Aðalfundur BRV 2009: Það þokast áfram í bótamálinu
4.5.2009 | 18:15
Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna 2009 var haldinn 29. apríl síðastliðinn, að viðstöddum 31 af 78 félögum á félagaskrá. Um leið var haldið upp á tveggja ára afmæli samtakanna, sem stofnuð voru þennan dag 2007. Mikil eining ríkti á aðalfundinum og munaði þar kannski mestu um að loks hefur eitthvað þokast áfram í viðræðunum við fulltrúa forsætisráðuneytisins í bótamálunum.
Skýrslur bæði formanns og gjaldkera voru samþykktar mótatkvæðalaust eftir litlar umræður og er skriflegi hlutinn af ræðu formannsins hér að neðan. Ekki var kosið í stjórn, þar eð núverandi stjórn var kosin til tveggja ára á síðasta ári. Engar lagabreytingatillögur litu dagsins ljós, en hins vegar var kosin skemmtinefnd (eða félagsmálanefnd) og skipa hana Gunnar Júlíusson, Esther Erludóttir og Gísli Már Helgason (nefndin skiptir með sér verkum).
Bótamálin voru rætt ítarlega undir liðnum "Önnur mál". Þessi mál höfðu legið nokkuð í láginni sl. mánuði eða frá því að forsætisráðuneyti Geirs H. Haarde kynntu frumvarpsdrög um bætur, sem samtökin tóku illa og töldu afar ófullnægjandi og íþyngjandi. Ekki bætti úr skák bankahrun og fjármálakrísa. En eftir stjórnarskiptin 1. febrúar sl. og innkomu Jóhönnu Sigurðardóttur í forsætisráðuneytið hefur birt til í samskiptunum og munaði miklu um afsökunarbeiðni Jóhönnu til fyrrum vistbarna á vistheimilum ríkisins.
Eftir tvo fundi undanfarið með fulltrúum forsætisráðuneytisins hefur og orðið til minnisblað um aðferðarfræði og viðmiðunaratriði að komandi samkomulagi. Ekki hefur þó verið tekið á upphæðum ennþá, en nú er rammi fyrir hendi. Ekki er hægt að greina frá efnisatriðum minnisblaðsins hér, því það er trúnaðarmál, en innihaldið var kynnt fyrir félagsmönnum á aðalfundinum.
Eftir miklar umræður, sem almennt voru frekar jákvæðar, var samþykkt samhljóða eftirfarandi ályktun (og umboð til frekari viðræðna):
"Aðalfundur BRV, haldinn 29/4 2009, samþykkir að fela stjórn BRV að halda áfram samningaumleitunum við ríkið og eftir atvikum sveitarstjórnir, á grundvelli minnisblaðs forsætisráðuneytisins 22/4/09, endurskoðað 29/4/09, með þeim fyrirvörum sem fram komu á aðalfundinum um m.a. menntunarmál, tekjutengingar, umsóknarferli, viðbótargögn, vexti og verðbætur og fleira."
Ekki er mikið af fjármálum samtakanna að segja, skýrsla gjaldkera var samþykkt, þar sem koma fram lágstemmdar tekju- og gjaldatölur, en engin félagsgjöld eru í gangi. Rætt var meðal annars um þörfina fyrir föstum tekjupóstum, kannski ekki síst þar sem samtökin ætla á næstunni að reka litla skrifstofu með þeim Bárði R. Jónssyni og Friðriki Þór Guðmundssyni sem meðleigjendum til hálfs.
Hér fer á eftir skrifaði hlutinn af ræðu (skýrslu) formanns:
"Sælir, kæru félagar, ég ætla í grófum dráttum að fara yfir starfið frá því við síðast héldum aðalfund Breiðavíkursamtakanna en hann var haldinn 17. maí í fyrra. Af þeim fundi er það helst að segja að kosin var ný stjórn og við fengum til liðs við okkur menn sem deila ekki þessari reynslu okkar, að hafa verið á Breiðavík eða öðrum vistheimilum, þá Friðrik Þór Guðmundsson, Ara Alexander Ergis Magnússon og Þór Saari. Þeir hafa allir reynst okkur vel og ég vil sérstaklega þakka Friðriki fyrir örlæti á tíma sinn og krafta, að hinum tveimur ólöstuðum. Við Georg erum líklega veikustu hlekkirnir í þessari stjórn. Og ég hafði auðvitað séð það fyrir að Þór yrði kominn á Alþingi áður en kæmi að næsta aðalfundi. Það er ekki ónýtt að nú höfum við fulltrúa okkar á þjóðþingi Íslendinga.
Það var talað um á fundinum 17. maí að við tækjum því rólega yfir sumarið. Engir fundir voru á vegum samtakanna og það dró ekki tíðinda í baráttumáli okkar fyrr en þann 11. ágúst að við vorum boðaðir á fund með fulltrúum forsætisráðuneytisins til að fjalla um væntanlegar sanngirnisbætur til Breiðavíkurbarna. Þið þekkið svo framhaldið. Ekki var nein sátt um tillögurnar og við fengum svo bágt fyrir að hafa lekið þeim í fjölmiðla. Ég hef nú ekki iðrast þess eitt augnablik. En í framhaldinu mættum við Þór í Kastljós þar sem við gerðum grein fyrir sjónarmiðum okkar og ég skrifaði tvær greinar í Morgunblaðið um bæturnar til Breiðavíkurbarna. Einnig reifuðu Georg og Friðrik málefni okkar í umfjöllun Ísland í dag um svipað leyti. Við höldum okkur ennþá við þá afstöðu að bætur til Breiðavíkurbarna þurfi að skipta máli og vera samfélaginu til sóma. Og til að afgreiða þennan kafla í baráttunni þá hljóp snurða á þráðinn og stjórnvöld ræddu ekkert við okkur um langa hríð.
Og þótt það komi ekki starfi samtakanna sem slíkra beint við þá vil ég nefna það hér að við Georg fórum svo ásamt Ara Alexendar til Svíþjóðar á kvikmyndafestivalið Nordisk Panorama til að vera við sýningu Synda feðranna. Áður hafði ég verið í tengslum við samtök hliðstæð okkar í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en því miður náði ég ekki að hitta neinn þeirra manna. Það gæti orðið gagnlegt að koma á sterkari tengslum við þennan hóp á Norðurlöndunum ef það gæti hjálpað okkur í þessu reiptogi sem við eigum í við stjórnvöld. En við bíðum og sjáum til með það. Friðrik mun hér á eftir gera grein fyrir því sem síðast hefur gerst í bótamálinu.
Svo gerðist það að allt hrundi hér á Íslandi og satt að segja leist mér ekkert á að nokkuð mundi miða áleiðis með bætur til okkar eins og ástandið er. En viðmælendur okkar frá því haust hrökkluðust frá völdum og við tók vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og það markaði auðvitað ákveðin tímamót þegar hún bað okkur afsökunar á þingi og ég vil ítreka ánægju félagsmanna með þá afsökunarbeiðni Jóhönnu.
Í framhaldi af stjórnarskiptunum komst hreyfing á mál okkar og höfum við nú setið á tveimur fundum með fulltrúum stjórnvalda, síðast tveimur dögum fyrir kosningarnar nú um helgina. Annars þykir mér starfið hafa verið með ágætum í vetur; við höfum haldið fundi reglulega, dálítið þrasgjarna fundi en samt alltaf ánægjulega þegar upp var staðið. Stungið var upp á einskonar skemmtinefnd en hún komst aldrei á laggirnar.
Samtökin hafa svo fengið skrifstofuaðstöðu hér í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar og væntum við Friðrik ýmisslegs góðs af því. Bloggsíða var búin til eftir aðalfundinn í fyrra og ég vil hvetja ykkur til að skrifa á hana og koma þar með athugasemdir. Ég gleymi sjálfsagt ýmsu en þið getið komið því þá að hér á eftir.
Stjórnin er kosin til tveggja ára í senn svo fyrir þessum fundi liggur ekki margt annað en venjuleg aðalfundarstörf önnur og að gera grein fyrir bótamálinu og snæða í hléi þessar snittur sem hér eru á boðstólum".
(fundarritun fþg)
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Mannréttindi, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.