Fögnuður yfir afsökunarbeiðni og auknum sáttavilja

Á vel sóttum félagsfundi Breiðavíkursamtakanna í gærkvöldi, fimmtudagskvöldi 12. mars, var afsökunarbeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur vel fagnað og fallist á hana. Miklar umræður urðu einnig um vísbendingar um aukinn sáttavilja í viðræðum stjórnar samtakanna við fulltrúa forsætisráðuneytisins um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum á vegum hins opinbera, sem sættu nauðung og harðræði.

Fundargerð félagsfundarins:

Dagskrá:

1. Afsökunarbeiðni forsætisráðherra.

2. Fundur stjórnar með fulltrúum forsætisráðuneytisins á dögunum um bótamálin.

3. Önnur mál.

Auðheyrt var á fundarmönnum að afsökunarbeiðni forsætisráðherra var vel tekið og fögnuðurinn yfir henni fölskvalaus. Vel kom fram að viðurkenning á misgjörðunum og afsökunarbeiðni væri einna efst á óskalista fyrrum vistbarnanna og var samhljóða samþykkt að fagna þessum tímamótum og fallast feginsamlega á afsökunarbeiðnina.

Bárður R. Jónsson formaður samtakanna gerði stuttlega grein fyrir gangi mála á viðræðufundi stjórnar samtakanna með fulltrúum forsætisráðuneytisins sl. mánudag. Ljóst er að hreyfing hefur orðið á málunum eftir ríkisstjórnarskiptin og aukinn sáttavilji staðreynd. Miklar umræður fóru fram um þetta, ekki síst um möguleikann á sæmilega skjótri sáttagjörð um sanngirnisbætur og um alla þá þætti sem spila inn í; svo sem efnahagslegt árferði, mismunandi samningsvilja ólíkra stjórnvalda og fleira. Á fundinum var síðan kosið um meginlínur sem stjórnin hefði umboð til að leggja til grundvallar á komandi samningafundum og tillaga þar að lútandi samþykkt samhljóða. Ekki þykir rétt að tilgreina upphæðir í þessari opinberlega útsendu fundargerð, en tillögurnar munu fylgja fundagerðarbók.  Rétt er þó að geta þess að áður samþykkt stefna var áréttuð; um að "eitt skyldi yfir alla ganga": Bæturnar yrðu ein og sama talan fyrir alla, óháð dvalarlengd (og þá miðað við meðaldvalarlengd 21 mánuði) og umfangi ofbeldisins. Einnig er hér miðað við ríkið eingöngu, en ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem sendu börn á vistheimilin er sjálfstætt mál.

Þá má geta nokkurra umræðna um ofuráhersluna á "Breiðavíkurdrengi", en sumum fundarmönnum þótti sem börn á öðrum vistheimilum væru of mikið í skugga "drengjanna" og of lítið rætt um Kumbaravog, Reykjahlíð, Bjarg, Silungapoll og fleiri slík heimili. Meðal annars kom fram að nafn samtakanna væri að flækjast fyrir í þeirri umræðu - og kannski rétt að árétta að Breiðavíkursamtökin eru, hvað sem nafninu líður, opin samtök fyrrum vistbarna allra vistheimila hins opinbera og stuðningsmanna - ekki bara Breiðavíkurbarna. Nefna má að Vistheimilanefnd (Spanó-nefnd) er nú að störfum við að rannsaka mörg þessara vistheimila og kalla fyrrum vistbörn þeirra til viðtals, en á fundinum kom fram að einhverjir fundarmanna hefðu enn ekki verið kallaðir fyrir nefndina. Stjórninni var falið að kanna þau mál.


mbl.is Afsökunarbeiðni fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Til hamingju til okkar allra með það að stjórnvöld skuli hafa beðist afsökunar á þessari ógeðfelldu fortíð barnaverndar á landinu. Íslensk þjóð sem leyfði þessu að viðgangast ber líka ábyrgð. Það á síðan að greiða framreiknuð laun með vöxtum fyrir þann tíma sem hver drengur dvaldi þarna. Og jafnvel skaðabætur líka.

Margrét Sigurðardóttir, 13.3.2009 kl. 13:03

2 Smámynd: Víglundur Þór Víglundsson

Mikið óskaplega leið mér vel í gær, að heyra afsökunarbeiðni forsætisráðherra. Þetta var eins og fá almennilegt spark, maður vaknar til lífsins.. Margir spurðu mig í gær, hvernig líður þér Víglundur og enn aðrir óskuðu mér til hamingju.Sumir okkar eru alveg að gefast upp finnst allt of mikill tími fara í að ljúka þessu máli, margir okkar eru ansi jafnvægislausir og fljótir að gefast upp en það er vegna kolrangra uppeldishátta sem yfirvöld töldu hæfa okkur sem börn.Það er brýnt að sýna samstöðu núna þegar loks hyllir undir endalok þessa máls,ekki eyða tíma og kröftum í innbyrðis deilur.Ég setti saman þessar línur í gærkveldi, er ekki hagmæltur  stuðlar og höfuðstafir ekki teknir með.                                                        Angist í blökku holiLaminn barinn lemstraðurí blökku holi geymdur.Með belti hýddur auðmýkturtæmd var sálin, gleymdur.

Víglundur Þór Víglundsson, 13.3.2009 kl. 14:02

3 Smámynd: Víglundur Þór Víglundsson

Svona á þetta að vera.

Angist í blökku holi.

Laminn,barinn,lemstraður

í blökku holi geymdur.

Með belti hýddur auðmýktur,

tæmd var sálin,gleymdur.

Víglundur Þór Víglundsson, 13.3.2009 kl. 14:06

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

13. mars 2009

Afsökunarbeiðni til Breiðavíkurþolenda

Bjarni skrifar:
Loksins rann upp sá tími að fulltrúi almennings á Íslandi, forsætisráðherra landsins, gæti borið fram afsökunarbeiðni við það fólk sem var rænt barnæsku sinni með tilstuðlan opinberra aðila á upptökuheimilum ríkisins um miðja síðustu öld. Loksins er það að gerast að heljartök þóttavaldsins eru að linast í hinu opinbera rými svo að það megi gera svo einfaldan hlut sem það er að biðjast fyrigefningar á mistökum.
Jóhanna Sigurðardóttir gat gert þetta af þeirri einföldu ástæðu að hún hefur varðveitt heilbrigði sitt og aldrei gengið hótunarvaldinu á hönd. Það er nefnilega þannig að sérhver maður verður að lúta því valdi sem hann hyggst beita.
E.t.v. eru nýir tímar að renna upp. Hugsanlega munu stjórnmál taka að snúast um almannahagsmuni og virðingu fyrir lífi hins venjulega manns. Hugsanlega.
Ritaði Hjónablogg kl 10:35

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.3.2009 kl. 14:09

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sérlega glæsilegur kveðskapur Víglundur Þór.

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.3.2009 kl. 14:13

6 Smámynd: Víglundur Þór Víglundsson

Það er nú óþarfi að gera grín af gamla manninum :-) Ég hugsa að andinn mikli hafi sett mig af stað

Ég er þess fullviss að þetta er bara byrjunin á einhverju meiru. Þegar ógæfan birtist í haust grunaði mig ekki að hún mundi snúast upp í andhverfu sína með þessum hætti.  Útlitið var nú ekki mjög bjart fyrir örfáum mánuðum.

Víglundur Þór Víglundsson, 13.3.2009 kl. 14:25

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég er ekki að gera grín. Þetta er góður kveðskapur - alltént fyrir minn smekk. Stílhreint og góður hrynjandi. kyngimagnað.

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.3.2009 kl. 16:43

8 identicon

Ég er mikið ánægður og það gerði mig mjög hamingjusaman að heyra íslenska ríkistjórnin loksins viðurkenni þetta og biður opinberlega afsökunar. Breiðavíkursamtökin eru að tala um meðaldvalarlengd 21 mánuð. Ég var ekki nema 18 daga gamall þegar ég lenti á stofnun bæjarins og var á flest öllum þessum umtalandi stöðum þangað til að ég var 16 ára gamall. Barnæskan mín var stolin á alla vegu og síðustu 6 árin var ég margfalt nauðgað bæði sálarlega og líkamlega. Ég var notaður sem þræladýr  sem mátti engar tilfinningar sína. Þessir sem gerðu mér þetta eru ennþá lifandi og hefur alltaf verið stór velefnað fólk.  Á meðan þetta fólk syndir í auði hef ég verið að berjast allt mitt líf um að geta gleymt hræðilegri  barnæsku og hryllingi. Vegna sjálfsmorð hugsanir  lent hjá mörgum sálfræðingum og heilsuhæli.  Verið þangað til í dag oft í sálarlegu og líkamlegu ójafnvægi  og  er dæmdur að lifa einn alla mína tíð því ég óhæfur í sambandi. Ég tala um allt mitt líf en ekki 21 mánuð.    

 

Elvar Jakobsson (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband