Sama stjórn og sama nafn...

Kæru félagar, hér að neðan er fundargerð nýliðins aðalfundar Breiðavíkursamtakanna. Segja má að helst hafi borið til tíðinda að bæði aðalstjórn og nafn samtakanna eru óbreytt frá því sem var, en nokkrar lagabreytingar samþykktar.

 

Aðalfundur BRV 27 apríl 2010

Dagskrá:

1.       Aðalfundur settur, val fundarstjóra.

2.       Skýrsla stjórnar – umræður/afgreiðsla

3.       Skýrsla gjaldkera – umræður/afgreiðsla

4.       Lagabreytingar

5.       Kosningar

6.       Önnur mál

Setning aðalfundar

Formaður Bárður Ragnar setti fundinn og stakk upp á Friðrik Þór Guðmundssyni sem fundarstjóra. Það samþykkt. Fundarstjóri tryggði atkvæðisbærni mættra, sem töldu 29 manns. Einn nýr félagi samþykktur inn í samtökin á staðnum, Tómas Sigurðsson, nítugasti félaginn.

Skýrsla stjórnar

Bárður Ragnar flutti skýrslu stjórnar. Skrifaði hlutinn birtist hér aftar. Í umræðum um skýrslu stjórnar tóku þátt Tómas, Gísli Már, Axel, Gylfi, Sigurveig, Maron, Sigurgeir, Jón Guðmundur, og Konráð – auk formanns. Skýrsla stjórnar síðan samþykkt.

Skýrsla gjaldkera

Skýrsla gjaldkera. Þór nefndi stöðug framlög frá Pétri Magnúsi Sigurðssyni og hefðu það verið einu tekjurnar fyrir utan fjármagnstekjur. Meginútgjöld ársins voru vegna leigu skrifstofunnar, um 200.000 kr. yfir árið (og síðan tvo mánuði 2010, en þá lauk leigunni). Inneign samtakanna í árslok 172.883 krónur. Í umræðum um skýrslu gjaldkera tóku þátt Jón Guðmundur og  Konráð, auk formanns og gjaldkera. Fundurinn fól formanni að hafa samband við Pétur Magnús að færa honum innilegar þakkir samtakanna.

Lagabreytingar

Fyrir fundinum lágu fyrir tillögur ættaðar frá stjórn samtakanna að lagabreytingum í 6 liðum og samþykkt að afgreiða þær hverjar fyrir sig. Fyrir atkvæðagreiðslu fóru fram umræður um tillögurnar og tóku þátt í þeim Margrét Esther, Sigurveig, Gísli Már, Georg Viðar, Gunnar David, Maron, Marinó, Bárður, Axel, Þór, Róbert, Konráð, Sigurgeir og Jón Hákon.

Síðan var tekið kaffihlé og eftir það tillögurnar afgreiddar með svofelldum hætti:

1)

Fyrst var borin upp nafnabreytingatillaga um að 1.gr. verði svo:Félagið heitir Vistheimilasamtökin.

Fram kom frávísunartillaga (a) frá Maron: „Legg ég til að nafnabreytingar í lögum samtakanna verði vísað frá og upprunalegt nafn haldi sér“.

Einnig barst breytingatillaga frá Gísla Má (b) um að nýtt nafn samtakanna yrði „Stolin æska“.

Með því að tillaga (a) gekk lengra en (b) var hún borin fyrst upp. Var frávísunartillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur. Komu hinar því ekki til afgreiðslu.

2)

Síðan var borin upp breytingatillaga um að 2. gr. verði svo:Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík. Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

3)

Síðan var borin upp breytingatillaga um að 6.gr. verði svo:Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

4)

Síðan var borin upp breytingatillaga á 7.gr. og ákveðið að afgreiða hana í þrennu lagi.

4-a) Upphaf 7. gr. orðist svo: „Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári. Þessi hluti var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

4-b)  Síðan komi í 7. gr.: „Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert. Þessi hluti var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

4-c) Lokahluti 7. gr. orðist svo: „Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. viku fyrirvara, með auglýsingu í dagblaði eða eftir öðrum viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir. Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál.

Maron flutti breytingatillögur, um í fyrra lagi að í stað „viku fyrirvara“ kæmi „30 daga fyrirvara“. Sú tillaga Marons var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í síðara lagi var tillaga Marons að í stað „með auglýsingu í dagblaði eða eftir öðrum viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir“ kæmi „með viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir, svo sem með tölvupósti eða símleiðis“. Þessi tillaga Marons var einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

5)

Síðan var borin upp breytingatillaga um að ný 10. gr. verði svo: „Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum „önnur mál“.  Þessi tillaga var einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

6)

Loks samþykkt tilfærslubreyting vegna fyrri breytinga um að núverandi 10. grein verði 11. grein.

Kosningar

Nokkru fyrir aðalfund höfðu a.m.k. þrír stjórnarmenn gefið til kynna að þeir myndu ekki gefa kost á sér til endurkjörs; Bárður formaður, Friðrik ritari og Ari meðstjórnandi. Þrátt fyrir áréttaðar áskoranir um framboð til stjórnar bárust engin framboð, nema frá Gísla Má Helgasyni, sem dró það framboð til baka á fundinum. Sitjandi stjórnarmenn lýstu því þá allir yfir að þeir gæfu kost á sér í eitt ár í viðbót, enda var það andi fundarins að þessi tiltekna stjórn ætti helst að „klára bótamálið“ til enda. Kosningar fóru því svo:

Formaður: Bárður Ragnar Jónsson gaf kost á sér, enginn annar og var hann sjálfkjörinn með lófaklappi.

Aðrir stjórnarmenn: Georg Viðar, Þór Saari, Friðrik Þór og Ari Alexander gáfu kost á sér og engir aðrir og voru þeir sjálfkjörnir með lófaklappi.

Kosning tveggja varamanna: Maron B. Brynjarsson og Marinó H. Þórisson gáfu kost á sér og engir aðrir og voru þeir sjálfkjörnir með lófaklappi.

Önnur mál

Undir þessum lið tóku til máls um ýmis mál Sigurveig, Bárður, Konráð, Maron, Marinó og Gunnar David.

Slit aðalfundar

Að lokum sleit formaður fundi og fleira ekki gert.

Fundarritun: FÞG

 

Skýrsla stjórnar á aðalfundi 2010

Flutt var skýrsla stjórnar á aðalfundi fyrir ári, en engu að síður er rétt að fjalla nú um bæði starfsár núverandi stjórnar, sem hafa reynst viðburðarík og vonandi að flestra mati árangursrík, nú þegar loks glittir í lögin um sanngirnisbætur. Raunar má segja að fátt annað hafi almennilega komist að en bótamálið, en í sjálfu sér er það ekkert óeðlilegt, svo brýnt sem það hagsmunamál hefur verið í okkar huga.

Fjöldi stjórnarfunda liggur í sjálfu sér ekki fyrir, því þeir voru í rauninni ótal margir ef allt er týnt til, formleg fundarhöld og síðan virkt samráð um tölvupóst og síma. Stjórnarfundirnir eru síðan ekki aðalatriðið, því stjórnin hefur lagt metnað sinn í að taka engar meiriháttar ákvarðanir án þess að bera þær undir félagsfundina og því nærtækast að fjalla um þá.

Á þessum tveimur árum voru haldnir alls 13 félagsfundir; 6 fyrra árið og 7 síðara árið. Það verður að teljast nokkuð þokkaleg virkni í félagsskap eins og okkar. Og stjórnin telur líka ástæðu til að þakka félagsmönnum almennt  fyrir góða mætingu og fyrir að bera ört vaxandi virðingu fyrir almennum fundarsköpum. Því það hefur tryggt skipulagða og lýðræðislega fundi, þar sem allir hafa fengið að komast að.

Á þessum félagsfundum var bótamálið langsamlega plássfrekast og má segja að önnur félagsmál hafi nokkuð horfið í skuggann. Á aðalfundi fyrir ári var kosin sérstök skemmtinefnd, með í huga að fara að sinna léttari félagsmálum, en sú nefnd fjaraði út. Eins verður að segja að ekki hafi tekist að koma heimasíðumálum samtakanna í höfn, öðru vísi en að stofna bloggsíðu, en hún hefur þó staðið fyrir sínu. Þá er að nefna að tilraun okkar til skrifstofuhalds komst aldrei á skrið og fór svo að við sögðum upp leigunni frekar en að verja meiri peningum í óvissu.

Áður en vikið er að bótamálunum er rétt að nefna tölur yfir fjölda félaga. Þegar núverandi stjórn tók við fyrir tveimur árum fékk hún í arf rafræna félagaskrá með 37 nöfnum, en félagar munu þó hafa verið einhverju fleiri skráðir í svörtu bókina svokölluðu, en sú bók komst ekki í hendur stjórnarinnar fyrr en mörgum mánuðum eftir stjórnarskipti. Skemmst er frá því að segja að skráðir félagar eru nú 88, en á tímabilinu hafa fimm einstaklingar sagt sig úr samtökunum, en einn þeirra kom aftur. 88 er að sönnu engin fjöldahreyfing í opnum samtökum og munar þar áreiðanlega mestu að illa hefur gengið að höfða til vistbarna annarra heimila en Breiðavíkur að hópast í samtökin, en vonandi breytist það. Meðal annars í þessu skyni vrður lögð fram lagabreytingatillaga á þessum aðalfundi.

Óþarfi er að fara mjög mörgum orðum um þróun bótamálsins, svo mjög sem við höfum haft samráð og rætt þau mál. Framan af gengu þau mál þó illa, annars vegar vegna skilningsleysis ríkisins hjá fyrri stjórnvöldum og síðan vegna efnahagshrunsins, þegar nánast allt fór í biðstöðu annað en að reyna að bjarga Íslandi. Segja má að bjartari tíð hafi hafist vorið 2009 með afsökunarbeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og sem við fögnuðum mjög. Í sömu andrá, eða á félagsfundi 12. mars 2009, mótuðu samtökin grunn-kröfur sínar með „einn fyrir alla“ stefnu og lágmark 6-8 milljónir á mann.  Segja má að hlutirnir hafi farið hægt af stað vegna kosningaskjálfta sem þá var í gangi vegna alþingiskosninga, en fljótlega kom í ljós að ríkið ætlaði sér að vera mjög stíft á kröfu sinni um að væntanleg lög um sanngirnisbætur myndu ná til allra vistheimilanna. Ríkið féll fljótlega frá hugmyndum um flókið geðlæknamat við ákvörðun bóta, en segja má að umræður um bótaupphæðir hafi vikið til hliðar meðan reynt var að afgreiða aðferðafræðina við ákvörðun bóta. Vorið 2009 varð til hugmynd að ákveðinni flokkaskiptingu bóta, þar sem tekið yrði tillit til nokkurra lykilþátta og þar með í sjálfu sér til sérstöðu einstakra vistheimila. Þannig má segja að staðan hafi verið þegar við héldum aðalfund fyrir ári.

Um sumarið héldu þreifingar áfram, meðal annars um „tveggja ása flokkaskiptingu“ og óháða bótanefnd. Í júlí höfnuðum við á félagsfundi hugmynd ráðuneytisins um svokallaða „sáttalausn“, en viðræður héldu áfram og þarna var orðið deginum ljósara að búið var að kasta öllum hugmyndum Viðars Más Matthíassonar út um gluggann. Að sama skapi myndaði ríkið sérstakan starfshóp til að smíða nýtt frumvarp og hitti stjórnin og lögfræðingur okkar þennan starfshóp á fundi í nóvember. Bæta má við að í sama mánuði samþykkti félagsfundur okkar ályktun þar sem harðlega var mótmælt að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefði svipt Helgu Elísdóttur umsjá annars dóttursonar síns, án undangengins dómsúrskurðar, og ætlaði að senda hann í fóstur út á land með hraði.

Fyrstu drög starfshópsins að nýju frumvarpi bárust lögmanni okkar í desember 2009 og samþykkti félagsfundur þá samhljóða að haldið verði áfram með málið á þeim grundvelli sem í frumvarpsdrögunum er fólginn. Hins vegar komu fram bæði á fundi stjórnarinnar með Ragnari og á félagsfundinum ýmsar athugasemdir og tillögur til úrbóta. Send var umsögn um drögin og í janúar fæddust síðan ný drög, sem við fengum einnig til umsagnar og þarna má segja að hlutirnir hafi verið farnir að þróast hratt.  Í mars voru okkur kynnt ný drög og formaður og varaformaður áttu beinan fund með forsætisráðherra. Strax í kjölfar hans fæddist loks upphæð hámarksbóta og á félagsfundi sama kvöld var samhljóða samþykkt að „leggja blessun“ á frumvarpið eins og það var þá orðið. Það var síðan lagt fram á þingi og hefur fyrsta umræða þegar átt sér stað, með mörgum okkar á þingpöllum, en frumvarpið er nú til afgreiðslu hjá allsherjarnefnd þingsins.

Fráfarandi stjórn þakkar félagsmönnum öllum fyrir samstarfið sl. 2 ár.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband