Langflest fyrrum vistbörn taka sáttatilboði

 Miðað við reynsluna af kröfum vegna Breiðavíkur og Kumbaravogs virðist sem langsamlega flest fyrrum vistbörn þessara staða, sem kröfur gerðu um sanngirnisbætur, hafi tekið flýtimeðferðinni með sáttatilboði frá sýslumanni mjög vel. Ef til vill mætti túlka það sem mikinn sigur fyrir það samkomulag sem náðist og lögin um sanngirnisbætur byggja á.

Ég óskaði eftir tilteknum upplýsingum frá sýslumanni og fékk svör greiðlega. Fyrst er að tiltaka að ákvæðin um innköllunarfrest hafa verið túlkuð kröfuhöfum í vil og hafa þannig bæst við kröfur vegna Breiðavíkur frá því sem áður var greint frá - og þessar "nýju" kröfur hafa verið afgreiddar þótt frestur væri liðinn. Nú er staðan sú að vegna Breiðavíkur bárust alls 123 kröfur. Sýslumanni hafa borist 108  "samþykkt sáttaboð" - sem er 88% krafnanna (9 af hverjum 10 skrifa undir). 5 mál hafa farið til úrskurðarnefndarinnar. Tveimur umsóknum var hafnað. Þrjár umsóknir eru óafgreiddar hjá sýslumanni (bárust nýlega), þrjú sáttaboð eru í skoðun hjá bótakrefjanda (fóru frekar nýlega). Afdrif tveggja sáttaboða eru ókunn, þar sem þeim hefur hvorki verið skilað til okkar, né vísað til úrskurðarnefndarinnar.

Kumbaravogur

Það bárust 18 kröfur vegna Kumbaravogs. Sáttaboð eru farin í 15 tilvikum. Tvö eru ósend og það stafar af því að þau bárust aðeins nýlega. Einni umsókn hefur verið hafnað. Til baka hafa komið 14 undirrituð sáttaboð eða 78%.  Eitt er til skoðunar hjá bótakrefjanda.

 Heyrnleysingjaskólinn

124 kröfur bárust vegna Heyrnleysingjaskólans . Útsendingu sáttaboða var frestað vegna sumarleyfa, allt í senn sumarleyfa hjá sýslumanni, hjá skrifstofu Félags Heyrnarlausra, hjá viðkomandi starfsmönnum innanríkisráðuneytisins og hjá tengiliði vegna vistheimila. Til að mæta þessu er verið að reyna að koma því þannig fyrir að þeir sem fá sáttaboð þurfi ekki að bíða eftir greiðslu til fyrsta dags næsta mánaðar eins og verið hefði, heldur verði reynt að greiða út bæturnar jafnóðum. Með öðrum orðum, segir sýslumannsembættið, þá fá bótakrefjendur fyrstu greiðslu bótanna væntanlega eftir sem áður í ágústmánuði, þótt sáttaboðin berist síðar en áætlað var í fyrstu.

Innkallanir nú og framundan

Núna er í gangi innköllun á kröfum frá vistmönnum á Reykjahlíð og Bjargi. Næst á dagskrá er innköllun á kröfum frá þeim sem voru vistaðir á Silungapolli. Þar voru vistaðir í heildina nálega 1.000 einstaklingar svo það er ekkert vitað hversu margar kröfur kunna að berast. Síðan verður innköllun vegna Jaðars og að lokum vegna Unglingaheimilis ríkisins og Upptökuheimilis ríkisins. "Það er ekki ljóst hvenær það verður en rannsóknarnefnd Róbert Spanó mun skila skýrslu vegna þessara síðustu heimila í október. Á þessum níu heimilum sem falla undir lög um sanngirnisbætur voru vistaðir um 4.600 einstaklingar, sem margir hverjir eiga líklega bótarétt.  Þess má geta að Norska ríkið greiddi 9.800 einstaklingum bætur á árunum 2006-2010 (líklega mest vegna vistheimila þó það sé ekki nákvæmlega sundurgreint), en það eru 15,3 Norðmenn á móti hverjum Íslendingi, svo þessi tala hér er býsna há í því samhengi," segir Hallór Þormar hjá sýslumanni (Norðmenn eru sem sagt 15,3 sinnum fleiri en Íslendingar).

fþg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er vitað hvenær skila á inn fyrir Silungarpoll ? Komin dagsetning á það ?

Halldora Olafsdottir (IP-tala skráð) 10.7.2011 kl. 12:35

2 Smámynd: Anna

Ég vil segja ykkur strákar mínir að bróðir minn Sævar Ciesielski er látinn. Léts á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn.

Anna , 14.7.2011 kl. 08:57

3 Smámynd: Anna

Sævar var á Breiðavík 1969 í eitt ár.

Anna , 14.7.2011 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband