Bárður: Boltinn er hjá yfirvöldum

Heilir og sælir, Breiðvíkingar allir. Ég birti þessi skrif hér á blogginu okkar því undanfarið hafa heyrst gagnrýnisraddir vegna bótamálsins og sumir viljað halda fund nú strax.

 

Stjórn samtakanna þótti ekki ástæða til þess þar sem ekkert hefur gerst í viðræðum okkar við stjórnvöld frá því aðalfundurinn var haldinn þann 29. apríl s.l.

Við höfum sent tillögur okkar til fulltrúa forsætisráðuneytisins svo segja má að næsta útspil verði að koma frá fulltrúum stjórnvalda. Við munum að sjálfsögðu boða til fundar strax og það liggur fyrir.


Við getum líka litið til þess að það fór ekki að koma hreyfing á okkar mál fyrr en ný ríkisstjórn tók við í vetur.

Ég vil því biðja félagsmenn að sýna okkur þolinmæði. Það má líka geta þess að skýrsla frá rannsóknarnefndinni (Spanó) er væntanleg um næstu mánaðamót og ég á ekki von á því að nokkuð gerist fyrr en hún liggur fyrir.

 

Við höldum okkur auðvitað við það sem við höfum alltaf sagt: Samfélagið verður að búa svo um hnútana við bætur til Breiðavíkurdrengja og annarra sem búa að sárri reynslu frá barnaverndaryfirvöldum að sómi sé að og þjóðin geti verið hreykin af því hvernig hún kemur fram við sína minnstu bræður.


Kveðjur
Bárður R. Jónsson

VIÐBÓT:

Ekki verður félagsfundur næstkomandi þriðjudagskvöld, enda reglulegir þriðjudagsfundir komnir í sumarfrí fram í september, eins og um var rætt á aðalfundi.

Enn er hins vegar galopið að blásið verði til "óreglulegs" félagsfundar hvenær sem er, ef eitthvað gerist í baráttumálum samtakanna.

Í millitíðinni er skemmtinefndin sem kjörin var á aðalfundinum hvött til að efna til félagslífs af léttara taginu og þar sem samræður fara ekki endilega eftir mælendaskrá!

kv.

fþg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Ég mæli með að félagsmenn sýni þolinmæði, það getur ekki skipt máli 2, 3, 4, mánuðir til eða frá, eftir allt sem á undan er gengið.......

Sigurveig Eysteins, 16.6.2009 kl. 22:58

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Rétt, þakka þér fyrir Sigurveig, við þurfum örlitla þolinmæði. Boltinn er byrjaður að rúlla, en þetta tekur samt tíma, ekki síst við núverandi efnahagsástand og -horfur.

Eins og Bárður formaður segir: Frá síðasta aðalfundi okkar hafa samtökin brugðist við hugmyndum forsætisráðuneytisins og það verður blásið til fundar um leið og eitthvað áþreifanlegt liggur fyrir.

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.6.2009 kl. 11:51

3 identicon

Ágætu félagar

Það er ákaflega einfalt að klúðra skaðabótamálinu með vanhugsuðu frumhlaupi.

Ég er sammála þeim útskýringum sem Bárður formannður hefur sett fram um málið , og finnst það sýna heilbrigða skynsemi í ferlinu.

Fólk má ekki gera óraunhæfar kröfur til stjórnarmanna okkar og setja á þá einhverkonar samningspressu sem auðveldlega gætu klúðrað málum heildarinnar.

Baráttu kveðjur til ykkar sem standið í fremstu víglínu fyrir okkar hönd í þessu erfiða máli.

Þolinmæði þrautir vinnur allar. 

Einar D. G. Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 07:55

4 Smámynd: Anna

Ég er alveg sammála. Að bíðja eftir skýrslunni. Ríkisstjórn bíður einnig eftir skýrslunni. Hun vill fá að sjá hana fyrst áður en ákvarðandir verða teknar. Baráttu kveðjur.

Anna , 18.6.2009 kl. 14:58

5 Smámynd: Páll Rúnar Elíson

Er sammála um að sýnd verði þolinmæði hvað varðar bótagreiðslunum,en að sjálfum samtökunum,þá mætti sýna aðeins meyri lífsmark.

Páll Rúnar Elíson, 20.6.2009 kl. 15:29

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Satt er það Páll, lífsmark mætti vera meira. En hvers konar lífsmark? Við höfum haldið ágætlega tíða félagsfundi, nema nú þegar sumarið er burjað. Á aðalfundinum var kjörin félagslífsnefnd eða skemmtinefnd og mér finnst að nú mætti hún fara að koma sterk inn.

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.6.2009 kl. 21:59

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Annars voru ummælin glæsileg hjá Gylfa ægissyni í fréttum sjónvarps/stöðvar 2 (man ekki hvort) í gær: Ef ekki er hægt að borga Breiðavíkurbörnunum þá er ekki hægt að borga Icesave!

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.6.2009 kl. 22:00

8 identicon

Gott kvöld. Ég staðfesti að Vistheimilanefnd (áður Breiðavíkurnefnd = Spanó nefnd) mun á allra næstu dögum birta fréttatilkynningu um gang mála varðandi einhver önnur heimili. Nefndin ákvað að skoða 8 heimili (í framhaldi af Breiðavík) og er búin að taka skýrslur vegna einhverra þeirra, hversu margra eða hvaða heimila veit ég ekki. Nefndin mun síðan afhenda ríkisstjórninni svokallaða áfangaskýrslu 1 varðandi þessi heimli sem búin eru, áfangaskýrsla 2 verður afhent 2010, en alls mun vinna vegna þessara 8 heimila taka einhver ár. Ég hef fylgst með þessu af hliðarlínunni og sýnist þetta malla áfram hægt og bítandi.  Kveðja, Baldur Garðarsson

Baldur Garðarsson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 00:40

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar Baldur. Kannski tímabært að rifja eftirfarandi upp af vefsíðu forsætisráðuneytisins ( http://www.forsaetisraduneyti.is/raduneyti/nefndir/skipad_af_radh_log/nr/3754 ):

"Nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 var upphaflega skipuð af forsætisráðherra með erindisbréfi, dags. 2. apríl 2007. Nefndina skipa Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, formaður, Dr. Jón Friðrik Sigurðsson, dósent við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Landspítalanum, Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Dr. Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Þuríður B. Sigurjónsdóttir lögfræðingur.

Samkvæmt erindisbréfi, dags. 2. apríl 2007, var nefndinni í fyrstu falið að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950-1980. Skýrsla um þá könnun er dagsett 31. janúar 2008. Hún var afhent forsætisráðherra, lögð fram á Alþingi og rædd á þingfundi 31. mars 2008.

Í skýrslu nefndarinnar um Breiðavíkurheimilið voru meðal annars settar fram tillögur um framhald á könnunum nefndarinnar. Á þeim grundvelli afhenti forsætisráðherra nefndinni nýtt erindisbréf, dags. 11. apríl 2008, þar sem kveðið er á um framhald á störfum hennar. Er nefndinni nú falið að taka með almennum hætti afstöðu til þess hvaða stofnanir falla undir gildissvið laga nr. 26/2007 og afmarka nánar, ef ástæða þykir til, það tímabil sem nefndin beinir almennt sjónum sínum að, m.a. í ljósi gildandi barnaverndarlöggjafar á hverjum tíma. Þá ber nefndinni að leggja mat á hvort og þá hvaða stofnanir skuli kanna sérstaklega með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum nr. 26/2007. Við slíkt mat skal nefndin hafa til hliðsjónar hvort tilefni sé til könnunar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga, t.d. í formi frumgagna eða frásagna, sem fram hafa komið frá fyrrverandi vistmönnum, starfsmönnum eða öðrum. Eins ber nefndinni að líta til þess hversu líklegt sé að könnun þjóni tilgangi sínum, m.a. vegna þess hversu langt sé um liðið.

Nefndin skal skila áfangaskýrslum um könnunina til forsætisráðherra eigi síðar en 1. júlí 2009 og 1. júlí 2010. Nefndin skal síðan ljúka störfum sínum og skila lokaskýrslu um könnun sína til forsætisráðherra eigi síðar en 15. apríl 2011. Samkvæmt erindisbréfinu ákveður nefndin hvort fjallað verði um einstakar stofnanir sameiginlega eða hverja um sig og þá hvort umfjöllun komi fram í áfangaskýrslum eða í heildarskýrslu nefndarinnar við lok starfa hennar.

Á fundi nefndarinnar, dags. 29. apríl 2008, var tekin sú ákvörðun að neðangreindar stofnanir skyldu í fyrstu sæta könnun nefndarinnar samkvæmt lögum nr. 26/2007. Gert er ráð fyrir því að í fyrstu verði aflað tiltækra gagna í vörslum stjórnvalda um starfsemi þessara stofnana. Í framhaldinu mun nefndin taka ákvarðanir um frekari aðgerðir til upplýsingaöflunar, meðal annars í formi munnlegra framburða.

Vistheimilið Kumbaravogur
Vistheimilið Knarrarvogur
Heyrnleysingjaskólinn
Stúlknaheimilið Bjarg
Vistheimilið Reykjahlíð
Heimavistarskólinn Jaðar
Upptökuheimili ríkisins / Unglingaheimili ríkisins
Uppeldisheimilið Silungapollur

Nefndin hefur á þessu stigi ekki ákveðið hvort fjallað verði um ofangreindar stofnanir sameiginlega eða hverja um sig í áfangaskýrslum eða í heildarskýrslu nefndarinnar.

Í nefdinni sitja: Róbert R. Spanó, formaður, dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, dr. Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, og dr. Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Ritari nefndarinnar er Aagot V. Óskarsdóttir, sérfræðingur hjá Lagastofnun Háskóla Íslands".

Friðrik Þór Guðmundsson, 25.6.2009 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband