Færsluflokkur: Löggæsla

Félagsfundur - verða fósturheimilin rannsökuð?

Félagsfundur var haldinn í Samtökum vistheimilabarna (SVB) þriðjudagskvöldið 29. mars. Sérstakt umræðuefni fundarins var framkvæmd sanngirnisbótalaganna og í því sambandi svör sem Erna formaður og Millý varaformaður hafa fengið á fundum með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra og Guðrúnu Ögmundsdóttur tengilið vistheimila.

Miklar og fjörugar umræður sköpuðust um þróun þessara mála og ljóst að mikil óánægja er með ýmislegt, ekki síst upphæðir sáttatilboða sýslumanns, tafir á framkvæmdinni og treg svör við ósk/áskorun um eingreiðslu í stað skiptra greiðslna. Fram kom að til skoðunar sé að greiða þær bætur sem samþykktar verða í einu lagi, að bréf með sáttatilboði til "restarinnar" af Breiðavíkurhópnum sé loks farið af stað, að von sé á (fjórðu) skýrslu Spanó-nefndar um U-heimilin (Upptökuheimili, Unglingaheimili) í sumar, að tengiliður leiðbeinir varðandi menntunarmöguleika en ríkið tekur þann kostnað ekki á sig og fleira.

Þór Saari þingmaður, stjórnarmaður í samtökunum, greindi frá því að hann myndi beita sér af alefli á vettvangi Alþingis og með viðræðum við einstaka ráðamenn fyrir umbótum og að líkindum taka málið upp á Alþingi.

Þá komu og til umræðu vistunarúrræði fyrri tíðar þar sem ríkið var ekki beinn aðili að og þá ekki til rannsóknar að óbreyttu, svo sem bein vistun barnaverndarnefnda á börnum á fósturheimili, einkum til sveita. Þau mál hafa ekki verið rannsökuð, en nefna má að Svíar fóru þá leið að rannsaka alla ráðstöfun barna utan heimilis fyrri ára og í áfangaskýrslu þeirrar rannsóknar kemur fram að meðferð barna á fósturheimilum var ef eitthvað er verri en á stofnunum eins og þeim sem Spanó-nefndin hefur rannsakað hér á landi.


Tvær tilkynningar á dag um ofbeldi gegn börnum

 Betur virðist fylgst með því en áður að ekki sé verið að fara illa með börn, miðað við eftirfarandi frétt í dag í Fréttablaðinu og visir.is:

"Barnaverndarstofu berast um tíu tilkynningar á viku frá heilbrigðisstofnunum landsins þar sem grunur leikur á að börn hafi verið beitt ofbeldi. Heilbrigðis­stofnanir tilkynntu um 634 tilvik árið 2009, en það er 30 prósentum meira en árið áður, þegar fjöldinn var 450.

Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu, segir tilkynningum almennt hafa fjölgað umtalsvert milli áranna 2008 og 2009. „Ég tel þetta stafa af því að heilbrigðisstarfsmenn séu meðvitaðri um tilkynningaskylduna," segir Steinunn.

Um helmingur allra tilkynninga sem berast til stofnunarinnar er skoðaður nánar, en nær allar tilkynningar sem berast frá heilbrigðisstofnunum. „Það er langoftast ástæða til þess að skoða þær frekar," segir Steinunn.
Um 90 prósent þeirra tilvika sem Barnaverndarstofa telur ekki ástæðu til að kanna frekar eru tilkynningar frá lögreglu.

Jón M. Kristjánsson, formaður Félags slysa- og bráðalækna, segir mikinn áhuga vera fyrir því að efla samstarf heilbrigðisstofnana og Barnaverndarstofu enn frekar. Nauðsynlegt sé að koma á skýrari vinnureglum um í hvaða tilvikum tilkynning sé send til barnaverndaryfirvalda.

„Oft kemur upp vafi varðandi hvað beri að tilkynna og hvað ekki," segir Jón. „Erfiðasti hlutinn af greiningunni er þegar um minni sjáanlega áverka á börnunum er að ræða, sem við sjáum tiltölulega oft." Jón minnist þar á brot á útlimum ungbarna og þegar börn hafa verið hrist. Það fari þó mikið eftir eðli og tegund brota og áverka á börnunum, aldri þeirra og ástæðum áverkanna.

Jón var fundarstjóri á fyrirlestri um málið á Læknadögum í gærdag, þar sem einnig kom fram að mikilvægt væri fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana að fá einhvers konar endurgjöf um stöðu þeirra barna sem hafi orðið fyrir ofbeldi. Mikilvægt sé að starfsfólk fái að vita hvernig börnunum reiði af. Á grundvelli þess geti barnaverndaryfirvöld þá skilað skýrslu til heilbrigðisstofnana á ársfjórðungs fresti. - sv".


Aðalfundur framundan - tillaga um nafnabreytingu

 Félagsmenn Breiðavíkursamtakanna eru minntir á aðalfund samtakanna sem fram fer þriðjudagskvöldið 25. janúar næstkomandi, kl. 19:30 í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar við hringbraut (JL-húsinu).

Einnig er minnt á áskorun síðasta félagsfundar: "skorað er á fyrrum vistmenn annarra heimila (eða aðstandendur þeirra) en Breiðavíkur (1954-1972, drengjaheimili) að taka við keflinu sem allra mest". Þegar liggja fyrir nöfn 3-4 áhugasamra einstaklinga og vitað um 2-3 sem eru að íhuga málið. Það þarf 5 í stjórn og 2 í varastjórn.

 

Uppfært:

Minnt er á anda félagslaga um kynningu á lagabreytingatillögum. Í því sambandi er hér með kynnt að Friðrik Þór Guðmundsson fyrrum ritari stjórnar og Einar D. G. Gunnlaugsson flytja saman nafnabreytingatillögu um að nafn samtakanna breytist úr Breiðavíkursamtökin í Vistheimilasamtökin. Hinir sömu flytja saman lagabreytingatillögu um mjög hófstillt félagsgjald (árgjald) upp á 1.000 krónur (skráðir félagar eru nú 100 talsins). Þessar breytingatillögur verða nánar kynntar í umræðuþræðinum (kommentakerfinu) von bráðar, en þar er og að finna gildandi lög samtakanna.

Lagabreytingatillögur má leggja fram á sjálfum aðalfundinum án nánari forkynningar, en gott er að þær komi sem fyrst fram til kynningar. Ýmsar lagabreytingar voru samþykktar á síðasta aðalfundi, svo sem heimildarákvæði um að stofna megi undirfélög um hvert vistheimili.

Stjórnin

 

Tillaga:

Einar D. G. Gunnlaugson og Friðrik Þór Guðmundsson eru með 2 lagabreytingatillögur fyrir aðalfund Breiðavíkursamtakana 25. janúar næstkomandi.

TILLAGA 1 - NAFNABREYTING Á SAMTÖKUNUM

Við undirritaðir leggjum hér með fram lagabreytingatillögu um að 1. grein hljóði eftirleiðis:

Félagið heitir Vistheimilasamtökin

Greinargerð:

1. Það er nauðsynlegt samtökum eins og okkar að þau séu "regnhlífasamtök".

2. Regnhlífasamtökin skulu heita nafni sem vistmenn allra vistheimila geta sæt sig við að vera í á jafnréttisgrundvelli.

3. Stækkun samtakana mun eiga verulega erfiðara uppdráttar með því að eyrnamerkja samtökin nafni eins ákveðins vistheimilis, vistmönnum annara vistheimila munu ekki finna sig í samtökum með nafni vistheimilis sem þeir dvöldu ekki á.

4. Nafnið Breiðavíkursamtökin var nauðsynlegt í upphafsbaráttu okkar allra fyrir réttlæti og sanngirnisbótum, sérstaklega þar sem sterk áhrif mynduðust úti í þjóðfélaginu eftir hetjulega framgöngu nokkurra Breiðavíkurdrengja sem komu málinu á það skrið sem þurfti til að ná fram réttlæisbótum . Fyrir það eiga þessir Breiðavíkurdrengir heiður skilið.

5. Að ofansögðu teljum við ljóst að allir vistmenn á hvaða vistheimili sem er geti fundið sig í regnhlífasamtökum okkar undir nafninu VISTHEIMILASAMTÖKIN.


TILLAGA 2 - FÉLAGSGJÖLD

Við leggjum til að 8. greinin hljóði eftirleiðis:

Til að samtökin geti haldið uppi grunnstarfsemi greiða félagar árgjald upp á 1.000 krónur (eitt þúsund krónur). Aðalfundir ákveða þessa upphæð árlega samkvæmt einföldum meirihluta. Þó getur félagi sótt um niðurfellingu árgjaldsins sökum bágrar fjárhagsstöðu og skal stjórn samtakanna fá og afgreiða erindið. Samtökin eru að öðru leyti fjármögnuð með styrkjum frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess er innheimt greiðsla fyrir fræðsluerindi á vegum félagsins. Öll vinna sem félagsmenn inna af hendi í þágu samtakanna er sjálfboðavinna“.

Greinargerð:

Reynslan hefur sýnt að félagsgjöld (árgjöld) eru eðlileg og fljótleg leið til að tryggja þá grunnstarfsemi sem eru samtökunum nauðsynleg. Hér er meðal annars átt við fundarhöld og aðstöðu, kaup á kaffi og vegna stærri funda meðlæti, samkomur, kaup á pappír og öðrum gögnum, póst- og símakostnaður, tölvukostnaður, erindrekstur við stjórnvöld og fleira. Árgjald upp á 1.000 krónur tryggir slíkt, en vegna víðtækari starfsemis þarf hins vegar að koma til styrkveitinga frá opinberum- og einkaaðilum.

Einar D. G. Gunnlaugsson

Friðrik Þór Guðmundsson


Hvað segir og gerir Jóhanna? Allir á fund! Lesið úr fróðlegri bók...

Kæru félagar í Breiðavíkursamtökunum - eftir að við öll höfum vandlega hlustað á hæstvirtan forsætisráðherra halda stefnuræðu í kvöld og væntanlega heyrt hana fara lofandi orðum um sanngirnisbætur og fleiri réttlætismál - verður upplagt að mæta á félagsfundinn annað kvöld.

Fyrirhugaður félagsfundur BRV er staðfest bókaður kl. 20 á morgun, þriðjudagskvöld, í fundarsalnum í sal ReykjavíkurAkademíunnar við Hringbraut (3. hæð JL-hússins). Raunar er ekki mikið að frétta af bótamálum eins og er, en reynt verður að hlera betur fyrir fundinn.
 
Á fundinn ætlar Ragnihldur Guðmundsdóttir að mæta og lesa úr bók sinni, en maður hennar og bróðir vistuðust á Breiðavík og Kumbaravogi, Rögnvaldur og Hjörleifur Helgasynir frá Austfjörðum. Bókina gaf hún sjálf út og hefur hún ekki farið hátt. Dæmi:
 

... "lögregluþjónn kom og sótti hann og í fylgd lögreglumannsins var honum ekið vestur í Breiðuvík og það í leigubíl. Í Breiðuvík dvaldist hann á mánuðum saman, aðeins lítið hrætt grey sem þurfti hlýju en hana var víst ekki að finna í Breiðuvík fremur en í heimahögunum"...

„Einhver hluti þeirra barna sem vistuð voru á þessu barnaheimili höfðu áður verið á Breiðuvík en verið send suður en svo voru einhverjir sendir aftur til Breiðuvíkur. Sum börnin áttu erfiðara en önnur, man sérstaklega eftir nokkrum mjög ódælum drengjum en þeir voru samt bestu skinn inn við bein, þetta var þeirra varnarháttur eftir mikla erfiðleika á fyrstu árum sínum í foreldrahúsum"...

... "Á heimilið kom stundum maður í heimsókn, frændi Kristjáns, hann var alltaf með sælgæti meðferðis og sumir drengjanna áttu oft sælgæti eftir heimsóknir hans, við vissum fljótt hvers vegna en þögðum þunnu hljóði, héldum að þetta væri bara eðlilegt...“.

 


mbl.is Stefnuræða flutt í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavíkurlífið um 1980

Á þessari slóð er hægt að hlusta á mjög fróðlegt viðtal Jónasar Jónassonar frá því um 1980 við nafna sinn, forstöðumann á Breiðavík um 1980, við uppeldisfulltrúa þar og tvo ónafngreinda "vistmenn".

Þetta er löngu á eftir ofbeldisfyllsta tímabilið og vistmenn orðnir miklu færri en áður, en kvartanir forstöðumannsins eru athyglisverðar; heimilið fjárvana, engin eftirfylgni eftir vistun og öll loforð um umbætur vanalega svikin. Uppeldisfulltrúinn er ekki glöð heldur og enn síður piltarnir tveir sem rætt er við - og einhver depurð að svífa yfir vötnunum, hálfgert vonleysi. Holl hlustun.

Gaman væri að fá komment frá fyrrum vistmönnum þessa tímabils, um 1978-1980. Að öllum líkindum var endanlega búið að loka breiðavík skömmu eftir viðtalið. Kannski átti það sinn þátt í því!?

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband