Skýrslan um Reykjahlíð, Jaðar og Silungapoll

Skýrsluna um Reykjahlíð, Jaðar og Silungapoll má nálgast rafrænt á þessari slóð.

Eftirfarandi er útlegging Morgunblaðsins á skýrslunni og kynningu hennar:

Meiri líkur en minni eru á því að hluti þeirra barna sem dvöldu á vistheimilinu Reykjahlíð í Mosfellsdal á tímabilinu 1961-1972 hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu karlmanns sem tengdist forstöðukonu heimilisins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu vistheimilanefndar.

Í þessari skýrslu Vistheimilanefndar var fjallað um þrjú heimili. Vistheimilið Reykjahlíð, Silungapoll og heimavistaskólann að Jaðri.

Vistheimilið Reykjahlíð í Mosfellssveit var starfrækt af Reykjavíkurborg á árunum 1956-1972. Það var ætlað fyrir 7-14 ára börn. 144 börn voru vistuð á heimilinu þann tíma sem það starfaði.

Vistheimilið Silungapollur var rekið af Reykjavíkurborg á árunum 1950-1969. Það var ætlað fyrir börn á árunum 3-7 ára. Þar voru vistuð 951 barn á starfstíma heimilisins.

 Heimavistarskólinn að Jaðri var rekið af fræðsluyfirvöldum í Reykjavík á árunum 1946-1973. Skólinn var ætlaður drengjum á aldrinum 7-13 ára sem ekki áttu samleið með öðrum börnum í skóla. Lengst af voru 25-30 drengir í skólanum ár hvert en 378 einstaklingar voru í skólanum á starfstíma hans. Stúlkur voru einnig í skólanum um tíma.

Aðeins 74 af þeim 951 einstaklingum sem dvöldu á Silungapolli komu fyrir nefndina, en þar af gat nefndin stuðst við framburð 60 einstaklinga. Hafa ber í huga að börnin voru mjög ung þegar þau dvöldu á heimilinu. Vistheimilanefnd telur ekki séu forsendur til að álykta með þeim hætti að meiri líkur en minni séu á að þeir vistmenn sem komu fyrir nefndina hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi á Silungapolli í þeirri merkingu sem lögin skilgreina sem nefndin starfar eftir.

Nefndin gerir hins vegar athugasemdir við starfsemi vistheimilisins að Silungapolli. Hún telur verulega gagnrýnisvert að á Silungapolli hafi verið á sama tíma verið vistuð börn vegna barnaverndarstarfs og hins vegar börn sem dvöldu sumarlagt á vegum Rauða kross Íslands.  Húsakostur hafi ekki verið fullnægjandi og of mörg börn hafi verið á heimilinu. Eftirlit hafi verið takmarkað og ekki fullnægjandi.

Nefndin skiptir umfjöllun um Reykjahlið í tvennt, en tvær forstöðukonur stýrðu heimilinu þann tíma sem það starfaði.  Nefndin komst að sömu niðurstöðu og hvað varðar Silungapoll, að þegar á heildina er litið verði ekki talið að vistmenn hafi sætt yllri meðferð eða ofbeldi af hálfu starfsmanna eða annarra vistamanna. Hins vegar hafi vistmenn sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu gestkomandi einstaklings. Þetta er sambærilegt tilvik og var á Kumbaravogi þar sem gestkomandi maður beitt börn kynferðislegu ofbeldi þó atvik og aðstæður sé ekki með alveg sama hætti.

Kynferðislegt ofbeldi

Tveir af  fimm körlum sem gáfu skýrslu greindu frá kynferðislegu ofbeldi. Annar þeirra, en hann dvaldi á heimilinu á fyrri hluta þessa tímabils, sagðist hafa orðið vitni að kynferðislegu ofbeldi gagnvart mjög ungri stúlku sem dvaldi á heimilinu, hún hefði líklega verið tveggja til þriggja ára á þessum tíma.

Fram kemur í skýrslunni að á Reykjahlíð hefði oft dvalið næturlangt karlmaður  sem tengst hefði forstöðukonunni, sem starfaði á árunum 1961-1972. Vitni sem kom fyrir nefndina segir að hann hafi í eitt tilgreint skipti orðið vitni að því er karlmaðurinn hefði farið með fingurna upp í kynfæri stúlku sem þar dvaldi.

Minntist hann þess að vistmenn á heimilinu hefðu rætt um það sín á milli að maðurinn væri að misnota stúlkur á heimilinu kynferðislega. Sagði hann að lokum að sér fyndist sárt að ræða um þessa minningu og að hún hefði að ákveðnu marki orðið til þess að mynda hjá honum napra afstöðu til karlmanna.

Hinn maðurinn greindi frá því að hann hefði mátt þola kynferðislegt ofbeldi af hálfu karlmanns sem starfaði af og til við smíðar og þess háttar á heimilinu. Rétt er að taka fram að ekki er um sama manninn að ræða, að því er segir í skýrslunni.

Hann hefði mætt góðu viðmóti og athygli frá þessum karlmanni og hænst að honum en hann verið í brýnni þörf fyrir athygli á þessum tíma vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna. Maðurinn hefði í eitt tilgreint skipti beitt sig kynferðislegu ofbeldi, bæði með því að þvinga hann til munnmaka og reyna að eiga við hann mök í endaþarm. Hann hefði hljóðað upp þegar maðurinn reyndi að setja getnaðarliminn inn í endaþarminn. Hann taldi að starfsfólk hefði orðið þess vart að eitthvað óeðlilegt ætti sér stað. Samt sem áður hefði maðurinn ekki látið af störfum og háttsemi mannsins ekki verið kærð til lögreglu. Honum fannst viðmót forstöðukonunnar breytast gagnvart sér eftir þetta atvik. Þetta hefði verið honum erfið lífsreynsla og að hann væri mjög bitur vegna þess.

Úr hópi þeirra níu kvenna sem greindu með neikvæðum hætti frá dvöl sinni greindu fjórar frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu fyrrgreinds karlmanns sem tengdur var forstöðukonunni og dvaldi af og til næturlangt á heimilinu. Tvær konur greindu frá því að hafa orðið vitni að því þegar hann beitti stúlkur kynferðislegu ofbeldi en áður hefur verið gerð grein fyrir frásögn karlmanns sem kvaðst hafa orðið vitni að því er maðurinn beitti barnunga stúlku kynferðislegu ofbeldi.

Þá greindu aðrar tvær konur frá því að hafa merkt að hegðun vistmanna tók breytingum þegar maðurinn dvaldi á heimilinu. Konurnar sem upplýstu um háttsemi mannsins dvöldu allar á fyrri hluta þessa tímabils, hluti þeirra einnig á síðari hluta tímabilsins, og voru þær á aldrinum 6-16 ára þegar þær dvöldu á heimilinu.

Frásagnir þriggja kvenna úr hópi fyrrgreindra fjögurra sem greindu frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins voru mjög áþekkar um háttsemi hans. Konurnar voru á aldrinum 6-12 ára á þeim tíma er maðurinn vandi komur sínar á heimilið en hann lést samkvæmt opinberum upplýsingum árið 1966.

Greindu þær frá því að hann hefði í skjóli nætur komið inn á herbergi þeirra, sest á rúmstokkinn og beitt þær kynferðislegu ofbeldi. Tvær greindu frá því að hann hefði farið með fingurna inn fyrir nærbuxurnar sem þær klæddust og átt við kynfærin.

Ein greindi frá því að hann hefði gert tilraun til þess en ekki tekist en þess í stað nuddað sængina við kynfæri hennar. Fjórða konan greindi frá því að hafa orðið fyrir mjög grófu kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins en frásögn hennar var ólík hinna og ótrúverðug að mati nefndarinnar.

Tvær konur úr þessum hópi greindu frá því að hafa upplýst forstöðukonuna um kynferðisofbeldi mannsins. Hún hefði brugðist illa við frásögn þeirra og ásakað þær um að segja ósatt um háttsemi hans, látið niðrandi orð falla um þær og beitt þær hótunum ef þær létu ekki af ásökunum í hans garð.

Eins og að ofan er getið greindu tvær konur frá því að hafa orðið vitni að kynferðislegu ofbeldi mannsins gagnvart öðrum stúlkum. Önnur þeirra, sem er ein þeirra þriggja sem að ofan er getið og kvaðst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu mannsins, greindi frá því að hann hefði beitt stúlkur sem hún deildi herbergi með samskonar ofbeldi og hana sjálfa sem hefði falist í því að hann átti við kynfæri þeirra.

Þá greindi kona sem dvaldi á heimilinu á unglingsaldri frá því að hafa orðið vitni að kynferðislegu ofbeldi mannsins gagnvart barnungri stúlku en um sömu stúlku er að ræða og karlmaður sem dvaldi á heimilinu greindi frá að hafa séð verða fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins.

Var frásögn hennar um háttsemi mannsins mjög áþekk lýsingum fyrrgreindra þriggja kvenna sem greindu frá að hafa sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins inni á herbergi á vistheimilinu. Kvaðst hún minnast þess sérstaklega að heyra börnin hvísla sín á milli þegar maðurinn kom á heimilið að mögulega færi hann inn til stúlkunnar.

Mikil spenna hefði myndast í barnahópnum við komu hans og hún verið mjög kvíðin fyrsta kvöldið sem maðurinn hefði komið á heimilið eftir að dvöl hennar hófst, en hún hefði deilt herbergi með stúlkunni. Maðurinn hefði um kvöldið eða í byrjun nætur komið inn á herbergið. Kvaðst hún hafa heyrt þegar hann settist á rúmið hjá stúlkunni og verið þar í einhvern tíma, líklega 10 mínútur. Hún hefði ekki séð hvað hann var að gera við stúlkuna en heyrt hljóð þegar hann sat á rúminu hjá henni og þá verið sannfærð um að eitthvað óeðlilegt ætti sér stað. Þetta hefði átt sér stað í þetta eina skipti svo hún vissi til en hún hefði fljótlega eftir þennan atburð verið flutt í annað herbergi og því ekki haft vitneskju um hvort fyrrgreindur maður hefði oftar haft í frammi slíka hegðun gagnvart stúlkunni.

Konurnar tvær sem upplýstu um að hegðun vistmanna hefði breyst þegar maðurinn var gestkomandi á heimilinu greindu frá því að ótti eða spenna hefði myndast hjá vistmönnum þegar hann var gestkomandi á heimilinu.

Önnur þeirra var á aldrinum 8- 9 ára og hin á aldrinum 6-8 ára. Önnur greindi frá því að ein stúlka hefði grátið mikið vegna komu hans á heimilið. Minntist hún þess að stúlkur sem voru með henni í herbergi hefðu verið með belti á náttfötunum og axlabönd til að varna því, að hún taldi, að hann leitaði á stúlkurnar kynferðislega.

Á hinn bóginn kvaðst hún sjálf ekki hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hans hálfu né hafa orðið þess vör að hann hefði slíka háttsemi í frammi við stúlkurnar sem hún deildi herbergi með eða við önnur börn á heimilinu. Hin konan greindi einnig frá því að stúlkur hefðu sofið með belti og axlabönd að hún teldi til að varna því að maðurinn leitaði á þær kynferðislega. Hún hefði þó ekki orðið fyrir því af hans hálfu eða orðið vitni að því gagnvart öðrum stúlkum. Samt sem áður hefði koma mannsins á heimilið valdið henni vanlíðan og ótta við að hann beitti hana ofbeldi. Auk þessa greindi þriðja konan frá því að hafa sofið með belti og axlabönd þegar hún dvaldi á heimilinu og hafa fundist það einkennilegt þar sem hún hefði ekki vanist því heima frá sér.

Tvær konur greindu frá því að hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi af hálfu drengja á heimilinu. Önnur þeirra dvaldi þar á fyrri hluta þessa tímabils þegar hún var 9 ára og hin dvaldi á heimilinu á seinni hluta þessa tímabils þegar hún var 12 ára. 

Auglýstu í fjölmiðlum

Á annað þúsund einstaklingar voru vistaðir þessum stofnunum á starfstíma þeirra. Nefndin leitaðist við að hafa upp á þeim einstaklingum sem dvöldu á þessum stofnunum og birti m.a. auglýsingar í fjölmiðlum þar sem þeim var boðið að hafa samband við nefndina.

Aðeins um 4% þeirra sem dvöldu á Silungapolli höfðu samband við nefndina. Hlutfallið var um 29% í Reykjahlið og 14% á Jaðri.

Formaður Vistheimilanefndar er Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, en með honum í nefndinni sitja Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Land­spítalanum, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og  Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Þuríður B. Sigurjónsdóttir lög­fræðingur.

Nefndin var upphaflega skipuð af forsætis­ráð­herra með erindisbréfi, í apríl 2007. Nefndinni var í fyrstu falið að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950-1980 og skýrsla um hana kom út í ársbyrjun 2008.

Í apríl það ár voru samþykkt lög um að nefndin skyldi starfa áfram og var þá tekin ákvörðun um að sjö tilgreindar stofnanir skyldu í fyrstu sæta könnun. Þetta voru Vistheimilið Kumbaravogur, Heyrnleysingjaskólinn, Stúlknaheimilið Bjarg, Vistheimilið Reykjahlíð, Heimavistarskólinn Jaðar, Uppeldisheimilið Silungapollur og Upptökuheimili ríkisins/Unglingaheimili ríkisins  

Nefndin hefur lokið við áfangaskýrslu um könnun á starfsemi Heyrnleysingjaskólans  Kumbaravogs og Bjargs og var hún birt opinberlega í ágúst á síðasta ári.

 

 


Guðrún verður tengiliður

Vísir, 15. sep. 2010 12:00

Guðrún Ögmundsdóttir er tengiliður vegna vistheimila

Guðrún Ögmundsdóttir félagsráðgjafi sinnir starfi tengiliðar vegna vistheimila. Mynd/ E. Ól.
 
Guðrún Ögmundsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi alþingismaður, hefur verið ráðin í starf tengiliðar vegna vistheimila. Hún mun hefja störf 20. september næstkomandi.

Fram kemur í frétt á vef stjórnarráðsins að starf tengiliðar felst í að koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal tengiliðurinn aðstoða fyrrverandi vistmenn, sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar, við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun.

Sýslumaðurinn á Siglufirði annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

Rýnt ofan í kröfugerðina

Sælir félagar. Stjórn Breiðavíkursamtakanna hefur ákveðið að halda félagsfund þriðjudagskvöldið 14. september kl. 20 (eftir 6 daga) í fundarsalnum hjá ReykjavíkurAkademíunni við Hringbraut (JL-húsinu fyrir ofan Nóatún).
 
Á dagskrá: Framfylgd sanngirnisbótamálsins og önnur mál.
 
Vonandi verður þá ljóst hver hafi verið ráðinn starfsmaurinn "Tengiliður vistheimila", ljóst hverjar reglur sýslumanns verða, hvenær auglýst verður eftir kröfum og þar með hvenær kröfulýsingarfrestur byrjar að tikka hjá þeim sem fyrsta skýrsla Spanó-nefndarinnar nær til.
 
Farið verður yfir öll þessi mál og reynt að svara spurningum sem uppi kunna að vera.
 
Við sjáumst þá öll hress og baráttuglöð 14. september.
 
Stjórnin

Lögfræðikostnaður bara endurgreiddur vegna úrskurðarnefndar

Samtökin hafa fengið staðfest frá forsætisráðuneytinu þann skilning, sem fram hefur komið sjá sýslumannsembættinu á Siglufirði, að ákvæðið um endurgreiddan lögfræðikostnað (allt að 10 klst) eigi eingöngu við í þeim tilvikum að synjun eða óásætttanlegt sáttatilboð fari fyrir úrskurðarnefnd.

Þetta þýðir að ríkið hafi ekki hugsað sér að endurgreiða lögfræðivinnu sem felur í sér aðstoð við að útfylla upphaflega kröfugerð til sýslumanns með til þess gerðu eyðublaði.

Í svari um þetta segir talsmaður ráðuneytisins: "Hugsunin var sú að málsmeðferð á fyrsta stigi yrði sem einföldust, fljótlegust og ódýrust" og þann skilning má lesa að kröfuhafar sjálfir og með aðstoð sérstaks tengiliðs geti annast um upphaflegu kröfugerðina. "Hugsunin var sú að málsmeðferð á fyrsta stigi yrði sem einföldust, fljótlegust og ódýrust", segir ráðuneytið.

 Eftirfarandi er að finna á slóð sýslumanna:

"Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur falið sýslumanninum á Siglufirði að annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur til barna vegna illrar meðferðar sem þau sættu við dvöl á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins. Skulu greiðslur á bótum miðaðar við skýrslu nefndar sem kannað hefur starfsemi hvers heimilis fyrir sig.

Heimilin sem um er að ræða eru:

a)    vistheimilið Breiðavík 

b)     Heyrnleysingjaskólinn 

c)     vistheimilið Kumbaravogur 

d)     skólaheimilið Bjarg 

e)     vistheimilið Reykjahlíð

f)      vistheimilið Silungapollur

g)     heimavistarskólinn Jaðar

h)     Upptökuheimili ríkisins

i)      Unglingaheimili ríkisins

Rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur kannað starfsemi heimilanna á tilteknu tímabili og skilað skýrslum um starfsemi þeirra, þó að undanskildum tveimur síðustu heimilunum, en skýrslum vegna þeirra verður skilað á árinu 2011.

Starf tengiliðar

Ráðinn verður tengiliður sem skal veita þeim aðstoð sem telja sig eiga rétt á bótum. Tengiliðurinn mun hafa starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu og annast upplýsingagjöf og aðstoð við framsetningu á bótakröfum til ríkisins.

Reiknað er með að tengiliður hefji störf þann 1. september nk. og framsetning bótakrafna geti hafist skömmu síðar.

Skilyrði bótagreiðslu

Skilyrði fyrir bótagreiðslu eru að viðkomandi hafi verið vistmaður á einu af þeim heimilum sem talin eru upp hér að ofan á því tímabili sem athugun rannsóknarnefndar nær yfir og hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi sem leiddi til varanlegs skaða.

Innköllun krafna

Þegar tengiliður hefur hafið störf mun sýslumaður gefa út innköllun krafna vegna eins eða fleiri heimila í einu. Munu auglýsingarnar birtast tvívegis í dagblöðum og verður skorað á alla þá sem voru vistmenn á viðkomandi heimili á tilgreindum tíma og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan á dvölinni stóð, að setja fram kröfu um bætur til sýslumanns. Viðkomandi getur óskað aðstoðar tengiliðar við framsetningu kröfunnar.

Framsetning krafna /eyðublað

Kröfur skulu settar fram á sérstöku eyðublaði sem verður aðgengilegt á netinu og víðar. Umsækjandi bóta þarf að geta sannað á sér deili verði þess krafist. Á eyðublaðinu verður unnt að veita sýslumanni heimild til að afla allra gagna sem kunna liggja fyrir hjá rannsóknarnefnd vegna heimilanna. Verði sú heimild ekki veitt, má búast við að sönnun tjóns verði erfiðari en ella. Rétt er þó að hafa í huga að ekki voru allir sem gætu átt rétt á bótum kallaðir til viðtals hjá nefndinni.

Frestur til að leggja fram bótakröfu eftir síðari birtingu innköllunar er þrír mánuðir.

Berist krafan ekki innan frestsins fellur hún niður.

Tengiliður mun veita aðstoð við framsetningu kröfu ef þörf krefur. Ekki er gert ráð fyrir að tjónþoli þurfi aðstoð lögmanns við að setja fram kröfu og verður kostnaður vegna starfa lögmanns ekki greiddur sérstaklega.

Sáttaboð sýslumanns

Þegar innköllunarfresti er lokið fer sýslumaður yfir kröfurnar og tekur afstöðu til þeirra. Kröfum sem hann telur ekki á rökum reistar skal hafnað með rökstuddu bréfi. Telji sýslumaður grundvöll til bótagreiðslu, skal hann gera viðkomandi sáttaboð. 

 Úrskurðarnefnd

Tjónþoli getur hafnað sáttaboði sýslumanns eða samþykkt það. Hafni hann boðinu, eða hafi kröfu hans verið hafnað, getur hann innan þriggja mánaða skotið málinu til úrskurðarnefndar. Skal nefndin yfirfara kröfuna og öll gögn með ítarlegum hætti og kveða upp úrskurð. Er tjónþola heimilt að ráða sér lögmann til aðstoðar til að reka mál fyrir nefndinni og mun ríkissjóður greiða kostnað sem af því hlýst, en þó eigi hærri en kr. 150.000.  Úrskurður nefndarinnar er endanlegur og verður honum ekki hnekkt nema fyrir dómi.

Greiðsla bóta

Ef fallist verður á bótakröfu, hvort sem það er á grundvelli sáttaboðs eða með úrskurði úrskurðarnefndar, verða bætur undir tveimur milljónum króna greiddar út strax. Nemi bætur hærri fjárhæð verða þær greiddar með afborgunum. Bætur bera ekki vexti en eru verðtryggðar.

Bætur eru skattfrjálsar og munu ekki skerða aðrar greiðslur eins og t.d. úr lífeyrissjóðum eða almannatryggingum.

Kröfur njóta erfðaréttar

Ef tjónþoli hefur sett fram kröfu til sýslumanns en andast áður en krafa hans er tekin til meðferðar, fer um kröfuna eftir erfðalögum. Geta þá lögerfingjar hans haldið kröfunni frammi. Lögerfingjar eru börn viðkomandi eða fjarskyldari ættingjar. Ef tjónþoli hefur látist áður en krafa var sett fram geta börn hans haldið henni frammi. Í slíkum tilvikum getur sönnun tjóns orðið erfið

Búast má við að fyrstu bætur verði greiddar snemma ársins 2011.

Nánari upplýsingar veita Halldór eða Ásdís hjá sýslumannsembættinu á Siglufirði í síma 460 3900. Einnig má senda fyrirspurnir á netfangið halldor@syslumenn.is.


Skýrslu um Silungapoll, Reykjahlíð og Jaðar frestað

Vistheimilanefnd hefur frestað um tvo mánuði útgáfu skýrslu um starfsemi Silungapolls, Reykjahlíðar og heimavistarskólans Jaðars. Til stóð að ljúka við skýrsluna og kynna efni hennar nú um mánaðamótin. Róbert R. Spanó formaður nefndarinnar segir að könnun nefndarinnar undanfarin misseri hafi hins vegar verið afar umfangsmikil.

Þegar hafi verið rætt við um 200 manns, fyrrverandi vistmenn, nemendur og fleiri. Gagnaöflun nefndarinnar hafi verið tímafrek og hafi henni borist mörg skjöl. Um 1.500 börn og unglingar dvöldu á þessum stofnunum og voru þær starfræktar um árabil. Stefnt er að því að birta skýrsluna 31. ágúst.

frettir@ruv.is


Bótakröfur settar fram í september

Visir.is: "Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur falið sýslumanninum á Siglufirði að annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins. Þá mun dómsmála- og mannréttindaráðuneytið auglýsa á næstu dögum laust til umsóknar starf tengiliðar sem meðal annars hefur það hlutverk að koma á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum.


Verkefni sýslumanns felst meðal annars í því að skora á þá sem telja sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum um sanngirnisbætur að lýsa kröfum sínum með auglýsingu eða svo kallaðri innköllun í Lögbirtingablaði og dagblaði. Þeir sem telja sig eiga rétt til bóta skulu lýsa kröfum sínum innan þriggja mánaða frá síðari birtingu í Lögbirtingablaði á sérstöku eyðublaði sem sýslumaður útbýr. Hann skal jafnframt fara yfir þær kröfur sem berast og taka afstöðu til þeirra. Að því búnu skal hann gera viðkomandi einstaklingi skriflegt og bindandi sáttaboð að höfðu samráði við ráðherra, að því er fram kemur í tilkynningu frá dómsmála- og mannaréttindaráðuneytinu.

Embætti sýslumannsins á Siglufirði annast alla umsýslu og afgreiðslu mála hjá bótanefnd samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Er starfsmaður bótanefndar staðsettur hjá embættinu. Hjá embættinu er því bæði til staðar þekking og reynsla við meðferð bótakrafna sem gerir embættið vel í stakk búið til þess að takast á hendur þessi verkefni.

Tengiliður ráðinn fyrir ágústlok

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið mun á næstu dögum auglýsa laust til umsóknar starf tengiliðar sem skal leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna eftir að sýslumaður hefur kallað eftir þeim. Hann skal einnig aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Um fullt starf að ræða og ráðgert er að starfsstöð tengiliðar verði hjá opinberri stofnun á grundvelli þjónustusamnings.

Gert er ráð fyrir því að búið verði að ráða í starf tengiliðar fyrir ágústlok og stefnt er að því að innköllun krafna hefjist í september".

Stefán Þ. Karlsson - enn deyr Breiðvíkingur

stefan karlssonBreiðvíkingurinn Stefán Þorkell Karlsson ljósmyndari andaðist heima hjá sér þann 2. júní síðastliðinn. Af Breiðvíkingum á tímabili drengjavistunar, 1953-1972, hafa þar með andast að lágmarki 33 af 126 drengjum eða rúm 26% (en óljóst er með afdrif eins til þriggja til viðbótar).

Stefán fæddist 15. maí 1954 og var því 56 ára. Hann var vistaður á Breiðavík aðeins 10 ára gamall, í september 1964 og var vistaður vestra í tæp 2 ár, "losnaði" í ágúst 1966. 

Stefán átti 5 eigin börn, með fjórum mæðrum, og var fósturfaðir tveggja til viðbótar. Breiðavíkursamtökin senda þeim og öðrum aðstandendum sínar innilegustu samúðarkveðjur. Formaður samtakanna, Bárður Ragnar Jónsson (sem var samtíða Stefáni vestra) minnist hans í athugasemdadálki við færslu þessa.

Jarðarförin fer fram frá Digraneskirkju þriðjudaginn 15. júní kl. 15.

Minningargreinar úr Morgunblaðinu er að finna í athugasemdadálk færslunnar. Blessuð sé minning Stefáns.


Lögin um sanngirnisbæturnar

Lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.

 

1. gr.
Gildissvið og yfirstjórn.

    Lög þessi mæla fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007.
    Dómsmála- og mannréttindaráðherra fer með yfirstjórn og framkvæmd laga þessara.

2. gr.
Skilyrði þess að krafa sé tekin til meðferðar.

    Sá sem vistaður var á stofnun eða heimili sem lög þessi taka til getur krafist sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum, enda liggi fyrir skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 og innköllun sýslumanns. Sýslumaður tekur afstöðu til krafna en sá sem krefst bóta getur leitað til úrskurðarnefndar skv. 7. gr. uni hann ekki niðurstöðu sýslumanns.

3. gr.
Skilyrði sanngirnisbóta.

    Greiða skal sanngirnisbætur úr ríkissjóði á grundvelli laga þessara hafi vistmaður orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi meðan á vistun hans stóð, sem olli honum varanlegum skaða.
    Með illri meðferð eða ofbeldi er átt við:
    a.      hvers kyns refsiverða líkamlega valdbeitingu gagnvart barni og aðra líkamlega valdbeitingu þar sem valdið er óþarfa sársauka,
    b.      ógnandi, vanvirðandi eða niðurlægjandi athafnir gagnvart barni,
    c.      athafnir til þess fallnar að misbjóða barni eða vanrækja á annan hátt uppeldi þess svo mjög að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska sé mikil hætta búin.
    Með varanlegum skaða er átt við varanlegar neikvæðar líkamlegar, sálrænar eða félagslegar afleiðingar.

4. gr.
Fjárhæð sanngirnisbóta.

    Við ákvörðun fjárhæðar sanngirnisbóta skal litið til:
    1.      alvarleika ofbeldis eða illrar meðferðar, þ.m.t. með tilliti til tímalengdar vistunar og annarra aðstæðna sem kunna að hafa gert reynsluna sérlega þungbæra,
    2.      alvarleika afleiðinga ofbeldis eða illrar meðferðar, bæði afleiðinga sem unnt er að leggja læknisfræðilegt mat á og annarra erfiðleika og missis tækifæra sem rekja má til hinna bótaskyldu atvika.
    Við ákvörðun fjárhæðar sanngirnisbóta skal einnig, eftir því sem unnt er, tekið mið af dómaframkvæmd á sambærilegum sviðum. Bætur til einstaklings skulu aldrei vera hærri en 6 millj. kr. Hámark þetta breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.
    Nú hefur vistmaður verið vistaður á fleiri en einni stofnun eða heimili sem falla undir lög þessi og er þá heimilt að ákveða bætur til bráðabirgða og taka þá ákvörðun til endurskoðunar jafnóðum og fleiri skýrslur nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 og innkallanir vegna þeirra liggja fyrir. Við endanlegt mat skal líta til fyrrgreindra þátta með heildstæðum hætti, þó þannig að heildarbætur rúmist innan marka þess sem getur í 2. mgr.
    Bætur allt að 2 millj. kr. skal greiða út í einu lagi. Bætur umfram það og allt að 4 millj. kr. skal greiða út 18 mánuðum eftir fyrstu greiðslu. Bætur umfram 4 millj. kr. og allt að 6 millj. kr. skal greiða út 36 mánuðum eftir fyrstu greiðslu. Bótafjárhæð skal bundin vísitölu neysluverðs frá því að hún er ákveðin í sáttaboði skv. 6. gr. eða úrskurði skv. 9. gr.

5. gr.
Innköllun.

    Þegar nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur lokið skýrslu um könnun sína á starfsemi heimilis eða stofnunar skal ráðherra fela tilteknum sýslumanni að gefa út innköllun. Innköllun skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði, svo og tvívegis í útbreiddu dagblaði. Þar skal skorað á þá sem dvalið hafa á tiltekinni stofnun eða heimili á tilgreindu tímabili er skýrslan tók til og telja sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum þessum að lýsa kröfum sínum innan þriggja mánaða frá síðari birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði.
    Sýslumaður ákveður form innköllunar og gefur út eyðublað fyrir þá sem hyggjast lýsa kröfum sínum. Á eyðublaðinu skal sá er lýsir kröfu tilgreina svo sem kostur er dvalartíma á stofnun eða heimili og helstu ástæður þess að hann telur sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum þessum. Þar skal einnig gefinn kostur á að veita sýslumanni heimild til aðgangs að gögnum um viðkomandi, í vörslum nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, þ.m.t. hljóðupptökum og endurritum vitnaskýrslu, eða hjá öðrum stjórnvöldum.
    Nú er kröfu ekki lýst innan þess frests sem greinir í 1. mgr. og fellur hún þá niður. Víkja má frá þessu í allt að tvö ár frá því að kröfulýsingarfresti lýkur ef sýnt þykir að þeim sem lýsir kröfu var það ekki unnt fyrr eða önnur veigamikil rök mæla með því.

6. gr.
Sáttaboð.

    Að loknum kröfulýsingarfresti skal sýslumaður fara yfir þær kröfur sem lýst hefur verið og önnur tiltæk gögn. Hann skal afla staðfestingar nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 á því að viðkomandi hafi verið vistaður á því heimili eða stofnun sem um ræðir. Telji sýslumaður að líkur standi til að bótaskilyrði laga þessara séu uppfyllt skal hann að höfðu samráði við ráðherra gera viðkomandi einstaklingi skriflegt og bindandi sáttaboð. Að öðrum kosti skal hann synja kröfu með rökstuddu bréfi. Málsmeðferð af hálfu sýslumanns skal vera einföld og henni skal hraðað eins og kostur er. Honum er óskylt að taka munnlegar skýrslur af þeim sem gera kröfur. Skal hann eftir því sem kostur er fjalla samtímis um allar kröfur er lúta að einu og sama heimilinu eða stofnuninni.
    Hafni sá sem kröfu hefur lýst sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfs sýslumanns leitað til úrskurðarnefndar skv. 7. gr.
    Fallist sá sem kröfu hefur lýst á sátt samkvæmt þessari grein með skriflegum hætti felur það í sér afsal allra frekari krafna á hendur ríki og eftir atvikum sveitarfélögum, sbr. 13. gr., vegna vistunar á viðkomandi stofnun eða heimili. Gjalddagi er fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að sýslumanni berst skriflegt samþykki viðtakanda bótanna.

7. gr.
Úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur.

    Ráðherra skipar, án tilnefningar, nefnd þriggja manna og þriggja til vara til þess að taka afstöðu til krafna um sanngirnisbætur samkvæmt lögum þessum ljúki málum ekki á grundvelli 6. gr. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu skipaðir til allt að þriggja ára í senn. Einn nefndarmaður skal fullnægja skilyrðum til að vera hæstaréttardómari (lögfræðingur - innskot fþg), en hann skal jafnframt vera formaður nefndarinnar. Einn skal vera læknir og einn sálfræðingur. Um sérstök hæfisskilyrði gilda reglur stjórnsýslulaga. Varamenn skulu fullnægja sömu hæfisskilyrðum og aðalmenn.
    Kostnaður við störf úrskurðarnefndarinnar greiðist úr ríkissjóði, sbr. þó 13. gr. Nefndinni er heimilt að ráða sér starfslið í samráði við ráðherra.

 

8. gr.
Meðferð bótakrafna af hálfu úrskurðarnefndar.

    Í erindi til úrskurðarnefndar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. skal greina helstu rök fyrir því að viðkomandi eigi ríkari rétt en niðurstaða sýslumanns ber vott um. Úrskurðarnefndin getur kvatt þann sem leitað hefur til nefndarinnar til viðtals þar sem aflað verður nánari upplýsinga um grundvöll kröfunnar. Þá getur hún sömuleiðis leitað eftir afstöðu sýslumanns til kröfunnar eða kvatt aðra einstaklinga til viðtals, t.d. fyrrverandi starfsfólk á stofnun eða heimili.
    Úrskurðarnefndinni er heimilt að óska eftir umboði þess sem kröfu gerir til að afla læknisfræðilegra gagna um heilsufar hans, ef slík gögn skipta sérstöku máli að áliti nefndarinnar. Slík gagnaöflun skal vera á kostnað nefndarinnar.
    Úrskurðarnefndin skal hafa aðgang að hljóðupptökum og endurritum viðtala sem nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur tekið sem lið í rannsókn sinni á stofnun eða heimili, sem og að öðrum skjallegum gögnum sem síðarnefnda nefndin býr yfir.
    Nú telur sá sem kröfu gerir að skýrsla sem hann kann að hafa gefið skv. 3. mgr. sé ófullnægjandi við mat á rétti hans til sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum, eða hann óskar af öðrum ástæðum eftir því að tjá sig nánar um atriði sem skýrslan tekur til, og skal þá úrskurðarnefndin heimila honum að gefa skýrslu á ný, eða leggja fram skriflega greinargerð. Úrskurðarnefndin skal meta framkomna framburði heildstætt.
    Úrskurðarnefndin skal ljúka meðferð hverrar kröfu eins fljótt og auðið er.

9. gr.
Ákvörðun um bætur.

    Úrskurðarnefndin skal kveða upp skriflegan úrskurð þar sem tekin er afstaða til kröfu þess sem leitar til nefndarinnar um bætur. Tilgreina skal helstu röksemdir sem niðurstaðan er reist á.
    Við mat á því hvort nægilega sé í ljós leitt að bótaskilyrði 3. gr. séu uppfyllt, og við mat á þeim atriðum sem greinir í 4. gr., skal úrskurðarnefndin líta til fyrirliggjandi gagna og þess hvernig frásögn viðkomandi samræmist því sem vitað er um aðstæður á viðkomandi stofnun eða heimili, einkum á grundvelli skýrslu nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007.
    Nú hefur sá er kröfu gerir notið aðstoðar lögmanns við gerð kröfu og aðra ráðgjöf og skal þá úrskurðarnefndin jafnframt hugsanlegum sanngirnisbótum úrskurða hæfilegan kostnað samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu lögmannsins. Að jafnaði skal ekki úrskurða hærri þóknun en svarar til 10 klst. vinnu.
    Úrskurður nefndarinnar er endanlegur á stjórnsýslustigi. Ekki er hægt að bera niðurstöðu um bótarétt skv. 3. og 4. gr. undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur liggur fyrir. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að úrskurðurinn var kynntur aðila máls og málsókninni skal beint að úrskurðarnefndinni.
    Gjalddagi bóta er 1. dagur næsta mánaðar eftir að úrskurður er kveðinn upp.

10. gr.
Tengiliður vegna vistheimila.

    Ráðherra skipar sérstakan tengilið sem koma skal með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal hann aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Eftir 1. janúar 2013 getur ráðherra lagt niður starf tengiliðs að fenginni tillögu úrskurðarnefndar.

 

11. gr.
Framsal krafna og aðilaskipti fyrir erfðir.

    Ekki er heimilt að framselja kröfu samkvæmt lögum þessum, nema hún sé viðurkennd og fjárhæð hennar ákvörðuð af úrskurðarnefnd. Bætur eru undanþegnar aðför skv. 46. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
    Krafa um bætur samkvæmt lögum þessum erfist í samræmi við erfðalög, nr. 8/1962, hafi tjónþoli lýst kröfu skv. 5. gr. Hafi tjónþoli fallið frá áður en honum var unnt að lýsa slíkri kröfu erfist krafan til eftirlifandi barna sem geta hvert um sig eða sameiginlega fylgt henni eftir. Um aðgang að gögnum í vörslu vistheimilisnefndar og annarra stjórnvalda varðandi kröfu á þessum grundvelli fer samkvæmt ákvæðum 5. og 8. gr.

12. gr.
Ýmis ákvæði.

    Um sanngirnisbætur samkvæmt lögum þessum fer skv. 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Óheimilt er að skuldajafna kröfum ríkisins, sveitarfélaga eða stofnana þeirra á móti greiðslum samkvæmt lögum þessum.
    Aðrar greiðslur sem einstaklingur kann að njóta, t.d. á grundvelli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, eða úr lífeyrissjóðum, hafa ekki áhrif á ákvörðun sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum. Greiddar sanngirnisbætur mynda ekki heldur stofn til frádráttar vegna slíkra annarra greiðslna, né hafa áhrif á réttindi einstaklinga í almannatryggingakerfinu að öðru leyti.
    Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um gögn úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur. Gögnin skulu gerð almenningi aðgengileg að þeim tíma liðnum sem getur í upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1996.
    Ráðherra er heimilt að gefa út og birta í B-deild Stjórnartíðinda, að fenginni tillögu sýslumanns eða úrskurðarnefndar, nánari reglur um viðmið við ákvörðun fjárhæða, meðferð bótakrafna, aðgang sýslumanns eða úrskurðarnefndar að gögnum hjá sveitarfélögum, stofnunum þeirra og ríkisstofnunum, fyrirkomulag greiðslu bóta, viðmiðunarfjárhæð vegna lögmannskostnaðar og önnur atriði sem varða framkvæmd laga þessara.

13. gr.
Ábyrgðarskipting.

    Hafi sveitarfélag rekið heimili eða stofnun skal ráðherra efna til viðræðna við viðkomandi um skiptingu kostnaðar af bótagreiðslum og starfi sýslumanns og úrskurðarnefndar.

14. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 2010.


Sanngirnisbæturnar í lög leiddar

Frumvarpið um sanngirnisbæturnar varð að lögum í nótt með atkvæðum allra þingmanna. Því má búast við því að fljótlega verði sýslumanni falið að "innkalla kröfur", það er að segja auglýsa að þeir sem telja sig eiga rétt til sanngirnisbóta geti gert til þess kröfu.

Einnig liggur fyrir að setja saman Úrskurðarnefnd fyrir þau tilvik þar sem kröfuhafar kjósa að samþykkja ekki sáttatilboð sýslumanns. Og svo liggur fyrir að skipa einstakling í hina tímabundnu stöðu "tengiliðs" sem vera skal væntanlegum kröfuhöfum til liðsinnis (en þess utan gera lögin ráð fyrir því að ríkið greiði allt að 10 klukkustunda lögfræðivinnu).

Breytingar urðu á frumvarpinu í meðförum allsherjarnefndar þingsins, en þær snúa aðallega að framkvæmd og málsmeðferð, en merkilegasta framlag nefndarinnar er þó að taka afdráttarlaust fram að tilvísun í frumskjalinu um "samtímaviðmið" er hafnað, þ.e. að við ákvörðun um bætur skyldi taka mið af þeim viðmiðunum, t.d. í uppeldismálum, sem ríkjandi voru áður fyrr.

Hér er hægt að hlusta á Valgerði Bjarnadóttur, framsögumann nefndarinnar, lýsa nefndaráliti og breytingum:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20100518T222557&end=2010-05-18T22:48:19

Og hér má hlýða á Þór Saari tjá sig um málið fyrir löggildinguna í nótt:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100518T224116

 Og loks bætti Birgir Ármannsson nokkrum orðum við:

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100518T224432


Bótamálið snyrt og skýrt

 Frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur til handa þeim semurðu fyrir illri meðferð og/eða ofbeldi á vistheimilum ríkisins er nú komið úr Allsherjarnefnd þingsins og raunar sett í umræðu í dag eða í kvöld í þinginu.Allsherjarnefnd mælir eindregið og einróma með samþykkt frumvarpsins, en hefur sett fram nokkrar breytingatillögur, sem miða að því að gera framkvæmdina einfaldari og skjótari. Þá er einnig rétt að benda á að nefndin þrengir mjög ákveðinn texta í greinargerð frumvarpsins um samfélagsviðmiðanir, þ.e. þrengir möguleika ríkisins á að bera fyrir sig viðmiðanir sem fyrr giltu en gilda ekki lengur.

Þótt málið sé á dagskrá þingsins í dag (í kvöld) er ekki víst að það takist að koma því að , en þá frestast önnur umræða um málið framyfir sveitarstjórnarkosningar, en eftir sem áður er almenn samstaða um að gera frumvarpið að lögum fyrir þinglok.

 Nefndarálitið fylgir hér sem viðhengi, en er einnig að finna á þessari slóð:

http://www.althingi.is/altext/138/s/1121.html

 En frumvarpið sjálft er á þessari slóð

http://www.althingi.is/altext/138/s/0860.html


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband