Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Bárður: Boltinn er hjá yfirvöldum

Heilir og sælir, Breiðvíkingar allir. Ég birti þessi skrif hér á blogginu okkar því undanfarið hafa heyrst gagnrýnisraddir vegna bótamálsins og sumir viljað halda fund nú strax.

 

Stjórn samtakanna þótti ekki ástæða til þess þar sem ekkert hefur gerst í viðræðum okkar við stjórnvöld frá því aðalfundurinn var haldinn þann 29. apríl s.l.

Við höfum sent tillögur okkar til fulltrúa forsætisráðuneytisins svo segja má að næsta útspil verði að koma frá fulltrúum stjórnvalda. Við munum að sjálfsögðu boða til fundar strax og það liggur fyrir.


Við getum líka litið til þess að það fór ekki að koma hreyfing á okkar mál fyrr en ný ríkisstjórn tók við í vetur.

Ég vil því biðja félagsmenn að sýna okkur þolinmæði. Það má líka geta þess að skýrsla frá rannsóknarnefndinni (Spanó) er væntanleg um næstu mánaðamót og ég á ekki von á því að nokkuð gerist fyrr en hún liggur fyrir.

 

Við höldum okkur auðvitað við það sem við höfum alltaf sagt: Samfélagið verður að búa svo um hnútana við bætur til Breiðavíkurdrengja og annarra sem búa að sárri reynslu frá barnaverndaryfirvöldum að sómi sé að og þjóðin geti verið hreykin af því hvernig hún kemur fram við sína minnstu bræður.


Kveðjur
Bárður R. Jónsson

VIÐBÓT:

Ekki verður félagsfundur næstkomandi þriðjudagskvöld, enda reglulegir þriðjudagsfundir komnir í sumarfrí fram í september, eins og um var rætt á aðalfundi.

Enn er hins vegar galopið að blásið verði til "óreglulegs" félagsfundar hvenær sem er, ef eitthvað gerist í baráttumálum samtakanna.

Í millitíðinni er skemmtinefndin sem kjörin var á aðalfundinum hvött til að efna til félagslífs af léttara taginu og þar sem samræður fara ekki endilega eftir mælendaskrá!

kv.

fþg


Bréf sent til Jóhönnu Sig.

Í gær, 4. júní, var boðsent til forsætisráðuneytisins bréf frá stjórn Breiðavíkursamtakanna, sem viðbrögð og tillögur vegna Minnisblaðs ráðuneytisins, sem sagt var frá á aðalfundi samtakanna 29. apríl síðastliðinn. Efni bréfs þessa er trúnaðarmál gagnvart utanfélagsfólki, en hér verður þó reynt að segja frá því sem óhætt er að segja frá.

Svo sem félagsmönnum er kunnugt um þá hefur komist hreyfing á (sanngirnis)bótamálið eftir að Jóhanna Sigurðardóttir settist í stól forsætisráðherra og ekki síst eftir afsökunarbeiðni hennar til fyrrum vistbarna vistheimila á vegum ríkisins. Þá urðu ákveðin tímamót með fyrrnefndu Minnisblaði og viðbrögðum aðalfundar okkar við því.

Eins og félagsmenn vita hefur ráðuneytið umfram allt viljað með samkomulaginu skapa fordæmi sem ná myndi til allra vistheimila sem til rannsóknar Spanó-nefndarinnar koma og jafnframt er deginum ljósara að ráðuneytið hefur ekki áhuga á háum bótum yfir línuna, kannski ekki síst vegna efnahagsástandsins. Nú í maí hefur stjórn samtakanna brætt með sér hugmyndir að tillögum um útfærslur og leiddi sú vinna til þess að bréfið var sent í gær. Í tillögum stjórnar er gert ráð fyrir "tveggja ása flokkaskiptingu" við ákvörðun (óháðrar nefndar) á bótum.

Þar muni þolendur af hálfu tilgreindrar óháðrar nefndar raðast í flokka eftir nánar tilgreindum viðmiðunum.

Veigamestu atriðin við það mat verði annars vegar bein ætluð lögbrot/mannréttindabrot, sbr.: Líkamlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða eldri vistbarna (ekkert, lítið, nokkurt, mikið, mjög mikið), andlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna og/eða eldri vistbarna (ekkert, lítið, nokkurt, mikið, mjög mikið), andlegt og líkamlegt álag annað, vinnuþrælkun / ólaunuð barnavinna, missir skólagöngu/svipting á menntun, skortur á hvers kyns læknisþjónustu, veikindi og slys á vistunarstað, ónóg þrif og ónógur matur, skjóllítill fatnaðar barna gegn vondum veðrum og skortur á eftirfylgni/liðveislu eftir vist.

Hins vegar verði til viðmiðunar atriði af ýmiss konar félagslegum og heilsufarslegum toga, sbr.: Langtímadvöl - lengd dvalartíma (t.d. undir 1 ári, 1-2 ár, 2-3 ár, 3-4 ár, 4-5 ár o.s.frv.), einelti, einangrun viststaðar, ástæðulaus/tilefnislaus vistun, óréttmætur aðskilnaður við foreldra, sambandsleysi/sambandsbann við foreldra/ættingja,  vist frá mjög ungum aldri,   harðneskja – skortur á hlýju, afleiðingar vistunar, ótímabær dauðdagi / heilsubrestur til langtíma, svipting tómstunda/barnagamans og fleira.

 

  Stjórn samtakanna vonast auðvitað eftir jákvæðum viðbrögðum við þessum viðmiðunum og aðferðarfræði, en ekki er komið að því að ræða upphæðir ennþá. Í bréfinu var jafnframt vonast eftir skjótum viðbrögðum og áframhaldandi fundarhöldum, þannig að stjórnvöldum auðnist að leggja fram frumvarp um bætur við upphaf haustþings. Ef það gengur eftir styttist svo sannarlega í lausn þessara erfiðu mála.

Bréfið er sem fyrr segir trúnaðarmál gagnvart utanfélagsfólki, en áhugasamir félagsmenn geta fengið afrit af því sent ef þeir biðja um það í tölvupósti eða með símtali (lillokristin@simnet.is eða 864 6365).


Aðalfundur BRV 2009: Það þokast áfram í bótamálinu

Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna 2009 var haldinn 29. apríl síðastliðinn, að viðstöddum 31 af 78 félögum á félagaskrá. Um leið var haldið upp á tveggja ára afmæli samtakanna, sem stofnuð voru þennan dag 2007. Mikil eining ríkti á aðalfundinum og munaði þar kannski mestu um að loks hefur eitthvað þokast áfram í viðræðunum við fulltrúa forsætisráðuneytisins í bótamálunum.

Skýrslur bæði formanns og gjaldkera voru samþykktar mótatkvæðalaust eftir litlar umræður og er skriflegi hlutinn af ræðu formannsins hér að neðan. Ekki var kosið í stjórn, þar eð núverandi stjórn var kosin til tveggja ára á síðasta ári. Engar lagabreytingatillögur litu dagsins ljós, en hins vegar var kosin skemmtinefnd (eða félagsmálanefnd) og skipa hana Gunnar Júlíusson, Esther Erludóttir og Gísli Már Helgason (nefndin skiptir með sér verkum).

Bótamálin voru rætt ítarlega undir liðnum "Önnur mál". Þessi mál höfðu legið nokkuð í láginni sl. mánuði eða frá því að forsætisráðuneyti Geirs H. Haarde kynntu frumvarpsdrög um bætur, sem samtökin tóku illa og töldu afar ófullnægjandi og íþyngjandi. Ekki bætti úr skák bankahrun og fjármálakrísa. En eftir stjórnarskiptin 1. febrúar sl. og innkomu Jóhönnu Sigurðardóttur í forsætisráðuneytið hefur birt til í samskiptunum og munaði miklu um afsökunarbeiðni Jóhönnu til fyrrum vistbarna á vistheimilum ríkisins.

Eftir tvo fundi undanfarið með fulltrúum forsætisráðuneytisins hefur og orðið til minnisblað um aðferðarfræði og viðmiðunaratriði að komandi samkomulagi. Ekki hefur þó verið tekið á upphæðum ennþá, en nú er rammi fyrir hendi. Ekki er hægt að greina frá efnisatriðum minnisblaðsins hér, því það er trúnaðarmál, en innihaldið var kynnt fyrir félagsmönnum á aðalfundinum.

Eftir miklar umræður, sem almennt voru frekar jákvæðar, var samþykkt samhljóða eftirfarandi ályktun (og umboð til frekari viðræðna):

"Aðalfundur BRV, haldinn 29/4 2009, samþykkir að fela stjórn BRV að halda áfram samningaumleitunum við ríkið og eftir atvikum sveitarstjórnir, á grundvelli minnisblaðs forsætisráðuneytisins 22/4/09, endurskoðað 29/4/09, með þeim fyrirvörum sem fram komu á aðalfundinum um m.a. menntunarmál, tekjutengingar, umsóknarferli, viðbótargögn, vexti og verðbætur og fleira."

 Ekki er mikið af fjármálum samtakanna að segja, skýrsla gjaldkera var samþykkt, þar sem koma fram lágstemmdar tekju- og gjaldatölur, en engin félagsgjöld eru í gangi. Rætt var meðal annars um þörfina fyrir föstum tekjupóstum, kannski ekki síst þar sem samtökin ætla á næstunni að reka litla skrifstofu með þeim Bárði R. Jónssyni og Friðriki Þór Guðmundssyni sem meðleigjendum til hálfs.

 Hér fer á eftir skrifaði hlutinn af ræðu (skýrslu) formanns:

"Sælir, kæru félagar, ég ætla í grófum dráttum að fara yfir starfið frá því við síðast héldum aðalfund Breiðavíkursamtakanna en hann var haldinn 17. maí í fyrra. Af þeim fundi er það helst að segja að kosin var ný stjórn og við fengum til liðs við okkur menn sem deila ekki þessari reynslu okkar, að hafa verið á Breiðavík eða öðrum vistheimilum, þá Friðrik Þór Guðmundsson, Ara Alexander Ergis Magnússon og Þór Saari. Þeir hafa allir reynst okkur vel og ég vil sérstaklega þakka Friðriki fyrir örlæti á tíma sinn og krafta, að hinum tveimur ólöstuðum. Við Georg erum líklega veikustu hlekkirnir í þessari stjórn. Og ég hafði auðvitað séð það fyrir að Þór yrði kominn á  Alþingi áður en kæmi að næsta aðalfundi. Það er ekki ónýtt að nú höfum við fulltrúa okkar á þjóðþingi Íslendinga.

 

Það var talað um á fundinum 17. maí að við tækjum því rólega yfir sumarið. Engir fundir voru á vegum samtakanna og það dró ekki tíðinda í baráttumáli okkar fyrr en þann 11. ágúst að við vorum boðaðir á fund með fulltrúum forsætisráðuneytisins til að fjalla um væntanlegar sanngirnisbætur til Breiðavíkurbarna. Þið þekkið svo framhaldið. Ekki var nein sátt um tillögurnar og við fengum svo bágt fyrir að hafa lekið þeim í fjölmiðla. Ég hef nú ekki iðrast þess eitt augnablik. En í framhaldinu mættum við Þór í Kastljós þar sem við gerðum grein fyrir sjónarmiðum okkar og ég skrifaði tvær greinar í Morgunblaðið um bæturnar til Breiðavíkurbarna. Einnig reifuðu Georg og Friðrik málefni okkar í umfjöllun Ísland í dag um svipað leyti. Við höldum okkur ennþá við þá afstöðu að bætur til Breiðavíkurbarna þurfi að skipta máli og vera samfélaginu til sóma. Og til að afgreiða þennan kafla í baráttunni þá hljóp snurða á þráðinn og stjórnvöld ræddu ekkert við okkur um langa hríð.

 

Og þótt það komi ekki starfi samtakanna sem slíkra beint við þá vil ég nefna það hér að við Georg fórum svo ásamt Ara Alexendar til Svíþjóðar á kvikmyndafestivalið Nordisk Panorama til að vera við sýningu Synda feðranna. Áður hafði ég verið í tengslum við samtök hliðstæð okkar í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en því miður náði ég ekki að hitta neinn þeirra manna. Það gæti orðið gagnlegt að koma á sterkari tengslum við þennan hóp á Norðurlöndunum ef það gæti hjálpað okkur í þessu reiptogi sem við eigum í við stjórnvöld. En við bíðum og sjáum til með það. Friðrik mun hér á eftir gera grein fyrir því sem síðast hefur gerst í bótamálinu.

 

Svo gerðist það að allt hrundi hér á Íslandi og satt að segja leist mér ekkert á að nokkuð mundi miða áleiðis með bætur til okkar eins og ástandið er. En viðmælendur okkar frá því haust hrökkluðust frá völdum og við tók vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og það markaði auðvitað ákveðin tímamót þegar hún bað okkur afsökunar á þingi og ég vil ítreka ánægju félagsmanna  með þá afsökunarbeiðni Jóhönnu.

 

Í framhaldi af stjórnarskiptunum komst hreyfing á mál okkar og höfum við nú setið á tveimur fundum með fulltrúum stjórnvalda, síðast tveimur dögum fyrir kosningarnar nú um helgina. Annars þykir mér starfið hafa verið með ágætum í vetur; við höfum haldið fundi reglulega, dálítið þrasgjarna fundi en samt alltaf ánægjulega þegar upp var staðið. Stungið var upp á einskonar skemmtinefnd en hún komst aldrei á laggirnar.

 

Samtökin hafa svo fengið skrifstofuaðstöðu hér í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar og væntum við Friðrik ýmisslegs góðs af því. Bloggsíða var búin til eftir aðalfundinn í fyrra og ég vil hvetja ykkur til að skrifa á hana og koma þar með athugasemdir. Ég gleymi sjálfsagt ýmsu en þið getið komið því þá að hér á eftir.

 

Stjórnin er kosin til tveggja ára í senn svo fyrir þessum fundi liggur ekki margt annað en venjuleg aðalfundarstörf önnur og að gera grein fyrir bótamálinu og snæða í hléi þessar snittur sem hér eru á boðstólum".

(fundarritun fþg)


Breiðavíkursamtökin með þingmann!

Borgarahreyfingin fagnaði sigri í nótt. Flokkurinn fékk 4...Um leið og minnt er á aðalfund Breiðavíkursamtakanna næsta miðvikudag, á tveggja ára afmæli samtakanna (sjá færslur hér á undan) þá er rétt að óska Breiðavíkursamtökunum til hamingju með að vera komin með þingmann. Einn nýrra þingmanna er Þór Saari hagfræðingur og gjaldkeri stjórnar samtakanna og er honum innilega óskað til hamingju með vegtylluna og vitaskuld skorað á hann að passa upp á málefni BRV og vistheimila almennt á þingi.

Raunar má benda á þá merkilegu staðreynd að hvorki meira né minna en 5 félagar í samtökunum voru virkir liðsmenn Borgarahreyfingarinnar, þeir Þór, Friðrik Þór Guðmundsson, Konráð Ragnarsson, Páll Rúnar Elísson og Maron Bergmann Brynjarsson, auk þess sem formaðurinn Bárður R. Jónsson var ótvíræður stuðningsmaður.  Borgarahreyfingin og Breiðavíkursamtökin áttu augljóslega samleið.

Gott útlit er fyrir því að Jóhanna Sigurðardóttir verði áfram með forsætisráðuneytið og þar með að vinveitt stjórnvöld komi áfram að samningaborðinu við samtökin. Í því sambandi er spennandi að segja frá því að í síðustu viku átti stjórn samtakanna mjög fínan fund með fulltrúum forsætisráðuneytisins, þar sem áþreifanlega þokaðist í áttina að aðferðarfræði samkomulags um sanngirnisbætur. Stjórn samtakanna bíður nú eftir minnisblaði frá ráðuneytinu sem ætlunin er að kynna á aðalfundinum.


mbl.is Nýtt Alþingi Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þá er að drífa sig á fund, félagar

Reglulegur félagsfundur Breiðavíkur samtakanna verður annað kvöld, 31. mars, síðasta þriðjudag mánaðarins að vanda. Hann verður haldinn kl. 20:30 að Aflagranda 40, eins og hingað til, en til stóð að hafa hann í fundarsal Reykjavíkurakademíunnar. Það gekk ekki eftir og því förum við á gömlu slóðirnar.

Fundarefnið er í sjálfu sér sama og venjulega, aðallega hittast og spjalla og vonar stjórnin að þessi fundur geti verið á léttari nótum en síðustu fundir. Lítill fugl hefur hvíslað því að stjórninni að á fundinn komi óvæntur leynigestur af stjórnmálakyni. 

Sjáumst hress og glöð.


Enn eru stunduð myrkraverk á meðferðarheimilum

Ekki er það glæsilegt - enn virðast ofbeldismenn og öfuguggar sleppa inn sem starfsmenn vist- og meðferðarheimila fyrir börn og unglinga. Enn virðist innra eftirlit ekki vera nógu gott til að útiloka myrkraverkin frá því að eiga sér stað, ef grunurinn reynist réttur sem umrædd rannsókn beinist að.

Lærdómurinn af Breiðavík og ámóta heimilum þarf að fara að skila sér af fullum þunga. Breiðavíkursamtökin eru ekki í nokkrum vafa um að yfirstandandi rannsókn á meðferð barna og unglinga á Kumbaravogi og fleiri viststofnunum muni enn betur staðfesta hvernig slík "heimili" hafi ekki verið öryggi og skjól fyrir varnarlaus börn og unglinga, heldur gróðrarstía í höndunum á eftirlitslausum föntum - hið minnsta að hluta til.  Sorglegra er að dæmin sýna að þótt ástandið kynni að hafa lagast eitthvað með tíð og tíma og breyttum félagslegum áherslum þá eru vist- og meðferðarheimilin enn ekki orðin örugg skjól.

Kannski verður aldrei hægt að útiloka að vondir menn, í gervi góðra, komist til starfa á slíkum stofnunum. Kannski eru perrarnir og fantarnir of góðir við að villa á sér heimildir. En kannski má líka enn breyta og herða samskipta- og umgengnisreglum. Það þarf að fara í saumana á slíkum málum.

Félagsmenn í Breiðavíkursamtökunum; takið eftir:

Að öllum líkindum verða af óhjákvæmilegum ástæðum breytingar á fundarstað og tíma félagsfundarins næstkomandi þriðjudagskvöld. Líkast til verður horfið aftur til þess að halda fundinn að Aflagranda 40 kl. 20:30, eins og hingað til, vegna þess að salurinn í Reykjavíkurakademíunni reyndist þegar á reyndi löngu bókaður undir aðalfund annars félags. Beðist er velvirðingar á þessu, en staðfesting á breytingunni verður látin berast.


mbl.is Meint kynferðisbrot á meðferðarheimili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin með "kompu" - hittumst 31. mars

Næsti félagsfundur Breiðavíkursamtakanna verður að vanda síðasta þriðjudag mánaðarins, sem að þessu sinni er síðasti dagur mánaðarins, 31. mars.

Nú ber svo við að við fögnum saman opnun nýrrar (lítillar og sætrar) skrifstofu á fjórðu hæð í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar að Hringbraut 121. Fundurinn verður þó haldinn í fundarsalnum á hæðinni fyrir neðan, en við skoðum auðvitað "kompuna" saman.

Í tilefni dagsins leitumst við að hafa þennan félagsfund í léttari kantinum, nema ný og þyngri tíðindi neyði okkur til annars. Með fyrirvara um breytingar nefni ég hér fundartímann kl. 20:00 til 22:30, en við viljum að fólk sé helst farið áður en þjófavarnarkerfið er sett á kl. 23:00. 

Sjáumst þá eftir 11 daga frá deginum í dag að telja!


Formaðurinn talar við Spegilinn

Náttúrulega allt of seint í rassinn gripið, en formaður Breiðavíkursamtakanna verður í Spegli RÚV eftir tuttugu, þrjátíu mínútur að ræða málefni samtakanna og vistheimilanna.

Allir að hlusta.

Reyni svo að setja slóðina hingað eftir þáttinn...


Fögnuður yfir afsökunarbeiðni og auknum sáttavilja

Á vel sóttum félagsfundi Breiðavíkursamtakanna í gærkvöldi, fimmtudagskvöldi 12. mars, var afsökunarbeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur vel fagnað og fallist á hana. Miklar umræður urðu einnig um vísbendingar um aukinn sáttavilja í viðræðum stjórnar samtakanna við fulltrúa forsætisráðuneytisins um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum á vegum hins opinbera, sem sættu nauðung og harðræði.

Fundargerð félagsfundarins:

Dagskrá:

1. Afsökunarbeiðni forsætisráðherra.

2. Fundur stjórnar með fulltrúum forsætisráðuneytisins á dögunum um bótamálin.

3. Önnur mál.

Auðheyrt var á fundarmönnum að afsökunarbeiðni forsætisráðherra var vel tekið og fögnuðurinn yfir henni fölskvalaus. Vel kom fram að viðurkenning á misgjörðunum og afsökunarbeiðni væri einna efst á óskalista fyrrum vistbarnanna og var samhljóða samþykkt að fagna þessum tímamótum og fallast feginsamlega á afsökunarbeiðnina.

Bárður R. Jónsson formaður samtakanna gerði stuttlega grein fyrir gangi mála á viðræðufundi stjórnar samtakanna með fulltrúum forsætisráðuneytisins sl. mánudag. Ljóst er að hreyfing hefur orðið á málunum eftir ríkisstjórnarskiptin og aukinn sáttavilji staðreynd. Miklar umræður fóru fram um þetta, ekki síst um möguleikann á sæmilega skjótri sáttagjörð um sanngirnisbætur og um alla þá þætti sem spila inn í; svo sem efnahagslegt árferði, mismunandi samningsvilja ólíkra stjórnvalda og fleira. Á fundinum var síðan kosið um meginlínur sem stjórnin hefði umboð til að leggja til grundvallar á komandi samningafundum og tillaga þar að lútandi samþykkt samhljóða. Ekki þykir rétt að tilgreina upphæðir í þessari opinberlega útsendu fundargerð, en tillögurnar munu fylgja fundagerðarbók.  Rétt er þó að geta þess að áður samþykkt stefna var áréttuð; um að "eitt skyldi yfir alla ganga": Bæturnar yrðu ein og sama talan fyrir alla, óháð dvalarlengd (og þá miðað við meðaldvalarlengd 21 mánuði) og umfangi ofbeldisins. Einnig er hér miðað við ríkið eingöngu, en ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem sendu börn á vistheimilin er sjálfstætt mál.

Þá má geta nokkurra umræðna um ofuráhersluna á "Breiðavíkurdrengi", en sumum fundarmönnum þótti sem börn á öðrum vistheimilum væru of mikið í skugga "drengjanna" og of lítið rætt um Kumbaravog, Reykjahlíð, Bjarg, Silungapoll og fleiri slík heimili. Meðal annars kom fram að nafn samtakanna væri að flækjast fyrir í þeirri umræðu - og kannski rétt að árétta að Breiðavíkursamtökin eru, hvað sem nafninu líður, opin samtök fyrrum vistbarna allra vistheimila hins opinbera og stuðningsmanna - ekki bara Breiðavíkurbarna. Nefna má að Vistheimilanefnd (Spanó-nefnd) er nú að störfum við að rannsaka mörg þessara vistheimila og kalla fyrrum vistbörn þeirra til viðtals, en á fundinum kom fram að einhverjir fundarmanna hefðu enn ekki verið kallaðir fyrir nefndina. Stjórninni var falið að kanna þau mál.


mbl.is Afsökunarbeiðni fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsökunarbeiðni fagnað!

 Breiðavík.    Það er mikið gleðiefni að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur nú fyrir hönd hins opinbera loks gert það sem fyrrum vistbörnin á Breiðavík og víðar hafa lengi beðið eftir og forveri hennar, Geir H. Haarde, heyktist á að gera; biðja þau afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þau voru látin sæta.

Þetta eru merk tímamót í málinu. Sjálfsagt halda ýmsir að bótagreiðslur séu þessum fyrrum vistbörnum efst í huga, en auðvitað eru númer eitt, tvö og þrjú viðurkenningin á því að óhæfuverk hafi átt sér stað og að beðist sé afsökunar á því. 

Þetta er gott veganesti fyrir Breiðavíkurbörnin og önnur fyrrum vistbörn á vegum hins opinbera, sem í kvöld koma saman á félagsfundi Breiðavíkursamtakanna að ræða sín mál. Þar verður afsökunarbeiðni forsætisráðherrans vafalaust vel fagnað. 

Fundurinn er í kvöld að Aflagranda 40 og hefst kl. 20:30.


mbl.is Afsökunarbeiðni vegna Breiðavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband