Aðalfundur framundan - tillaga um nafnabreytingu

 Félagsmenn Breiðavíkursamtakanna eru minntir á aðalfund samtakanna sem fram fer þriðjudagskvöldið 25. janúar næstkomandi, kl. 19:30 í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar við hringbraut (JL-húsinu).

Einnig er minnt á áskorun síðasta félagsfundar: "skorað er á fyrrum vistmenn annarra heimila (eða aðstandendur þeirra) en Breiðavíkur (1954-1972, drengjaheimili) að taka við keflinu sem allra mest". Þegar liggja fyrir nöfn 3-4 áhugasamra einstaklinga og vitað um 2-3 sem eru að íhuga málið. Það þarf 5 í stjórn og 2 í varastjórn.

 

Uppfært:

Minnt er á anda félagslaga um kynningu á lagabreytingatillögum. Í því sambandi er hér með kynnt að Friðrik Þór Guðmundsson fyrrum ritari stjórnar og Einar D. G. Gunnlaugsson flytja saman nafnabreytingatillögu um að nafn samtakanna breytist úr Breiðavíkursamtökin í Vistheimilasamtökin. Hinir sömu flytja saman lagabreytingatillögu um mjög hófstillt félagsgjald (árgjald) upp á 1.000 krónur (skráðir félagar eru nú 100 talsins). Þessar breytingatillögur verða nánar kynntar í umræðuþræðinum (kommentakerfinu) von bráðar, en þar er og að finna gildandi lög samtakanna.

Lagabreytingatillögur má leggja fram á sjálfum aðalfundinum án nánari forkynningar, en gott er að þær komi sem fyrst fram til kynningar. Ýmsar lagabreytingar voru samþykktar á síðasta aðalfundi, svo sem heimildarákvæði um að stofna megi undirfélög um hvert vistheimili.

Stjórnin

 

Tillaga:

Einar D. G. Gunnlaugson og Friðrik Þór Guðmundsson eru með 2 lagabreytingatillögur fyrir aðalfund Breiðavíkursamtakana 25. janúar næstkomandi.

TILLAGA 1 - NAFNABREYTING Á SAMTÖKUNUM

Við undirritaðir leggjum hér með fram lagabreytingatillögu um að 1. grein hljóði eftirleiðis:

Félagið heitir Vistheimilasamtökin

Greinargerð:

1. Það er nauðsynlegt samtökum eins og okkar að þau séu "regnhlífasamtök".

2. Regnhlífasamtökin skulu heita nafni sem vistmenn allra vistheimila geta sæt sig við að vera í á jafnréttisgrundvelli.

3. Stækkun samtakana mun eiga verulega erfiðara uppdráttar með því að eyrnamerkja samtökin nafni eins ákveðins vistheimilis, vistmönnum annara vistheimila munu ekki finna sig í samtökum með nafni vistheimilis sem þeir dvöldu ekki á.

4. Nafnið Breiðavíkursamtökin var nauðsynlegt í upphafsbaráttu okkar allra fyrir réttlæti og sanngirnisbótum, sérstaklega þar sem sterk áhrif mynduðust úti í þjóðfélaginu eftir hetjulega framgöngu nokkurra Breiðavíkurdrengja sem komu málinu á það skrið sem þurfti til að ná fram réttlæisbótum . Fyrir það eiga þessir Breiðavíkurdrengir heiður skilið.

5. Að ofansögðu teljum við ljóst að allir vistmenn á hvaða vistheimili sem er geti fundið sig í regnhlífasamtökum okkar undir nafninu VISTHEIMILASAMTÖKIN.


TILLAGA 2 - FÉLAGSGJÖLD

Við leggjum til að 8. greinin hljóði eftirleiðis:

Til að samtökin geti haldið uppi grunnstarfsemi greiða félagar árgjald upp á 1.000 krónur (eitt þúsund krónur). Aðalfundir ákveða þessa upphæð árlega samkvæmt einföldum meirihluta. Þó getur félagi sótt um niðurfellingu árgjaldsins sökum bágrar fjárhagsstöðu og skal stjórn samtakanna fá og afgreiða erindið. Samtökin eru að öðru leyti fjármögnuð með styrkjum frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess er innheimt greiðsla fyrir fræðsluerindi á vegum félagsins. Öll vinna sem félagsmenn inna af hendi í þágu samtakanna er sjálfboðavinna“.

Greinargerð:

Reynslan hefur sýnt að félagsgjöld (árgjöld) eru eðlileg og fljótleg leið til að tryggja þá grunnstarfsemi sem eru samtökunum nauðsynleg. Hér er meðal annars átt við fundarhöld og aðstöðu, kaup á kaffi og vegna stærri funda meðlæti, samkomur, kaup á pappír og öðrum gögnum, póst- og símakostnaður, tölvukostnaður, erindrekstur við stjórnvöld og fleira. Árgjald upp á 1.000 krónur tryggir slíkt, en vegna víðtækari starfsemis þarf hins vegar að koma til styrkveitinga frá opinberum- og einkaaðilum.

Einar D. G. Gunnlaugsson

Friðrik Þór Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SVB

Lög Breiðavíkursamtakanna samþykkt á aðalfundi 27. apríl 2010

1.gr.

Félagið heitir Breiðavíkursamtökin.

2. gr.

Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur samtakanna er að vera málsvari og hagsmunasamtök fólks sem vistað hefur verið á vegum hins opinbera á upptökuheimilum, einkaheimilum og öðrum sambærilegum stofnunum og beita sér fyrir forvarnar- og fræðslustarfi gegn ofbeldi af öllu tagi á börnum á fósturheimilum.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því að styðja félagsmenn og halda uppi markvissu forvarnar- og fræðslustarfi.

5. gr.

Samtökin eru opin öllum sem hafa áhuga á barnaverndarmálum og sögu þeirra.

6.gr.

Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

7.gr.

Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári. Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. 30 daga fyrirvara, með viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir, svo sem með tölvupósti eða símleiðis. Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál.

8.gr.

Ekki er um árgjald að ræða heldur eru samtökin fjármögnuð með styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess er innheimt greiðsla fyrir fræðsluerindi á vegum félagsins. Öll vinna sem félagsmenn inna af hendi í þágu samtakanna er sjálfboðavinna.

9.gr.

Dagleg fjársýsla starfsjóðs er í höndum gjaldkera samtakanna en öll stærri fjárútlát skulu lögð fyrir stjórn til samþykktar.

10.gr.

Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum „önnur mál“.

11.gr.

Fari svo að félagið verði lagt niður þá verður sú ákvörðun tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (fjórir/fimmtu).  Eignir þess skulu renna til félaga/samtaka er starfa í svipuðum tilgangi skv. ákvörðun aðalfundar.

SVB, 29.12.2010 kl. 20:04

2 Smámynd: SVB

Athugsemd frá félaga og lesanda:

"... væri ekki athugandi að tala við Íslenskufræðing út af nýju nafni, finnst þetta nafn eitthvað ekki að virka, finnst eins og þetta geti ekki verið rétt samsetning, finnst að það ætti að vera Samtök um Vistheimili en ekki Vistheimilasamtök.... ??? það mæti athuga þetta :)".

SVB, 30.12.2010 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband