Færsluflokkur: Sjónvarp

Svipting barnaverndarnefndar fordæmd

Breiðavíkursamtökin fordæma þá gjörð, sem sagt var frá í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi, 9. nóvember 2009, að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur svipt Helgu Elísdóttur umsjá annars dóttursonar síns, án undangengins dómsúrskurðar, og ætlar að senda hann í fóstur út á land með hraði.
 
Svipting með þessum hætti hlýtur að vera ólögmæt án dómsúrskurðar, jafnvel þótt barnaverndarnefndin telji sig hafa einhver efnisrök í höndum. Sagan sýnir að slíkar nefndir geta hæglega haft rangt fyrir sér og telja Breiðavíkursamtökin að nefndin sé að líkindum að gera nákvæmlega hið sama og gert var við Breiðavíkurbörnin og börn fleiri vistheimila fyrr á árum - farið er fram með offorsi og geðþótta og ákvarðanir teknar í blóra við lög. Breiðavíkursamtökin fordæma þessa siðlausu ákvörðun og krefjast þess að dómsyfirvöld grípi inn í málið áður en drengurinn verður sendur út á land á morgun, miðvikudag. Jafnframt krefjast samtökin þess að svipting Barnaverndarnefndar Reykjavíkur án undangengins dómsúrskurðar verði rannsökuð ofan í kjölinn.
 
Stjórn BRV, 10. nóv. 2009.

Georg Viðar og Friðrik Þór í "Ísland í dag"

Georg Viðar Björnsson, varaformaður BRV, og Friðrik Þór Guðmundsson, ritari stjórnar, voru í viðtali í "Ísland í dag" fyrr í kvöld.

Endilega tjáið ykkur um viðtalið, en tengil á það er að finna hér


Bótamálið má ekki dragast úr hömlu

Síðasta miðvikudag (18. júní) var frétt í Sjónvarpinu með viðtali við þá mætu konu, Ásu Hjálmarsdóttur, móður Breiðavíkurdrengsins Konráðs Ragnarssonar. Fréttin í heild var þörf áminning (sjá hér). Áminning um að stjórnvöld dragi ekki að óþörfu að bæta fyrrum vistbörnum hins opinbera þá nauðung og ofbeldi sem þau upplifðu, í þessu tilfelli Breiðavíkurdrengjum.

Ekki tókst að ljúka samningu, framlagningu og samþykkt bótafrumvarps á þingi sl. vor og héðan af gerist því ekkert fyrr en með samþykkt frumvarps að hausti. Það liggur alveg ljóst fyrir að margir Breiðavíkudrengjanna eru ekki heilsuhraustir og tveir hafa látist það sem af er árinu, að því er fram kemur í fréttinni. Það er því slæmt ef bæturnar dragast að óþörfu, en hins vegar um leið mikilvægt að vanda til verka - því bæturnar verða að vera sómasamlegar og í þeim verður fólgið mikilvægt fordæmi hvað bætur varðar til fyrrum vistbarna annarra vistheimila. Það hefði þannig ekki komið á óvart ef þingið hefði, vegna flýtis og nísku, samþykkt í hraði allt of lágar bætur.

Mikilvægt er að sumarið sé í þessu sambandi vel nýtt og komist að niðurstöðu um raunhæfar bætur, þannig að þegar þing kemur saman þá renni frumvarp í gegn eins og bráðið smér. Breiðavíkursamtökin (regnbogasamtök fyrrum vistbarna hvers kyns vistunarúrræða barnaverndaryfirvalda) vilja taka þátt í þessari vinnu og gera það. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur er þar samtökunum innan handar, en lögfræðilega og félagslega er allsendis ekki um einfalt mál að ræða.

Bloggsíðan óskar Ásu til hamingju með skeleggt viðtal og gott aðhald að stjórnvöldum og sendir Konráði syni hennar einlægar óskir um bætta heilsu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband