Færsluflokkur: Mannréttindi

Stjórn SVB skipti með sér verkum

 Stjórn Samtaka vistheimilabarna (áður Breiðavíkursamtakanna) hefur komið saman og skipt með sér verkum. Á nýafstöðnum aðalfundi var Erna Agnarsdóttir kjörin formaður, en verkaskipting stjórnar er að öðru leyti þessi: Unnur Millý Georgsdóttir varaformaður, Þór Saari gjaldkeri, Marinó Hafnfjörð Þórisson ritari og Esther Erludóttir meðstjórnandi.

Hér að neðan og í viðhengi eru lög samtakanna eins og þau nú gilda:

Lög Samtaka vistheimilabarna samþykkt á aðalfundi 25. janúar 2011

1.gr.

Félagið heitir Samtök vistheimilabarna.

2. gr.

Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur samtakanna er að vera málsvari og hagsmunasamtök fólks sem vistað hefur verið á vegum hins opinbera á upptökuheimilum, einkaheimilum og öðrum sambærilegum stofnunum og beita sér fyrir forvarnar- og fræðslustarfi gegn ofbeldi af öllu tagi á börnum á fósturheimilum.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því að styðja félagsmenn og halda uppi markvissu forvarnar- og fræðslustarfi.

5. gr.

Samtökin eru opin öllum sem hafa áhuga á barnaverndarmálum og sögu þeirra.

6.gr.

Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

7.gr.

Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári. Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. 30 daga fyrirvara, með viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir, svo sem með tölvupósti eða símleiðis. Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál.

8.gr.

Ekki er um árgjald að ræða heldur eru samtökin fjármögnuð með styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess er innheimt greiðsla fyrir fræðsluerindi á vegum félagsins. Öll vinna sem félagsmenn inna af hendi í þágu samtakanna er sjálfboðavinna.

9.gr.

Dagleg fjársýsla starfsjóðs er í höndum gjaldkera samtakanna en öll stærri fjárútlát skulu lögð fyrir stjórn til samþykktar.

10.gr.

Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum „önnur mál“.

11.gr.

Fari svo að félagið verði lagt niður þá verður sú ákvörðun tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (fjórir/fimmtu).  Eignir þess skulu renna til félaga/samtaka er starfa í svipuðum tilgangi skv. ákvörðun aðalfundar.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tvær tilkynningar á dag um ofbeldi gegn börnum

 Betur virðist fylgst með því en áður að ekki sé verið að fara illa með börn, miðað við eftirfarandi frétt í dag í Fréttablaðinu og visir.is:

"Barnaverndarstofu berast um tíu tilkynningar á viku frá heilbrigðisstofnunum landsins þar sem grunur leikur á að börn hafi verið beitt ofbeldi. Heilbrigðis­stofnanir tilkynntu um 634 tilvik árið 2009, en það er 30 prósentum meira en árið áður, þegar fjöldinn var 450.

Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu, segir tilkynningum almennt hafa fjölgað umtalsvert milli áranna 2008 og 2009. „Ég tel þetta stafa af því að heilbrigðisstarfsmenn séu meðvitaðri um tilkynningaskylduna," segir Steinunn.

Um helmingur allra tilkynninga sem berast til stofnunarinnar er skoðaður nánar, en nær allar tilkynningar sem berast frá heilbrigðisstofnunum. „Það er langoftast ástæða til þess að skoða þær frekar," segir Steinunn.
Um 90 prósent þeirra tilvika sem Barnaverndarstofa telur ekki ástæðu til að kanna frekar eru tilkynningar frá lögreglu.

Jón M. Kristjánsson, formaður Félags slysa- og bráðalækna, segir mikinn áhuga vera fyrir því að efla samstarf heilbrigðisstofnana og Barnaverndarstofu enn frekar. Nauðsynlegt sé að koma á skýrari vinnureglum um í hvaða tilvikum tilkynning sé send til barnaverndaryfirvalda.

„Oft kemur upp vafi varðandi hvað beri að tilkynna og hvað ekki," segir Jón. „Erfiðasti hlutinn af greiningunni er þegar um minni sjáanlega áverka á börnunum er að ræða, sem við sjáum tiltölulega oft." Jón minnist þar á brot á útlimum ungbarna og þegar börn hafa verið hrist. Það fari þó mikið eftir eðli og tegund brota og áverka á börnunum, aldri þeirra og ástæðum áverkanna.

Jón var fundarstjóri á fyrirlestri um málið á Læknadögum í gærdag, þar sem einnig kom fram að mikilvægt væri fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana að fá einhvers konar endurgjöf um stöðu þeirra barna sem hafi orðið fyrir ofbeldi. Mikilvægt sé að starfsfólk fái að vita hvernig börnunum reiði af. Á grundvelli þess geti barnaverndaryfirvöld þá skilað skýrslu til heilbrigðisstofnana á ársfjórðungs fresti. - sv".


Samtök vistheimilabarna (SVB)

Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna var haldinn í gær, 25. janúar 2011, og er þess fyrst að geta að á fundinum var samþykkt sú lagabreyting að nafn samtakanna skuli eftirleiðis vera „Samtök vistheimilabarna“.

    Á 33ja manna fundinum var samþykkt með þorra atkvæða gegn einu að breyta um nafn samtakanna og er það hugsað sem liður í frekari útvíkkun samtakanna, en reynslan þykir hafa sýnt að það hefur hamlað vexti samtakanna að kenna þau við eitt vistheimilanna umfram önnur. 2008 var sú lagabreyting samþykkt að samtökin yrðu „regnbogasamtök“ fyrrum vistbarna allra vistheimila á vegum hins opinbera og stuðnings- og áhugamanna um málefnið. Í sérstakri kosningu um nokkur nöfn hlaut nafnið „Samtök vistheimilabarna“ kosningu í fyrstu umferð.

    Fyrir utan nafnabreytinguna má geta þess að á aðalfundi fyrir ári var samþykkt lagabreyting sem heimilar stofnun undirfélaga í samtökunum um hvert vistheimili fyrir sig.

    Í nýja stjórn Samtaka vistheimilabarna (áður Breiðvíkursamtakanna) voru kjörin:

Erna Agnarsdóttir, formaður og meðstjórnendurnir

Unnur Millý Georgsdóttir,

Þór Saari,

Esther Erludóttir og

Marinó Hafnfjörð Þórisson.

Í varastjórn voru kjörin Sigurveig Eysteinsdóttir og Georg Viðar Björnsson.

Í skýrslu fráfarandi stjórnar segir meðal annars: "Núverandi stjórn skilar af sér nokkuð sátt við frammistöðu sína, en jafnframt þess alviss að nú sé komið að „kynslóðaskiptum“ innan samtakanna. Tímabært sé að fylgja eftir útvíkkun samtakanna og að fulltrúar annarra vistheimila en drengjaheimilisins Breiðavík (1953-1973) taki sem mest við, með meirihluta í nýrri stjórn. Fráfarandi stjórn þakkar fyrir sig og óskar nýrri stjórn og samtökunum öllum velfarnaðar á nýju starfsári".


Stolin æska eða Vistheimilasamtökin?

EstherEsther Erludóttir boðar tillögu á aðalfundi samtakanna um nafnabreytingu úr "Breiðavíkursamtökin" yfir í "Stolin æska". Það er hér með tilkynnt, en þess má geta að þetta nafn varð undir í nafnakosningu á stofnfundi samtakanna 29. apríl 2007.

Nú eru breyttir tímar og vaxandi vilji til þess að nafn samtakanna endurspegli ekki aðeins eðli þeirra heldur hafi ekki yfir sér stimpil eins vistheimilis umfram önnur.

Þegar hefur komið fram tillaga frá tveimur félögum um nafnabreytingu yfir í "Vistheimilasamtökin" og stefnir því í skemmtilegar kosningar um nýtt nafn samtakanna.


Styttist í að kröfufrestur Breiðvíkinga renni út

Síðasti dagur innköllunar kröfu (umsóknar) um sanngirnisbætur vegna vistunar á Breiðavíkur-vistheimilinu er fimmtudagurinn 27. janúar.

Samkvæmt upplýsingum Guðrúnar Ögmundsdóttur, tengiliðs vistheimila, eru þegar innsendar kröfur vegna Breiðavíkur að nálgast hundraðið og 7 viðtöl bókuð í þessari viku. Alls voru að talið er 158 börn vistuð á Breiðavík 1952-1979. Af 127 einstaklingum sem voru vistbörn 1952-1973 eru 34 látnir, en börn þeirra erfa kröfuréttinn. Af þeim nálægt 31 sem vistuðust vestra 1973-1979 munu 2-4 vera látnir, en það eru óstaðfestar upplýsingar.

Breiðvíkingar (og börn látinna) eru hér með hvattir til að hafa innköllunarfrestinn í huga. Tengiliður vistheimila er talsmaður kröfugerðar fyrrum vistbarna og veitir ljúflega liðveislu í því skyni. Kontakt-upplýsingar vegna tengiliðs er að finna hér til vinstri á síðunni.

Jafnframt minnir stjórn samtakanna á aðalfund samtakanna þriðjudagskvöldið 25. janúar, samanber færslur hér fyrir neðan. 


"... og stuggað í burtu"

"Allir vildu segja eitthvað um þann hroðalega órétt sem þessir samnemendur okkar urðu fyrir.  "Af hverju að hrúga öllum með námserfiðleika í sama bekkinn" heyrðist.  "Af hverju gátu þau ekki bara verið með okkur í bekk" sagði annar.  Þetta hafði greinilega hvílt á fleirum en mér.  Það var gott að finna það. Vinkona var nánast í áfalli því hún hafði reynt að hafa upp á nemendum úr A og B bekk og í gegnum gamlar símaskrár, náði sambandi við suma.  Henni var mætt með fálátssemi og stuggað í burtu eins og óþægilegri minningu.  Sumir höfðu flutt af landi brott aðrir vildu ekkert með þessa endurfundi að gera.  3 nemendur í þessum tossabekkjum höfðu svipti sig lífi".

Teitur Atlason í DV-bloggi um Hagaskóla ca. 1990.

Sjá nánar hér.

 


Aðalfundur framundan - tillaga um nafnabreytingu

 Félagsmenn Breiðavíkursamtakanna eru minntir á aðalfund samtakanna sem fram fer þriðjudagskvöldið 25. janúar næstkomandi, kl. 19:30 í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar við hringbraut (JL-húsinu).

Einnig er minnt á áskorun síðasta félagsfundar: "skorað er á fyrrum vistmenn annarra heimila (eða aðstandendur þeirra) en Breiðavíkur (1954-1972, drengjaheimili) að taka við keflinu sem allra mest". Þegar liggja fyrir nöfn 3-4 áhugasamra einstaklinga og vitað um 2-3 sem eru að íhuga málið. Það þarf 5 í stjórn og 2 í varastjórn.

 

Uppfært:

Minnt er á anda félagslaga um kynningu á lagabreytingatillögum. Í því sambandi er hér með kynnt að Friðrik Þór Guðmundsson fyrrum ritari stjórnar og Einar D. G. Gunnlaugsson flytja saman nafnabreytingatillögu um að nafn samtakanna breytist úr Breiðavíkursamtökin í Vistheimilasamtökin. Hinir sömu flytja saman lagabreytingatillögu um mjög hófstillt félagsgjald (árgjald) upp á 1.000 krónur (skráðir félagar eru nú 100 talsins). Þessar breytingatillögur verða nánar kynntar í umræðuþræðinum (kommentakerfinu) von bráðar, en þar er og að finna gildandi lög samtakanna.

Lagabreytingatillögur má leggja fram á sjálfum aðalfundinum án nánari forkynningar, en gott er að þær komi sem fyrst fram til kynningar. Ýmsar lagabreytingar voru samþykktar á síðasta aðalfundi, svo sem heimildarákvæði um að stofna megi undirfélög um hvert vistheimili.

Stjórnin

 

Tillaga:

Einar D. G. Gunnlaugson og Friðrik Þór Guðmundsson eru með 2 lagabreytingatillögur fyrir aðalfund Breiðavíkursamtakana 25. janúar næstkomandi.

TILLAGA 1 - NAFNABREYTING Á SAMTÖKUNUM

Við undirritaðir leggjum hér með fram lagabreytingatillögu um að 1. grein hljóði eftirleiðis:

Félagið heitir Vistheimilasamtökin

Greinargerð:

1. Það er nauðsynlegt samtökum eins og okkar að þau séu "regnhlífasamtök".

2. Regnhlífasamtökin skulu heita nafni sem vistmenn allra vistheimila geta sæt sig við að vera í á jafnréttisgrundvelli.

3. Stækkun samtakana mun eiga verulega erfiðara uppdráttar með því að eyrnamerkja samtökin nafni eins ákveðins vistheimilis, vistmönnum annara vistheimila munu ekki finna sig í samtökum með nafni vistheimilis sem þeir dvöldu ekki á.

4. Nafnið Breiðavíkursamtökin var nauðsynlegt í upphafsbaráttu okkar allra fyrir réttlæti og sanngirnisbótum, sérstaklega þar sem sterk áhrif mynduðust úti í þjóðfélaginu eftir hetjulega framgöngu nokkurra Breiðavíkurdrengja sem komu málinu á það skrið sem þurfti til að ná fram réttlæisbótum . Fyrir það eiga þessir Breiðavíkurdrengir heiður skilið.

5. Að ofansögðu teljum við ljóst að allir vistmenn á hvaða vistheimili sem er geti fundið sig í regnhlífasamtökum okkar undir nafninu VISTHEIMILASAMTÖKIN.


TILLAGA 2 - FÉLAGSGJÖLD

Við leggjum til að 8. greinin hljóði eftirleiðis:

Til að samtökin geti haldið uppi grunnstarfsemi greiða félagar árgjald upp á 1.000 krónur (eitt þúsund krónur). Aðalfundir ákveða þessa upphæð árlega samkvæmt einföldum meirihluta. Þó getur félagi sótt um niðurfellingu árgjaldsins sökum bágrar fjárhagsstöðu og skal stjórn samtakanna fá og afgreiða erindið. Samtökin eru að öðru leyti fjármögnuð með styrkjum frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess er innheimt greiðsla fyrir fræðsluerindi á vegum félagsins. Öll vinna sem félagsmenn inna af hendi í þágu samtakanna er sjálfboðavinna“.

Greinargerð:

Reynslan hefur sýnt að félagsgjöld (árgjöld) eru eðlileg og fljótleg leið til að tryggja þá grunnstarfsemi sem eru samtökunum nauðsynleg. Hér er meðal annars átt við fundarhöld og aðstöðu, kaup á kaffi og vegna stærri funda meðlæti, samkomur, kaup á pappír og öðrum gögnum, póst- og símakostnaður, tölvukostnaður, erindrekstur við stjórnvöld og fleira. Árgjald upp á 1.000 krónur tryggir slíkt, en vegna víðtækari starfsemis þarf hins vegar að koma til styrkveitinga frá opinberum- og einkaaðilum.

Einar D. G. Gunnlaugsson

Friðrik Þór Guðmundsson


Unnur Millý í Návígi

 Það hefur væntanlega ekki farið framhjá félögum að viðtalið við Unni Millý var hjá Þórhalli Gunnarssyni í Návígi í gærkvöldi, þriðjudag, áhrifamikið viðtal um ofbeldi innan fjölskyldunnar, á U-heimilunum, Breiðavík og víðar.

Hér að neðan er slóð til að horfa á þáttinn á Netinu.

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4565272/2010/11/16/

 

 


Gleymir ekki ofbeldinu á Jaðri

Vefsíðan hefur fengið góðlátlegt leyfi blaðamannsins Þorgils Jónssonar á Fréttablaðinu til að endurbirta hér viðtal hans við Jaðar-drenginn Jens Jensson, en viðtalið birtist í blaðinu um síðustu helgi.

 

Jens Jensson dvaldi á Heimavistarskólanum að Jaðri í fjögur ár. Þar upplifði hann ofbeldi og óréttlæti daglega og hefur ekki enn beðið þess bætur. Í samtali við Þorgils Jónsson segist hann afar ósáttur við niðurstöður Vistheimilanefndar, sem hafi gert lítið úr frásögnum hans og annarra af ofbeldinu sem þar viðgekkst af hendi kennara og nemenda.

 

Aðbúnaður barna sem vistuð voru á vist- og meðferðarheimilum ríkisins hefur verið áberandi í umræðunni síðustu misseri. Vistheimilanefnd hefur frá árinu 2007 unnið að úttekt á starfsemi þessara stofnana og birti í síðasta mánuði þriðju skýrslu sína, þar sem rannsókn beindist að Silungapolli, Reykjahlíð og Jaðri.

 

Hvað varðar Heimavistarskólann að Jaðri var það niðurstaða nefndarinnar að ekki þætti sannað að ofbeldi hafi viðgengist á þeirri stofnun, en sú niðurstaða er ekki í samræmi við upplifun Jens Jenssonar, sem dvaldi á Jaðri um fjögurra ára skeið. Jens segir í samtali við Fréttablaðið að ekki líði sá dagur að hann hugsi ekki til þess ofbeldis og óréttlætis sem hann var beittur þar.

 

Á Jaðar sökum fátæktar

 

„Við vorum átta systkinin og mamma okkar var oft veik. Hún var smávaxin og grönn og með átta börn sem tók mikið á hana og hún var þess vegna mikið á spítala.“

 

Jens var átta ára gamall þegar honum og yngri bróður hans var komið fyrir á Jaðri, árið 1966. Engin óregla var á heimilinu og engin hegðunarvandamál hjá þeim bræðrum, en mikil fátækt á stóru heimili og flest systkinin voru til skemmri eða lengri tíma tekin af heimilinu og vistuð á vistheimilum og í skólum.

 

Ofbeldi einkenndi lífið á Jaðri þar sem drengirnir slógust miskunnarlaust sín á milli fyrir utan það sem þeir máttu þola af hendi sumra kennara, segir Jens. Strax á fyrsta degi á Jaðri réðist annar drengur að Jens með ofbeldi. Það sem vakti athygli hans var þó að kennari sem varð vitni að árásinni gerði ekki neitt til að sporna við henni.

 

„Hann aðhafðist ekkert og það var fyrirboði um það viðhorf sem kennararnir þar höfðu gagnvart slagsmálum og ofbeldi.“

 

Misþyrmt alvarlega

 

Jens tiltekur mörg önnur dæmi um ofbeldið sem viðgekkst á Jaðri. Til dæmis var hann eitt sinn læstur úti að vetri til, berfættur í skyrtu og buxum einum fata. Á endanum gekk Jens, berfættur, 15 kílómetra leið heim til sín og tók ferðin nærri þrjá klukkutíma í nístingskulda.

 

Alvarlegasta atvikið átti sér þó stað þegar Jens var tíu ára gamall, en þá misþyrmdi kennari honum með þeim afleiðingum að hann var lagður inn á sjúkrahús.

 

Aðdragandi málsins var sá að hann hafði verið að tuskast við vini sína í ærslaleik þegar kennarinn kallaði hann til sín inn í anddyri hússins.

 

„Það næsta sem gerðist var að hann greip mig föstu taki um hálsinn, sneri mér við og slengdi höfðinu á mér harkalega í vegginn. Við þetta vankaðist ég og var hálf rænulaus, en hann hélt mér upp við vegginn og kýldi mig í maga, brjóstkassa og andlit.“

 

Daginn eftir fór hann heim í helgarfrí, en var þá umsviflaust fluttur á slysadeild, enda mikið bólginn í andliti og með glóðarauga á báðum augum. Við læknisskoðun kom í ljós að Jens var með heilahristing og bólgur og mar í kringum kviðarhol, en hin andlegu sár sem þessi árás skildi eftir sig voru hálfu verri.

 

„Þetta hefur fylgt mér alla tíð síðan, og sem barn var ég stanslaust að endurupplifa þennan atburð og reyna að finna einhverja ástæðu eða eitthvað sem ég hefði gert til að eiga þetta skilið.“

 

Jens segir þetta hafa legið á sér allt fram á fullorðinsár, eða þangað til hann eignaðist sjálfur barn. Þá áttaði hann sig á því að ástæðan hefði legið hjá kennaranum og fyrir tilviljun hefði hann orðið fyrir barðinu á honum í þetta skiptið.

 

Ofbeldi smitast til nemenda

 

Jens segist geta tínt til ótal dæmi um ofbeldið sem viðgekkst í heimavistarskólanum. „Vistin á Jaðri var hryllileg og þrátt fyrir að vissulega hafi verið einhverjar góðar stundir inn á milli, man ég ekki eftir einum einasta degi þar sem ekki voru einhver slagsmál eða ofbeldi í gangi.“

 

Jens segir ofbeldið hafa tekið sér bólfestu í hópi kennaranna á þessum árum og þeirra menning hafi einkennst af ofbeldi. Ekki er síður ámælisvert, að mati hans, að kennarar og starfsfólk hafi látið undir höfuð leggjst að koma í veg fyrir ofbeldi. Þar hafi stærri strákarnir miskunnarlaust misþyrmt þeim yngri í slagsmálum.

 

„Það er einmitt þetta sem þarf að koma í veg fyrir. Þetta gerðist á Jaðri og Breiðavík og víðar. Svona myndast þetta og það verðum við að stöðva. Utanaðkomandi aðilar þurfa að benda á hvað er að áður en það magnast upp.“

 

Þoldi ekki við í skóla

 

Jens yfirgaf Jaðar fyrir fullt og allt þegar hann var 12 ára gamall og fór eftir það í Reykjahlíð, þaðan í Réttarholtsskóla um skamma hríð og svo í skóla í Mosfellssveit þar sem hann segist hafa upplifað allt annað og eðlilegra ástand. Þrátt fyrir það var breytingin svo mikil að hann hrökk í baklás og mælti vart orð af munni í heilt ár.

 

„Það var bara sjokk að vera allt í einu kominn í umhverfi þar sem maður var ekki alltaf að berjast.“

Hann fór eftir það í Fellaskóla en flosnaði upp úr námi og vann eftir það ýmis verkamannastörf.

Jens segir þessa andstöðu hans við skólagöngu eina afleiðingu hinnar bitru reynslu hans og annarra drengja frá þessum árum.

 

„Meirihluti strákanna sem voru þarna eru ólærðir í dag og ég sjálfur áttaði mig á því síðar, þegar ég ætlaði í kvöldskóla, að ég hataði skóla. Við það rifjuðust upp minningar sem ég vildi helst forðast.“

Jens bætir því þó við að margir piltanna hafi gert það gott síðar á lífsleiðinni.

 

Reiður vegna skýrslu

 

Þegar Jens fékk boð um að koma fyrir vistheimilanefndina og segja sína sögu leit hann á það sem gott tækifæri til að koma hinu sanna á framfæri. „Ég var ekkert að hugsa um peninga eða neitt þess háttar. Ég vildi bara koma minni sögu á framfæri áður en ég dræpist.“

 

Þegar í viðtalið var komið sagði Jens frá stærstu tilvikunum sem höfðu setið í honum, en bætti því við að hann gæti lengi talið upp. Útkoman var hins vegar vonbrigði, eins og fram hefur komið, því að í skýrslunni segir að ekki séu miklar líkur á að nemendur hafi almennt verið beittir ofbeldi.

 

Jens finnst lítið til skýrslunnar koma þar sem mestallt sem fram kemur þar komi ofbeldi á börnum ekkert við. „Skýrslan er stór en þarna er mikil vinna sem hefur farið í ekki neitt! Það sem gerðist á Jaðri eru örfáar blaðsíður. Svo er verið að vitna í plögg og annað sem skipta engu í sambandi við ofbeldi.“

Hann er einnig reiður yfir því að í skýrslunni sé minna mark tekið á vitnisburði nemendanna en kennaranna.

 

Misjöfn upplifun

 

Jens segir þó að greinilegt sé af því hve fáir hafi tjáð sig við nefndina að lítill vilji sé í þessum hópi til að tjá sig um reynsluna á Jaðri. „Þetta er í raun rökrétt því að strákarnir vilja ekkert fara aftur í þennan tíma frekar en ég.“

 

Jens bætir því við að í skýrslunni sé ekki tekið tillit til þess að nemendur hafi komið frá mismunandi heimilum og upplifi því vistina á misjafnan hátt. Sumir, líkt og hann sjálfur, hafi verið vistaðir þar sökum fátæktar, en aðrir komu frá heimilum þar sem ofbeldi og misnotkun var jafnvel daglegt brauð. Það skipti því máli við hvað er miðað þegar talað er um jákvæða eða neikvæða upplifun.

 

„Ég veit ekki um einn einasta mann sem var þarna sem talar ekki um þetta sem hryllilega vist,“ segir Jens, en bætir því við að enn séu margir sem hann þekki sem geti ekki rætt um reynslu sína á Jaðri og þeir hafi ekki heldur tjáð sig við nefndina.

 

Vonast eftir breytingum

 

Jens er því afar ósáttur við niðurstöðu skýrslunnar þar sem honum finnst vanta mannlega þáttinn. Meðal annars er talað um að valdbeiting hafi undir vissum kringumstæðum verið réttlætanleg til að „kveða niður óæskilega hegðun nemenda“.

 

„Ég er ekki að efast um að fólkið í nefndinni er gott fólk,“ segir Jens, „en það er ekki að horfa á okkur sem börn á aldrinum 7 til 12 ára.“

 

Jens segist þó vonast til þess að saga hans verði til þess að nefndin muni íhuga stefnu sína. „Í mínum huga er það að segja frá þessum hlutum aðferð til að forða því að þeir endurtaki sig,“ segir Jens og bætir því við að honum þyki skýrslan breiða yfir vandamálin sem voru til staðar.

 

Þarna viðgekkst ofbeldiskúltúr og það verður að viðurkenna það. Þessu eiga eftirlitsaðilar að leita að því annars er hægt að skrifa hundrað skýrslur án þess að nokkuð gerist. Ég er að vona að eftir þessa grein muni nefndin horfa öðruvísi á þær stofnanir sem enn á eftir að rannsaka.“

 

thorgils@frettabladid.is


Varst þú á Unglinga- eða Upptökuheimilinu?

unglingaheimilid Rétt er að benda hlutaðeigandi á að Vistheimilanefndin svokallaða (Spanó-nefndin) er um þessar mundir að vinna að lokaskýrslu sinni - um Unglingaheimili ríkisins (1978-1994) og Upptökuheimili ríkisins (1945-1978).Með sérstakri auglýsingu (sjá t.d. dagblöð 16. október sl.) kallaði nefndin eftir fyrrum vistbörnum að mæta í viðtal hjá nefndinni og upplýsa hana um reynslu sína af dvölinni.

Upptökuheimilið var með starfsstöðvar að Elliðahvammi í Kópavogi, í starfsmannabústað við Kópavogshæli og á Kópavogsbraut 17 og Kópavogsbraut 9. Unglingaheimilið var með starfsstöðvar að Kópavogsbraut 17 og Kópavogsbraut 9, að Sólheimum 7 og Sólheimum 17 og Efstasundi 86, að Smáratúni í Fljótshlíð og Torfastöðum í Biskupstungum.

Hlutaðeigandi hafi samband við Vistheimilanefndina í síma 563 7016 eða netfangi vistheimili@for.stjr.is

Um þessa vinnu sagði Róbert Spanó nýlega í blaðaviðtali: "Við höfum alltaf hvatt alla, sem hafa vitneskju eða reynslu af því að vera á svona stofnunum, til að hafa samband". Fólk sem hafi frá slíku að segja fái viðurkenningu á brotum gegn sér og einnig að hægt verði að bæta framkvæmd barnaverndarlaga. „Einnig viljum við að starf okkar sýni fram á að með rannsóknum af þessu tagi sé hægt að komast til botns í samfélagslegum vandamálum."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband