Guðrún verður tengiliður

Vísir, 15. sep. 2010 12:00

Guðrún Ögmundsdóttir er tengiliður vegna vistheimila

Guðrún Ögmundsdóttir félagsráðgjafi sinnir starfi tengiliðar vegna vistheimila. Mynd/ E. Ól.
 
Guðrún Ögmundsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi alþingismaður, hefur verið ráðin í starf tengiliðar vegna vistheimila. Hún mun hefja störf 20. september næstkomandi.

Fram kemur í frétt á vef stjórnarráðsins að starf tengiliðar felst í að koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal tengiliðurinn aðstoða fyrrverandi vistmenn, sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar, við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun.

Sýslumaðurinn á Siglufirði annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SVB

Af bloggi Friðriks Þórs:

Best að segja það eins og það er: Ég er drullufúll. Ég sótti um stöðu „tengiliðs vistheimila“, stöðu sem búin var til samkvæmt lögum um sanngirnisbætur (vegna ofbeldis og annarrar illrar meðferðar á vistheimilum forðum), stöðu sem ég hef meira og minna gegnt endurgjaldslaust í sjálfboðavinnu í hátt í 3 ár (liðsinna, afla upplýsinga og fleira fyrir fyrrum vistbörn), stöðu sem ég fékk öflug meðmæli í og verulega góðar umsagnir.

Ég og 19 aðrir sóttu um stöðuna, sex voru tekin í viðtöl og á endanum stóð valið milli mín og eins annars umsækjanda. Nýr tengiliður átti að taka til starfa 1. september en ákvörðun ráðherra drógst og drógst, þar til í gær 14. september. Og ráðherrann valdi hinn aðilann.

Þess vegna er ég persónulega fúll og tel mig hafa rétt á því. Ég er og „faglega“ fúll því ég tel að ég hafi verið upplagður í þetta djobb. Báðar þessar ástæður eru góðar og gildar að mínu viti. En svo er það auka-elementið, sem er þarna og mengar málið og gerir mig enn fúlari: Aðilinn sem fékk djobbið er fyrrum alþingismaður. Er enn verið að redda fyrrum þingmönnum djobbum?

Guðrún Ögmundsdóttir var ráðin til starfans. Ég ætla ekkert neikvætt að segja um Guðrúnu og meira að segja ætla ég að halda því fram að hún hafi verið langbesti kostur númer tvö. Með firnasterkan félagsmálapakka á bakinu. Ég vil hins vegar meina að pólitísk fortíð hennar sé Akkilesarhæll sem hefði átt að beina augum ráðherrans annað. Tengiliður vistheimila á að starfa fyrir kröfuhafana, fyrrum vistbörnin og njóta trausts þeirra og trúnaðar. Slíkt traust og slíkan trúnað er ég búinn að byggja upp í nær 3 ár, er í sterkum tengslum við þetta fólk og ég horfi til hagsmuna þess en ekki stjórnvaldsins. Guðrún er hins vegar nátengd stjórnvaldinu. Ég held því aldeilis ekki fram að hollusta hennar sé og verði við aðra en fyrrum vistbörnin, en einhver þeirra munu eiga erfitt með að líta á hana sem óháðan og ómengaðan fulltrúa sinn. Ég er ekki að tala um manneskjuna heldur pólitíkina.

Við vistbörnin fyrrverandi segi ég þó: Guðrún er eðalmanneskja og með hjartað á réttum stað – á því er enginn vafi. Leitið til hennar sem tengiliðs vistheimila og vantreystið henni ekki. Þótt hún sé fyrrum samstarfsmaður og vinkona stjórnmálamannanna þá er ekki þar með sagt að hún taki á nokkurn hátt þátt í einhverjum tilraunum til að „lágmarka skaða“ ríkissjóðs við úrvinnslu og afgreiðslu sanngirnisbótanna. Alltént munu Breiðavíkursamtökin og aðrir leitast við að liðsinna henni og veita henni um leið aðhald, rétt eins og ráðuneyti, sýslumanni, úrskurðarnefnd og öðrum stjórnvöldum.

Ekki veitir af, því frá því að lögin voru samþykkt hafa ekki bara orðið tafir á framkvæmd málsins, heldur er byrjað að túlka þau á einn og annan hátt sem alltént Breiðavíkursamtökunum datt ekki í hug áður. Til dæmis er byrjað að túlka ákvæði um endurgreiddan lögfræðikostnað á þann hátt að það eigi bara við um kærur til úrskurðarnefndar á afgreiðslum sýslumanns, en ekki vegna aðstoðar við að gera frumkröfuna (til sýslumanns) vel úr garði. Einnig er í drögum reiknað með því að bætur yfir 2 milljónum dreifist í greiðslum á 2-3 ár vaxtalaust (en verðbætt), en fjölmargir væntanlegir kröfuhafar eru gamlir, sjúkir og fátækir og algerlega raunhæft að allnokkrir þeirra hreinlega deyi á biðlistanum. Það er sem sagt verið að toga og teygja lögin í þágu stjórnvaldsins og þá gegn hagsmunum fyrrum vistbarnanna. Það er ólíðandi og gegn slíkri viðleitni hlýtur m.a. tengiliðurinn að standa, en ekki verja.

En hvað um það. Ég hef haft mikla ánægju af því að starfa við liðveislu og upplýsingaöflun í þágu vistbarnanna fyrrum nú í hátt í 3 ár og haft mikla gleði af því að kynnast þessu fólki, öðlast traust þess og trúnað. Fyrir þau störf og kynni er ég þakklátur. Og þykir leitt að ekki var leitað til þessa fólks um umsögn um hvaða einstaklingur nyti þeirra trausts til starfans.

Ég óska Guðrúni til hamingju með starfið og velfarnaðar í því. Hvað sem ofangreindu líður þá hallast ég frekar að því að hún muni rækja þetta starf vel. En mikið andskoti eru þessir pólitíkusar plássfrekir stundum – þeir eiga auðvitað rétt á störfum eins og aðrir, en pólitísk ráðning þeirra er og verður viðkvæmt mál sem hætta er á að sveipist pólitísku ljósi – og vistbörnin fyrrverandi mega ekkert við því að fara að slást við pólitísk bitbein!

SVB, 15.9.2010 kl. 13:53

2 identicon

Góðan dag.

Ég er mjög sammála þeim sem ekki fékk stöðuna, gamlir pólitíkusar eiga ekki að ganga fyrir í svona störf, alls ekki. Veit ekki betur en að þeir séu á ágætis eftirlaunum og ættu ekki að sækjast eftir störfum sem aðrir eru hæfir í.

Ég er reyndar ekki sammála síðasta ræðumanni um það atriði að Guðrún sé mjög hæf í starfið, þvert á móti. Hún hefur kvennalistaslagsíðu og/eða vinstri slagsíðu og gæti haft skoðanir sem eru í þá átt að vera karlfjandsamlegar, sem er ótækt í svona málum, helst þyrfti 2 aðila, karl og konu. Ég met Guðrúnu semsagt óhæfa.

Enn annað : Í viðtölum mínum við fyrrverandi vistmenn hefur komið fram að einhverjir þeirra treysta engum sem hefur tilheyrt þessu gamla barnaverndarsystemmi á Íslandi, jafnvel svo að menn fara ekki á fundi með slíku fólki. Að setja gamlan rykfallinn pólitíkus, sem datt út í prófkjöri (eða í kosningum, man það ekki) er því öldungis fráleitt, hugmyndin reyndar svo arfavitlaus að ég spyr um dómgreind þeirra sem réðu í starfið. Hvaða snillingar voru það ? Vinsamlega birtið mér og öðrum nöfn þeirra, takk.

Kveðja, Baldur Garðarsson

Baldur Garðarsson (IP-tala skráð) 18.9.2010 kl. 17:47

3 Smámynd: SVB

Ögmundur Jónasson dómsmála- og mannréttindaráðherra réð í starfið.

SVB, 21.9.2010 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband