Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Lög um sanngirnisbætur eru handan hornsins
18.1.2010 | 23:36
Kæru félagar.
Mörg ykkar sáu eflaust frétt í 10-fréttum Sjónvarpsins sl. Þorláksmessukvöld, þar sem fjallað var um væntanlegt frumvarp um sanngirnisbætur og rætt við lögmann okkar Ragnar Aðalsteinsson um helstu athugasemdir samtakanna. Af því tilefni og öðrum er rétt að fara lauslega yfir stöðu mála.
Við héldum félagsfund 8. desember síðastliðinn, þar sem við fórum yfir drög starfshóps á vegum forsætisráðuneytisins að frumvarpi um bæturnar. Við í stjórninni greindum frá aðalatriðum draganna og meðtókum bæði þær athugasemdir sem gerðar voru og þann fögnuð sem fram kom yfir því að málið væri farið að þróast verulega og styttast í niðurstöðu.
Í framhaldi af félagsfundinum kom stjórnin skilaboðum til Ragnars, sem síðan tók saman fantagóða umsögn um frumvarpsdrögin.
Til hafði staðið að leggja frumvarp fram fyrir jólahlé þingsins og freista þess að klára fyrstu umræðu þar og koma málinu til þingnefndar í frekari vinnslu. Það hefur dregist, í sjálfu sér ekki óeðlilega. Bæði tók Icesave alla orku stjórnvalda, sem kunnugt er, og síðan er ekki annað hægt að segja en að starfshópur ráðuneytisins og ráðherra sjálfur þurfi tíma til að melta umsögn okkar/Ragnars. Sú vinna er núna í gangi að okkur er sagt.
Ekki verður annað skilið en að forsætisráðuneytið hyggist klára þessa vinnu með þeim hætti að frumvarp verði lagt fram einhvern tímann um eða eftir 15. febrúar. Ef allt er eðlilegt og sátt ríkir um efni þess eins og það lýtur þá út ættu lög um sanngirnisbætur að sjá dagsins ljós í vor. Án nokkurs vafa verður áfanganum bæði fagnað og ýmislegt í lögunum gagnrýnt. Ekki síður á þá eftir að reyna á framkvæmdina og túlkun á viðkomandi lagaklásúlum og reglugerð.
Líklegt er að saman fari í vor, ný lög um sanngirnisbætur og endalok setutíma núverandi stjórnar Breiðavíkursamtakanna. Því er rétt að félagar fari að huga að því hvað skuli taka við, hvaða fólk eigi að taka við stjórnartaumunum, hvernig unnt sé að breikka starfsgrundvöll samtakanna og ná til fleiri fyrrum vistbarna hins opinbera o.s.frv. Bótamálið hefur eðlilega verið fremur plássfrekt að undanförnu og tímabært að gefa öðrum málum samtakanna aukna athygli!
Að lokum: Fyrirhugað er að halda reglulegan félagsfund að venju síðasta þriðjudagskvöld mánaðarins, 26. janúar næstkomandi, á venjulegum stað kl. 20. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna.
Stjórnin.
Aðalfundur BRV 2009: Það þokast áfram í bótamálinu
4.5.2009 | 18:15
Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna 2009 var haldinn 29. apríl síðastliðinn, að viðstöddum 31 af 78 félögum á félagaskrá. Um leið var haldið upp á tveggja ára afmæli samtakanna, sem stofnuð voru þennan dag 2007. Mikil eining ríkti á aðalfundinum og munaði þar kannski mestu um að loks hefur eitthvað þokast áfram í viðræðunum við fulltrúa forsætisráðuneytisins í bótamálunum.
Skýrslur bæði formanns og gjaldkera voru samþykktar mótatkvæðalaust eftir litlar umræður og er skriflegi hlutinn af ræðu formannsins hér að neðan. Ekki var kosið í stjórn, þar eð núverandi stjórn var kosin til tveggja ára á síðasta ári. Engar lagabreytingatillögur litu dagsins ljós, en hins vegar var kosin skemmtinefnd (eða félagsmálanefnd) og skipa hana Gunnar Júlíusson, Esther Erludóttir og Gísli Már Helgason (nefndin skiptir með sér verkum).
Bótamálin voru rætt ítarlega undir liðnum "Önnur mál". Þessi mál höfðu legið nokkuð í láginni sl. mánuði eða frá því að forsætisráðuneyti Geirs H. Haarde kynntu frumvarpsdrög um bætur, sem samtökin tóku illa og töldu afar ófullnægjandi og íþyngjandi. Ekki bætti úr skák bankahrun og fjármálakrísa. En eftir stjórnarskiptin 1. febrúar sl. og innkomu Jóhönnu Sigurðardóttur í forsætisráðuneytið hefur birt til í samskiptunum og munaði miklu um afsökunarbeiðni Jóhönnu til fyrrum vistbarna á vistheimilum ríkisins.
Eftir tvo fundi undanfarið með fulltrúum forsætisráðuneytisins hefur og orðið til minnisblað um aðferðarfræði og viðmiðunaratriði að komandi samkomulagi. Ekki hefur þó verið tekið á upphæðum ennþá, en nú er rammi fyrir hendi. Ekki er hægt að greina frá efnisatriðum minnisblaðsins hér, því það er trúnaðarmál, en innihaldið var kynnt fyrir félagsmönnum á aðalfundinum.
Eftir miklar umræður, sem almennt voru frekar jákvæðar, var samþykkt samhljóða eftirfarandi ályktun (og umboð til frekari viðræðna):
"Aðalfundur BRV, haldinn 29/4 2009, samþykkir að fela stjórn BRV að halda áfram samningaumleitunum við ríkið og eftir atvikum sveitarstjórnir, á grundvelli minnisblaðs forsætisráðuneytisins 22/4/09, endurskoðað 29/4/09, með þeim fyrirvörum sem fram komu á aðalfundinum um m.a. menntunarmál, tekjutengingar, umsóknarferli, viðbótargögn, vexti og verðbætur og fleira."
Ekki er mikið af fjármálum samtakanna að segja, skýrsla gjaldkera var samþykkt, þar sem koma fram lágstemmdar tekju- og gjaldatölur, en engin félagsgjöld eru í gangi. Rætt var meðal annars um þörfina fyrir föstum tekjupóstum, kannski ekki síst þar sem samtökin ætla á næstunni að reka litla skrifstofu með þeim Bárði R. Jónssyni og Friðriki Þór Guðmundssyni sem meðleigjendum til hálfs.
Hér fer á eftir skrifaði hlutinn af ræðu (skýrslu) formanns:
"Sælir, kæru félagar, ég ætla í grófum dráttum að fara yfir starfið frá því við síðast héldum aðalfund Breiðavíkursamtakanna en hann var haldinn 17. maí í fyrra. Af þeim fundi er það helst að segja að kosin var ný stjórn og við fengum til liðs við okkur menn sem deila ekki þessari reynslu okkar, að hafa verið á Breiðavík eða öðrum vistheimilum, þá Friðrik Þór Guðmundsson, Ara Alexander Ergis Magnússon og Þór Saari. Þeir hafa allir reynst okkur vel og ég vil sérstaklega þakka Friðriki fyrir örlæti á tíma sinn og krafta, að hinum tveimur ólöstuðum. Við Georg erum líklega veikustu hlekkirnir í þessari stjórn. Og ég hafði auðvitað séð það fyrir að Þór yrði kominn á Alþingi áður en kæmi að næsta aðalfundi. Það er ekki ónýtt að nú höfum við fulltrúa okkar á þjóðþingi Íslendinga.
Það var talað um á fundinum 17. maí að við tækjum því rólega yfir sumarið. Engir fundir voru á vegum samtakanna og það dró ekki tíðinda í baráttumáli okkar fyrr en þann 11. ágúst að við vorum boðaðir á fund með fulltrúum forsætisráðuneytisins til að fjalla um væntanlegar sanngirnisbætur til Breiðavíkurbarna. Þið þekkið svo framhaldið. Ekki var nein sátt um tillögurnar og við fengum svo bágt fyrir að hafa lekið þeim í fjölmiðla. Ég hef nú ekki iðrast þess eitt augnablik. En í framhaldinu mættum við Þór í Kastljós þar sem við gerðum grein fyrir sjónarmiðum okkar og ég skrifaði tvær greinar í Morgunblaðið um bæturnar til Breiðavíkurbarna. Einnig reifuðu Georg og Friðrik málefni okkar í umfjöllun Ísland í dag um svipað leyti. Við höldum okkur ennþá við þá afstöðu að bætur til Breiðavíkurbarna þurfi að skipta máli og vera samfélaginu til sóma. Og til að afgreiða þennan kafla í baráttunni þá hljóp snurða á þráðinn og stjórnvöld ræddu ekkert við okkur um langa hríð.
Og þótt það komi ekki starfi samtakanna sem slíkra beint við þá vil ég nefna það hér að við Georg fórum svo ásamt Ara Alexendar til Svíþjóðar á kvikmyndafestivalið Nordisk Panorama til að vera við sýningu Synda feðranna. Áður hafði ég verið í tengslum við samtök hliðstæð okkar í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en því miður náði ég ekki að hitta neinn þeirra manna. Það gæti orðið gagnlegt að koma á sterkari tengslum við þennan hóp á Norðurlöndunum ef það gæti hjálpað okkur í þessu reiptogi sem við eigum í við stjórnvöld. En við bíðum og sjáum til með það. Friðrik mun hér á eftir gera grein fyrir því sem síðast hefur gerst í bótamálinu.
Svo gerðist það að allt hrundi hér á Íslandi og satt að segja leist mér ekkert á að nokkuð mundi miða áleiðis með bætur til okkar eins og ástandið er. En viðmælendur okkar frá því haust hrökkluðust frá völdum og við tók vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og það markaði auðvitað ákveðin tímamót þegar hún bað okkur afsökunar á þingi og ég vil ítreka ánægju félagsmanna með þá afsökunarbeiðni Jóhönnu.
Í framhaldi af stjórnarskiptunum komst hreyfing á mál okkar og höfum við nú setið á tveimur fundum með fulltrúum stjórnvalda, síðast tveimur dögum fyrir kosningarnar nú um helgina. Annars þykir mér starfið hafa verið með ágætum í vetur; við höfum haldið fundi reglulega, dálítið þrasgjarna fundi en samt alltaf ánægjulega þegar upp var staðið. Stungið var upp á einskonar skemmtinefnd en hún komst aldrei á laggirnar.
Samtökin hafa svo fengið skrifstofuaðstöðu hér í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar og væntum við Friðrik ýmisslegs góðs af því. Bloggsíða var búin til eftir aðalfundinn í fyrra og ég vil hvetja ykkur til að skrifa á hana og koma þar með athugasemdir. Ég gleymi sjálfsagt ýmsu en þið getið komið því þá að hér á eftir.
Stjórnin er kosin til tveggja ára í senn svo fyrir þessum fundi liggur ekki margt annað en venjuleg aðalfundarstörf önnur og að gera grein fyrir bótamálinu og snæða í hléi þessar snittur sem hér eru á boðstólum".
(fundarritun fþg)
"Ljúkum þessu strax"
20.4.2009 | 16:20
Um leið og minnt er á aðalfund Breiðavíkursamtakanna miðvikudaginn 29. apríl næstkomandi kl. 20-22 (mæta 19:40) í fundarsal Reykjavíkurakademíunnar við Hringbraut (4. hæð) er okkur ljúsft og skylt að birta hér bréf sem okkur hefur borist frá félaga í samtökunum, Jóhanni Þór Hopkins. Bréfinu verður svarað fljótlega í athugasemdadálkinum.
"Nú er nóg komið. Ég forvitnaðist um stöðu mála hjá Breiðavíkursamtökunum, fátt um svör annað en það að það borgi sig ekki að vera með einhvern asa, málið sé í góðum farvegi, en við nánari athugun þá kemur annað í ljós.
Skrifstofa Samfylkingarinnar segir að málið sé í samningaferli.
Lögfræðingurinn segir að EKKERT sé að gerast í málinu.
Samtökin hafa engin önnur svör en að þetta sé bara svona.
Svo eru bara auglýstir spjallfundir ??? Eru menn ekki búnir að velta sér nóg uppúr þessu? Ljúkum þessu strax.
Nú eftir að málið er búið að vera að veltast í höndum stjórnarinnar á annað ár og ekkert að gerast.
Eru samtökin ekki bara á góðri leið með að klúðra málinu með einhverjum óheyrilegum kröfum? Gleymum því ekki að lagalega er máli fyrnt, og það að vera að ræða um einhverja tugi milljóna er bara út í hött.
Ég held satt að segja að þetta sé komið úr böndum og að menn ættu bara að fara að huga að sjálfstæðum aðgerðum. Ekki er þessi stjórn að gera neitt. Er málinu ekki bara betur komið i höndum einstaklingana sjálfra?
Jóhann Þór Hopkins.
Bætur og lögbrot - grein eftir Hafstein Haraldsson
2.1.2009 | 12:12
Hafsteinn Haraldsson, Breiðavíkurdrengur, hefur sent síðunni neðangreinda grein, sem við hér birtum um leið og við óskum öllum farsældar á nýju ári.
Þarna var það ríkið sem framdi brot á öllum lögum og reglum landsins í þessum málaflokki - stjórnsýslulög, barnaverndarlög og önnur landslög og alþjóðalög - á þessum börnum sem voru aðeins 7 til 14 ára.
Ríkið svipti börnin ærunni og allri mannlegri reisn, lét það í launalausa barnaþrælkun og skipti þá engu máli aldur eða líkamsburðir. Þeim var nauðgað og þau voru lamin og svelt, þurftu að þola svívirðingar og einangrun og ofbeldi af öllu tagi og lifðu í stanslausum ótta og sálarkvölum í vistinni. Þau komust hvergi undan til að verja sig eða segja frá þeim viðbjóði og hörmungum sem áttu sér stað fyrr en þeim var sleppt að lokinni afplánun og þá hlustaði enginn. Þau voru látin bera harminn í hljóði alla ævi með misjöfnum árangri.
Öll eru þessi börn hafa komið misjafnlega illa út úr lífinu og mörg eru dáin, sum sviptu sig lífi, önnur eru inn og út úr fangelsum eða í ræsinu og óreglu, restin hefur aldrei verið í góðum málum.
Þeir sem höfðu sig mest í frammi þarna í Breiðavíkurvistinni, sem frömdu ódæðið á þessum börnum, eru dánir; forstöðumaðurinn Þórhallur Hálfdánarson sem var þeirra verstur og kona hans Guðmunda Halldórsdóttir. En svo eru það dóttir þeirra hjóna Málmfríður Þórhallsdóttir og maðurinn hennar Þórður J. Karlsson en þau voru hluti af starfsfólkinu sem var ráðið til að láta þessum börnum líða vel í vistinni - þau brugðust börnunum líka og tóku bæði beinan og óbeinan þátt í ódæðinu á drengjunum. Þau búa núna í Hafnarfirði og láta sem ekkert hafi gerst, en lögðu það þó á sig að mæta fyrir Breiðavíkurnefndina til að ljúga því að ekkert af þessu væri rétt sem eftir drengjunum er haft. En skýrslan lýgur ekki, þar er gjörningurinn sannaður í einu og öllu og skýrslan er mjög vel gerð hjá þeim nefndarmönnum og fengu þeir til liðs við sig einn virtasta sérfræðing í heimi, Dr. Gísla H. Guðjónssonar, prófessors í réttarsálfræði til að vinna að gerð hennar.
Alþingismenn voru fljótir að gleyma eins og vanalega, miðað við þær smánarbætur sem átti að bjóða.
Ráðnir voru sérfræðingar í nefnd sem fengu meira í sinn vasa en bæturnar sem bjóða átti vistmönnum. Svo vill ríkisstjórnin láta fara út í meiri kostnað og stofna nýja nefnd - láta fólkið rifja aftur upp þennan hrylling, þessa mannskemmandi afplánun sem þarna fór fram, til að meta það hversu lítið þeir komast af með að greiða í bætur fyrir ódæðið. Og gera vistmönnum erfiðara fyrir með að sækja kröfur sínar.
Ég held að við vistmenn eigum að gera skírar kröfur og nota þá lögin og þau fjölmörgu lögbrot og launaþjófnað sem unnin voru á vistmönnum, sem eru svo greinileg og tala fyrst og fremst um öll þau lögbrot sem unnin voru á okkur bæði í upphafi og á meðan á vistinni stóð. Og krefjast hið minnsta 15 milljóna króna á mann með fyrirvara um að síðan megi það vera mat hversu vistin var skaðleg fyrir hvern og einn til viðbótar. Og láta þá Breiðavíkurskýrsluna duga til að skera úr um það, en ekki að fá menn aftur í upprifjun á þeim hryllingi sem þeir þurftu að þola. Þannig mat væri líka mjög erfitt í framkvæmd og yrði bara til þess að gera vistmönnum erfiðara fyrir. Matið yrði geðþóttaákvörðun sem ekki er rétt, og margir myndu ekki mæta og yrðu þá útundan.
Svo er rétt að krefjast þess að fá bæði opinberlega og skriflega afsökunarbeiðni fyrir hvern og einn.
KV., Hafsteinn Haraldsson.
Eru þetta sanngjarnar "sanngirnisbætur"?
19.12.2008 | 20:50
Svo virðist sem að ríkisstjórnin geti hugsað sér að borga um 150 fyrrum vistbörnum (lifandi og dánarbúum) um 700 til 750 þúsund krónur "á kjaft" að meðaltali sem sanngirnisbætur fyrir ofbeldið og mannréttindabrotin önnur sem áttu sér stað á vistheimilinu í Breiðavík 1952-1979. Það er að segja miðað við að öll þessi fyrrum vistbörn og fulltrúar dánarbúa geti fært sérstakri matsnefnd fram sönnur á því að skaði hafi átt sér stað.
Í frumvarpi til fjáraukalaga vegna 2008 er að finna liðinn " Bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn" og hljóðar upp á 125 milljónir króna. Þessi upphæð er eyrnamerkt því eina vistheimili sem rannsakað hefur verið af Spanó-nefndinni svokölluðu; Breiðavík, og nær til alls tímabils þess vistheimilis, 1952-1979. Það er því ljóst að öll um 150 vistbörn þessa tímabils eru undir. Þess utan er reiknað með að af þessari upphæð sé tekið vegna kostnaðar við nefnda matsnefnd. Slíkar nefndir eru dýrar og ef gert er ráð fyrir því að um 15 milljónir fari í nefndina þá standa um 110 milljónir eftir sem dreifast skulu á um 150 vistbörn (og dánarbú). meðaltalan er 733 þúsund krónur (þess má geta að í viðtalinu er sá misskilningur uppi að innan við 100 eigi rétt á þessum bótum - það átti að vera tala lifandi Breiðavíkurdrengja frá tímabilinu 1952-1972).
Ljóst er, eins og fram kemur í viðtali við formann BRV hér að neðan, að þessi tala er ekki komin fram eftir samráð og samþykki samtakanna. Forsætisráðuneytið hefur ekki svarað málaleitan samtakanna um stöðu málsins og miðað við það reiknar ríkisstjórnin líkast til ekki með að semja um aðra upphæð. Breiðavíkurbörnunum er því væntanlega ætlað að "take it or leave it". Það verður verkefni þeirra nú um hátíðarnar að meta hvort þeim finnist "sanngirnisbæturnar" sanngjarnar. Við fögnum öllum skoðanaskiptum hér á blogginu okkar.
Innlent | mbl.is | 16.12.2008
Bótafjárhæðin vonbrigði
Þetta er svo sem í takt við það sem búast mátti við en engu að síður mikil vonbrigði, segir Bárður Ragnar Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna. Ríkisstjórnin hefur í frumvarpi til fjáraukalaga, farið fram á 125 milljóna króna framlag til að greiða bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn. Fyrst og fremst er um að ræða bætur til drengja sem vistaðir voru á Breiðavík um og eftir miðja síðustu öld.
Í frumvarpinu segir að fjárhæðin sé ætluð til að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem hafa orðið fyrir varanlegu tjóni á vistheimilum fyrir börn og kostnað úrskurðarnefndar í þeim málum, enda liggi fyrir skýrsla frá svokallaðri Breiðavíkurnefnd um að óforsvaranlega hafi verið staði að málum við vistun á stofnun eða heimili eða í rekstri þess.
Skilyrði bótagreiðslu er að umsækjandi hafi hlotið varanlegt tjón og leiði líkur að því að það sé vegna vistunar á stofnun eða heimili sem undir lög um Breiðavíkurnefndina fellur, illrar meðferðar eða ofbeldis afhendi starfsmanna þar eða annarra vistmanna. Sérstakri nefnd er ætlað að taka afstöðu til bótakrafna.
Innan við 100 manns eru í þeim hópi sem á bótarétt samkvæmt þessari skilgreiningu. Verst ku ástandið hafa verið á árunum 1952 til 1972. Á fjórða tug manna sem dvöldu á Breiðavík á þeim árum eru látnir. Samkvæmt drögum að frumvarpi sem samið var í forsætisráðuneytinu renna bótagreiðslur til aðstandenda þeirra sem dvöldu á Breiðavík og eiga bótarétt en eru látnir.
Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna segir það í raun það eina jákvæða sem er að finna í frumvarpsdrögunum.
Við getum ekki sætt okkur við að þurfa að mæta fyrir nefnd sem skipuð er geðlæknum og lögfræðingum. Mælikvarðinn sem settur er, finnst okkur óviðunandi. Ég hef áður vísað til sambærilegra mála í Noregi og uppgjörs þar og geri enn. Ég tel að það ætti að greiða hverjum og einum sem þarna var vistaður 15 milljónir króna að lágmarki, það eigi eitt yfir alla að ganga. Þetta eru menn sem aldrei hafa náð að fóta sig í lífinu. Leiddust út í áfengis- og fíkniefnaneyslu, afbrot og enduðu í fangelsum. Sumir eru þar enn og aðrir inn og út af geðdeildum, segir Bárður R. Jónsson.
Hann segir að ekkert samráð hafi verið haft við Breiðavíkursamtökin eftir að drög að frumvarpi um svokallaðar sanngirnisbætur vegna misgjörða við vistun á opinberum stofnunum eins og Breiðavíkurheimilinu komust í umræðuna. Forsætisráðuneytið átaldi að samtökin hefðu farið með frumvarpið í fjölmiðla án samþykkis eða samráðs við ráðuneytið.
Ég sendi fyrirspurn um stöðu málsins í byrjun mánaðar en hef engin svör fengið enn. Þeir hafa ekkert rætt við okkur frá 11. ágúst síðastliðnum. Miðað við orðalag fjáraukalaganna þá býst ég ekki við að neitt hafi breyst frá því í sumar. En samráðinu lauk þegar frumvarpsdrögin komust til fjölmiðla, segir Bárður R. Jónsson.
Eins og áður segir er sótt um 125 milljónir króna í fjáraukalögum vegna bótagreiðslna og reksturs úrskurðarnefndar. Að því gefnu að 100 einstaklingar eigi rétt til bóta, kemur um eða innan við ein milljón króna í hlut hvers fyrir sig.
Hvers konar uppgjör yrði það? Mér finnst greinilegt á öllu að athugasemdir okkar við frumvarpsdrögin hafi ekki verið teknar til greina. Stjórnvöld vilja sleppa sem billegast frá þessu. Þetta breytir engu en ég vil að menn geti sagt að bæturnar breyti einhverju, gefi þeim sem urðu fyrir tjóni, nýja von, segir Bárður R. Jónsson.
![]() |
Bótafjárhæðin vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þingið, svínin og lægst settu "dýrin"
2.9.2008 | 16:07
Það er vel til fundið hjá Þjóðarhreyfingunni að gefa þingmönnum bókina "Animal farm" um leið og sú krafa er gerð að afnema Eftirlaunalögin svokölluðu (eða ósiðlegu hluta þeirra). Eins er ánægjulegt að heyra þingmenn nú tala um að setja sér siðareglur (þótt það gangi illa). Hvað Breiðavíkursamtökin varðar reynir nú brátt á hversu vel þingmenn vilja gera við þau fyrrum börn og unglinga sem fyrrum kollegar þeirra "dæmdu" til nauðungarvistar og -vinnu og til einangrunar og ofbeldis á Breiðavík og víðar. Því miður benda fyrstu vísbendingar til þess að ekki eigi að bæta skaðann af neinni rausn.
Breiðavíkursamtökin blása nú í samræmi við það til tímabærs félagsfundar á morgun miðvikudag 3. september í félagsmiðstöð félagsþjónustunnar við Aflagranda, kl. 17. Áríðandi að allir félagar mæti sem vettlingi geta valdið.
Fundartilefnið er frumvarpssmíð ríkisstjórnarinnar um bætur til handa fyrrum vistmönnum að Breiðavík og fleiri vistheimilum hins opinbera. Þetta frumvarp hefur verið í smíðum og hefur stjórnarmönnum BRV og Ragnari Aðalsteinssyni lögfræðingi verið kynnt drög frumvarpsins. Óhætt er að segja á þessari stundu að drögin vekja ekki upp hrifningu og ætlunin að ræða málin á fundinum.
Fylgist með blogginu og aðalsíðu samtakanna og látið alla félaga vita.
![]() |
Þingmenn fá Animal Farm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bótamálið má ekki dragast úr hömlu
24.6.2008 | 12:43
Síðasta miðvikudag (18. júní) var frétt í Sjónvarpinu með viðtali við þá mætu konu, Ásu Hjálmarsdóttur, móður Breiðavíkurdrengsins Konráðs Ragnarssonar. Fréttin í heild var þörf áminning (sjá hér). Áminning um að stjórnvöld dragi ekki að óþörfu að bæta fyrrum vistbörnum hins opinbera þá nauðung og ofbeldi sem þau upplifðu, í þessu tilfelli Breiðavíkurdrengjum.
Ekki tókst að ljúka samningu, framlagningu og samþykkt bótafrumvarps á þingi sl. vor og héðan af gerist því ekkert fyrr en með samþykkt frumvarps að hausti. Það liggur alveg ljóst fyrir að margir Breiðavíkudrengjanna eru ekki heilsuhraustir og tveir hafa látist það sem af er árinu, að því er fram kemur í fréttinni. Það er því slæmt ef bæturnar dragast að óþörfu, en hins vegar um leið mikilvægt að vanda til verka - því bæturnar verða að vera sómasamlegar og í þeim verður fólgið mikilvægt fordæmi hvað bætur varðar til fyrrum vistbarna annarra vistheimila. Það hefði þannig ekki komið á óvart ef þingið hefði, vegna flýtis og nísku, samþykkt í hraði allt of lágar bætur.
Mikilvægt er að sumarið sé í þessu sambandi vel nýtt og komist að niðurstöðu um raunhæfar bætur, þannig að þegar þing kemur saman þá renni frumvarp í gegn eins og bráðið smér. Breiðavíkursamtökin (regnbogasamtök fyrrum vistbarna hvers kyns vistunarúrræða barnaverndaryfirvalda) vilja taka þátt í þessari vinnu og gera það. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur er þar samtökunum innan handar, en lögfræðilega og félagslega er allsendis ekki um einfalt mál að ræða.
Bloggsíðan óskar Ásu til hamingju með skeleggt viðtal og gott aðhald að stjórnvöldum og sendir Konráði syni hennar einlægar óskir um bætta heilsu.