Sögulegur áfangi

Í dag kl. 13:30 verður kynnt frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum vistheimila ríkisins, sem þola máttu óviðunandi misgjörðir á árum áður.

Frumvarp hafði áður verið smíðað, í stjórnartíð Geirs H. Haarde, en því var illa tekið af samtökum fyrrum vistbarna, enda hugmyndir sem þar komu fram um "sanngjarnar" bætur frámunalega nánasarlegar auk þess sem boðuð aðferðarfræði við ákvörðun bótanna sem þótti fráhrindandi svo vægt sé til orða tekið.

Stjórnvöld settu málið þá í frost og svo helltist Hrunið yfir samfélagið. Ljós í því myrkri var að við tóku skilningsríkari stjórnvöld. Eitthvert fyrsta verk Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra var að biðja þessi fyrrum vistbörn afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar. Síðan hafa verið í gangi hægfara viðræður og þreifingar, við Breiðavíkursamtökin og aðra aðila, en með afleiðingar Hrunsins yfir hausamótunum. Smám saman náðist að breyta aðferðarfræðinni og viðmiðunum öðrum. Fulltrúar ríkisins í þessum viðræðum, yfirleitt lögfræðingar, hafa flestum stundum verið helteknir af lagahyggju og múlbundnir við fyrirliggjandi lagasetningu um bætur og dóma á grundvelli hennar, þótt sama löggjöf sé meira og minna samin af tryggingafélögum landsins í því skyni að hafa bætur sem allra lægstar og jafnframt skorti skilning á því tækifæri sem við hendina var að marka nýtt fordæmi, ný viðmið, nýja forvörn. Á sama tíma varð fulltrúum Breiðavíkursamtakanna ljóst að vegna aðstæðna í samfélaginu, eftir Hrunið, var ekki við því að búast að fallist yrði á ítarkröfur og að til málamiðlunar yrði að koma sem fæli í sér eftirgjöf á höfrðustu væntingum.

Breiðavíkursamtökin (sem eru opin samtök vistbarna allra vistheimilanna og stuðningsaðila) töldu um leið að úrlausn mætti ekki dragast til muna lengur en orðið væri. Samráð stjórnvalda hefur verið gott og viðræður vinsamlegar og þær leiddu til niðurstöðu nú í vikunni. Frumvarpið mun tilgreina hámarks upphæð bóta, sem gjarnan hefði mátt sjást hærri og sem leitað verður til Alþingis um að hækka, eins og gengur, en á félagsfundi samtakanna í gær var samhljóða samþykkt að frumvarpið væri orðið svo viðunandi að ekki yrði lagst gegn framlagningu þess. Stjórn samtakanna taldi enda að ekki yrði lengra komist að svo stöddu og ekki réttmætt að bíða með lagasetningu lengur. 

UPPFÆRSLA (texti visis.is):

"Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur vegna misgjörða á stofnunum og heimilum.

Samkvæmt frumvarpinu geta bætur numið allt að 6 milljónum króna til hvers einstaklings.

Þar er kveðið á um bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á tilteknum heimilum og stofnunum fyrir börn.

Við mat á því hvort bótaskilyrði eru uppfyllt verður ekki einvörðungu litið til líkamlegra og sálrænna afleiðinga af vistinni heldur einnig félagslegra eins og missis tækifæra.

Þá segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni að náið samráð hefur verið haft við Breiðavíkursamtökin við vinnslu frumvarpsins og hefur meðal annars verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra um erfðarétt barna vistmanna sem fallnir eru frá.

Þá verður skipaður sérstakur tengiliður við fyrrverandi vistmenn sem munu aðstoða við kröfugerð á hendur ríkinu og leiðbeina um önnur úrræði sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á eins og varðandi menntun og endurhæfingu.

Málsmeðferð verður í tveimur þrepum samkvæmt frumvarpinu.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra, sem fara mun með framkvæmd laganna, mun fela tilteknum sýslumanni að gefa út innköllun, fara yfir lýstar kröfur og gera viðkomandi sáttaboð telji hann líkur á að bótaskilyrði séu uppfyllt. Lögð er áhersla á hraða og einfalda málsmeðferð af hálfu sýslumanns.

Uni fyrrverandi vistmaður ekki sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann snúið sér til sérstakrar úrskurðarnefndar sem komið verður á laggirnar. Þar mun fara fram ítarlegri könnun á aðstæðum viðkomandi einstaklings og honum gefinn kostur á að gefa munnlega skýrslu. Á báðum stigum verða sönnunarkröfur vægari en venja er í skaðabótamálum.

Erfitt er að áætla kostnað fyrir ríkið af bótagreiðslum, m.a. vegna þess að rannsókn er ekki enn lokið á öllum þeim heimilum sem falla undir lögin. Komið hafa út skýrslur um Breiðavíkurheimilið, Heyrnleysingjaskólann, Bjarg og Kumbaravog. Skýrslur um Reykjahlíð, Silungapoll og Jaðar eru væntanlegar síðar á árinu.

Síðustu skýrslurnar verða um Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins og munu koma út árið 2011. Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis er tekið það dæmi að ef 100 manns eigi rétt á bótum og hljóti meðalbætur þá verði kostnaður ríkisins 300 milljónir króna auk kostnaðar af starfi úrskurðarnefndar og málskostnaðar.

Frumvarpið var unnið af starfshópi sem í áttu sæti Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, formaður, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðilegur ráðunautur félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra, Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður og Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild HÍ.

Starfshópurinn skilaði af sér fullbúnu frumvarpi fyrr í vikunni nema hvað ákvörðun um hámarksfjárhæð bóta og erfðarétt var vísað til forsætisráðherra.

Frumvarpið verður nú sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til frekari meðferðar og væntanlega lagt fram á Alþingi í næstu viku."
mbl.is Fá bætur vegna illrar meðferðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Loksins get ég verið stoltur af því, að vera Íslendingur.  Til hamingju.

Pjetur Hafstein Lárusson, 12.3.2010 kl. 20:00

2 Smámynd: SVB

Takk Pjetur, einörð barátta, þrautseigja og þolinmæði skilaðu loks viðunandi árangri. Hrunið hjálpaði ekki til...

SVB, 12.3.2010 kl. 22:29

3 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Enn...Hvenær verður Geirfinnsmálið tekið til rannsóknar? mal214.googlepages.com

Guðrún Magnea Helgadóttir, 13.3.2010 kl. 00:39

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Hvar eruð þið núna unnendur sannleikans?

Guðrún Magnea Helgadóttir, 13.3.2010 kl. 00:46

5 Smámynd: SVB

Viðtöl eftir frumvarpskynninguna (RÚV):

http://dagskra.ruv.is/ras2/4519080/2010/03/12/2/

SVB, 14.3.2010 kl. 01:44

6 identicon

Hæ ég er svo stolt af ykkur langaði að gera eitthvað ég bjó til hóp á facebook ykkur til heiðurs margmið mitt er að fá sem flesta  í hópinn til að sýna ykkur að þið eruð hetjur islands kveðja  og knús Ásta styff

Ásta styff (IP-tala skráð) 14.3.2010 kl. 14:08

7 Smámynd: SVB

Takk Ásta - hvað heitir svo facebook hópurinn?

SVB, 14.3.2010 kl. 19:37

8 identicon

Guðrún Magnea spyr um endurupptöku Geirfinnsmáls. Það er búið að reyna að fá það endurupptekið, en án árangurs. Sama má segja um mál Einars heitins Agnarssonar og Sturlu, það er þungt undir fæti með svona gömul mál og ég efast um að Breiðavíkursamtökin geti neitt gert í því héðan af. Reyndar væri fróðlegt að heyra frá stjórn samtakannna hvort hún hafi á prjónunum að beita sér í einhverjum málum eftir að bótamálinu lýkur.

En til hamingju annars með að þessu strögli skuli vonandi vera að ljúka. Baldur.

Baldur Garðarsson (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 21:07

9 identicon

Ég vil þakka Breiðavíkurstrákunum, fyrir það að hafa tekið þennan ljóta draug fram í dagsljósið,í þjóðfélagi þar sem allt á að vera svo fínt og flott, og öllu öðru á að sópa undir mottuna, baráttan var örugglega ekki auðveld, ég er sammála Ástu þið eruð hetjur.

Kærar þakkir Johanna

Johanna bjornsdottir (IP-tala skráð) 6.4.2010 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband