Nafnabreyting á Breiðavíkursamtökunum?

 Á aðalfundi Breiðavíkursamtakanna eftir viku, 27. apríl, er fyrirhugað að leggja fram neðangreindar breytingatillögur við lög samtakanna og eru þær hér með lagðar fram til kynningar og umræðu. Einna stórtækustu breytingarnar fela í sér að nafni samtakanna verði breytt og að samþykkt verði heimildarákvæði um stofnun sérfélaga um hveert vistheimili undir hatti móðurfélagsins. Lagt er til að nafni samtakanna verði breytt í Vistheimilasamtökin.

Breiðavíkursamtökin eru samtök um fyrrum vistbörn allra vistheimila á vegum hins opinbera, þau eru regnbogasamtök, en tillagan um nafnabreytingu kemur til vegna þess að mörgum fyrrum vistbörnum annarra vistheimila hefur þótt samtökin um of miðast við þetta tiltekna og kannski frægasta vistheimilið, Breiðavík. Tillagan miðar að því að koma til móts við þessar raddir og standa þá vonir til þess að fyrrum vistbörn annarra vistheimila gangi frekar til liðs við samtökin en reyndin hefur verið. Sem stendur eru 88 félagar í samtökunum. Aðild er ekki bundin við vistun, heldur opin fyrir alla einstaklinga sem áhuga hafa á vistunarmálum hins opinbera. Allt áhugasamt fólk er hvatt til að ígrunda breytingatillögurnar og ræða, og svo til að ganga í samtökin og sækja aðalfundinn (sjá auglýsingu í síðustu færslu).

Breytingatillögur við lög Breiðavíkursamtakanna.

1.gr. verði svo:

Félagið heitir Vistheimilasamtökin.[1]

2. gr. verði svo:

Heimili samtakanna er hjá formanni hverju sinni og varnarþing er í Reykjavík[2].

6.gr. verði svo:

Stjórn samtakanna skal skipuð fimm félagsmönnum þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi hvers árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum[3].

7.gr. verði svo:

Stjórn fer með framkvæmdarstjórn í félaginu á milli aðalfunda. Formaður boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir, en halda verður stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn þess. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári[4]. Starfstímabil samtakanna er almanaksárið, aðalfundur skal haldinn í apríl eða fyrri hluta maí ár hvert[5]. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Stjórn boðar til aðalfundar með a.m.k. viku fyrirvara, með auglýsingu í dagblaði eða eftir öðrum viðurkenndum boðskiptaleiðum sem undanfarandi félagsfundur samþykkir.[6] Dagskrá aðalfundar: Skýrsla stjórnar, reikningar, lagabreytingar, stjórnarkjör og önnur mál[7].

Ný 10. grein verði svo:

Heimilt er að starfrækja innan samtakanna sérfélög um einstök vistheimili, en þau skulu vera fjárhagslega aðgreind frá móðursamtökunum og móta sínar eigin reglur á þann veg að brjóti ekki í bága við lög móðursamtakanna. Sérfélögin geri stuttlega grein fyrir starfsemi sinni á hverjum aðalfundi móðursamtakanna undir liðnum „önnur mál“. [8]

Núverandi 10. gr. verði 11. gr[9].

 


[1] Tillaga að nafnabreytingu samtakanna.

[2] Heimili samtakanna var tilgreint í Lauganesskirkju. Ekki þarf að tilgreina heimilisf. nánar en svona.

[3] Í óbreyttum lögum er kjörtímabil 2 ár með hlutakosningu árlega. Hér eru lagðar til árlegar kosningar á stjórninni allri.

[4] Afnuminn er lágmarksfjöldi stjórnarfunda en tilgreindur lágmarksfjöldi félagsfunda.

[5] Hér er fundartíminn fyrir aðalfund gerður sveigjanlegri með því að bæta fyrri hluta maí við.

[6] Hér er afnumin skylda til að auglýsa líka félagsfundi í dagblaði og opnað fyrir öðrum aðferðum til aðalfundarboðs sem síðasti félagsfundur starfsársins hefur lagt blessun á.

[7] Orðalagi um dagskrá breytt í samræmi við breytingar á stjórnarkjöri.

[8] Skýrir sig sjálft.

[9] Skýrir sig sjálft.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna

Ég vona að þessi Samtök lengi lífi. Og að fórdómar gagnvart þeim sem minna meigasýn fari minnkandi í framtíðinni. Og það sem skeði á Breiðavík sé lærdómur allra sem sinna og koma nálægt börnum í íslensku þjóðfélagi. Að útkoman í dag sé sú að það verður fyllst náið með stofnunum landsins. Svo að sagan endurtaki sig ekki. Að vernd bara sé í fyrirúmi um ókomna framtíð. 

Anna , 24.4.2010 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband