Færsluflokkur: Mannréttindi

Formaðurinn talar við Spegilinn

Náttúrulega allt of seint í rassinn gripið, en formaður Breiðavíkursamtakanna verður í Spegli RÚV eftir tuttugu, þrjátíu mínútur að ræða málefni samtakanna og vistheimilanna.

Allir að hlusta.

Reyni svo að setja slóðina hingað eftir þáttinn...


Fögnuður yfir afsökunarbeiðni og auknum sáttavilja

Á vel sóttum félagsfundi Breiðavíkursamtakanna í gærkvöldi, fimmtudagskvöldi 12. mars, var afsökunarbeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur vel fagnað og fallist á hana. Miklar umræður urðu einnig um vísbendingar um aukinn sáttavilja í viðræðum stjórnar samtakanna við fulltrúa forsætisráðuneytisins um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum á vegum hins opinbera, sem sættu nauðung og harðræði.

Fundargerð félagsfundarins:

Dagskrá:

1. Afsökunarbeiðni forsætisráðherra.

2. Fundur stjórnar með fulltrúum forsætisráðuneytisins á dögunum um bótamálin.

3. Önnur mál.

Auðheyrt var á fundarmönnum að afsökunarbeiðni forsætisráðherra var vel tekið og fögnuðurinn yfir henni fölskvalaus. Vel kom fram að viðurkenning á misgjörðunum og afsökunarbeiðni væri einna efst á óskalista fyrrum vistbarnanna og var samhljóða samþykkt að fagna þessum tímamótum og fallast feginsamlega á afsökunarbeiðnina.

Bárður R. Jónsson formaður samtakanna gerði stuttlega grein fyrir gangi mála á viðræðufundi stjórnar samtakanna með fulltrúum forsætisráðuneytisins sl. mánudag. Ljóst er að hreyfing hefur orðið á málunum eftir ríkisstjórnarskiptin og aukinn sáttavilji staðreynd. Miklar umræður fóru fram um þetta, ekki síst um möguleikann á sæmilega skjótri sáttagjörð um sanngirnisbætur og um alla þá þætti sem spila inn í; svo sem efnahagslegt árferði, mismunandi samningsvilja ólíkra stjórnvalda og fleira. Á fundinum var síðan kosið um meginlínur sem stjórnin hefði umboð til að leggja til grundvallar á komandi samningafundum og tillaga þar að lútandi samþykkt samhljóða. Ekki þykir rétt að tilgreina upphæðir í þessari opinberlega útsendu fundargerð, en tillögurnar munu fylgja fundagerðarbók.  Rétt er þó að geta þess að áður samþykkt stefna var áréttuð; um að "eitt skyldi yfir alla ganga": Bæturnar yrðu ein og sama talan fyrir alla, óháð dvalarlengd (og þá miðað við meðaldvalarlengd 21 mánuði) og umfangi ofbeldisins. Einnig er hér miðað við ríkið eingöngu, en ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem sendu börn á vistheimilin er sjálfstætt mál.

Þá má geta nokkurra umræðna um ofuráhersluna á "Breiðavíkurdrengi", en sumum fundarmönnum þótti sem börn á öðrum vistheimilum væru of mikið í skugga "drengjanna" og of lítið rætt um Kumbaravog, Reykjahlíð, Bjarg, Silungapoll og fleiri slík heimili. Meðal annars kom fram að nafn samtakanna væri að flækjast fyrir í þeirri umræðu - og kannski rétt að árétta að Breiðavíkursamtökin eru, hvað sem nafninu líður, opin samtök fyrrum vistbarna allra vistheimila hins opinbera og stuðningsmanna - ekki bara Breiðavíkurbarna. Nefna má að Vistheimilanefnd (Spanó-nefnd) er nú að störfum við að rannsaka mörg þessara vistheimila og kalla fyrrum vistbörn þeirra til viðtals, en á fundinum kom fram að einhverjir fundarmanna hefðu enn ekki verið kallaðir fyrir nefndina. Stjórninni var falið að kanna þau mál.


mbl.is Afsökunarbeiðni fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsökunarbeiðni fagnað!

 Breiðavík.    Það er mikið gleðiefni að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur nú fyrir hönd hins opinbera loks gert það sem fyrrum vistbörnin á Breiðavík og víðar hafa lengi beðið eftir og forveri hennar, Geir H. Haarde, heyktist á að gera; biðja þau afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þau voru látin sæta.

Þetta eru merk tímamót í málinu. Sjálfsagt halda ýmsir að bótagreiðslur séu þessum fyrrum vistbörnum efst í huga, en auðvitað eru númer eitt, tvö og þrjú viðurkenningin á því að óhæfuverk hafi átt sér stað og að beðist sé afsökunar á því. 

Þetta er gott veganesti fyrir Breiðavíkurbörnin og önnur fyrrum vistbörn á vegum hins opinbera, sem í kvöld koma saman á félagsfundi Breiðavíkursamtakanna að ræða sín mál. Þar verður afsökunarbeiðni forsætisráðherrans vafalaust vel fagnað. 

Fundurinn er í kvöld að Aflagranda 40 og hefst kl. 20:30.


mbl.is Afsökunarbeiðni vegna Breiðavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert karp - mætum á félagsfund!

Um leið og við tökum undir með ASÍ, sem segir samkvæmt viðtengdri frétt að á meðan hrikti í grunnstoðum samfélagsins og fjölskyldum og fyrirtækjum blæðir, horfi þjóðin upp á karp og hráskinnaleik á Alþingi sem engu máli skipti og engu skili, þá minnir stjórn Breiðavíkursamtakanna á félagsfund næsta þriðjudagskvöld, þar sem við ræðum hagsmunamál félagsmanna (en þau skipta miklu máli).

Það eru að vísu uppi vonir um að nýja félagshyggjustjórnin taki betur á málefnum samtakanna en fráfarandi ríkisstjórn. Víst er að sumir hinna nýju ráðherra hafa ótvírætt orðað skilning sinn á því að bæta þurfi þeim upp skaðann almennilega, sem þurftu að ganga í gegnum það sem margir í samtökunum voru neyddir til.

Félagsmönnum ætti að vera kunnugt um það núorðið, en rétt að endurtaka það: Félagsfundir verða haldnir reglulega kl. 20:30 síðasta þriðjudagskvöld hvers mánaðar í samkomusalnum að Aflagranda 40. Að óbreyttu hið minnsta. Næsti félagsfundur verður því næsta þriðjudagskvöld 24. febrúar.

Ekki var sérlega góð mæting síðast og nauðsynlegt að bæta úr því. Líkast til verður reynt að gera aðra tilraun til myndunar skemmtinefndar, svo einnig megi leggja áherslu á léttari svið tilverunnar. Allir saman nú!

Áhugasömum er bent á að Breiðavíkursamtökin eru opin öllum áhugamönnum um vistunarmál hins opinbera í fortíð, nútíð og framtíð.


mbl.is Þingmenn sýna þjóðinni lítilsvirðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavíkurdrengir stigu fram fyrir 2 árum síðan

 Nú eru liðin 2 ár frá því að Kastljós og DV vörpuðu sannkallaðri samfélagslegri sprengju inn í þá tiltölulega slétta og fellda tilveru okkar á Íslandi. Miðaldra karlmenn stigu fram úr skuggaveröldum sínum og sögðu frá því hvernig skilningsvana opinber yfirvöld stóðu að því að berja þá og svívirða sem börn og unglinga hálfri öld fyrr.

"Breiðavíkurdrengirnir" áunnu sér aðdáun samlanda sinna. Umfjöllunin um þá leiddi til blaðamannaverðlauna. Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og heit strengd. Sanngirnisbótum var lofað.

Og hvað hefur þá gerst? Svo gott sem ekki neitt. Fyrri ríkisstjórn lagði fram frumvarp um að borga drengjunum um það bil flatskjár-virði af bótum og kannski rúmlega það ef þeir gætu sannfært geðlækna nógu vel um skaða sinn. Með miklum gráti og ógurlegum gnístri tanna mætti hífa sanngirnisbæturnar upp í bíl-virði.

Ofbeldinu hafði sum sé ekki linnt. Spurning með næstu ríkisstjórn.

Ofangreint er samhljóða bloggi sem Friðrik Þór Guðmundsson skrifaði á blogg sitt og hann leyfir sér að birta hér. Sömuleiðis sér hann ástæðu til að bæta við kommenti sínu vegna þeirrar færslu, sem er svona:

Búinn að vera að hugsa um furðulegt mál í allan dag. Í samræðu um annað sagði maður mér að hann væri nýbúinn að lesa bókina "Óhreinu börnin hennar Evu" eftir Kristján Sigurðsson (fyrrum forstöðumann á Breiðavík og síðar forstöðumanns Unglingaheimilis ríkisins í Kópavogi).

Ég hváði. Ég sit í stjórn Breiðavíkursamtakanna, hef talað við ótal félagsmenn, reyni að fylgjast með allri fjölmiðlaumfjöllun, en samt hefur það gjörsamlega farið framhjá mér að á síðasta ári hafi þessi bók komið út. Ég fór að "gúggla" og fann EKKERT um þessa bók nema bókasafnsfræðilegar tilkynningar. Hvergi ritdóm að sjá, hvað þá fjölmiðlaumfjöllun aðra.

Er málið virkilega svona gleymt og grafið í fjölmiðlum og annarri umræðu að svona bók um þetta efni hefur enga athygli og umræðu vakið?

Ég fór og keypti bókina í dag í M&M á Laugavegi. Afgreiðslukonan átti erfitt með að finna bókina; hún hafði verið sett í hilluna "heilsufræði". Skrifa kannski um efnið þegar ég er búinn að lesa.


Hvað gerir ný ríkisstjórn fyrir Breiðavíkursamtökin?

BárðurBárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna skrifar:

Í dag, 2. febrúar, eru liðin tvö ár frá því Breiðavíkurmál komust í hámæli. Þann 11. ágúst sl. fékk stjórn Breiðavíkursamtakanna að sjá drög að frumvarpi um bætur til barna á vistheimilum; um frumvarpið var svo fjallað í fjölmiðlum í byrjun september mánaðar, þremur vikum síðar hrundi efnahagskerfi þjóðarinnar.

Breiðavíkurdrengir sættu sig ekki við bæturnar sem frumvarpið gerði ráð fyrir; það hefur ekkert breyst þrátt fyrir kreppuna og átökin í samfélaginu og við þessar erfiðu aðstæður þurfum við að sækja mál okkar. Það verður forvitnilegt fyrir okkur Breiðavíkurdrengi að sjá hvernig ný stjórnvöld taka á málum okkar, hvort niðursetningshugsun valdhafanna verði áfram ráðandi eða hvort stjórnmálamenn á öðrum stað í litrófinu sjái sóma sinn í því að greiða þessum mönnum ríflegar bætur, gera þeim seinni hluta ævinnar bærilegan.

Um það snúast bæturnar, að þær skipti máli á einhvern hátt annan en að duga fyrir sólarlandaferð eða annarri neyslu; margir sem dvöldu á Breiðavík búa við fátækt, örorku eða aðra félagslega erfiðleika. Það er kannski þreytandi og ekki til að afla vinsælda að þurfa sífellt að standa í þessu þrasi um fjármuni; að samtökin ættu að snúast um eitthvað annað en bæturnar; að ætíð sé þörf á að vekja athygli á kjörum barna sem búa við lakt veganesti; að vinna markvisst í anda annarrar hugmyndafræði en markaðsaflanna að því að bæta kjör þeirra sem þannig búa í samfélaginu. En það er bara þannig að þrátt fyrir stórfelld áföll samfélaga hætta þau ekki að vera til; þau þurfa að gera upp sögu sína og partur af sögu þessarar þjóðar er Breiðavík og ofbeldið, óréttlætið og svívirðingin sem þar var.

Við höldum því ótrauðir áfram þar til mál okkar komast í höfn.
Kveðjur
Bárður R. Jónsson


mbl.is Stjórnarskiptin vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband