Sigurður Lindberg Pálsson minning

  Lindberg útför

Sigurður Lindberg Pálsson fæddist í Stykkishólmi 12. nóvember 1946. Hann lést á heimili sínu 13. september sl. Móðir hans var Guðbjörg Árnadóttir, f. 17. nóvember 1921, d. 15. ágúst 2002, og uppeldisfaðir Páll Jónsson, f. 12. desember 1916, d. 2.

 

Sigurður Lindberg Pálsson fæddist í Stykkishólmi 12. nóvember 1946. Hann lést á heimili sínu 13. september sl. Móðir hans var Guðbjörg Árnadóttir, f. 17. nóvember 1921, d. 15. ágúst 2002, og uppeldisfaðir Páll Jónsson, f. 12. desember 1916, d. 2. nóvember 2001. Sigurður átti fjögur hálfsystkini, þau eru Anna María, f. 25. nóvember 1949, hún á þrjú börn, Ólafur, f. 27. október 1950, d. 22. júlí 2006, hann átti tvö börn, Árni Breiðfjörð, f. 18. janúar 1957, og Ragnheiður, f. 3. júlí 1958, hún á fimm börn. Dóttir Páls af fyrra hjónabandi var Lilja, f. 11. júní 1944, d. 28. september 2003, hún átti þrjú börn.

 

Sigurður Lindberg fluttist til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni 1954. Hann hóf sjómennsku ungur og vann við það í mörg ár. Þegar hann hætti til sjós fór hann að vinna við byggingar og húsamálun og gegndi því starfi til æviloka.

Sigurður Lindberg var maður sem hefur snert mörg hjörtu með hlýju og kærleika. Þeir sem þekktu hann vita við hvað er átt.

Með þessu litla ljóði kveð ég þig elsku vinur:

Enginn sér blóm

í raun og veru –

Það er svo lítið –

við erum svo tímabundin –

og það tekur tíma að sjá

eins og það tekur tíma

að eiga vin.

(Georgia O'Keeffe, 1887-1986)

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég Betu, Hönnu, Ágústi Smára, Jóni Erni og systkinum Sigga.

Edda Vikar Guðmundsdóttir.

 

Vinur minn, Sigurður Lindberg Pálsson, er dáinn.

Sigurður var mikill vinur okkar allra, drengjanna í Breiðuvík, og var mjög góður drengur sem aldrei gerði flugu mein.

Í marsmánuði árið 1956 varð móðir mín bráðkvödd. Jarðarför hennar var gerð í Fossvogskapellunni og var útvarpað fyrir okkur alla drengina í stofunni hjá Kristjáni Sigurðssyni og Rósu Björnsdóttur. Móðir mín hét Sigríður Kristmunda Jónsdóttir og var frá Tröð í Súðavík í Álftafirði við Djúp og hét því sama nafni og Sigurður Lindberg Pálsson sem nú hverfur frá okkur drengjunum fimmtíu og þremur árum síðar.

Sigurður og allir drengirnir leiddu mig um sandana og út í ver til að dreifa huga mínum við móðurmissinn því ég grét í fjóra sólarhringa. Móðir mín var ekki nema þrjátíu og sex ára þegar hún dó.

Sigurður Lindberg mun alltaf vera í minningu okkar, drengjanna úr Breiðuvík.

Blessuð sé minning Sigurðar Lindbergs Pálssonar.

Ó, Jesús bróðir besti

og barnavinur mesti,

æ breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera

og góðan ávöxt bera,

en forðast allt hið illa,

svo ei mér nái' að spilla.

(Páll Jónsson)

Ég þakka Sigurði lífgjöfina.

Jón Guðmundur Guðmundsson.

 

Ég kynntist Sigurði Lindberg fyrir sjö árum þegar við bjuggum báðir á Framnesveginum. Hann sinnti þá ýmsum íhlaupaverkum og annaðist veikan frænda sinn sem hann bjó hjá. Við vorum líklega eins ólíkir og hugsast getur og aldursmunurinn á okkur var líka talsverður eða rúm 20 ár. Bakgrunnur okkar var einnig ólíkur en Siggi ólst upp í fátækt og eyddi stórum hluta ævi sinnar á drengjaheimili, fjarri heittelskaðri móður sinni og fjölskyldu. Þrátt fyrir gjörólíkan lífsstíl okkar og þjóðfélagsstöðu þá tengdumst við vinaböndum sem entust allt þar til vinur minn kvaddi þennan heim.

Sigurður Lindberg Pálsson var snemma sviptur frelsi og sendur á drengjaheimlið á Breiðavík. Ég er þeirrar skoðunar að sú vist hafi haft varanleg áhrif á allt hans líf. Hann var í eðli sínu fróðleiksfús og góðhjartaður og hafði metnað til að gera vel en hafði átt erfitt með að ná fótfestu í lífinu eftir að vistinni á Breiðavík lauk. Hann var sendur frá móður sinni aðeins átta ára gamall og látinn dveljast á drengjaheimili fram að unglingsaldri.

Líf Sigga snerist um að reyna að láta öðru fólki líða vel og hann gerði það með öllum þeim ráðum sem hann kunni. Honum fannst gaman að tala við fólk og var einlægur, hlýr, vingjarnlegur og hjálpsamur. Hann bar virðingu fyrir öllum sem hann umgekkst og passaði vel upp á að vera í reglulegu sambandi við vini sína. Hann gaf megnið af öllum peningum sem hann eignaðist til fólks sem hann taldi að þyrfti meira á þeim að halda en hann sjálfur. Þetta örlæti hans gekk svo langt að stundum átti hann ekki til fyrir mat handa sjálfum sér. Hann átti lítinn frænda sem var augasteinninn í lífi hans og hann vildi allt fyrir hann gera. Frændi hans, eða „Litli“ eins og hann kallaði hann, var honum meira virði en hann var sjálfum sér og þarfir hans urðu að hans þörfum. Á síðustu árum ævi Sigga aðstoðaði ég hann við flutninga og að koma sér upp nýju heimili. Hann ljómaði lengi af gleði og stolti yfir nýja heimilinu sínu þar sem ég held að honum hafi liðið vel þar til hann veiktist.

Ég á eftir að sakna þess að fá þennan góða vin í heimsókn til mín snemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum í kaffisopa. Hann vaknaði yfirleitt fyrir allar aldir og fékk sér göngu heim til mín ef veður leyfði og við spjölluðum um heima og geima og höfðum gaman af. Siggi var hjálpfús og vildi oftast eitthvað fyrir mig gera þegar hann kom í heimsókn. Hann var athafnamaður og hamhleypa til verka og það var stundum erfitt að trúa því að hann væri kominn á sjötugsaldurinn. Fas hans og viðmót var líkara því að þar færi þrítugur maður.

Ég lærði margt af kynnum mínum af Sigga. Það sem upp úr stendur er auðmjúkur og góður maður sem bar umhyggju og virðingu fyrir öðru fólki en setti sjálfan sig aldrei í fyrsta sæti.

Ég minnist þín með söknuði kæri vinur. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu Sigga, sérstaklega Elísabetu frænku hans og hennar fjölskyldu sem stóð honum næst og á nú um sárt að binda.

 

Jón Örn Guðmundsson. 

(Mynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir, DV. Minningargreinar: Mbl.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna

Sendi samúðarkveðjur.

Anna , 2.10.2009 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband