Hvað þarf að segja við Breiðavíkurdrengi?

 bardurrjonssonEnginn þorir að segja neitt við Breiðavíkurdrengi? Hvað þarf að segja við Breiðavíkurdrengi? Að þeir skuli sætta sig við að hafa verið beittir harðræði af stjórnvöldum og af þeim sem höfðu drengina í umsjá sinni eftir að sannarlega höfðu verið brotin lög og grundvallarmannréttindi á foreldrum þeirra? Að málið skuli kyrrt liggja af því að svona var nú tíðarandinn og mannréttindi þá afstæð samkvæmt þessu?

Ég tek undir að málið er "fáránlegt" þótt ég notaði kannski annað orð til að lýsa þeim fáránleika en orðið fáránlegt; dapurlegt, sorglegt, þungbært öllum sem hlut að eiga, íþyngjandi og þá ekki bara meðan á umræðunni hefur staðið heldur allt frá þeim tíma sem drengirnir voru vistaðir fjarri fjölskyldum sínum og upp á náð ókunnugra komnir.

Þjóðverjar í dag vilja gjarnan axla ábyrgð á grimmdarverkum nasista og atburðunum í þriðja ríkinu; þeir líta svo á að sagan megi ekki endurtaka sig og til að svo verði ekki þarf að axla ábyrgð á því sem undan hefur farið og læra af því, það er partur af ábyrgðinni. Ef við gerðum ekki slíkt væri enn verið að bjóða niður niðursetninga.

Af hverju ber ég ábyrgð sem skattgreiðandi á syndum fortíðar; það er af því að við búum í samfélaginu, öll saman, styrkur samfélagsins felst í þeirri kennd, að menn séu ekki allir í stríði við alla. Auðlindir samfélagsins eru á einhvern hátt sameign þess, kynslóðirnar ávaxta sitt pund í samræmi við árferði hverju sinni og mæta þeim kostnaði sem fylgir því að reka samfélagið. Við stefnum ekki aftur að því að bjóða niður niðursetninga heldur reynum við að hjálpa fólki með félagslegri aðstoð og innan Félagsþjónustunnar er talað um hjálp til sjálfshjálpar.

Af því við erum partur af sögunni, sem á einhvern hátt er óslitin þótt hún sé víða rofin, ber maður ábyrgð á því sem gerðist í fyrndinni.

Ég veit ekki um afkomendur hreppsómaganna; mér þykir það ekki koma þessu máli við nema óbeint. Það kemur virðingu eða virðingarleysi ekkert við hvort menn treysti sér til að gera greina fyrir sálrænum áföllum sínum. En oft bera menn harm sinn í hljóði.

Hvað snertir skaðann þá er hann í mörgum tilvikum greinilegur og öllum ljós sem til þekkja. Margir hafa svipt sig lífi eða farist á voveiflegan hátt; margir búa við andleg örkuml, margir hafa gengið þjáningaleið í samfélaginu og illa tekist að fóta sig; hvort bara megi kenni dvölinni á Breiðavík um það er auðvitað álitamál en hún gaf mönnum ekki góð spil til að spila úr í lífinu.

Bæturnar eiga að koma fyrir skilgreind brot á þessum mönnum, fyrir allt það sem þeir fóru á mis við vegna einangrunar Breiðavíkur, vegna meðferðar starfsfólks á drengjunum, vegna framgöngu barnaverndaryfirvalda, ríkisvaldsins og vegna mannréttindabrotanna, bæði á drengjunum og svo gegn foreldrum þeirra. Ég læt þetta nægja í bili.

Bárður

(ofangreint er svar formanns BRV við athugasemd í síðustu færslu og fannst ritstjóra rétt að búa til sérstaka færslu úr því) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband