Bætur og lögbrot - grein eftir Hafstein Haraldsson

 Hafsteinn  Haraldsson, Breiðavíkurdrengur, hefur sent síðunni neðangreinda grein, sem við hér birtum um leið og við óskum öllum farsældar á nýju ári.

Þarna var það ríkið sem framdi brot  á  öllum lögum og reglum landsins í þessum málaflokki - stjórnsýslulög, barnaverndarlög og  önnur landslög og alþjóðalög -  á þessum börnum sem voru aðeins 7 til 14 ára.

Ríkið svipti börnin ærunni og allri mannlegri reisn, lét það í launalausa barnaþrælkun og skipti þá engu máli aldur eða líkamsburðir. Þeim var nauðgað og þau voru lamin og svelt, þurftu að þola svívirðingar og einangrun og ofbeldi af öllu tagi og lifðu í stanslausum ótta og sálarkvölum í vistinni. Þau komust hvergi undan til að verja sig eða segja frá þeim viðbjóði og hörmungum sem áttu sér stað fyrr en þeim var sleppt að lokinni afplánun og  þá hlustaði enginn. Þau voru látin bera harminn í  hljóði alla ævi með misjöfnum árangri.

Öll eru þessi börn hafa komið misjafnlega illa út úr lífinu og mörg eru dáin, sum sviptu sig lífi, önnur eru inn og út úr fangelsum eða í ræsinu og óreglu, restin hefur aldrei verið í góðum málum.

Þeir sem höfðu sig mest í frammi  þarna í Breiðavíkurvistinni, sem frömdu ódæðið á þessum börnum, eru dánir; forstöðumaðurinn Þórhallur Hálfdánarson sem var þeirra verstur og kona hans  Guðmunda Halldórsdóttir. En svo eru það dóttir þeirra hjóna Málmfríður Þórhallsdóttir og maðurinn hennar Þórður J. Karlsson en þau voru hluti af starfsfólkinu sem var ráðið til að láta þessum börnum líða vel í vistinni - þau brugðust börnunum líka og tóku bæði beinan og óbeinan þátt í ódæðinu á drengjunum. Þau búa núna í Hafnarfirði  og láta sem ekkert hafi gerst, en lögðu það þó á sig að mæta fyrir Breiðavíkurnefndina  til að ljúga því að ekkert af þessu væri rétt sem eftir drengjunum er haft. En skýrslan lýgur ekki, þar er gjörningurinn sannaður í einu og öllu og skýrslan er mjög vel gerð hjá þeim nefndarmönnum og fengu þeir til liðs við sig einn virtasta sérfræðing  í heimi, Dr. Gísla H. Guðjónssonar, prófessors í réttarsálfræði til að vinna að gerð hennar.

Alþingismenn voru fljótir að gleyma eins og vanalega, miðað við þær smánarbætur sem átti að bjóða.

Ráðnir voru sérfræðingar í nefnd sem fengu meira í sinn vasa en bæturnar sem bjóða átti vistmönnum. Svo vill ríkisstjórnin láta fara út í meiri kostnað og stofna  nýja nefnd - láta fólkið  rifja aftur upp þennan hrylling, þessa mannskemmandi afplánun sem þarna fór fram, til að meta það hversu lítið þeir komast af með að greiða í bætur fyrir ódæðið. Og gera vistmönnum erfiðara fyrir með að sækja kröfur sínar.

Ég held að við vistmenn eigum að gera skírar kröfur og nota þá lögin og þau fjölmörgu lögbrot og launaþjófnað sem unnin voru á vistmönnum, sem eru svo greinileg og tala fyrst og fremst um öll þau lögbrot sem unnin voru á okkur bæði í upphafi og á meðan á vistinni stóð. Og krefjast hið minnsta 15 milljóna króna á mann með fyrirvara  um að síðan megi það vera mat hversu vistin var skaðleg fyrir hvern og einn til viðbótar. Og láta þá Breiðavíkurskýrsluna duga til að skera úr um það, en ekki að fá menn aftur í upprifjun á þeim hryllingi sem þeir þurftu að þola. Þannig mat væri líka mjög erfitt í framkvæmd og yrði bara til þess að gera vistmönnum erfiðara fyrir. Matið yrði  geðþóttaákvörðun sem ekki er rétt, og margir myndu ekki mæta og yrðu þá útundan.

Svo er rétt að krefjast þess að fá bæði opinberlega og skriflega afsökunarbeiðni fyrir hvern og einn.

KV., Hafsteinn  Haraldsson.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Frábær grein hjá þér Hafsteinn!!!!!!!!

Konráð Ragnarsson, 2.1.2009 kl. 14:55

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sammála. Það mættu fleiri taka sér Hafstein til fyrirmyndar og senda síðunni greinar og pistla, stuttar sem langar...

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.1.2009 kl. 17:48

3 Smámynd: Víglundur Þór Víglundsson

Já hvernig væri það, eru ekki einhverjir til í að skrifa á síðuna. Aðeins að lífga hana við.

Víglundur Þór Víglundsson, 3.1.2009 kl. 11:21

4 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Ég þarf að fara að mæta á fundi aftur hjá ykkur, og við stelpurnar að hittast, þessar bætur eru til skammar,  og það að draga upp úr þessu fólki aftur allan hryllinginn er ekki að virka,  það er greinilegt að þessir menn sem ákvarða bætur, vita ekkert hvað þeir eru að tala um, sennilega eru mestu hörmungarnar sem þeir hafa lent í um ævina,  stöðumælasekt. 

Ef þið hafið áhuga þá á ég nokkrar sögur í farteskinu, frá vistun minni á Silungapolli, en þar var ég í 9. mánuði  veturinn 1963 til 1964. Ég man eftir þessum tíma eins og hann hafi gerst í gær. 

Svo á ég líka sögur af afleiðingum af þessari vistun, að vera hent á milli heimila frá fæðingu og fram til 7. ára aldurs, þá fór ég til móður sem hataði mig eins og pestina, og ég var stöðugt fyrir, þar til ég gafst upp 16. ára og fór að heiman og að vinna. Ég ber það ekki utan á mér að vera búin að ganga í gegnum miklar hörmungar, enda ber ég höfuð hátt, og hef ekki fram að þessu borið þessar sögur á borð fyrir fólk, en núna er ég orðin það sterk að ég get borið þessar sögur á borð fyrir þá sem vilja.

Ég væri til í að einhver segði mér klukkan hvað, stað og daga, fundir eru. 

Sigurveig Eysteins, 7.1.2009 kl. 01:30

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þú getur rétt ímyndað þér það, Sigurveig, að Breiðavíkursamtökin hafa mikinn áhuga á að fá þig og stelpurnar virkar inn í samtökin og vitaskuld höfum við í samtökunum áhuga á reynslusögum vistbarna allra þeirra vistheimila þar sem pottur var brotinn og lög oftast líka.

Fundir eru ekki reglulegir, en við Bárður vorum einmitt að ræða það að nú sé tímabært að fara að hittast aftur, en auk þess er vonandi að fara af stað "skemmtinefnd" til að þjóna léttari tegundinni af hittingi. Við látum auðvitað vita af fundartíma og stað, en í millitíðinni langar mig til að biðja þig um að senda mér upplýsingar um þig til að skrá þig formlega í samtökin (því það gerist ekki sjálfkrafa) í tölvupóstinn efst á síðunni. Fáðu endilega hinar stelpurnar til að gera slíkt hið sama með nafni, tölvupóstfangi og símanúmerum og seinna geta fleiri upplýsingar bæst við eftir þörfum. 

Breiðavíkursamtökin eru regnhlífarsamtök vistbarna allra þessara heimila, þótt samtökin heiti þetta og aðallega "strákar" sem hafa verið í kastljósinu. Það er fyllilega kominn tími til að fylgja eftir þeirri breytingu sem gerð var á lögum og tilgangi samtakanna.

Við hlökkum til að fá ykkur í raðir okkar - snúum endilega bökum saman.

kv.

Friðrik Þór Guðmundsson,

ritari stjórnar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.1.2009 kl. 01:46

6 Smámynd: Anna

Mikið góð grein. Bróðir minn var þarna. Skaðinn líkamlega og andlega verður aldrei greiddur með peningum. Minningin lifir að eilífu hun veður alltaf þarna. Það er ekki hægt að lækna brosnar sálir. 

Að finna leið til þess að lífa lífinu með þessa hræðilega reynslu að bakai er list sem erfitt er að gera.

Anna , 11.1.2009 kl. 16:21

7 Smámynd: Páll Rúnar Elíson

Sæl öll og gott nýtt ár, verðum að vona það bara. Var að koma heim frá Svíþjóð þar sem ég var yfir jól og áramót hjá mínum börnum. Góður pistill hjá þér Hafsteinn. Kveðja Pallielís

Páll Rúnar Elíson, 19.1.2009 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband