"...og troðið henni þangað sem dimmast er"

"„Þeir geta tekið þessa ­milljón og troðið henni þangað sem dimmast er,“ segir Hans Óli Hansson, 66 ára, um þær sanngirnisbætur sem honum bjóðast vegna dvalar á vistheimilinu Silungapolli þegar hann var á áttunda ári.

Hann var beittur miklu andlegu ofbeldi sem hefur markað hann allar götur síðan. Þá voru þær kennsluaðferðir sem beitt var við lestrarkennslu á heimilinu mjög harkalegar. Hans vill meina að báðir þessir þættir hafi orðið til þess að hann átti ávallt mjög erfitt með nám, bæði í barna- og gagnfræðaskóla, en hann flosnaði að lokum upp úr námi. Á Silungapolli missti hann einnig sjónina á öðru auganu.

Bæturnar sem Hans bjóðast hljóða upp á 1.256.819 krónur, en hámark bóta sem vistheimilisbörn geta fengið eru 6 milljónir króna. Hans finnast bæturnar smánarlegar miðað við hvað hann og fleiri máttu þola á heimilinu.
Þrátt fyrir að bótaupphæðin sem slík skipti Hans ekki öllu máli þá finnst honum gert lítið úr skelfilegri reynslu sinni á Silungapolli með þessu sáttaboði. „Ég spyr bara hvað þarf að koma fyrir börnin svo þau fái fullar bætur?“"

Sjá nánar:

http://www.dv.is/frettir/2012/4/20/their-geta-tekid-thessa-milljon-og-trodid-henni/


Kynferðislegt ofbeldi innan samfélags heyrnarlausra og þöggun þess

Eftir Elsu Björnsdóttur, stjórnarmann SVB

Inngangur 

Leyndarmál er vitneskja sem er ekki sögð öllum, hún getur verið jákvæð á borð við óvænta afmælisveislu handa einstaklingi sem má ekkert frétta fyrr en á síðustu stundu þegar mætt er í veisluna, eða gjafir sem eiga ekki að koma í ljós fyrr en pakkinn er opnaður. Leyndarmál þrífast af því einstaklingur eða hópar ákveða að segja ekkert og sá sem ætti að vita sannleikann veit þá ekkert. Gott dæmi um samfélagsleyndarmál eru sögurnar af jólasveinum. Fullorðið fólk tekur þá meðvitaða ákvörðun um að segja börnunum ekki að þessar sögur séu uppspuni, að jólasveinar séu ekki til. Tilgangurinn er ekki neikvæður heldur er markmiðið að börnin njóti ákveðinnar gleði yfir þeirri tilhugsun að ókunnugur skeggjaður karl komi alla leið ofan úr fjöllum, í þeim eina tilgangi að gleðja þægu börnin og gefa gjafir í skóinn. Samfélagið ákveður þá að láta leyndarmálið ganga kynslóð fram af kynslóð og viðhalda blekkingunni. Börnin fá svo að uppgötva sjálf að jólasveinninn sé ekki til. Þegar þau uppgötva sannleikann er þeim kennt að segja ekkert, því litli bróðir eða litla systir mega ekkert vita og verða því um leið virkir þátttakendur í lyginni sem samfélagið kallar hefð. 

            Annars konar þöggun hefur viðgengist í samfélagi heyrnarlausra en hún tengist engri gleði heldur tengist hún áralöngu ofbeldi. Ofbeldi af hendi þeirra sem sjálfir tilheyrðu samfélaginu sem og af hendi annarra sem stoppuðu stutt í samfélaginu og þögguðu ofbeldið svo niður því enginn mátti vita neitt.  Ofbeldi er hægt að skoða frá mörgum sjónarhornum, því líkamlega, andlega, félagslega og loks kynferðislega. Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er sérlega viðkvæmt umræðuefni en því umræðuefni virðist fylgja mikil skömm og heitar tilfinningar sem erfitt er að ráða við.  Saga heyrnarlausra er mjög ofbeldisfull og hægt er að rekja það til ýmissra þátta sem allir tengjast því beint eða óbeint að breyta átti heyrnarlausu börnunum og gera þau líkari þeim heyrandi.  Raddmálsstefnan sem byrjaði á þinginu í Milanó og barst út um allan heim, gerði það að verkum að börnin fengu á þesum tíma óeðlilegt málaumhverfi. Skorturinn á táknmáli í samskiptum leiddi af sér einangrun þeirra heyrnarlausu og slæma menntun. Líkur má telja á að sú meðferð sem heyrnarlausir hlutu á þessum tíma hafi haft þær afleiðingar að ofbeldið varð svona sterkur þáttur í lífi þeirra. Ég mun ekki tala um allar tegundir ofbeldis í þessari ritgerð heldur einungis þann þátt sem snýr að kynferðislegu ofbeldi gagnvart heyrnarlausum og þá aðallega heyrnarlausum börnum. Viðfangsefni ritgerðarinnar er að skoða hvernig þetta ofbeldi hafði áhrif á líf og stöðu heyrnarlausra á Íslandi. Eins ætla ég að leitast við að reyna að svara spurningunni „hvers vegna varði þöggunin svona lengi innan samfélags heyrnarlausra?“

 

Páll  og sagan                                                                                                   

Kynferðisleg misnotkun og þöggun þess virðist hafa fylgt sögu heyrnarlausra frá því að fyrsti heyrnleysingjaskólinn var stofnaður en það tímabil spannar rúmlega 100 á eða frá árinu 1867 til ársins 2000. Eftir að séra Páll Pálsson var vígður prestur hóf hann að kenna heyrnarlausum börnum. Hann var sá fyrsti á Íslandi til að verða skipaður mál- og heyrnleysingjakennari.  Skólinn hafði aðsetur sitt á Prestbakka og í byrjun hafði hann þrjá nemendur sem allir voru unglingar en þeim fjölgaði síðan og voru að jafnaði fimm til sjö nemendur hjá Páli á Prestbakka.  Auk þess sem Páll var prestur, þá gaf hann út þrjár kennslubækur fyrir mál- og heyrnarlaus börn, starfaði sem alþingismaður í átta ár í því starfi tókst honum að láta lögleiða skólaskyldu fyrir heyrnarlaus börn og afla sér virðingar sem talsmaður heyrnarlausra barna. Í þau 20 ár sem hann hélt uppi kennslu heyrnarlausra námu hjá honum alls 19 ungmenni á aldrinum 10 til 27 ára og kenndi hann þeim allt frá einu ári upp í sjö ár. Sögur gengu um kvensemi hans og hann var talinn hafa eignast börn með a.m.k. tveimur nemenda sinna. Vitað er að önnur var Anna Sigríður Magnúsdóttir sem eignaðist barn með Páli 1876 á meðan hún stundaði nám sitt á Prestbakka hin er ekki nafngreind og ekki vitað hver hún er. Kirkjuyfirvöld voru ekki sátt við Pál á þessum tíma og hann þurfti að hafa fyrir því að halda mannorði sínu hreinu og brá því á það ráð að gifta Önnu öðrum heyrnarlausum nemanda. sínum og fá til þess leyfi hjá biskupinum. Þannig losaði hann sig undan foreldraskyldum sínum gagnvart barninu sem og skyldum gagnvart nemandanum með því að tala fyrir hana, heyrnarlausa konuna sem eflaust gat ekki varið sig sjálf.  Anna Sigríður Magnúsdóttir sem þekkt er í samfélagi heyrnarlausa sem Anna mállausa var fædd c.a. árið 1855 en hún var 27 ára árið 1877 er séra Páll óskaði eftir að gifta hana 25 ára heyrnarlausum manni Kristjáni Jónssyni svo barn hennar og Páls yrði kennt við Kristján. (Reynir Berg Þorvaldsson, 2010, bls 15 til 27)

Það að hin heyrnarlausa konan var aldrei nafngreind er gott dæmi um þöggun en enn í dag hefur nafn hennar aldrei komið fram í neinum skráðum heimildum einungis er hennar getið sem barnsmóður Páls í útgáfu Jóns Hnefils Aðalsteinssonar, Af jökuldalsmönnum og fleira fólki.  Leyndarmálið fékk því að lifa og aldur hennar, nafn barnsins og hvað varð um þá konu veit enginn enn í dag. (Þorkell Björnsson frá Hnefilsdal, 1981, bls 11-17)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innköllun vegna U-heimilanna hafin

Innköllun vegna Jaðars rennur út nú í apríl, en innköllun á kröfum vegna U-heimilanna og tengdra stofnana er nú nýhafin og er kröfufrestur til 30. júní. Samanber auglýsingu sýslumanns:

Í samræmi við ákvæði laga nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 og tóku gildi hinn 28. maí 2010, hefur sýslumanninum á Siglufirði verið falið að gefa út innköllun, fara yfir kröfur og gera þeim sem eiga rétt á bótum skrifleg sáttaboð. Skal sýslumaður eftir því sem kostur er fjalla samtímis um allar kröfur er lúta að sama heimilinu.

 Á grundvelli þessa er nú kallað eftir kröfum frá þeim sem voru vistaðir á:

 Upptökuheimili ríkisins

Starfsemi heimilisins var í Elliðahvammi í Kópavogi á árunum 1945-1964 og í starfsmannabústað Kópavogshælis við Kópavogsbraut á árunum 1964-1971.

 Hér með er skorað á alla þá sem voru vistaðir á Upptökuheimili ríkisins einhvern tíma á árabilinu 1945-1971 og urðu þar fyrir illri meðferð eða ofbeldi sem olli varanlegum skaða, að lýsa kröfu um skaðabætur fyrir undirritaðri fyrir 30. júní 2012. Kröfu má lýsa á eyðublaði sem er að finna á vefnum www.sanngirnisbætur.is og hjá tengiliði vegna vistheimila. Unnt er að skila umsókn í rafrænu formi.

 Allar kröfur skulu sendar sýslumanninum á Siglufirði, Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði.

 Verði kröfu ekki lýst fyrir 30. júní 2012 fellur hún niður.

 Bent er á að unnt er að leita aðstoðar tengiliðar vegna vistheimila við framsetningu og skil á bótakröfu. Aðstoð tengiliðar er að kostnaðarlausu. Skrifstofa tengiliðar er að Hverfisgötu 4a-6a, þriðju hæð, 101 Reykjavík.  Sími tengiliðar er 545 9045. Veffang er www.tengilidur.is og netfang er tengilidur@tengilidur.is.

 


Siglufirði 24. mars 2012

Ásdís Ármannsdóttir sýslumaður

 


Enn eitt vistheimilabarnið fallið frá

til himnaEnn eitt vistheimilabarnið er látið langt fyrir aldur fram, Ingimundur Eyjólfsson Breiðavíkurdrengur, sextugur að aldri. Ingimundur fæddist í Reykjavík 28. júní 1951. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 22. janúar 2012. Faðir þriggja barna.

Ingimundur lauk gagnfræðaprófi frá Réttarholtsskóla, vann verslunarstörf í mörg ár, eða þar til hann hóf nám í málaraiðn við Iðnskólann í Reykjavík. Hann öðlaðist meistararéttindi 1982 og starfaði við iðnina í um þrjá áratugi. Blessuð sé minning hans. Hans verður minnst von bráðar á vettvöngum samtakanna.

Sjá nánar viðhengi (minningargreinar). Í eldri greinum síðunnar er hægt að lesa um fleiri sem látist hafa og háa dánartíðni meðal Breiðavíkurdrengja:

http://brv.blog.is/blog/brv/entry/1161242/
http://brv.blog.is/blog/brv/entry/1107562/
http://brv.blog.is/blog/brv/entry/1065932/
http://brv.blog.is/blog/brv/entry/954437/
http://brv.blog.is/blog/brv/entry/553231/
 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aðventukvöld Samtaka vistheimilabarna

Næsti fundur SVB. verður á léttu nótunum. Fjölbreytt skemmtiatriði verða og má þar nefna: Upplestur, tónlist, sjónhverfingar og risabingó. Ákveðið hefur verið að stilla aðgangseyri í hóf og hafa frítt inn.

Um er að ræða "Aðventukvöld" þann 14. desember í félagsmiðstöðinni Aflagranda 40, kl. 19:30 til 22:30.

Kynnir verður Friðrik Þór Guðmundsson. Hugvekju flytur séra Bjarni Karlsson sóknarprestur og velunnari SVB frá upphafi og hann minnist látinna félagsmanna.

Víglundur Þór Víglundsson formaður hefur umsjón með tónlistaratriði; einsöng og fjöldasöng. Guðný Sigurgeirsdóttir flytur ljóð í anda jólanna.

Heiðursviðurkenningar verða veittar, kaffiveitingar verða í umsjón Kaffinefndar SVB og haldið verður Bingo með veglegum vinningum, undir styrki stjórn Einars G. D. Gunnlaugssonar og Elsu G. Björnsdóttur varaformanns. Spilaðar verða nokkrar umferðir eftir því sem tíminn leyfir.

Reynt verður að ná SKYPE sambandi við þá félaga sem búa erlendis og úti á landi og leyfa þeim þannig að njóta dýrðanna með okkur.

Facebook-fólk er hvatt til að kíkja á FB-síðu um viðburðinn og skrá sig þar til þátttöku (en það er þó ekki skilyrði fyrir þátttöku!).


"..... sum árin hafi allt of mörg börn verið þar vistuð"

Af mbl.is:

Sýslumaðurinn á Siglufirði hefur kallað eftir kröfum frá þeim sem dvöldu á vistheimilinu Silungapolli í samræmi við ákvæði laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

Skorað er á alla þá sem vistaðir voru á Silungapolli á vegum barnaverndar Reykjavíkur á árunum 1950-1969 og urðu þar fyrir illri meðferð eða ofbeldi sem olli varanlegum skaða, að lýsa kröfu um skaðabætur fyrir 22. janúar 2012.

Silungapollur var rekið af Reykjavíkurborg og var ætlað fyrir börn á aldrinum 3-7 ára. Þar var vistað 951 barn á starfstíma heimilisins. Auk þess var á heimilinu rekin sumardvöl fyrir börn á vegum Rauða kross Íslands en ekki kemur til álita að greiða sanngirnisbætur til þeirra, þar sem sú dvöl fellur ekki undir gildissvið laga nr. 26/2007.

Í september í fyrra kynnti vistheimilisnefnd skýrslu um vistheimilin Silungapoll, Reykjahlíð og heimavistarskólann á Jaðri. Þar kom fram að aðeins um 4% einstaklinga sem dvöldu á Silungapolli hafi komið fyrir nefndina þrátt fyrir að hún hefði auglýst í fjölmiðlum eftir vitnisburði þeirra sem þar dvöldu. Nefndin sagði að þetta hefði takmarkað möguleika sína til að draga ályktanir um starfsemina

Róbert Spanó, formaður vistheimilisnefndar, sagði í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir að skýrslan var kynnt, að nefndin hefði talið það verulega gagnrýnisvert að á Silungapolli hafi verið samtímis börn á vegum barnaverndaryfirvalda og börn á vegum félagasamtaka. „Það er ljóst af þeim frásögnum sem við fengum að þetta skipulag á starfseminni var sérstaklega erfitt fyrir þau börn sem voru þar mjög lengi og á vegum barnaverndaryfirvalda. Þá er það okkar afstaða að aðstaða og húsakostur á Silungapolli hafi lengst af verið ófullnægjandi og sum árin hafi allt of mörg börn verið þar vistuð, bæði með tilliti til húsakosts og starfsmannafjölda.“

 http://mbl.is/frettir/innlent/2011/10/23/sanngirnisbaetur_fyrir_silungapoll/


Félagsfundur SVB 16. nóvember

Á stjórnarfundi SVB þann 19. október sl. var ákveðið að boða til næsta félagsfundar þann 16. nóvember næstkomandi.

Ástæður breytts fundartíma félagsfundar eru þær að stutt er síðan stjórnarbreyting átti sér stað og stjórnin hefur haft mikið að gera vegna ýmisa mála sem snúa að stjórninni, t.d. skráningarferli vegna nafnabreytingarinnar,  ásamt því að til stendur að fara á næstu dögum í viðræður við Reykjavíkurborg um húsnæðismáli SVB - og vill stjórnin geta sagt frá þeim viðræðum og helst tilkynnt um nýtt húsnæði á næsta félagsfundi.


Einnig er stjórnin að vinna að málum sem tilkynnt verður um á fundinum 16. nóvember.  Félagsfundurinn verður nánar kynntur er nær dregur.

Stjórn SVB.


Lög Samtaka vistheimilabarna 2011

Lög Samtaka vistheimilabarna 2011

eftir samþykkta breytingu á 8. grein á aðalfundi 27. september 2011

1.gr.

Félagið heitir Samtök vistheimilabarna.

2. gr.

Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur samtakanna er að vera málsvari og hagsmunasamtök fólks sem vistað hefur verið á vegum hins opinbera á upptökuheimilum, einkaheimilum og öðrum sambærilegum stofnunum og beita sér fyrir forvarnar- og fræðslustarfi gegn ofbeldi af öllu tagi á börnum á fósturheimilum.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því að styðja félagsmenn og halda uppi markvissu forvarnar- og fræðslustarfi.

5. gr.

Samtökin eru opin öllum sem hafa áhuga á barnaverndarmálum og sögu þeirra.

6.gr.

Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

7.gr.

Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári. Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. 30 daga fyrirvara, með viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir, svo sem með tölvupósti eða símleiðis. Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál.

8.gr.

Til að samtökin geti haldið uppi grunnstarfsemi greiða félagar árgjald upp á 1.000 krónur (eitt þúsund krónur) með gjalddaga 1. maí ár hvert. Aðalfundir ákveða þessa upphæð árlega samkvæmt einföldum meirihluta. Þó getur félagi sótt um niðurfellingu árgjaldsins sökum bágrar fjárhagsstöðu og skal stjórn samtakanna fá og afgreiða erindið. Samtökin eru að öðru leyti fjármögnuð með styrkjum frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess er innheimt greiðsla fyrir fræðsluerindi á vegum félagsins. Öll vinna sem félagsmenn inna af hendi í þágu samtakanna er sjálfboðavinna

9.gr.

Dagleg fjársýsla starfsjóðs er í höndum gjaldkera samtakanna en öll stærri fjárútlát skulu lögð fyrir stjórn til samþykktar.

10.gr.

Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum „önnur mál“.

11.gr.

Fari svo að félagið verði lagt niður þá verður sú ákvörðun tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (fjórir/fimmtu).  Eignir þess skulu renna til félaga/samtaka er starfa í svipuðum tilgangi skv. ákvörðun aðalfundar.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fréttir af starfi tengiliðs vistheimila.

Frétt tekin af heimasíðu tengiliðs.

Það er að verða komið eitt ár frá því að Tengiliður vistheimila tók til starfa. Margt hefur gerst á þessum tíma, við marga hefur verið rætt og úrlausnarmálin verið margþætt og margvísleg, óháð umsókn um sanngirnisbætur.

Þau heimili sem búin eru sýslumaður hefur úrskurðað um eru:

Breiðuvík, Heyrnleysingjaskóli og Kumbaravogur. Umsóknarfresti er einnig lokið vegna dvalar á Bjargi og í Reykjahlíð, en sýslumaður mun úrskurða vegna þeirra heimila í lok október.

Nú er að hefjast innköllun vegna dvalar á Silungapolli og mun henni ljúka 22.janúar 2012.

Búast má við að innköllun vegna Jaðars verði í lok janúar eða um leið og umsóknarferli vegna Silungapolls lýkur.

Þá eru bara eftir Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins, en Vistheimilanefnd mun sennilega ljúka sinni skýrslu vegna þeirra um miðjan eða í lok október. Þau heimili munu þá verða síðust í röðinni.

Tengiliður hefur unnið í mjög góðu samstarfi við fjöldann allan af sveitarfélögum (en sérstakt teymi er t.d. starfandi í Reykjavík), fagfólki og opinberum stofnunum svo eitthvað sé nefnt.

Tengiliður aðstoðar líka einstaklingana sem hingað koma við margs konar úrlausnir vandamála. Sálfræðiaðstoð er þar stærsti þátturinn og hefur tengiliður samið við mjög mörg sveitarfélög um greiðslu kostnaðar vegna þessa til þeirra einstaklinga sem þörf hafa fyrir slíkann stuðning.

Húsnæðismál, menntunarmál, heilbrigðismál og önnur mál af svipuðum toga koma einnig til kasta tengiliðs. En ekki er það þó þannig að tengiliður hafi yfir styrkjum eða fjármunum að ráða fyrir einstaklinga, slíkt ber að sækja um á viðeigandi stöðum allt eftir því sem þörf er fyrir hverju sinni en tengliður leiðbeinir eintaklingum um það hvar og hvaða þjónustu er að fá í hverju tilfelli fyrir sig og kemur oft á tengslum milli eintaklinga og stofnana. Rétt er að árétta að öll mál einstaklinga hjá tengilið, hvort sem það eru umsóknir eða annar stuðning eru trúnaðarmál.

Til þess að gefa mynd af umfangi starfsins á þessu eina ári þá hafa yfir 300 umsóknir farið í gegnum tengilið, símtöl hafa verið yfir 500, (en skráð eru öll símtöl sem berast tengilið). Þá er ótalinn sá mikli fjöldi tölvupósta, smáskilaboða og gsm símtala sem einnig berast. Margir nálgast tengilið í gegnum fésið, þó svo að það verði seint talinn opinber vettvangur tengiliðs, en það segir kannski meira um það hversu aðgegnilegur tengiliður er og hversu auðvelt er að koma boðum og óskum um aðstoð á framfæri við hann.

Sennilega væri hægt að segja frá með góðri samvisku að Tengiliður vistheimila væri búinn að sinna á einn eða annan hátt um og yfir 1000- 1200 manns á þessu eina ári.

Þar sem tengilður er einn í þessu starfi þá getur stundum verið snúið að vera með fólk í viðtali á meðan sími hringir. Þá er ekki um annað að ræða en að biðja fólk að hringja aftur eða að ég hringi til baka og vona svo að símhringingin hafi valdið sem minnstri truflun í viðtalinu sjálfu. Þannig þarf einfaldlega að spila af fingrum fram, gera sitt besta, reyna að þjóna öllum vel og vera styðjandi við þá einstaklinga sem hingað leita. Það er faglegur ásetningur minn og svo mun verða áfram.


Fréttabréf stjórnar SVB.

                


BREYTINGAR Á AÐAL- OG VARASTJÓRN

Fyrsti fundur stjórnar SVB

Sú breyting hefur átt sér stað frá því að auka aðalfundur SVB var haldinn 27.09.sl. að einum traustasta félaga okkar Friðriki Þór Guðmundssyni, sem  kjörinn var í aðalstjórn SVB hefur  hlotnast sá heiður að vera kjörinn formaður

Borgara hreyfingarinnar ( BH ) á aðalfundi flokksins þann 29.09.  sl. Friðriki Þór er óskað  velfarnaðar í nýja starfinu.

Þessi óvænta breyting á högum  Friðriks Þórs Guðmundssonar kallar á tilfæringar milli aðal- og

varastjórnar, vegna væntanlegra anna hjá Friðriki Þór í nýja starfinu.  Við verðum þó þeirrar ánægju aðnjótandi,  þrátt fyrir hið nýja starf hans  hjá BH.  að Friðrik Þór sem  starfað  hefur með fórnfúsu sjálfboða -liðastarfi að málefnum vistheimilabarna frá upphafi, þrátt fyrir að eiga ekki vistheimilasögu sjálfur, þ.e. hafi  ekki dvalið á vist- heimilum eins og þorri félags manna SVB,  mun starfa áfram með okkur í SVB. Þær breytingar sem átt hafa  sér stað  vegna þess sem að  framan er sagt eru eftir farandi:  Friðrik Þór Guðmundsson sem kjörinn var í aðal- stjórn,  tekur sæti Einars D. G. Gunnlaugssonar sem 1. varamaður í varastjórn.

Einar D. G. Gunnlaugsson sem kjörinn var sem 1. varamaður í varastjórn tekur sæti Friðriks Þórs í

aðalstjórn sem ritari stjórnar.


           

 

 


Aukaaðalfundur    Kosningar

Önnur mál borinn upp á fundinum.

 

 

Endurflutt var tillaga Friðriks Þórs  Guðmundssonar og Einars D. G. Gunnlaugssonar um  félagsgjald kr. 1000, tillagan var samþykkt með miklum meirihluta fundarmanna. Stjórnin hefur ákveðið að gjalddagi verði 1.maí.

Gjaldið skal endurskoða ár hvert á aðalfundi.


Þar sem sitjandi stjórn ákvað að láta af embætti  þurfti að kjósa nýja aðal-og varastjórn.  Nýtt framboð var kynnt á fundinum en það voru þau Víglundur Þór Víglundsson sem bauð sig fram til formanns,en ásamt honum buðu sig fram þau Elsa G. Björnsdóttir, Guðný Sigurgeirsdóttir, Friðrik Þór Guðmundsson, Þráinn Eðvaldsson, í varastjórn bauð sig fram Einar D. G. Gunnlaugsson . Á fundinum buðu sig fram auk framangreindra þeir þeir Gísli Már Helgason til formanns og til varastjórnar, og Björgvin Kristbergsson og Georg Viðar Björnsson til stjórnarsetu. Atkvæði féllu á eftirfarndi máta:

Formannskjör:

Víglundur Þór Víglundsson fékk 16 atkvæði. Gísli Már Helgason fékk 4 atkvæði.

Atkvæði til stjórnar féllu á eftirfarandi hátt.

Elsa G. Björnsdóttir 18 atkv.    Guðný Sigurgeirsd.  15 atkv. Friðrik Þór Guðmundsson 14 atkv. Þráinn Eðvaldsson 14 atkv. Gísli Már Helgason 7 atkv. og Björgvin Kristbergsson 2 atkvæði. Til varastjórnar: Einar D. G. Gunnlaugsson 19 atkv.  Georg Viðar Björnsson 18 atkv. Gísli Már Helgason 7 atkv. og Björgvin Krisbergsson 2 atkvæði.

 

 

 

Til félagsmanna svb.

Þetta fyrsta tölublað er tilraun stjórnar SVB til að koma upplýsingum með aðgengilegu hætti. Við vonum að þetta mælist vel fyrir.

Ef þið hafið efni stuttar greinar sem þið viljið koma á framfæri í Fréttabréfinu, þá er best að send það á Einar D. G. Gunnlaugson   með tölvupósti á einar@mannvit.is

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband