. Holl hlustun.

Gaman væri að fá komment frá fyrrum vistmönnum þessa tímabils, um 1978-1980. Að öllum líkindum var endanlega búið að loka breiðavík skömmu eftir viðtalið. Kannski átti það sinn þátt í því!?

 

 


Bárður á Bylgjunni

Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna, var í viðtali hjá Sigurjóni Egilssyni á Bylgjunni í morgun. Viðtalið var að sjálfsögðu mjög fróðlegt og rétt að benda félagsmönnum og öðrum landsmönnum á að hægt er að hlusta á viðtalið á vefsíðu Bylgjunnar, en það fylgir einnig þessari færslu sem skrá á MP3 formi.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áfram á sömu braut

Halda áfram á sömu braut - það var nokkurn veginn niðurstaða fjölmenns félagsfundar Breiðavíkursamtakanna sl. þriðjudagskvöld, þar sem ræddur var gangur mála í viðræðunum við forsætisráðuneytið um sanngirnisbætur. Ýmiss konar gagnrýni kom fram á síðasta útspil (bréf) forsætisráðuneytisins og tillögur um viðbrögð við bréfinu og að því mun stjórnin vinna.

Í téðu bréfi ráðuneytisins var einnig að finna uppástungu um "sáttlausn" sem skyldi vera fólgin í útgreiðslu á því fé sem fyrir liggur með sérstakri fjaraukalagasamþykkt, sem upprunalega nam 125 milljónum, en hefur áreiðanlega rýrnað, því inni í þeirri tölu var kostnaður vegna Vistheimilanefndar. Einn félagsmaður lagði fram tillögu um að fallist yrði á þá sáttalausn en tillagan var felld með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Segja má að viðræðurnar um bótamálin hafi þokast áfram, en um þá þróun hefur áður verið fjallað hér á síðunni. Þá er vert að benda mönnum á umfjöllun í síðasta Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem er nokkuð greinargóð um stöðu og þróun þessara mála.

Að óbreyttu er reiknað með því að forsætisráðherra leggi fram bótafrumvarp á komandi haustþingi og verkefni samtakanna því að nýta tímann fram að því til að hafa áhrif á frumvarpssmíðina.


Og þá tökum við þrjú skref áfram!

 Eins og sagt var frá hér á bloggsíðunni í gær hefur samtökunum borist bréf frá forsætisráðuneytinu og í Morgunblaðinu í dag (sbr. viðtengd frétt) tjáir Bárður R. Jónsson formaður sig um bréfið. Hann bendir réttilega á að viss atriði í bréfinu séu neikvæð, en tekur jafnframt fram að stjórnvöld vilji vinna að málinu í sátt við stjórnvöld og að útspilinu sem slíku sé fagnað.

Við ræðum efni bréfsins á félagsfundinum sem boðaður hefur verið n.k. þriðjudagskvöld (sjá síðustu færslu), en umsjónarmaður þessarar bloggsíðu bendir á neðangreinda færslu á bloggsíðu ritara stjórnar samtakanna (sem er einn og sami maðurinn!):

 "Ég er stjórnarmaður í Breiðavíkursamtökunum og tek að sjálfsögðu undir að viss atriði í nýju útspili (bréfi) forsætisráðuneytisins eru alls ekki jákvæð. Og fela jafnvel í sér afturför. En eins og Bárður formaður þá fagna ég líka (það stendur þarna í fréttinni) að unnið sé að málinu í sátt við Breiðavíkursamtökin, útspilinu er almennt fagnað og áfram munu viðræðurnar halda.

Staðreyndin er sú að viðræðurnar um bætur hafa skilað aðilum nokkuð áleiðis, þótt sumir vilji fara hraðar en aðrir og hugmyndir sumra um sanngjarnar bætur allt aðrar en hugmyndir annarra um hvað geti talist sanngjarnt í þessu efni.  Klárlega - og það er mín skoðun - eru viðræðurnar að þoka málinu áfram hvað aðferðarfræði varðar; menn eru ekki að þjarka um upphæðir eins og er. 

Og klárlega setti ráðuneytið í bréfið klásúlu sem leggst illa í fyrrum vistbörn á Breiðavík, þ.e. um mikla takmörkun á greiðslu bóta til erfingja látinna fyrrum vistbarna. Af um 150 fyrrum vistbörnum á Breiðavík 1954-1980 eru líklega 35-36 látin (sem er óhugnanlega hátt hlutfall hjá nú miðaldra fólki) og samkvæmt klásúlunni ættu aðeins erfingjar 2-3 þeirra að fá bætur (þ.e. vegna fyrrum vistbarna sem náðu að gefa Vistheimilanefnd skýrslu fyrir andlátið!). Þegar á þetta var bent í gær var ráðuneytið hins vegar fljótt að taka fram að viðkomandi orðalag yrði tekið til endurskoðunar

Ég skil gremju formannsins mjög vel og eins er ég sammála honum um að það sé takmarkað skjól í því að bera efnahagsástandið fyrir sig. Þessar bætur eru "smámunir" miðað við ýmislegt sem er að taka til sín fjármuni úr ríkissjóði. Og það má alltaf semja um tilhögun greiðslu bótanna, t.d. dreifa afborgunum. Eru menn ekki að tala um bætt efnahagsástand strax eftir næsta ár? Og enn vil ég vitna í Gylfa Ægisson: Ef það eru ekki til peningar fyrir Breiðavíkurbörnin þá eru ekki til peningar fyrir Icesave.

Ég vil persónulega ekki túlka það sem viljaleysi hjá stjórnvöldum að bótamálið gangi ekki hraðar fyrir sig. Mál þessi hafa þó þokast áfram eftir að Jóhanna tók við í forsætisráðuneytinu í upphafi þessa árs. Og það er samkvæmt vilja Breiðavíkursamtakanna að ekki var stefnt að samkomulagi um frumvarp nú á sumarþingi, heldur stefnt á haustþing, enda ástæða til að þoka hugmyndum um bótarétt og upphæðir upp á við".

 www.lillo.blog.is/blog/lillo/entry/911476/


mbl.is Ný tillaga í Breiðavíkurmálinu skref aftur á bak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistheimilabörnin og Icesave

Gylfi Ægisson tónlistarmaður sagði á dögunum: Ef það er ekki til peningur til að borga Breiðavíkurbörnum þá er ekki til peningur til að borga Icesave. Bæta má við: Tökum milljarðana þrjá sem Björgólfarnir vilja fá afskrifaða og setjum í Vistheimila-bótasjóð.

Félagsmenn í BRV athugið: Það hefur borist bréf frá forsætisráðuneytinu og í ljósi þess er boðað til félagsfundar næstkomandi þriðjudagskvöld 14. júlí kl. 20 í fundarsalnum í Reykjavíkurakademíunni (JL-húsinu) við Hringbraut.Við ræðum þar efni bréfsins og viðbrögð við því.


Tafir á skýrslu Spanó-nefndarinnar

 Nú virðist ljóst að skýrsla Vistheimilanefndar (Spanó-nefndar) um nokkur vistheimili (og stofnanir) verður ekki tilbúinn um 1. júlí eins og ráð var fyrir gert og samkvæmt tilkynningu nefndarinnar, sem segir frá í þessari frétt, þá kann að vera allt að því heilt ár að niðurstöður birtist hvað Reykjahlíð og Jaðar varðar. En aðrar niðurstöður komi þó fyrr, en tefjist samt. Því er borið við að taka eigi viðtöl við 75 til 90 fleiri einstaklinga en þá um það bil 170 sem þegar hefur verið talað við.

Það er vitaskuld bara af hinu góða að rætt sé við alla - að allir fái tækifæri á að leggja fram sinn framburð um aðbúnað og meðferð á sér og öðrum börnum á þessum stofnunum. Það verður hins vegar að harma að það hafi ekki tekist innan settra tímamarka. Ljóst er að mikill fjöldi fyrrum vistbarna bíður þess að áfangaskýrsla og síðar lokaskýrsla liggi fyrir.

  Þau heimili sem nefndin hefur skoðað að undanförnu eru: 

  1. Vistheimilið Kumbaravogur
  2. Heyrnleysingjaskólinn
  3. Stúlknaheimilið Bjarg
  4. Vistheimilið Reykjahlið
  5. Heimavistarskólinn Jaðar
  6. Upptökuheimili ríkisins
  7. Unglingaheimili ríkisins
  8. Vistheimilið Silungapollur
Könnun nefndarinnar á starfsemi vist-heimilisins Kumbaravogs, stúlknaheimilisins Bjargs og Heyrnleysingjaskólans mun nú vera á lokastigi. Í tilkynningu frá nefndinni segir einnig að könnun nefndarinnar á vistheimilinu Reykjahlíð og heimavistarskólanum Jaðri sé komin vel á veg.

Í tilkynningu frá nefndinni segir: „Könnun nefndarinnar undanfarin misseri hefur verið afar umfangsmikil. Hefur nefndin þegar rætt við 170 einstaklinga, fyrrverandi vistmenn, fyrrverandi nemendur og aðra sem nefndin hefur talið geta varpað ljósi á starfsemi þeirra stofnana sem nefndin hefur nú tekið til könnunar."
mbl.is Meðferðarheimili rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bárður: Boltinn er hjá yfirvöldum

Heilir og sælir, Breiðvíkingar allir. Ég birti þessi skrif hér á blogginu okkar því undanfarið hafa heyrst gagnrýnisraddir vegna bótamálsins og sumir viljað halda fund nú strax.

 

Stjórn samtakanna þótti ekki ástæða til þess þar sem ekkert hefur gerst í viðræðum okkar við stjórnvöld frá því aðalfundurinn var haldinn þann 29. apríl s.l.

Við höfum sent tillögur okkar til fulltrúa forsætisráðuneytisins svo segja má að næsta útspil verði að koma frá fulltrúum stjórnvalda. Við munum að sjálfsögðu boða til fundar strax og það liggur fyrir.


Við getum líka litið til þess að það fór ekki að koma hreyfing á okkar mál fyrr en ný ríkisstjórn tók við í vetur.

Ég vil því biðja félagsmenn að sýna okkur þolinmæði. Það má líka geta þess að skýrsla frá rannsóknarnefndinni (Spanó) er væntanleg um næstu mánaðamót og ég á ekki von á því að nokkuð gerist fyrr en hún liggur fyrir.

 

Við höldum okkur auðvitað við það sem við höfum alltaf sagt: Samfélagið verður að búa svo um hnútana við bætur til Breiðavíkurdrengja og annarra sem búa að sárri reynslu frá barnaverndaryfirvöldum að sómi sé að og þjóðin geti verið hreykin af því hvernig hún kemur fram við sína minnstu bræður.


Kveðjur
Bárður R. Jónsson

VIÐBÓT:

Ekki verður félagsfundur næstkomandi þriðjudagskvöld, enda reglulegir þriðjudagsfundir komnir í sumarfrí fram í september, eins og um var rætt á aðalfundi.

Enn er hins vegar galopið að blásið verði til "óreglulegs" félagsfundar hvenær sem er, ef eitthvað gerist í baráttumálum samtakanna.

Í millitíðinni er skemmtinefndin sem kjörin var á aðalfundinum hvött til að efna til félagslífs af léttara taginu og þar sem samræður fara ekki endilega eftir mælendaskrá!

kv.

fþg


Bréf sent til Jóhönnu Sig.

Í gær, 4. júní, var boðsent til forsætisráðuneytisins bréf frá stjórn Breiðavíkursamtakanna, sem viðbrögð og tillögur vegna Minnisblaðs ráðuneytisins, sem sagt var frá á aðalfundi samtakanna 29. apríl síðastliðinn. Efni bréfs þessa er trúnaðarmál gagnvart utanfélagsfólki, en hér verður þó reynt að segja frá því sem óhætt er að segja frá.

Svo sem félagsmönnum er kunnugt um þá hefur komist hreyfing á (sanngirnis)bótamálið eftir að Jóhanna Sigurðardóttir settist í stól forsætisráðherra og ekki síst eftir afsökunarbeiðni hennar til fyrrum vistbarna vistheimila á vegum ríkisins. Þá urðu ákveðin tímamót með fyrrnefndu Minnisblaði og viðbrögðum aðalfundar okkar við því.

Eins og félagsmenn vita hefur ráðuneytið umfram allt viljað með samkomulaginu skapa fordæmi sem ná myndi til allra vistheimila sem til rannsóknar Spanó-nefndarinnar koma og jafnframt er deginum ljósara að ráðuneytið hefur ekki áhuga á háum bótum yfir línuna, kannski ekki síst vegna efnahagsástandsins. Nú í maí hefur stjórn samtakanna brætt með sér hugmyndir að tillögum um útfærslur og leiddi sú vinna til þess að bréfið var sent í gær. Í tillögum stjórnar er gert ráð fyrir "tveggja ása flokkaskiptingu" við ákvörðun (óháðrar nefndar) á bótum.

Þar muni þolendur af hálfu tilgreindrar óháðrar nefndar raðast í flokka eftir nánar tilgreindum viðmiðunum.

Veigamestu atriðin við það mat verði annars vegar bein ætluð lögbrot/mannréttindabrot, sbr.: Líkamlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða eldri vistbarna (ekkert, lítið, nokkurt, mikið, mjög mikið), andlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða eldri vistbarna (ekkert, lítið, nokkurt, mikið, mjög mikið), andlegt og líkamlegt álag annað, vinnuþrælkun / ólaunuð barnavinna, missir skólagöngu/svipting á menntun, skortur á hvers kyns læknisþjónustu, veikindi og slys á vistunarstað, ónóg þrif og ónógur matur, skjóllítill fatnaðar barna gegn vondum veðrum og skortur á eftirfylgni/liðveislu eftir vist.

Hins vegar verði til viðmiðunar atriði af ýmiss konar félagslegum og heilsufarslegum toga, sbr.: Langtímadvöl - lengd dvalartíma (t.d. undir 1 ári, 1-2 ár, 2-3 ár, 3-4 ár, 4-5 ár o.s.frv.), einelti, einangrun viststaðar, ástæðulaus/tilefnislaus vistun, óréttmætur aðskilnaður við foreldra, sambandsleysi/sambandsbann við foreldra/ættingja,  vist frá mjög ungum aldri,   harðneskja – skortur á hlýju, afleiðingar vistunar, ótímabær dauðdagi / heilsubrestur til langtíma, svipting tómstunda/barnagamans og fleira.

 

  Stjórn samtakanna vonast auðvitað eftir jákvæðum viðbrögðum við þessum viðmiðunum og aðferðarfræði, en ekki er komið að því að ræða upphæðir ennþá. Í bréfinu var jafnframt vonast eftir skjótum viðbrögðum og áframhaldandi fundarhöldum, þannig að stjórnvöldum auðnist að leggja fram frumvarp um bætur við upphaf haustþings. Ef það gengur eftir styttist svo sannarlega í lausn þessara erfiðu mála.

Bréfið er sem fyrr segir trúnaðarmál gagnvart utanfélagsfólki, en áhugasamir félagsmenn geta fengið afrit af því sent ef þeir biðja um það í tölvupósti eða með símtali (lillokristin@simnet.is eða 864 6365).


Fundi frestað - vinna í gangi

Rétt er að undirstrika það hér við félaga í Breiðavíkursamtökunum að stjórn samtakanna ákvað að slá á frest félagsfundi sem vera átti í kvöld, þriðjudag (sbr. tölvupósta og sms). Til næsta félagsfundar verður boðað sérstaklega og vonandi fljótlega.

Frestun fundarins skýrist af seinkun á úrvinnslu hugmynda í hagsmunamálum félagsmanna og vegna anna stjórnarmanna við önnur störf. Bárður Ragnar Jónsson, formaður samtakanna, mun væntanlega síðar í dag setja hingað inn færslu með hugleiðingum um stöðu mála.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband