Tafir á skýrslu Spanó-nefndarinnar

 Nú virðist ljóst að skýrsla Vistheimilanefndar (Spanó-nefndar) um nokkur vistheimili (og stofnanir) verður ekki tilbúinn um 1. júlí eins og ráð var fyrir gert og samkvæmt tilkynningu nefndarinnar, sem segir frá í þessari frétt, þá kann að vera allt að því heilt ár að niðurstöður birtist hvað Reykjahlíð og Jaðar varðar. En aðrar niðurstöður komi þó fyrr, en tefjist samt. Því er borið við að taka eigi viðtöl við 75 til 90 fleiri einstaklinga en þá um það bil 170 sem þegar hefur verið talað við.

Það er vitaskuld bara af hinu góða að rætt sé við alla - að allir fái tækifæri á að leggja fram sinn framburð um aðbúnað og meðferð á sér og öðrum börnum á þessum stofnunum. Það verður hins vegar að harma að það hafi ekki tekist innan settra tímamarka. Ljóst er að mikill fjöldi fyrrum vistbarna bíður þess að áfangaskýrsla og síðar lokaskýrsla liggi fyrir.

  Þau heimili sem nefndin hefur skoðað að undanförnu eru: 

  1. Vistheimilið Kumbaravogur
  2. Heyrnleysingjaskólinn
  3. Stúlknaheimilið Bjarg
  4. Vistheimilið Reykjahlið
  5. Heimavistarskólinn Jaðar
  6. Upptökuheimili ríkisins
  7. Unglingaheimili ríkisins
  8. Vistheimilið Silungapollur
Könnun nefndarinnar á starfsemi vist-heimilisins Kumbaravogs, stúlknaheimilisins Bjargs og Heyrnleysingjaskólans mun nú vera á lokastigi. Í tilkynningu frá nefndinni segir einnig að könnun nefndarinnar á vistheimilinu Reykjahlíð og heimavistarskólanum Jaðri sé komin vel á veg.

Í tilkynningu frá nefndinni segir: „Könnun nefndarinnar undanfarin misseri hefur verið afar umfangsmikil. Hefur nefndin þegar rætt við 170 einstaklinga, fyrrverandi vistmenn, fyrrverandi nemendur og aðra sem nefndin hefur talið geta varpað ljósi á starfsemi þeirra stofnana sem nefndin hefur nú tekið til könnunar."
mbl.is Meðferðarheimili rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Ég verð kölluð fyrir nefndina í september ( síðast þegar ég frétti ) Eins mætti koma þeim skilaboðum til nefndar að Skátar fóru á þessi heimili fyrir jól til að gefa þessum börnum gjafir, hvert barn fékk ein pakka, ég spurði sérstaklega hvort ég mæti eiga pakkann, svarið var já auðvita, hjá forstöðukonu, um leið og Skátarnir voru farnir var pakkinn tekin af mér eins og allar gjafir sem ég fékk frá ættingjum, þetta var á þeim tíma mikið áfall fyrir lítið barn, og þetta kenndi mér bara að vantreysta fólki, ég er viss um að þessar ferðir Skáta voru farnar í góðri trú og ekki ætlun þeirra að við fengjum ekki að halda gjöfum, þetta var bara smá brot af því sem gerðist þar sem ég var vistuð.

Sigurveig Eysteins, 29.6.2009 kl. 23:22

2 identicon

Þetta virðist staðfesta að málin eru erfiðari og yfirgripsmeiri en yfirvöld töldu, og í raun vont að tafir verði. Þetta er eins og með Icesave málið að það þykir engum skemmtilegt eða ánægjulegt að standa í þessu, en þetta er bara verk sem þarf að vinna. Nefndin verður þó að fara eftir þeim fyrirmælum og reglum sem henni eru settar, fyrir það fær hún borgað.

Önnur spurning : Hvað var Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur beðinn um að gera ? Var það einungis fyrir Breiðavíkurmenn eða fyrir hina líka ? Og hvernig stendur það mál ? Hefur hann skilað einhverju til samtakanna ?

Kveðja, Baldur G.

Baldur Garðarsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 11:25

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ragnar Aðalsteinsson hefur unnið fyrir samtökin með ráðgjöf og álitsgjöf og tekið þátt í viðræðum við forsætisráðuneytið. Breiðavíkursamtökin eru opin samtök vegna allra vistheimila. Bótamálið byggir hins vegar á niðurstöðum rannsókna. hingað til hefur aðeins komið út ein niðurstaða, ein skýrsla: Um Breiðavík til ársins 1980. Þess vegna hafa viðræður lotið að vistbörnum þess vistheimilis í sjálfu sér, en vitaskuld ætlar ríkið sér að ná fram fordæmi sem það vill láta gilda þegar fleiri skýrslur koma. Þess vegna er með óbeinum hætti verið að semja um alla sem hafa verið í samanburðarhæfum kringumstæðum. Rétt er þó að undirstrika að hvorki samtökin né ríkið geta þröngvað einstaklinga til að undirgangast niðurstöðu slíkra viðræðna milli ríkisins og samtakanna.

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.7.2009 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband