Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Frumvarpið á leið úr Allsherjarnefnd
8.5.2010 | 21:38
Nú í lok vikunnar voru Bárður formaður og Ragnar lögfræðingur Breiðavíkursamtakanna boðaðir á fund Allsherjarnefndar þingsins til að ræða sanngirnisbótafrumvarpið.
Bárður og Ragnar notuðu vitaskuld tækifærið til að koma að ýmsum athugasemdum að og boðskap öðrum, en sem kunnugt er ríkir þó fyrir mestan partinn sátt um frumvarpið. Er líklegt að nefndin afgreiði fljótlega frumvarpið í aðra umræðu og eftir það ætti það að geta hlotið tiltölulega skjóta afgreiðslu, enda þverpólitískt réttlætismál sem almenn samstaða ríkir um. Ekki er nokkur ástæða til að ætla annað en að frumvarpið verði að lögum fyrir sumarhlé þingsins.
Búast má við því að félögum verði hóað saman til Alþingis við lokaafgreiðsluna.
Sama stjórn og sama nafn...
29.4.2010 | 00:30
Aðalfundur BRV 27 apríl 2010
Dagskrá:
1. Aðalfundur settur, val fundarstjóra.
2. Skýrsla stjórnar umræður/afgreiðsla
3. Skýrsla gjaldkera umræður/afgreiðsla
4. Lagabreytingar
5. Kosningar
6. Önnur mál
Setning aðalfundar
Formaður Bárður Ragnar setti fundinn og stakk upp á Friðrik Þór Guðmundssyni sem fundarstjóra. Það samþykkt. Fundarstjóri tryggði atkvæðisbærni mættra, sem töldu 29 manns. Einn nýr félagi samþykktur inn í samtökin á staðnum, Tómas Sigurðsson, nítugasti félaginn.
Skýrsla stjórnar
Bárður Ragnar flutti skýrslu stjórnar. Skrifaði hlutinn birtist hér aftar. Í umræðum um skýrslu stjórnar tóku þátt Tómas, Gísli Már, Axel, Gylfi, Sigurveig, Maron, Sigurgeir, Jón Guðmundur, og Konráð auk formanns. Skýrsla stjórnar síðan samþykkt.
Skýrsla gjaldkera
Skýrsla gjaldkera. Þór nefndi stöðug framlög frá Pétri Magnúsi Sigurðssyni og hefðu það verið einu tekjurnar fyrir utan fjármagnstekjur. Meginútgjöld ársins voru vegna leigu skrifstofunnar, um 200.000 kr. yfir árið (og síðan tvo mánuði 2010, en þá lauk leigunni). Inneign samtakanna í árslok 172.883 krónur. Í umræðum um skýrslu gjaldkera tóku þátt Jón Guðmundur og Konráð, auk formanns og gjaldkera. Fundurinn fól formanni að hafa samband við Pétur Magnús að færa honum innilegar þakkir samtakanna.
Lagabreytingar
Fyrir fundinum lágu fyrir tillögur ættaðar frá stjórn samtakanna að lagabreytingum í 6 liðum og samþykkt að afgreiða þær hverjar fyrir sig. Fyrir atkvæðagreiðslu fóru fram umræður um tillögurnar og tóku þátt í þeim Margrét Esther, Sigurveig, Gísli Már, Georg Viðar, Gunnar David, Maron, Marinó, Bárður, Axel, Þór, Róbert, Konráð, Sigurgeir og Jón Hákon.
Síðan var tekið kaffihlé og eftir það tillögurnar afgreiddar með svofelldum hætti:
1)
Fyrst var borin upp nafnabreytingatillaga um að 1.gr. verði svo: Félagið heitir Vistheimilasamtökin.
Fram kom frávísunartillaga (a) frá Maron: Legg ég til að nafnabreytingar í lögum samtakanna verði vísað frá og upprunalegt nafn haldi sér.
Einnig barst breytingatillaga frá Gísla Má (b) um að nýtt nafn samtakanna yrði Stolin æska.
Með því að tillaga (a) gekk lengra en (b) var hún borin fyrst upp. Var frávísunartillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur. Komu hinar því ekki til afgreiðslu.
2)
Síðan var borin upp breytingatillaga um að 2. gr. verði svo: Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík. Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
3)
Síðan var borin upp breytingatillaga um að 6.gr. verði svo: Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
4)
Síðan var borin upp breytingatillaga á 7.gr. og ákveðið að afgreiða hana í þrennu lagi.
4-a) Upphaf 7. gr. orðist svo: Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári. Þessi hluti var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.
4-b) Síðan komi í 7. gr.: Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert. Þessi hluti var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.
4-c) Lokahluti 7. gr. orðist svo: Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. viku fyrirvara, með auglýsingu í dagblaði eða eftir öðrum viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir. Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál.
Maron flutti breytingatillögur, um í fyrra lagi að í stað viku fyrirvara kæmi 30 daga fyrirvara. Sú tillaga Marons var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í síðara lagi var tillaga Marons að í stað með auglýsingu í dagblaði eða eftir öðrum viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir kæmi með viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir, svo sem með tölvupósti eða símleiðis. Þessi tillaga Marons var einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
5)
Síðan var borin upp breytingatillaga um að ný 10. gr. verði svo: Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum önnur mál. Þessi tillaga var einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
6)
Loks samþykkt tilfærslubreyting vegna fyrri breytinga um að núverandi 10. grein verði 11. grein.
Kosningar
Nokkru fyrir aðalfund höfðu a.m.k. þrír stjórnarmenn gefið til kynna að þeir myndu ekki gefa kost á sér til endurkjörs; Bárður formaður, Friðrik ritari og Ari meðstjórnandi. Þrátt fyrir áréttaðar áskoranir um framboð til stjórnar bárust engin framboð, nema frá Gísla Má Helgasyni, sem dró það framboð til baka á fundinum. Sitjandi stjórnarmenn lýstu því þá allir yfir að þeir gæfu kost á sér í eitt ár í viðbót, enda var það andi fundarins að þessi tiltekna stjórn ætti helst að klára bótamálið til enda. Kosningar fóru því svo:
Formaður: Bárður Ragnar Jónsson gaf kost á sér, enginn annar og var hann sjálfkjörinn með lófaklappi.
Aðrir stjórnarmenn: Georg Viðar, Þór Saari, Friðrik Þór og Ari Alexander gáfu kost á sér og engir aðrir og voru þeir sjálfkjörnir með lófaklappi.
Kosning tveggja varamanna: Maron B. Brynjarsson og Marinó H. Þórisson gáfu kost á sér og engir aðrir og voru þeir sjálfkjörnir með lófaklappi.
Önnur mál
Undir þessum lið tóku til máls um ýmis mál Sigurveig, Bárður, Konráð, Maron, Marinó og Gunnar David.
Slit aðalfundar
Að lokum sleit formaður fundi og fleira ekki gert.
Fundarritun: FÞG
Skýrsla stjórnar á aðalfundi 2010
Flutt var skýrsla stjórnar á aðalfundi fyrir ári, en engu að síður er rétt að fjalla nú um bæði starfsár núverandi stjórnar, sem hafa reynst viðburðarík og vonandi að flestra mati árangursrík, nú þegar loks glittir í lögin um sanngirnisbætur. Raunar má segja að fátt annað hafi almennilega komist að en bótamálið, en í sjálfu sér er það ekkert óeðlilegt, svo brýnt sem það hagsmunamál hefur verið í okkar huga.
Fjöldi stjórnarfunda liggur í sjálfu sér ekki fyrir, því þeir voru í rauninni ótal margir ef allt er týnt til, formleg fundarhöld og síðan virkt samráð um tölvupóst og síma. Stjórnarfundirnir eru síðan ekki aðalatriðið, því stjórnin hefur lagt metnað sinn í að taka engar meiriháttar ákvarðanir án þess að bera þær undir félagsfundina og því nærtækast að fjalla um þá.
Á þessum tveimur árum voru haldnir alls 13 félagsfundir; 6 fyrra árið og 7 síðara árið. Það verður að teljast nokkuð þokkaleg virkni í félagsskap eins og okkar. Og stjórnin telur líka ástæðu til að þakka félagsmönnum almennt fyrir góða mætingu og fyrir að bera ört vaxandi virðingu fyrir almennum fundarsköpum. Því það hefur tryggt skipulagða og lýðræðislega fundi, þar sem allir hafa fengið að komast að.
Á þessum félagsfundum var bótamálið langsamlega plássfrekast og má segja að önnur félagsmál hafi nokkuð horfið í skuggann. Á aðalfundi fyrir ári var kosin sérstök skemmtinefnd, með í huga að fara að sinna léttari félagsmálum, en sú nefnd fjaraði út. Eins verður að segja að ekki hafi tekist að koma heimasíðumálum samtakanna í höfn, öðru vísi en að stofna bloggsíðu, en hún hefur þó staðið fyrir sínu. Þá er að nefna að tilraun okkar til skrifstofuhalds komst aldrei á skrið og fór svo að við sögðum upp leigunni frekar en að verja meiri peningum í óvissu.
Áður en vikið er að bótamálunum er rétt að nefna tölur yfir fjölda félaga. Þegar núverandi stjórn tók við fyrir tveimur árum fékk hún í arf rafræna félagaskrá með 37 nöfnum, en félagar munu þó hafa verið einhverju fleiri skráðir í svörtu bókina svokölluðu, en sú bók komst ekki í hendur stjórnarinnar fyrr en mörgum mánuðum eftir stjórnarskipti. Skemmst er frá því að segja að skráðir félagar eru nú 88, en á tímabilinu hafa fimm einstaklingar sagt sig úr samtökunum, en einn þeirra kom aftur. 88 er að sönnu engin fjöldahreyfing í opnum samtökum og munar þar áreiðanlega mestu að illa hefur gengið að höfða til vistbarna annarra heimila en Breiðavíkur að hópast í samtökin, en vonandi breytist það. Meðal annars í þessu skyni vrður lögð fram lagabreytingatillaga á þessum aðalfundi.
Óþarfi er að fara mjög mörgum orðum um þróun bótamálsins, svo mjög sem við höfum haft samráð og rætt þau mál. Framan af gengu þau mál þó illa, annars vegar vegna skilningsleysis ríkisins hjá fyrri stjórnvöldum og síðan vegna efnahagshrunsins, þegar nánast allt fór í biðstöðu annað en að reyna að bjarga Íslandi. Segja má að bjartari tíð hafi hafist vorið 2009 með afsökunarbeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og sem við fögnuðum mjög. Í sömu andrá, eða á félagsfundi 12. mars 2009, mótuðu samtökin grunn-kröfur sínar með einn fyrir alla stefnu og lágmark 6-8 milljónir á mann. Segja má að hlutirnir hafi farið hægt af stað vegna kosningaskjálfta sem þá var í gangi vegna alþingiskosninga, en fljótlega kom í ljós að ríkið ætlaði sér að vera mjög stíft á kröfu sinni um að væntanleg lög um sanngirnisbætur myndu ná til allra vistheimilanna. Ríkið féll fljótlega frá hugmyndum um flókið geðlæknamat við ákvörðun bóta, en segja má að umræður um bótaupphæðir hafi vikið til hliðar meðan reynt var að afgreiða aðferðafræðina við ákvörðun bóta. Vorið 2009 varð til hugmynd að ákveðinni flokkaskiptingu bóta, þar sem tekið yrði tillit til nokkurra lykilþátta og þar með í sjálfu sér til sérstöðu einstakra vistheimila. Þannig má segja að staðan hafi verið þegar við héldum aðalfund fyrir ári.
Um sumarið héldu þreifingar áfram, meðal annars um tveggja ása flokkaskiptingu og óháða bótanefnd. Í júlí höfnuðum við á félagsfundi hugmynd ráðuneytisins um svokallaða sáttalausn, en viðræður héldu áfram og þarna var orðið deginum ljósara að búið var að kasta öllum hugmyndum Viðars Más Matthíassonar út um gluggann. Að sama skapi myndaði ríkið sérstakan starfshóp til að smíða nýtt frumvarp og hitti stjórnin og lögfræðingur okkar þennan starfshóp á fundi í nóvember. Bæta má við að í sama mánuði samþykkti félagsfundur okkar ályktun þar sem harðlega var mótmælt að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefði svipt Helgu Elísdóttur umsjá annars dóttursonar síns, án undangengins dómsúrskurðar, og ætlaði að senda hann í fóstur út á land með hraði.
Fyrstu drög starfshópsins að nýju frumvarpi bárust lögmanni okkar í desember 2009 og samþykkti félagsfundur þá samhljóða að haldið verði áfram með málið á þeim grundvelli sem í frumvarpsdrögunum er fólginn. Hins vegar komu fram bæði á fundi stjórnarinnar með Ragnari og á félagsfundinum ýmsar athugasemdir og tillögur til úrbóta. Send var umsögn um drögin og í janúar fæddust síðan ný drög, sem við fengum einnig til umsagnar og þarna má segja að hlutirnir hafi verið farnir að þróast hratt. Í mars voru okkur kynnt ný drög og formaður og varaformaður áttu beinan fund með forsætisráðherra. Strax í kjölfar hans fæddist loks upphæð hámarksbóta og á félagsfundi sama kvöld var samhljóða samþykkt að leggja blessun á frumvarpið eins og það var þá orðið. Það var síðan lagt fram á þingi og hefur fyrsta umræða þegar átt sér stað, með mörgum okkar á þingpöllum, en frumvarpið er nú til afgreiðslu hjá allsherjarnefnd þingsins.
Fráfarandi stjórn þakkar félagsmönnum öllum fyrir samstarfið sl. 2 ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nafnabreyting á Breiðavíkursamtökunum?
20.4.2010 | 21:14
Á aðalfundi Breiðavíkursamtakanna eftir viku, 27. apríl, er fyrirhugað að leggja fram neðangreindar breytingatillögur við lög samtakanna og eru þær hér með lagðar fram til kynningar og umræðu. Einna stórtækustu breytingarnar fela í sér að nafni samtakanna verði breytt og að samþykkt verði heimildarákvæði um stofnun sérfélaga um hveert vistheimili undir hatti móðurfélagsins. Lagt er til að nafni samtakanna verði breytt í Vistheimilasamtökin.
Breiðavíkursamtökin eru samtök um fyrrum vistbörn allra vistheimila á vegum hins opinbera, þau eru regnbogasamtök, en tillagan um nafnabreytingu kemur til vegna þess að mörgum fyrrum vistbörnum annarra vistheimila hefur þótt samtökin um of miðast við þetta tiltekna og kannski frægasta vistheimilið, Breiðavík. Tillagan miðar að því að koma til móts við þessar raddir og standa þá vonir til þess að fyrrum vistbörn annarra vistheimila gangi frekar til liðs við samtökin en reyndin hefur verið. Sem stendur eru 88 félagar í samtökunum. Aðild er ekki bundin við vistun, heldur opin fyrir alla einstaklinga sem áhuga hafa á vistunarmálum hins opinbera. Allt áhugasamt fólk er hvatt til að ígrunda breytingatillögurnar og ræða, og svo til að ganga í samtökin og sækja aðalfundinn (sjá auglýsingu í síðustu færslu).
Breytingatillögur við lög Breiðavíkursamtakanna.
1.gr. verði svo:
Félagið heitir Vistheimilasamtökin.[1]
2. gr. verði svo:
Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík[2].
6.gr. verði svo:
Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum[3].
7.gr. verði svo:
Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári[4]. Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert[5]. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. viku fyrirvara, með auglýsingu í dagblaði eða eftir öðrum viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir.[6] Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál[7].
Ný 10. grein verði svo:
Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum önnur mál. [8]
Núverandi 10. gr. verði 11. gr[9].
[1] Tillaga að nafnabreytingu samtakanna.
[2] Heimili samtakanna var tilgreint í Lauganesskirkju. Ekki þarf að tilgreina heimilisf. nánar en svona.
[3] Í óbreyttum lögum er kjörtímabil 2 ár með hlutakosningu árlega. Hér eru lagðar til árlegar kosningar á stjórninni allri.
[4] Afnuminn er lágmarksfjöldi stjórnarfunda en tilgreindur lágmarksfjöldi félagsfunda.
[5] Hér er fundartíminn fyrir aðalfund gerður sveigjanlegri með því að bæta fyrri hluta maí við.
[6] Hér er afnumin skylda til að auglýsa líka félagsfundi í dagblaði og opnað fyrir öðrum aðferðum til aðalfundarboðs sem síðasti félagsfundur starfsársins hefur lagt blessun á.
[7] Orðalagi um dagskrá breytt í samræmi við breytingar á stjórnarkjöri.
[8] Skýrir sig sjálft.
[9] Skýrir sig sjálft.
Aðalfundur BRV
13.4.2010 | 02:07
Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna fer fram þriðudagskvöldið 27. apríl næstkomandi, kl. 20 í fundarsalnum JL-húsinu við Hringbraut - hér ítrekað en áður komið fram.
1. venjuleg aðalfundarstörf. 2. Önnur mál.
Allir félagar hvattir til að mæta. Bara endilega hreint "smala" inn nýjum félögum.
Stjórnin.
Að særa út gamlan draug
25.3.2010 | 09:18
Eftir skamma stund mælir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fyrir frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilum fyrri tíma. Þetta er frumvarp sem smíðað var í samráði við meðal annars Breiðavíkursamtökin og sátt náðist loks um, þannig að frumvarpið nýtur stuðnings og því fylgir von um skjóta afgreiðslu.
Þó er eitt og annað þarna sem hefði þurft að vera öðru vísi, fyrir utan að hámarksbætur eru í rauninni lágar, þegar hoft er á verstu tilvikin. En hvað um það; í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins (ekki í ákvæðinu sjálfu, 3. gr.) er að finna "draug" sem leitað verður til þingsins með að særa burt.
Í þessari grein er nánar fjallað um hvað teljist ofbeldi og ill meðferð. Í þessum athugasemdum við þriðju greinina er að finna texta sem reynst gæti stórhættulegur í höndunum á þröngsýnum embættis-ribböldum. Svona hljómar textinn sá í frumvarpsathugasemdunum:
"Ætlast er til þess að við túlkun á framangreindum hugtökum frumvarpsins verði litið til þeirra samfélagsviðmiða sem voru ríkjandi á þeim tíma er atvik gerðust. Við sakarmat í skaðabótarétti er hefðbundið að líta til þeirra reglna og viðmiða sem ríkjandi voru er tjón átti sér stað. Þannig geta seinni tíma reglur og viðmið almennt ekki orðið grundvöllur þess að sök sé slegið fastri vegna atburða sem áttu sér stað í fortíðinni. Við túlkun á hugtökunum ill meðferð og ofbeldi samkvæmt frumvarpinu verður að líta til sambærilegra sjónarmiða, en ljóst er að almenn viðhorf til uppeldis barna hefur breyst umtalsvert á undanförnum áratugum. Framkoma og orðfæri gagnvart börnum er annað en áður var og skilningur á þörfum þeirra, þar á meðal fyrir umhyggju, er annar en áður. Ekki er unnt að fella undir hugtökin illa meðferð eða ofbeldi atriði sem, þrátt fyrir að teljast óásættanleg núna, voru í samræmi við gildandi viðmið á umræddum tíma og tíðkuðust þar af leiðandi mun víðar en á þeim heimilum og stofnunum sem hér eru til umfjöllunar, t.d. á einkaheimilum og spítölum. Af sömu ástæðu er ekki unnt að fella undir hugtökin athafnir eða athafnaleysi sem voru í samræmi við ríkjandi stefnu stjórnvalda á umræddum tíma".
Hættan við þetta sjónarhorn er augljóst. Einhverjum gæti dottið í hug að það hafi verið eðlilegt samfélagsviðmið 1950-1980 að senda "óþekk" börn í vítisvist á einangruðum stað í hendurna á ofbeldisfullum togarajaxl; lemja og berja til hlýðni almennt og yfirleitt og láta strita og kveljast sér til "góðs".
Þingið þarf að kveða upp úr með að "samfélagsviðmið" í anda Þórhalls Hálfdánarsonar sé ekki að flækjast fyrir sómakæru nútímafólki. Misgjörðir við börn voru misgjörðir við börn og þau sköðuðust til lífstíðar, þótt einhverjum vitleysingjum í fullorðins tölu þess tíma hafi dottið sú þvæla í hug að þau hefðu bara gott af þessu!
fþg
Þingfundur hefst í dag kl. 10:30 og er frumvarpið um sanngirnisbætur þriðja mál á dagskrá. Að líkindum hefst umræða um það mál um eða upp úr kl. 11. Hvetjum fyrrum vistbörn til að mæta á þingpallana, fagna frumvarpinu en huga að draugnum (gengið inn um dyr sem snúa að Dómkirkjunni).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sanngirnisbótafrumvarpið komið - rætt á morgun
24.3.2010 | 14:49
Ríkisstjórnin lagði frumvarpið um sanngirnisbætur formlega fram á þingi í gær (23. mars) og samkæmt okkar heimildum stendur til að fara í fyrstu umræðu á morgun, 25. mars. Breiðavíkursamtökin hvetja alla félagsmenn og annað áhugafólk til að mæta á þingpalla og hlýða þar á umræðurnar.
Frumvarpið má lesa á þessari slóð: http://www.althingi.is/altext/138/s/0860.html
Þingpallar Alþingis taka ekki við nema liðlega 30 gestum, svo félagsmenn eru hvattir til að mæta tímanlega. Tímasetning umræðunnar liggur ekki fyrir ennþá, en reynt verður að uppfæra þessa færslu til að svara þeirri spurningu.
NÝTT:
Þingfundur hefst á morgun kl. 10:30 og er frumvarpið um sanngirnisbætur þriðja mál á dagskrá. Að líkindum hefst umræða um það mál um eða upp úr kl. 11. Hvetjum ykkur til að mæta á þingpallana (gengið inn um dyr sem snúa að Dómkirkjunni).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna
19.3.2010 | 13:31
Sögulegur áfangi
12.3.2010 | 11:54
Í dag kl. 13:30 verður kynnt frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum vistheimila ríkisins, sem þola máttu óviðunandi misgjörðir á árum áður.
Frumvarp hafði áður verið smíðað, í stjórnartíð Geirs H. Haarde, en því var illa tekið af samtökum fyrrum vistbarna, enda hugmyndir sem þar komu fram um "sanngjarnar" bætur frámunalega nánasarlegar auk þess sem boðuð aðferðarfræði við ákvörðun bótanna sem þótti fráhrindandi svo vægt sé til orða tekið.
Stjórnvöld settu málið þá í frost og svo helltist Hrunið yfir samfélagið. Ljós í því myrkri var að við tóku skilningsríkari stjórnvöld. Eitthvert fyrsta verk Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra var að biðja þessi fyrrum vistbörn afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar. Síðan hafa verið í gangi hægfara viðræður og þreifingar, við Breiðavíkursamtökin og aðra aðila, en með afleiðingar Hrunsins yfir hausamótunum. Smám saman náðist að breyta aðferðarfræðinni og viðmiðunum öðrum. Fulltrúar ríkisins í þessum viðræðum, yfirleitt lögfræðingar, hafa flestum stundum verið helteknir af lagahyggju og múlbundnir við fyrirliggjandi lagasetningu um bætur og dóma á grundvelli hennar, þótt sama löggjöf sé meira og minna samin af tryggingafélögum landsins í því skyni að hafa bætur sem allra lægstar og jafnframt skorti skilning á því tækifæri sem við hendina var að marka nýtt fordæmi, ný viðmið, nýja forvörn. Á sama tíma varð fulltrúum Breiðavíkursamtakanna ljóst að vegna aðstæðna í samfélaginu, eftir Hrunið, var ekki við því að búast að fallist yrði á ítarkröfur og að til málamiðlunar yrði að koma sem fæli í sér eftirgjöf á höfrðustu væntingum.
Breiðavíkursamtökin (sem eru opin samtök vistbarna allra vistheimilanna og stuðningsaðila) töldu um leið að úrlausn mætti ekki dragast til muna lengur en orðið væri. Samráð stjórnvalda hefur verið gott og viðræður vinsamlegar og þær leiddu til niðurstöðu nú í vikunni. Frumvarpið mun tilgreina hámarks upphæð bóta, sem gjarnan hefði mátt sjást hærri og sem leitað verður til Alþingis um að hækka, eins og gengur, en á félagsfundi samtakanna í gær var samhljóða samþykkt að frumvarpið væri orðið svo viðunandi að ekki yrði lagst gegn framlagningu þess. Stjórn samtakanna taldi enda að ekki yrði lengra komist að svo stöddu og ekki réttmætt að bíða með lagasetningu lengur.
UPPFÆRSLA (texti visis.is):
"Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur vegna misgjörða á stofnunum og heimilum.
Samkvæmt frumvarpinu geta bætur numið allt að 6 milljónum króna til hvers einstaklings.
Þar er kveðið á um bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á tilteknum heimilum og stofnunum fyrir börn.
Við mat á því hvort bótaskilyrði eru uppfyllt verður ekki einvörðungu litið til líkamlegra og sálrænna afleiðinga af vistinni heldur einnig félagslegra eins og missis tækifæra.
Þá segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni að náið samráð hefur verið haft við Breiðavíkursamtökin við vinnslu frumvarpsins og hefur meðal annars verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra um erfðarétt barna vistmanna sem fallnir eru frá.
Þá verður skipaður sérstakur tengiliður við fyrrverandi vistmenn sem munu aðstoða við kröfugerð á hendur ríkinu og leiðbeina um önnur úrræði sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á eins og varðandi menntun og endurhæfingu.
Málsmeðferð verður í tveimur þrepum samkvæmt frumvarpinu.
Dómsmála- og mannréttindaráðherra, sem fara mun með framkvæmd laganna, mun fela tilteknum sýslumanni að gefa út innköllun, fara yfir lýstar kröfur og gera viðkomandi sáttaboð telji hann líkur á að bótaskilyrði séu uppfyllt. Lögð er áhersla á hraða og einfalda málsmeðferð af hálfu sýslumanns.
Uni fyrrverandi vistmaður ekki sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann snúið sér til sérstakrar úrskurðarnefndar sem komið verður á laggirnar. Þar mun fara fram ítarlegri könnun á aðstæðum viðkomandi einstaklings og honum gefinn kostur á að gefa munnlega skýrslu. Á báðum stigum verða sönnunarkröfur vægari en venja er í skaðabótamálum.
Erfitt er að áætla kostnað fyrir ríkið af bótagreiðslum, m.a. vegna þess að rannsókn er ekki enn lokið á öllum þeim heimilum sem falla undir lögin. Komið hafa út skýrslur um Breiðavíkurheimilið, Heyrnleysingjaskólann, Bjarg og Kumbaravog. Skýrslur um Reykjahlíð, Silungapoll og Jaðar eru væntanlegar síðar á árinu.
Síðustu skýrslurnar verða um Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins og munu koma út árið 2011. Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis er tekið það dæmi að ef 100 manns eigi rétt á bótum og hljóti meðalbætur þá verði kostnaður ríkisins 300 milljónir króna auk kostnaðar af starfi úrskurðarnefndar og málskostnaðar.
Frumvarpið var unnið af starfshópi sem í áttu sæti Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, formaður, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðilegur ráðunautur félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra, Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður og Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild HÍ.
Starfshópurinn skilaði af sér fullbúnu frumvarpi fyrr í vikunni nema hvað ákvörðun um hámarksfjárhæð bóta og erfðarétt var vísað til forsætisráðherra.
Frumvarpið verður nú sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til frekari meðferðar og væntanlega lagt fram á Alþingi í næstu viku."
![]() |
Fá bætur vegna illrar meðferðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Frestun meðan á fæðingu stendur
19.2.2010 | 16:13
Sælir félagar í Breiðavíkursamtökunum.
Það ber ekki á öðru en að frumvarp um sannfirnisbætur til handa þolendum fyrrum vistheimila á vegum ríkisins (og annarra opinberra aðila eftir atvikum) sé um það bil að fæðast og er formaður starfshóps um frumvarpssmíðina (Páll Þórhallsson) eftir því sem best er vitað í hrókaviðræðum við lögmann samtakanna, Ragnar Aðalsteinsson, um einhvers konar lokafrágang.
Því er ekki að leyna að eitt og annað vantaði inn í síðustu drög og voonum við að vel gangi við að koma því inn sem virtist hafa "gleymst".
Hvað sem því líður hefur stjórnin ákveðið að fresta reglulegum félagsfundi, sem ella hefði orðið næsta þriðjudagskvöld, og hafa frekar fund nákvæmlega viku síðar eða þriðjudagskvöldið 2. mars, í von um að línur verði skýrar þá. Setjið það í dagbókina ykkar og látið orðið ganga.
kv.
fþg
ritari stjórnar
Breiðavíkurmálin þremur árum síðar
7.2.2010 | 13:55
Um þessar mundir eru liðin þrjú ár síðan Breiðavíkurdrengirnir stigu fram og sögðu sína sögu, fyrst í DV og Kastljósi. Þjóðarmein var afhjúpað og þjóðarsálin var þrumu slegin. Lesendur og áheyrendur fengu vitneskju um fáheyrða harðneskju sem mætti vistheimilabörnum fyrir bara 30-50 árum. Miðaldra menn stigu fram, lýstu líkamlegu og andlegu ofbeldi og annarri illri meðferð, missi og skort.
Við þekkjum þessa sögu hún gleymist ekki svo glatt. Ekki síður hefur heimildamyndin Syndir feðranna dýpkað þessa umræðu, til viðbótar við mynd Guðnýjar Halldórsdóttur og félaga, Veðramót.
Við þekkjum líka að samfélag nútímans tók þessar frásagnir alvarlega og hrinti af stað rannsókn á fortíð fjölda vistheimila og er sú vinna enn í gangi, í höndum Spanó-nefndarinnar svokölluðu. Fyrst kom Breiðavíkur-skýrslan, en nýverið kom önnur skýrslan út, um Kumbaravog og fleiri heimili. Óljóst er með þriðju skýrsluna, en vinna við sum vistheimili er langt komin.
Stétt stjórnmálamanna á Íslandi þótti málið alvarlegt og ríkisstjórn Geirs H. Haarde (D+S) boðaði sanngirnisbætur og sérstakt frumvarp um það. Vel kom fram að hugsanleg lögbrot frá þessum tímum væru fyrnd. Drög að frumvarpi voru kynnt, en þeim var illa tekið af ætluðum bótaþegum. Á þeim tímapunkti kom Hrunið.
Við það varð ljóst að vísitala manngæsku samfélagsins gæti lækkað, í áðurnefndri sanngirni mælt. Það á eftir að koma í ljós, en eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við málinu hefur bæði komið afsökunarbeiðni innan úr Stjórnarráðinu, fyrir þjóðarinnar hönd og ráðamenn hennar, og betur hefur gengið að eiga samráð við fulltrúa stjórnvalda um hið minnsta aðferðarfræðina við að ákvarða bætur til handa samþykktum bótakrefjendum. Nýtt frumvarp um sanngirnisbætur er í námunda við lokavinnslu. Þar er ýmislegt jákvætt að finna, en sumt vantar enn og þá ekki síst upphæðir. Þær eru enn á huldu.
Breiðavíkursamtökin var fyrst félagsskapur drengjanna frá Breiðavík, en fyrir tveimur árum voru samtökin galopnuð sem samtök fyrrum vistbarna á öllum vistheimilum hins opinbera og þau voru opnuð almenningi. Bæði vegna nafnsins og út frá því hverjir eru duglegastir við að mæta á fundi, hafa samtökin stimpil þessa sérstaka vistheimilis á sér, en þetta eru regnbogasamtök eftir sem áður. Vonandi verða raddir fyrrum vistbarna annarra vistheimila sterkari innan samtakanna þegar frá líður, ef til vill eftir nafnabreytingu (ef til þess stendur vilji). Í sínum samtölum og öðrum samskiptum við fulltrúa stjórnvalda um frumvarpið hafa samtökin að sjálfsögðu hugsað út frá hagsmunum heildarinnar, enda mörkuðu stjórnvöld þá stefnu, sem ekki var vikið frá, að boða lög sem næðu til heildarinnar, en ekki einstakra vistheimila. Reyndar held ég að fáum dyljist sérstaða vistheimilisins að Breiðavík hvað umfang hörmunga varðar, en út af fyrir sig hafði hver staður sína sérstöðu. Ég hygg að árangur hafi náðst, en á lokasprettinum gefur augaleið að það þarf að pressa á Alþingi um að gera betur en ríkisstjórnin. Og það þarf að skýra betur ábyrgð og aðkomu þeirra sveitarfélaga sem áttu hlut að máli.
Það er sanngjarnt í þessu máli að þau fyrrum vistbörn sem urðu að þola MIKIÐ ofbeldi og mikla aðra illa meðferð, persónubundna og félagslega, kulda og skort á hlýju, vinnuþrælkun, menntunarskort, einangrun frá fjölskyldu og eigin menningu og fleira ámóta eigi að fá MIKLAR bætur. Þau sem upplifðu lítið af ofangreindu fái eftir því minna. Þau sem upplifðu ekkert af ofangreindu fái ekkert. Erfitt árferði í samélaginu breytir því ekki á nokkurn hátt, að til að bæturnar verði sanngjarnar verða þær í viðeigandi tilfellum vera í því mæli að það breyti lífi viðtakandans algjörlega til betri vegar.
Það er á teikniborði forsætisráðuneytisins að leggja viðkomandi frumvarp fram um eða eftir miðja febrúar-mánuð. Ástæða er til að hvetja almenning til að liðsinna við að þrýsta á um að uppgjör þessara mála verði þannig að sómi sé að.
Friðrik Þór Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)