Færsluflokkur: Heilbrigðismál
Kynferðislegt ofbeldi innan samfélags heyrnarlausra og þöggun þess
12.4.2012 | 12:17
Eftir Elsu Björnsdóttur, stjórnarmann SVB
Leyndarmál er vitneskja sem er ekki sögð öllum, hún getur verið jákvæð á borð við óvænta afmælisveislu handa einstaklingi sem má ekkert frétta fyrr en á síðustu stundu þegar mætt er í veisluna, eða gjafir sem eiga ekki að koma í ljós fyrr en pakkinn er opnaður. Leyndarmál þrífast af því einstaklingur eða hópar ákveða að segja ekkert og sá sem ætti að vita sannleikann veit þá ekkert. Gott dæmi um samfélagsleyndarmál eru sögurnar af jólasveinum. Fullorðið fólk tekur þá meðvitaða ákvörðun um að segja börnunum ekki að þessar sögur séu uppspuni, að jólasveinar séu ekki til. Tilgangurinn er ekki neikvæður heldur er markmiðið að börnin njóti ákveðinnar gleði yfir þeirri tilhugsun að ókunnugur skeggjaður karl komi alla leið ofan úr fjöllum, í þeim eina tilgangi að gleðja þægu börnin og gefa gjafir í skóinn. Samfélagið ákveður þá að láta leyndarmálið ganga kynslóð fram af kynslóð og viðhalda blekkingunni. Börnin fá svo að uppgötva sjálf að jólasveinninn sé ekki til. Þegar þau uppgötva sannleikann er þeim kennt að segja ekkert, því litli bróðir eða litla systir mega ekkert vita og verða því um leið virkir þátttakendur í lyginni sem samfélagið kallar hefð.
Annars konar þöggun hefur viðgengist í samfélagi heyrnarlausra en hún tengist engri gleði heldur tengist hún áralöngu ofbeldi. Ofbeldi af hendi þeirra sem sjálfir tilheyrðu samfélaginu sem og af hendi annarra sem stoppuðu stutt í samfélaginu og þögguðu ofbeldið svo niður því enginn mátti vita neitt. Ofbeldi er hægt að skoða frá mörgum sjónarhornum, því líkamlega, andlega, félagslega og loks kynferðislega. Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er sérlega viðkvæmt umræðuefni en því umræðuefni virðist fylgja mikil skömm og heitar tilfinningar sem erfitt er að ráða við. Saga heyrnarlausra er mjög ofbeldisfull og hægt er að rekja það til ýmissra þátta sem allir tengjast því beint eða óbeint að breyta átti heyrnarlausu börnunum og gera þau líkari þeim heyrandi. Raddmálsstefnan sem byrjaði á þinginu í Milanó og barst út um allan heim, gerði það að verkum að börnin fengu á þesum tíma óeðlilegt málaumhverfi. Skorturinn á táknmáli í samskiptum leiddi af sér einangrun þeirra heyrnarlausu og slæma menntun. Líkur má telja á að sú meðferð sem heyrnarlausir hlutu á þessum tíma hafi haft þær afleiðingar að ofbeldið varð svona sterkur þáttur í lífi þeirra. Ég mun ekki tala um allar tegundir ofbeldis í þessari ritgerð heldur einungis þann þátt sem snýr að kynferðislegu ofbeldi gagnvart heyrnarlausum og þá aðallega heyrnarlausum börnum. Viðfangsefni ritgerðarinnar er að skoða hvernig þetta ofbeldi hafði áhrif á líf og stöðu heyrnarlausra á Íslandi. Eins ætla ég að leitast við að reyna að svara spurningunni hvers vegna varði þöggunin svona lengi innan samfélags heyrnarlausra?
Páll og sagan
Kynferðisleg misnotkun og þöggun þess virðist hafa fylgt sögu heyrnarlausra frá því að fyrsti heyrnleysingjaskólinn var stofnaður en það tímabil spannar rúmlega 100 á eða frá árinu 1867 til ársins 2000. Eftir að séra Páll Pálsson var vígður prestur hóf hann að kenna heyrnarlausum börnum. Hann var sá fyrsti á Íslandi til að verða skipaður mál- og heyrnleysingjakennari. Skólinn hafði aðsetur sitt á Prestbakka og í byrjun hafði hann þrjá nemendur sem allir voru unglingar en þeim fjölgaði síðan og voru að jafnaði fimm til sjö nemendur hjá Páli á Prestbakka. Auk þess sem Páll var prestur, þá gaf hann út þrjár kennslubækur fyrir mál- og heyrnarlaus börn, starfaði sem alþingismaður í átta ár í því starfi tókst honum að láta lögleiða skólaskyldu fyrir heyrnarlaus börn og afla sér virðingar sem talsmaður heyrnarlausra barna. Í þau 20 ár sem hann hélt uppi kennslu heyrnarlausra námu hjá honum alls 19 ungmenni á aldrinum 10 til 27 ára og kenndi hann þeim allt frá einu ári upp í sjö ár. Sögur gengu um kvensemi hans og hann var talinn hafa eignast börn með a.m.k. tveimur nemenda sinna. Vitað er að önnur var Anna Sigríður Magnúsdóttir sem eignaðist barn með Páli 1876 á meðan hún stundaði nám sitt á Prestbakka hin er ekki nafngreind og ekki vitað hver hún er. Kirkjuyfirvöld voru ekki sátt við Pál á þessum tíma og hann þurfti að hafa fyrir því að halda mannorði sínu hreinu og brá því á það ráð að gifta Önnu öðrum heyrnarlausum nemanda. sínum og fá til þess leyfi hjá biskupinum. Þannig losaði hann sig undan foreldraskyldum sínum gagnvart barninu sem og skyldum gagnvart nemandanum með því að tala fyrir hana, heyrnarlausa konuna sem eflaust gat ekki varið sig sjálf. Anna Sigríður Magnúsdóttir sem þekkt er í samfélagi heyrnarlausa sem Anna mállausa var fædd c.a. árið 1855 en hún var 27 ára árið 1877 er séra Páll óskaði eftir að gifta hana 25 ára heyrnarlausum manni Kristjáni Jónssyni svo barn hennar og Páls yrði kennt við Kristján. (Reynir Berg Þorvaldsson, 2010, bls 15 til 27)
Það að hin heyrnarlausa konan var aldrei nafngreind er gott dæmi um þöggun en enn í dag hefur nafn hennar aldrei komið fram í neinum skráðum heimildum einungis er hennar getið sem barnsmóður Páls í útgáfu Jóns Hnefils Aðalsteinssonar, Af jökuldalsmönnum og fleira fólki. Leyndarmálið fékk því að lifa og aldur hennar, nafn barnsins og hvað varð um þá konu veit enginn enn í dag. (Þorkell Björnsson frá Hnefilsdal, 1981, bls 11-17)
Heilbrigðismál | Breytt 22.4.2012 kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stefán Þ. Karlsson - enn deyr Breiðvíkingur
10.6.2010 | 15:35
Breiðvíkingurinn Stefán Þorkell Karlsson ljósmyndari andaðist heima hjá sér þann 2. júní síðastliðinn. Af Breiðvíkingum á tímabili drengjavistunar, 1953-1972, hafa þar með andast að lágmarki 33 af 126 drengjum eða rúm 26% (en óljóst er með afdrif eins til þriggja til viðbótar).
Stefán fæddist 15. maí 1954 og var því 56 ára. Hann var vistaður á Breiðavík aðeins 10 ára gamall, í september 1964 og var vistaður vestra í tæp 2 ár, "losnaði" í ágúst 1966.
Stefán átti 5 eigin börn, með fjórum mæðrum, og var fósturfaðir tveggja til viðbótar. Breiðavíkursamtökin senda þeim og öðrum aðstandendum sínar innilegustu samúðarkveðjur. Formaður samtakanna, Bárður Ragnar Jónsson (sem var samtíða Stefáni vestra) minnist hans í athugasemdadálki við færslu þessa.
Jarðarförin fer fram frá Digraneskirkju þriðjudaginn 15. júní kl. 15.
Minningargreinar úr Morgunblaðinu er að finna í athugasemdadálk færslunnar. Blessuð sé minning Stefáns.
Heilbrigðismál | Breytt 18.6.2010 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Breiðavíkurmálin þremur árum síðar
7.2.2010 | 13:55
Um þessar mundir eru liðin þrjú ár síðan Breiðavíkurdrengirnir stigu fram og sögðu sína sögu, fyrst í DV og Kastljósi. Þjóðarmein var afhjúpað og þjóðarsálin var þrumu slegin. Lesendur og áheyrendur fengu vitneskju um fáheyrða harðneskju sem mætti vistheimilabörnum fyrir bara 30-50 árum. Miðaldra menn stigu fram, lýstu líkamlegu og andlegu ofbeldi og annarri illri meðferð, missi og skort.
Við þekkjum þessa sögu hún gleymist ekki svo glatt. Ekki síður hefur heimildamyndin Syndir feðranna dýpkað þessa umræðu, til viðbótar við mynd Guðnýjar Halldórsdóttur og félaga, Veðramót.
Við þekkjum líka að samfélag nútímans tók þessar frásagnir alvarlega og hrinti af stað rannsókn á fortíð fjölda vistheimila og er sú vinna enn í gangi, í höndum Spanó-nefndarinnar svokölluðu. Fyrst kom Breiðavíkur-skýrslan, en nýverið kom önnur skýrslan út, um Kumbaravog og fleiri heimili. Óljóst er með þriðju skýrsluna, en vinna við sum vistheimili er langt komin.
Stétt stjórnmálamanna á Íslandi þótti málið alvarlegt og ríkisstjórn Geirs H. Haarde (D+S) boðaði sanngirnisbætur og sérstakt frumvarp um það. Vel kom fram að hugsanleg lögbrot frá þessum tímum væru fyrnd. Drög að frumvarpi voru kynnt, en þeim var illa tekið af ætluðum bótaþegum. Á þeim tímapunkti kom Hrunið.
Við það varð ljóst að vísitala manngæsku samfélagsins gæti lækkað, í áðurnefndri sanngirni mælt. Það á eftir að koma í ljós, en eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við málinu hefur bæði komið afsökunarbeiðni innan úr Stjórnarráðinu, fyrir þjóðarinnar hönd og ráðamenn hennar, og betur hefur gengið að eiga samráð við fulltrúa stjórnvalda um hið minnsta aðferðarfræðina við að ákvarða bætur til handa samþykktum bótakrefjendum. Nýtt frumvarp um sanngirnisbætur er í námunda við lokavinnslu. Þar er ýmislegt jákvætt að finna, en sumt vantar enn og þá ekki síst upphæðir. Þær eru enn á huldu.
Breiðavíkursamtökin var fyrst félagsskapur drengjanna frá Breiðavík, en fyrir tveimur árum voru samtökin galopnuð sem samtök fyrrum vistbarna á öllum vistheimilum hins opinbera og þau voru opnuð almenningi. Bæði vegna nafnsins og út frá því hverjir eru duglegastir við að mæta á fundi, hafa samtökin stimpil þessa sérstaka vistheimilis á sér, en þetta eru regnbogasamtök eftir sem áður. Vonandi verða raddir fyrrum vistbarna annarra vistheimila sterkari innan samtakanna þegar frá líður, ef til vill eftir nafnabreytingu (ef til þess stendur vilji). Í sínum samtölum og öðrum samskiptum við fulltrúa stjórnvalda um frumvarpið hafa samtökin að sjálfsögðu hugsað út frá hagsmunum heildarinnar, enda mörkuðu stjórnvöld þá stefnu, sem ekki var vikið frá, að boða lög sem næðu til heildarinnar, en ekki einstakra vistheimila. Reyndar held ég að fáum dyljist sérstaða vistheimilisins að Breiðavík hvað umfang hörmunga varðar, en út af fyrir sig hafði hver staður sína sérstöðu. Ég hygg að árangur hafi náðst, en á lokasprettinum gefur augaleið að það þarf að pressa á Alþingi um að gera betur en ríkisstjórnin. Og það þarf að skýra betur ábyrgð og aðkomu þeirra sveitarfélaga sem áttu hlut að máli.
Það er sanngjarnt í þessu máli að þau fyrrum vistbörn sem urðu að þola MIKIÐ ofbeldi og mikla aðra illa meðferð, persónubundna og félagslega, kulda og skort á hlýju, vinnuþrælkun, menntunarskort, einangrun frá fjölskyldu og eigin menningu og fleira ámóta eigi að fá MIKLAR bætur. Þau sem upplifðu lítið af ofangreindu fái eftir því minna. Þau sem upplifðu ekkert af ofangreindu fái ekkert. Erfitt árferði í samélaginu breytir því ekki á nokkurn hátt, að til að bæturnar verði sanngjarnar verða þær í viðeigandi tilfellum vera í því mæli að það breyti lífi viðtakandans algjörlega til betri vegar.
Það er á teikniborði forsætisráðuneytisins að leggja viðkomandi frumvarp fram um eða eftir miðja febrúar-mánuð. Ástæða er til að hvetja almenning til að liðsinna við að þrýsta á um að uppgjör þessara mála verði þannig að sómi sé að.
Friðrik Þór Guðmundsson
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Leitað að vistbörnum á Silungapolli
5.2.2010 | 17:17
Kona, sem vistuð var á Silungapolli um 1945, vill gjarnan komast í samband við fyrrum vistbörn sem voru þar á sama tíma. Upplýsinga má leita í netfanginu elinhirst@gmail.com.
Miðað við sögu vistehimilanna er ljóst að leitað er eftir vistbörnum í fyrstu hópunum sem sendir voru á Silungapoll. Silungapollur var starfræktur frá 1945 til 1971. Þar var rými fyrir 30 einstaklinga í heilsársvistun auk 80 til viðbótar á sumrin. Meginhlutverk Silungapolls var að annast börn í skamman tíma vegna erfiðra heimilisaðstæðna. Dvalartími var mjög breytilegur. Frá nokkrum dögum til nokkurra mánaða og jafnvel nokkurra ára í sumum tilfellum. Flest börn sem voru í heilsársvistun voru ekki á skólaskyldualdri. Þ.e.a.s. ekki orðin 7 ára þó á þvi hafi vissulega verið undantekningar. Silungapollur er í nágrenni Reykjavíkur rétt austan við Rauðhóla og lét Reykjavíkurborg rífa húsakostinn fyrir nokkrum árum.
Enn deyr Breiðavíkurdrengur - og félagsfundur framundan
23.9.2009 | 13:36
Enn einn Breiðavíkurdrengurinn er fallinn langt fyrir aldur fram. Sigurður Lindberg Pálsson lést á heimili sínu 13. september síðastliðinn og fer útför hans fram frá Fossvogskirkju fimmtudaginn 24. september kl. 13 - á morgun.
Sigurður Lindberg var fæddur 12. nóvember 1946 og var á Breiðavík í rúm 2 ár, frá apríl 1958 til ágúst 1960, þegar hann var 11-13 ára. Félagsmenn BRV eru hvattir til að mæta í kirkjuna á morgun.
Ef talningin er rétt þá er Sigurður að líkindum 34. Breiðavíkurdrengurinn af 128, miðað við vistun á tímabilinu 1954-1972. Liðlega fjórðungur manna á besta aldri. Margir þeirra hafa fallið fyrir eigin hendi.
Félagsmenn eru minntir á að reglulegir félagsfundir eru að hefjast á ný, síðasta þriðjudag í hverjum mánuði. Félagsfundur verður því þriðjudagskvöldið 29. september, eftir tæpa viku. Væntanlega í fundarsalnum í JL-húsinu, en það á eftir að staðfesta það og verður tilkynnt um þetta tímanlega.
Skýrsla um Kumbaravog, Bjarg og Heyrnleysingjaskólann
8.9.2009 | 22:23
Og þá er komin Spanónefndar-skýrsla um Kumbaravog, Bjarg og Heyrnleysingjaskólann. Fréttin sem færsla þessi er tengd við segir frá afsökunarbeiðni Jóhönnu til fyrrum vistbarna og nemenda þessara stofnana, en hér að neðan er að finna texta Eyjunnar um skýrsluna og hvað Jóhanna Forsætis er nú að boða. Einnig er neðst að finna tengil á tilkynningu forsætisráðuneytisins og skýrsluna sjálfa.
Innlent - þriðjudagur - 8.9 2009 - 18:16
Forsætisráðuneytið: Lög verða sett um skattfrjálsar bætur vegna misgjörða á vistheimilum. Eftirlit bætt
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að sett verði almenn lög um bætur vegna misgjörða á vistheimilum og að skipuð verði bótanefnd sem tengiliður vistmanna starfar með.
Þetta eru meðal fyrstu viðbragða ríkisstjórnarinnar við skýrslu vistheimilisnefndar um Heyrnleysingjaskólann, Kumbaravog og skólaheimilið Bjarg, sem skýrt er frá í tilkynningu forsætisráðuneytisins nú undir kvöld.
Þar er einnig rætt um skattfrelsi bóta og erfðarétt vegna einstaklinga sem fallið hafa frá og jafnframt að eftirlit með vistheimilum af hálfu hins opinbera verði bætt.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem segir þessa atburði svartan blett í sögu þjóðarinnar, og Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra, báðust formlega afsökunar á misgjörðunum fyrir hönd stjórnvalda í dag. Félagsmálaráðherra viðurkennir að opinbert eftirlit með starfsemi vistheimilanna hafi í öllum tilvikum brugðist.
Samkvæmt fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins ákvað ríkisstjórnin ákvað eftirfarandi sem fyrstu viðbrögð:
1. Starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins verði falið að semja drög að frumvarpi til laga þar sem mælt verði fyrir um greiðslu bóta til þeirra sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum er heyra undir gildissvið laga nr. 26/2007. Þar verði byggt á þeim viðræðum sem þegar hafa átt sér stað milli ráðuneytisins og Breiðavíkursamtakanna en hliðsjón höfð af niðurstöðum vistheimilisnefndar í hinni nýju áfangaskýrslu. Stefnt verði að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi fljótlega eftir að haustþing kemur saman.
2. Starfshópi á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins verði falið að undirbúa stefnumótun stjórnvalda í málefnum heyrnarlausra með hliðsjón af áður fram komnum tillögum og áfangaskýrslu vistheimilisnefndar.
3. Ítrekað verði að úrræði þau á sviði geðheilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisyfirvöld komu á laggirnar í kjölfar skýrslu vistheimilisnefndar um Breiðavíkurheimilið standi einnig til boða fyrrverandi vistmönnum á öðrum heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.
4. Félags- og tryggingamálaráðherra taki mið af áfangaskýrslunni við endurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd og eftirliti á því sviði.
Sett verði almenn lög
Að því er varðar mögulegar bætur til fyrrverandi vistmanna á heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 þá hefur forsætisráðuneytið frá því í apríl síðastliðnum átt í viðræðum og bréfaskiptum við Breiðavíkursamtökin. Er þar meðal annars rætt um hvernig megi endurbæta það frumvarp sem þáverandi ríkisstjórn hafði látið vinna vorið 2008 og kynnt hafði verið samtökunum á þeim tíma. Það frumvarp var meðal annars gagnrýnt fyrir að bætur væru of lágar og of mikil áhersla lögð á að sýnt væri fram á geðrænar afleiðingar vistunar. Síðustu samskipti voru þau að ráðuneytið sendi bréf með ákveðnum hugmyndum 8. júlí sl. og Breiðavíkursamtökin svöruðu með bréfi dags. 18. ágúst sl. Ráðuneytið hafði lýst sig reiðubúið til að útfæra bráðabirgðasátt varðandi Breiðavíkurheimilið á grundvelli núgildandi fjárheimilda en því var hafnað.
Þess vegna er áfram unnið að því að sett verði almenn lög sem geti átt við um bætur vegna misgjörða á öllum þeim heimilum sem koma til skoðunar á grundvelli laga nr. 26/2007 um vistheimilisnefnd. Áður en rætt er um fjárhæðir í einstaka tilfellum er mikilvægt að ná sátt um aðferðafræðina við ákvörðun bóta, þ.e. rammann um sátt samfélagins við þá sem eiga um sárt að binda eftir dvöl á vistheimilum fyrir börn.
Meginatriði löggjafar
Ráðuneytið sér fyrir sér að meginatriði löggjafar verði þessi:
a. Sett verði á fót bótanefnd en samhliða henni starfi tengiliður vistmanna við stjórnvöld er aðstoði fyrrverandi vistmenn við að ná fram rétti sínum, m.a. varðandi félagslega aðstoð, heilbrigðisþjónustu og menntun. Þegar skýrsla vistheimilisnefndar liggur fyrir verði auglýst eftir þeim sem telja sig eiga rétt á bótum.
b. Bótanefnd geti úrskurðað almennar bætur er nemi tiltekinni fjárhæð, sem eftir er að ákveða, og sé meginskilyrði að vistmaður hafi sjálfur orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan vistun stóð. Ekki verði um strangar sönnunarkröfur að ræða.
c. Í sérstökum tilfellum verði heimilað að hækka bætur að álitum. Hækkun bóta geti m.a. komið til vegna alvarleika ofbeldis eða illrar meðferðar, aðdraganda vistunar eða tímalengdar vistunar.
d. Kveðið verði á um skattfrelsi bóta, erfðarétt vegna einstaklinga sem fallnir eru frá, aðgang bótanefndar að gögnum vistheimilisnefndar til að einfalda málsmeðferð og lögmannsaðstoð.
Forsætisráðherra mun nú fela starfshópi að undirbúa frumvarp á grundvelli samskipta ráðuneytisins við Breiðavíkursamtökin og í ljósi fyrstu áfangaskýrslu vistheimilisnefndar sem fjallar um þrjú heimili til viðbótar eins og áður segir. Samráð verður haft við samtök fyrrverandi vistmanna og hlutaðeigandi sveitarfélög.
Skýrsla vistheimilisnefndar verður lögð fram á Alþingi í næsta mánuði, segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.
Skýrsla vistheimilanefndar í heild
Jóhanna biðst afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Formaðurinn talar við Spegilinn
17.3.2009 | 17:59
Náttúrulega allt of seint í rassinn gripið, en formaður Breiðavíkursamtakanna verður í Spegli RÚV eftir tuttugu, þrjátíu mínútur að ræða málefni samtakanna og vistheimilanna.
Allir að hlusta.
Reyni svo að setja slóðina hingað eftir þáttinn...
Fögnuður yfir afsökunarbeiðni og auknum sáttavilja
13.3.2009 | 12:34
Á vel sóttum félagsfundi Breiðavíkursamtakanna í gærkvöldi, fimmtudagskvöldi 12. mars, var afsökunarbeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur vel fagnað og fallist á hana. Miklar umræður urðu einnig um vísbendingar um aukinn sáttavilja í viðræðum stjórnar samtakanna við fulltrúa forsætisráðuneytisins um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum á vegum hins opinbera, sem sættu nauðung og harðræði.
Fundargerð félagsfundarins:
Dagskrá:
1. Afsökunarbeiðni forsætisráðherra.
2. Fundur stjórnar með fulltrúum forsætisráðuneytisins á dögunum um bótamálin.
3. Önnur mál.
Auðheyrt var á fundarmönnum að afsökunarbeiðni forsætisráðherra var vel tekið og fögnuðurinn yfir henni fölskvalaus. Vel kom fram að viðurkenning á misgjörðunum og afsökunarbeiðni væri einna efst á óskalista fyrrum vistbarnanna og var samhljóða samþykkt að fagna þessum tímamótum og fallast feginsamlega á afsökunarbeiðnina.
Bárður R. Jónsson formaður samtakanna gerði stuttlega grein fyrir gangi mála á viðræðufundi stjórnar samtakanna með fulltrúum forsætisráðuneytisins sl. mánudag. Ljóst er að hreyfing hefur orðið á málunum eftir ríkisstjórnarskiptin og aukinn sáttavilji staðreynd. Miklar umræður fóru fram um þetta, ekki síst um möguleikann á sæmilega skjótri sáttagjörð um sanngirnisbætur og um alla þá þætti sem spila inn í; svo sem efnahagslegt árferði, mismunandi samningsvilja ólíkra stjórnvalda og fleira. Á fundinum var síðan kosið um meginlínur sem stjórnin hefði umboð til að leggja til grundvallar á komandi samningafundum og tillaga þar að lútandi samþykkt samhljóða. Ekki þykir rétt að tilgreina upphæðir í þessari opinberlega útsendu fundargerð, en tillögurnar munu fylgja fundagerðarbók. Rétt er þó að geta þess að áður samþykkt stefna var áréttuð; um að "eitt skyldi yfir alla ganga": Bæturnar yrðu ein og sama talan fyrir alla, óháð dvalarlengd (og þá miðað við meðaldvalarlengd 21 mánuði) og umfangi ofbeldisins. Einnig er hér miðað við ríkið eingöngu, en ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem sendu börn á vistheimilin er sjálfstætt mál.
Þá má geta nokkurra umræðna um ofuráhersluna á "Breiðavíkurdrengi", en sumum fundarmönnum þótti sem börn á öðrum vistheimilum væru of mikið í skugga "drengjanna" og of lítið rætt um Kumbaravog, Reykjahlíð, Bjarg, Silungapoll og fleiri slík heimili. Meðal annars kom fram að nafn samtakanna væri að flækjast fyrir í þeirri umræðu - og kannski rétt að árétta að Breiðavíkursamtökin eru, hvað sem nafninu líður, opin samtök fyrrum vistbarna allra vistheimila hins opinbera og stuðningsmanna - ekki bara Breiðavíkurbarna. Nefna má að Vistheimilanefnd (Spanó-nefnd) er nú að störfum við að rannsaka mörg þessara vistheimila og kalla fyrrum vistbörn þeirra til viðtals, en á fundinum kom fram að einhverjir fundarmanna hefðu enn ekki verið kallaðir fyrir nefndina. Stjórninni var falið að kanna þau mál.
Afsökunarbeiðni fagnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Afsökunarbeiðni fagnað!
12.3.2009 | 11:56
Það er mikið gleðiefni að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur nú fyrir hönd hins opinbera loks gert það sem fyrrum vistbörnin á Breiðavík og víðar hafa lengi beðið eftir og forveri hennar, Geir H. Haarde, heyktist á að gera; biðja þau afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þau voru látin sæta.
Þetta eru merk tímamót í málinu. Sjálfsagt halda ýmsir að bótagreiðslur séu þessum fyrrum vistbörnum efst í huga, en auðvitað eru númer eitt, tvö og þrjú viðurkenningin á því að óhæfuverk hafi átt sér stað og að beðist sé afsökunar á því.
Þetta er gott veganesti fyrir Breiðavíkurbörnin og önnur fyrrum vistbörn á vegum hins opinbera, sem í kvöld koma saman á félagsfundi Breiðavíkursamtakanna að ræða sín mál. Þar verður afsökunarbeiðni forsætisráðherrans vafalaust vel fagnað.
Fundurinn er í kvöld að Aflagranda 40 og hefst kl. 20:30.
Afsökunarbeiðni vegna Breiðavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Breiðavíkurdrengir stigu fram fyrir 2 árum síðan
7.2.2009 | 22:44
Nú eru liðin 2 ár frá því að Kastljós og DV vörpuðu sannkallaðri samfélagslegri sprengju inn í þá tiltölulega slétta og fellda tilveru okkar á Íslandi. Miðaldra karlmenn stigu fram úr skuggaveröldum sínum og sögðu frá því hvernig skilningsvana opinber yfirvöld stóðu að því að berja þá og svívirða sem börn og unglinga hálfri öld fyrr.
"Breiðavíkurdrengirnir" áunnu sér aðdáun samlanda sinna. Umfjöllunin um þá leiddi til blaðamannaverðlauna. Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og heit strengd. Sanngirnisbótum var lofað.
Og hvað hefur þá gerst? Svo gott sem ekki neitt. Fyrri ríkisstjórn lagði fram frumvarp um að borga drengjunum um það bil flatskjár-virði af bótum og kannski rúmlega það ef þeir gætu sannfært geðlækna nógu vel um skaða sinn. Með miklum gráti og ógurlegum gnístri tanna mætti hífa sanngirnisbæturnar upp í bíl-virði.
Ofbeldinu hafði sum sé ekki linnt. Spurning með næstu ríkisstjórn.
Ofangreint er samhljóða bloggi sem Friðrik Þór Guðmundsson skrifaði á blogg sitt og hann leyfir sér að birta hér. Sömuleiðis sér hann ástæðu til að bæta við kommenti sínu vegna þeirrar færslu, sem er svona:
Búinn að vera að hugsa um furðulegt mál í allan dag. Í samræðu um annað sagði maður mér að hann væri nýbúinn að lesa bókina "Óhreinu börnin hennar Evu" eftir Kristján Sigurðsson (fyrrum forstöðumann á Breiðavík og síðar forstöðumanns Unglingaheimilis ríkisins í Kópavogi).
Ég hváði. Ég sit í stjórn Breiðavíkursamtakanna, hef talað við ótal félagsmenn, reyni að fylgjast með allri fjölmiðlaumfjöllun, en samt hefur það gjörsamlega farið framhjá mér að á síðasta ári hafi þessi bók komið út. Ég fór að "gúggla" og fann EKKERT um þessa bók nema bókasafnsfræðilegar tilkynningar. Hvergi ritdóm að sjá, hvað þá fjölmiðlaumfjöllun aðra.
Er málið virkilega svona gleymt og grafið í fjölmiðlum og annarri umræðu að svona bók um þetta efni hefur enga athygli og umræðu vakið?
Ég fór og keypti bókina í dag í M&M á Laugavegi. Afgreiðslukonan átti erfitt með að finna bókina; hún hafði verið sett í hilluna "heilsufræði". Skrifa kannski um efnið þegar ég er búinn að lesa.