Lögfræðikostnaður bara endurgreiddur vegna úrskurðarnefndar

Samtökin hafa fengið staðfest frá forsætisráðuneytinu þann skilning, sem fram hefur komið sjá sýslumannsembættinu á Siglufirði, að ákvæðið um endurgreiddan lögfræðikostnað (allt að 10 klst) eigi eingöngu við í þeim tilvikum að synjun eða óásætttanlegt sáttatilboð fari fyrir úrskurðarnefnd.

Þetta þýðir að ríkið hafi ekki hugsað sér að endurgreiða lögfræðivinnu sem felur í sér aðstoð við að útfylla upphaflega kröfugerð til sýslumanns með til þess gerðu eyðublaði.

Í svari um þetta segir talsmaður ráðuneytisins: "Hugsunin var sú að málsmeðferð á fyrsta stigi yrði sem einföldust, fljótlegust og ódýrust" og þann skilning má lesa að kröfuhafar sjálfir og með aðstoð sérstaks tengiliðs geti annast um upphaflegu kröfugerðina. "Hugsunin var sú að málsmeðferð á fyrsta stigi yrði sem einföldust, fljótlegust og ódýrust", segir ráðuneytið.

 Eftirfarandi er að finna á slóð sýslumanna:

"Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur falið sýslumanninum á Siglufirði að annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur til barna vegna illrar meðferðar sem þau sættu við dvöl á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins. Skulu greiðslur á bótum miðaðar við skýrslu nefndar sem kannað hefur starfsemi hvers heimilis fyrir sig.

Heimilin sem um er að ræða eru:

a)    vistheimilið Breiðavík 

b)     Heyrnleysingjaskólinn 

c)     vistheimilið Kumbaravogur 

d)     skólaheimilið Bjarg 

e)     vistheimilið Reykjahlíð

f)      vistheimilið Silungapollur

g)     heimavistarskólinn Jaðar

h)     Upptökuheimili ríkisins

i)      Unglingaheimili ríkisins

Rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur kannað starfsemi heimilanna á tilteknu tímabili og skilað skýrslum um starfsemi þeirra, þó að undanskildum tveimur síðustu heimilunum, en skýrslum vegna þeirra verður skilað á árinu 2011.

Starf tengiliðar

Ráðinn verður tengiliður sem skal veita þeim aðstoð sem telja sig eiga rétt á bótum. Tengiliðurinn mun hafa starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu og annast upplýsingagjöf og aðstoð við framsetningu á bótakröfum til ríkisins.

Reiknað er með að tengiliður hefji störf þann 1. september nk. og framsetning bótakrafna geti hafist skömmu síðar.

Skilyrði bótagreiðslu

Skilyrði fyrir bótagreiðslu eru að viðkomandi hafi verið vistmaður á einu af þeim heimilum sem talin eru upp hér að ofan á því tímabili sem athugun rannsóknarnefndar nær yfir og hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi sem leiddi til varanlegs skaða.

Innköllun krafna

Þegar tengiliður hefur hafið störf mun sýslumaður gefa út innköllun krafna vegna eins eða fleiri heimila í einu. Munu auglýsingarnar birtast tvívegis í dagblöðum og verður skorað á alla þá sem voru vistmenn á viðkomandi heimili á tilgreindum tíma og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan á dvölinni stóð, að setja fram kröfu um bætur til sýslumanns. Viðkomandi getur óskað aðstoðar tengiliðar við framsetningu kröfunnar.

Framsetning krafna /eyðublað

Kröfur skulu settar fram á sérstöku eyðublaði sem verður aðgengilegt á netinu og víðar. Umsækjandi bóta þarf að geta sannað á sér deili verði þess krafist. Á eyðublaðinu verður unnt að veita sýslumanni heimild til að afla allra gagna sem kunna liggja fyrir hjá rannsóknarnefnd vegna heimilanna. Verði sú heimild ekki veitt, má búast við að sönnun tjóns verði erfiðari en ella. Rétt er þó að hafa í huga að ekki voru allir sem gætu átt rétt á bótum kallaðir til viðtals hjá nefndinni.

Frestur til að leggja fram bótakröfu eftir síðari birtingu innköllunar er þrír mánuðir.

Berist krafan ekki innan frestsins fellur hún niður.

Tengiliður mun veita aðstoð við framsetningu kröfu ef þörf krefur. Ekki er gert ráð fyrir að tjónþoli þurfi aðstoð lögmanns við að setja fram kröfu og verður kostnaður vegna starfa lögmanns ekki greiddur sérstaklega.

Sáttaboð sýslumanns

Þegar innköllunarfresti er lokið fer sýslumaður yfir kröfurnar og tekur afstöðu til þeirra. Kröfum sem hann telur ekki á rökum reistar skal hafnað með rökstuddu bréfi. Telji sýslumaður grundvöll til bótagreiðslu, skal hann gera viðkomandi sáttaboð. 

 Úrskurðarnefnd

Tjónþoli getur hafnað sáttaboði sýslumanns eða samþykkt það. Hafni hann boðinu, eða hafi kröfu hans verið hafnað, getur hann innan þriggja mánaða skotið málinu til úrskurðarnefndar. Skal nefndin yfirfara kröfuna og öll gögn með ítarlegum hætti og kveða upp úrskurð. Er tjónþola heimilt að ráða sér lögmann til aðstoðar til að reka mál fyrir nefndinni og mun ríkissjóður greiða kostnað sem af því hlýst, en þó eigi hærri en kr. 150.000.  Úrskurður nefndarinnar er endanlegur og verður honum ekki hnekkt nema fyrir dómi.

Greiðsla bóta

Ef fallist verður á bótakröfu, hvort sem það er á grundvelli sáttaboðs eða með úrskurði úrskurðarnefndar, verða bætur undir tveimur milljónum króna greiddar út strax. Nemi bætur hærri fjárhæð verða þær greiddar með afborgunum. Bætur bera ekki vexti en eru verðtryggðar.

Bætur eru skattfrjálsar og munu ekki skerða aðrar greiðslur eins og t.d. úr lífeyrissjóðum eða almannatryggingum.

Kröfur njóta erfðaréttar

Ef tjónþoli hefur sett fram kröfu til sýslumanns en andast áður en krafa hans er tekin til meðferðar, fer um kröfuna eftir erfðalögum. Geta þá lögerfingjar hans haldið kröfunni frammi. Lögerfingjar eru börn viðkomandi eða fjarskyldari ættingjar. Ef tjónþoli hefur látist áður en krafa var sett fram geta börn hans haldið henni frammi. Í slíkum tilvikum getur sönnun tjóns orðið erfið

Búast má við að fyrstu bætur verði greiddar snemma ársins 2011.

Nánari upplýsingar veita Halldór eða Ásdís hjá sýslumannsembættinu á Siglufirði í síma 460 3900. Einnig má senda fyrirspurnir á netfangið halldor@syslumenn.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband