Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Leitað að vistbörnum á Silungapolli
5.2.2010 | 17:17
Kona, sem vistuð var á Silungapolli um 1945, vill gjarnan komast í samband við fyrrum vistbörn sem voru þar á sama tíma. Upplýsinga má leita í netfanginu elinhirst@gmail.com.
Miðað við sögu vistehimilanna er ljóst að leitað er eftir vistbörnum í fyrstu hópunum sem sendir voru á Silungapoll. Silungapollur var starfræktur frá 1945 til 1971. Þar var rými fyrir 30 einstaklinga í heilsársvistun auk 80 til viðbótar á sumrin. Meginhlutverk Silungapolls var að annast börn í skamman tíma vegna erfiðra heimilisaðstæðna. Dvalartími var mjög breytilegur. Frá nokkrum dögum til nokkurra mánaða og jafnvel nokkurra ára í sumum tilfellum. Flest börn sem voru í heilsársvistun voru ekki á skólaskyldualdri. Þ.e.a.s. ekki orðin 7 ára þó á þvi hafi vissulega verið undantekningar. Silungapollur er í nágrenni Reykjavíkur rétt austan við Rauðhóla og lét Reykjavíkurborg rífa húsakostinn fyrir nokkrum árum.
Lög um sanngirnisbætur eru handan hornsins
18.1.2010 | 23:36
Kæru félagar.
Mörg ykkar sáu eflaust frétt í 10-fréttum Sjónvarpsins sl. Þorláksmessukvöld, þar sem fjallað var um væntanlegt frumvarp um sanngirnisbætur og rætt við lögmann okkar Ragnar Aðalsteinsson um helstu athugasemdir samtakanna. Af því tilefni og öðrum er rétt að fara lauslega yfir stöðu mála.
Við héldum félagsfund 8. desember síðastliðinn, þar sem við fórum yfir drög starfshóps á vegum forsætisráðuneytisins að frumvarpi um bæturnar. Við í stjórninni greindum frá aðalatriðum draganna og meðtókum bæði þær athugasemdir sem gerðar voru og þann fögnuð sem fram kom yfir því að málið væri farið að þróast verulega og styttast í niðurstöðu.
Í framhaldi af félagsfundinum kom stjórnin skilaboðum til Ragnars, sem síðan tók saman fantagóða umsögn um frumvarpsdrögin.
Til hafði staðið að leggja frumvarp fram fyrir jólahlé þingsins og freista þess að klára fyrstu umræðu þar og koma málinu til þingnefndar í frekari vinnslu. Það hefur dregist, í sjálfu sér ekki óeðlilega. Bæði tók Icesave alla orku stjórnvalda, sem kunnugt er, og síðan er ekki annað hægt að segja en að starfshópur ráðuneytisins og ráðherra sjálfur þurfi tíma til að melta umsögn okkar/Ragnars. Sú vinna er núna í gangi að okkur er sagt.
Ekki verður annað skilið en að forsætisráðuneytið hyggist klára þessa vinnu með þeim hætti að frumvarp verði lagt fram einhvern tímann um eða eftir 15. febrúar. Ef allt er eðlilegt og sátt ríkir um efni þess eins og það lýtur þá út ættu lög um sanngirnisbætur að sjá dagsins ljós í vor. Án nokkurs vafa verður áfanganum bæði fagnað og ýmislegt í lögunum gagnrýnt. Ekki síður á þá eftir að reyna á framkvæmdina og túlkun á viðkomandi lagaklásúlum og reglugerð.
Líklegt er að saman fari í vor, ný lög um sanngirnisbætur og endalok setutíma núverandi stjórnar Breiðavíkursamtakanna. Því er rétt að félagar fari að huga að því hvað skuli taka við, hvaða fólk eigi að taka við stjórnartaumunum, hvernig unnt sé að breikka starfsgrundvöll samtakanna og ná til fleiri fyrrum vistbarna hins opinbera o.s.frv. Bótamálið hefur eðlilega verið fremur plássfrekt að undanförnu og tímabært að gefa öðrum málum samtakanna aukna athygli!
Að lokum: Fyrirhugað er að halda reglulegan félagsfund að venju síðasta þriðjudagskvöld mánaðarins, 26. janúar næstkomandi, á venjulegum stað kl. 20. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna.
Stjórnin.
Svipting barnaverndarnefndar fordæmd
10.11.2009 | 19:39
Fundað með frumvarps-smiðum
2.11.2009 | 17:28
Félagsfundur BRV verður annað kvöld, þriðjudagskvöldið 3. nóvember kl. 20. Hann fer fram á sama stað og undanfarið en að þessu sinni í herbergi á sömu hæð en inn ganginn hægra megin í áttina að eldhúsinu (stóri salurinn upptekinn).
Fyrr um daginn fundar stjórnin með starfshóp sem á að smíða frumvarp um bætur og verður sagt frá þeim fundi og fjallað um önnur mál.
Víglundur og Maron á góðri stund.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Félagsfundi frestað - starfshópur skipaður
26.10.2009 | 18:15
Félagsfundi Breiðavíkursamtakanna sem vera átti annað kvöld, þriðjudag, hefur verið frestað um eina viku í von um að þá verði komin ný tíðindi í bótamáli félaganna. Fundurinn verður því haldinn viku síðar eða þriðjudagskvöldið 3. NÓVEMBER og auglýst nánar fyrir þann tíma.
Forsætisráðherra setti nýverið á fót starfshóp til að undirbúa frumvarp um greiðslu bóta vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn. Þar eru Páll Þórhallsson í forsætisráðuneytinu, Kristrún Heimisdóttir lögfræðilegur ráðgjafi félagsmálaráðherra, Ása Ólafsdóttir, aðstoðamaður dómsmálaráðherra, Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður og Eiríkur Jónsson lektor við HÍ.
Fyrir 10 dögum var boðað af starfshópurinn myndi fljótlega boða fulltrúa BRV á fund og eftir því er nú beðið - í ofvæni!
Hvað segir og gerir Jóhanna? Allir á fund! Lesið úr fróðlegri bók...
5.10.2009 | 18:18
Kæru félagar í Breiðavíkursamtökunum - eftir að við öll höfum vandlega hlustað á hæstvirtan forsætisráðherra halda stefnuræðu í kvöld og væntanlega heyrt hana fara lofandi orðum um sanngirnisbætur og fleiri réttlætismál - verður upplagt að mæta á félagsfundinn annað kvöld.
... "lögregluþjónn kom og sótti hann og í fylgd lögreglumannsins var honum ekið vestur í Breiðuvík og það í leigubíl. Í Breiðuvík dvaldist hann á mánuðum saman, aðeins lítið hrætt grey sem þurfti hlýju en hana var víst ekki að finna í Breiðuvík fremur en í heimahögunum"...
Einhver hluti þeirra barna sem vistuð voru á þessu barnaheimili höfðu áður verið á Breiðuvík en verið send suður en svo voru einhverjir sendir aftur til Breiðuvíkur. Sum börnin áttu erfiðara en önnur, man sérstaklega eftir nokkrum mjög ódælum drengjum en þeir voru samt bestu skinn inn við bein, þetta var þeirra varnarháttur eftir mikla erfiðleika á fyrstu árum sínum í foreldrahúsum"...
... "Á heimilið kom stundum maður í heimsókn, frændi Kristjáns, hann var alltaf með sælgæti meðferðis og sumir drengjanna áttu oft sælgæti eftir heimsóknir hans, við vissum fljótt hvers vegna en þögðum þunnu hljóði, héldum að þetta væri bara eðlilegt....
![]() |
Stefnuræða flutt í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
FUNDI FRESTAÐ UM VIKU
27.9.2009 | 17:07
Sælir félagar, salur Reykjavíkurakademíunnar er upptekinn næstkomandi þriðjudagskvöld, 29. september, og við neyðumst því til að fresta fundinum um viku.
Með kveðju
Bárður R. Jónsson
Sigurður Lindberg Pálsson minning
25.9.2009 | 13:06
Sigurður Lindberg Pálsson fæddist í Stykkishólmi 12. nóvember 1946. Hann lést á heimili sínu 13. september sl. Móðir hans var Guðbjörg Árnadóttir, f. 17. nóvember 1921, d. 15. ágúst 2002, og uppeldisfaðir Páll Jónsson, f. 12. desember 1916, d. 2.
Sigurður Lindberg Pálsson fæddist í Stykkishólmi 12. nóvember 1946. Hann lést á heimili sínu 13. september sl. Móðir hans var Guðbjörg Árnadóttir, f. 17. nóvember 1921, d. 15. ágúst 2002, og uppeldisfaðir Páll Jónsson, f. 12. desember 1916, d. 2. nóvember 2001. Sigurður átti fjögur hálfsystkini, þau eru Anna María, f. 25. nóvember 1949, hún á þrjú börn, Ólafur, f. 27. október 1950, d. 22. júlí 2006, hann átti tvö börn, Árni Breiðfjörð, f. 18. janúar 1957, og Ragnheiður, f. 3. júlí 1958, hún á fimm börn. Dóttir Páls af fyrra hjónabandi var Lilja, f. 11. júní 1944, d. 28. september 2003, hún átti þrjú börn.
Sigurður Lindberg fluttist til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni 1954. Hann hóf sjómennsku ungur og vann við það í mörg ár. Þegar hann hætti til sjós fór hann að vinna við byggingar og húsamálun og gegndi því starfi til æviloka.
Sigurður Lindberg var maður sem hefur snert mörg hjörtu með hlýju og kærleika. Þeir sem þekktu hann vita við hvað er átt.
Með þessu litla ljóði kveð ég þig elsku vinur:
Enginn sér blóm
í raun og veru
Það er svo lítið
við erum svo tímabundin
og það tekur tíma að sjá
eins og það tekur tíma
að eiga vin.
(Georgia O'Keeffe, 1887-1986)
Innilegar samúðarkveðjur sendi ég Betu, Hönnu, Ágústi Smára, Jóni Erni og systkinum Sigga.
Edda Vikar Guðmundsdóttir.
Vinur minn, Sigurður Lindberg Pálsson, er dáinn.
Sigurður var mikill vinur okkar allra, drengjanna í Breiðuvík, og var mjög góður drengur sem aldrei gerði flugu mein.
Í marsmánuði árið 1956 varð móðir mín bráðkvödd. Jarðarför hennar var gerð í Fossvogskapellunni og var útvarpað fyrir okkur alla drengina í stofunni hjá Kristjáni Sigurðssyni og Rósu Björnsdóttur. Móðir mín hét Sigríður Kristmunda Jónsdóttir og var frá Tröð í Súðavík í Álftafirði við Djúp og hét því sama nafni og Sigurður Lindberg Pálsson sem nú hverfur frá okkur drengjunum fimmtíu og þremur árum síðar.
Sigurður og allir drengirnir leiddu mig um sandana og út í ver til að dreifa huga mínum við móðurmissinn því ég grét í fjóra sólarhringa. Móðir mín var ekki nema þrjátíu og sex ára þegar hún dó.
Sigurður Lindberg mun alltaf vera í minningu okkar, drengjanna úr Breiðuvík.
Blessuð sé minning Sigurðar Lindbergs Pálssonar.
Ó, Jesús bróðir besti
og barnavinur mesti,
æ breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.
Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái' að spilla.
(Páll Jónsson)
Ég þakka Sigurði lífgjöfina.
Jón Guðmundur Guðmundsson.
Ég kynntist Sigurði Lindberg fyrir sjö árum þegar við bjuggum báðir á Framnesveginum. Hann sinnti þá ýmsum íhlaupaverkum og annaðist veikan frænda sinn sem hann bjó hjá. Við vorum líklega eins ólíkir og hugsast getur og aldursmunurinn á okkur var líka talsverður eða rúm 20 ár. Bakgrunnur okkar var einnig ólíkur en Siggi ólst upp í fátækt og eyddi stórum hluta ævi sinnar á drengjaheimili, fjarri heittelskaðri móður sinni og fjölskyldu. Þrátt fyrir gjörólíkan lífsstíl okkar og þjóðfélagsstöðu þá tengdumst við vinaböndum sem entust allt þar til vinur minn kvaddi þennan heim.
Sigurður Lindberg Pálsson var snemma sviptur frelsi og sendur á drengjaheimlið á Breiðavík. Ég er þeirrar skoðunar að sú vist hafi haft varanleg áhrif á allt hans líf. Hann var í eðli sínu fróðleiksfús og góðhjartaður og hafði metnað til að gera vel en hafði átt erfitt með að ná fótfestu í lífinu eftir að vistinni á Breiðavík lauk. Hann var sendur frá móður sinni aðeins átta ára gamall og látinn dveljast á drengjaheimili fram að unglingsaldri.
Líf Sigga snerist um að reyna að láta öðru fólki líða vel og hann gerði það með öllum þeim ráðum sem hann kunni. Honum fannst gaman að tala við fólk og var einlægur, hlýr, vingjarnlegur og hjálpsamur. Hann bar virðingu fyrir öllum sem hann umgekkst og passaði vel upp á að vera í reglulegu sambandi við vini sína. Hann gaf megnið af öllum peningum sem hann eignaðist til fólks sem hann taldi að þyrfti meira á þeim að halda en hann sjálfur. Þetta örlæti hans gekk svo langt að stundum átti hann ekki til fyrir mat handa sjálfum sér. Hann átti lítinn frænda sem var augasteinninn í lífi hans og hann vildi allt fyrir hann gera. Frændi hans, eða Litli eins og hann kallaði hann, var honum meira virði en hann var sjálfum sér og þarfir hans urðu að hans þörfum. Á síðustu árum ævi Sigga aðstoðaði ég hann við flutninga og að koma sér upp nýju heimili. Hann ljómaði lengi af gleði og stolti yfir nýja heimilinu sínu þar sem ég held að honum hafi liðið vel þar til hann veiktist.
Ég á eftir að sakna þess að fá þennan góða vin í heimsókn til mín snemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum í kaffisopa. Hann vaknaði yfirleitt fyrir allar aldir og fékk sér göngu heim til mín ef veður leyfði og við spjölluðum um heima og geima og höfðum gaman af. Siggi var hjálpfús og vildi oftast eitthvað fyrir mig gera þegar hann kom í heimsókn. Hann var athafnamaður og hamhleypa til verka og það var stundum erfitt að trúa því að hann væri kominn á sjötugsaldurinn. Fas hans og viðmót var líkara því að þar færi þrítugur maður.
Ég lærði margt af kynnum mínum af Sigga. Það sem upp úr stendur er auðmjúkur og góður maður sem bar umhyggju og virðingu fyrir öðru fólki en setti sjálfan sig aldrei í fyrsta sæti.
Ég minnist þín með söknuði kæri vinur. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu Sigga, sérstaklega Elísabetu frænku hans og hennar fjölskyldu sem stóð honum næst og á nú um sárt að binda.
Jón Örn Guðmundsson.
(Mynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir, DV. Minningargreinar: Mbl.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Enn deyr Breiðavíkurdrengur - og félagsfundur framundan
23.9.2009 | 13:36
Enn einn Breiðavíkurdrengurinn er fallinn langt fyrir aldur fram. Sigurður Lindberg Pálsson lést á heimili sínu 13. september síðastliðinn og fer útför hans fram frá Fossvogskirkju fimmtudaginn 24. september kl. 13 - á morgun.
Sigurður Lindberg var fæddur 12. nóvember 1946 og var á Breiðavík í rúm 2 ár, frá apríl 1958 til ágúst 1960, þegar hann var 11-13 ára. Félagsmenn BRV eru hvattir til að mæta í kirkjuna á morgun.
Ef talningin er rétt þá er Sigurður að líkindum 34. Breiðavíkurdrengurinn af 128, miðað við vistun á tímabilinu 1954-1972. Liðlega fjórðungur manna á besta aldri. Margir þeirra hafa fallið fyrir eigin hendi.
Félagsmenn eru minntir á að reglulegir félagsfundir eru að hefjast á ný, síðasta þriðjudag í hverjum mánuði. Félagsfundur verður því þriðjudagskvöldið 29. september, eftir tæpa viku. Væntanlega í fundarsalnum í JL-húsinu, en það á eftir að staðfesta það og verður tilkynnt um þetta tímanlega.
Viðtal á Útvarpi Sögu þriðjudaginn 8.sept
10.9.2009 | 23:18