Hvað gerir ný ríkisstjórn fyrir Breiðavíkursamtökin?
2.2.2009 | 15:27
Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna skrifar:
Í dag, 2. febrúar, eru liðin tvö ár frá því Breiðavíkurmál komust í hámæli. Þann 11. ágúst sl. fékk stjórn Breiðavíkursamtakanna að sjá drög að frumvarpi um bætur til barna á vistheimilum; um frumvarpið var svo fjallað í fjölmiðlum í byrjun september mánaðar, þremur vikum síðar hrundi efnahagskerfi þjóðarinnar.
Breiðavíkurdrengir sættu sig ekki við bæturnar sem frumvarpið gerði ráð fyrir; það hefur ekkert breyst þrátt fyrir kreppuna og átökin í samfélaginu og við þessar erfiðu aðstæður þurfum við að sækja mál okkar. Það verður forvitnilegt fyrir okkur Breiðavíkurdrengi að sjá hvernig ný stjórnvöld taka á málum okkar, hvort niðursetningshugsun valdhafanna verði áfram ráðandi eða hvort stjórnmálamenn á öðrum stað í litrófinu sjái sóma sinn í því að greiða þessum mönnum ríflegar bætur, gera þeim seinni hluta ævinnar bærilegan.
Um það snúast bæturnar, að þær skipti máli á einhvern hátt annan en að duga fyrir sólarlandaferð eða annarri neyslu; margir sem dvöldu á Breiðavík búa við fátækt, örorku eða aðra félagslega erfiðleika. Það er kannski þreytandi og ekki til að afla vinsælda að þurfa sífellt að standa í þessu þrasi um fjármuni; að samtökin ættu að snúast um eitthvað annað en bæturnar; að ætíð sé þörf á að vekja athygli á kjörum barna sem búa við lakt veganesti; að vinna markvisst í anda annarrar hugmyndafræði en markaðsaflanna að því að bæta kjör þeirra sem þannig búa í samfélaginu. En það er bara þannig að þrátt fyrir stórfelld áföll samfélaga hætta þau ekki að vera til; þau þurfa að gera upp sögu sína og partur af sögu þessarar þjóðar er Breiðavík og ofbeldið, óréttlætið og svívirðingin sem þar var.
Við höldum því ótrauðir áfram þar til mál okkar komast í höfn.
Kveðjur
Bárður R. Jónsson
Stjórnarskiptin vekja athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Gangi ykkur vel drengir. Eigið allt gott skilið!!
M. Sigurjón Guðmundsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 22:28
Vonandi sýnir þessi ríkisstjórn meiri skilning en kannski þurfið þið að bíða fram að næstum kosningum. En verkin tala. Þeir sem munu gera vel fram að kosningum verða kosnir áfram en hinir ekki. Og þeir menn sem tilbúnir að koma fram í nafni réttlætis og samúðar munu vega vel í ríkisstjórn landsins.
Anna , 3.2.2009 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.