Að særa út gamlan draug
25.3.2010 | 09:18
Eftir skamma stund mælir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fyrir frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilum fyrri tíma. Þetta er frumvarp sem smíðað var í samráði við meðal annars Breiðavíkursamtökin og sátt náðist loks um, þannig að frumvarpið nýtur stuðnings og því fylgir von um skjóta afgreiðslu.
Þó er eitt og annað þarna sem hefði þurft að vera öðru vísi, fyrir utan að hámarksbætur eru í rauninni lágar, þegar hoft er á verstu tilvikin. En hvað um það; í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins (ekki í ákvæðinu sjálfu, 3. gr.) er að finna "draug" sem leitað verður til þingsins með að særa burt.
Í þessari grein er nánar fjallað um hvað teljist ofbeldi og ill meðferð. Í þessum athugasemdum við þriðju greinina er að finna texta sem reynst gæti stórhættulegur í höndunum á þröngsýnum embættis-ribböldum. Svona hljómar textinn sá í frumvarpsathugasemdunum:
"Ætlast er til þess að við túlkun á framangreindum hugtökum frumvarpsins verði litið til þeirra samfélagsviðmiða sem voru ríkjandi á þeim tíma er atvik gerðust. Við sakarmat í skaðabótarétti er hefðbundið að líta til þeirra reglna og viðmiða sem ríkjandi voru er tjón átti sér stað. Þannig geta seinni tíma reglur og viðmið almennt ekki orðið grundvöllur þess að sök sé slegið fastri vegna atburða sem áttu sér stað í fortíðinni. Við túlkun á hugtökunum ill meðferð og ofbeldi samkvæmt frumvarpinu verður að líta til sambærilegra sjónarmiða, en ljóst er að almenn viðhorf til uppeldis barna hefur breyst umtalsvert á undanförnum áratugum. Framkoma og orðfæri gagnvart börnum er annað en áður var og skilningur á þörfum þeirra, þar á meðal fyrir umhyggju, er annar en áður. Ekki er unnt að fella undir hugtökin illa meðferð eða ofbeldi atriði sem, þrátt fyrir að teljast óásættanleg núna, voru í samræmi við gildandi viðmið á umræddum tíma og tíðkuðust þar af leiðandi mun víðar en á þeim heimilum og stofnunum sem hér eru til umfjöllunar, t.d. á einkaheimilum og spítölum. Af sömu ástæðu er ekki unnt að fella undir hugtökin athafnir eða athafnaleysi sem voru í samræmi við ríkjandi stefnu stjórnvalda á umræddum tíma".
Hættan við þetta sjónarhorn er augljóst. Einhverjum gæti dottið í hug að það hafi verið eðlilegt samfélagsviðmið 1950-1980 að senda "óþekk" börn í vítisvist á einangruðum stað í hendurna á ofbeldisfullum togarajaxl; lemja og berja til hlýðni almennt og yfirleitt og láta strita og kveljast sér til "góðs".
Þingið þarf að kveða upp úr með að "samfélagsviðmið" í anda Þórhalls Hálfdánarsonar sé ekki að flækjast fyrir sómakæru nútímafólki. Misgjörðir við börn voru misgjörðir við börn og þau sköðuðust til lífstíðar, þótt einhverjum vitleysingjum í fullorðins tölu þess tíma hafi dottið sú þvæla í hug að þau hefðu bara gott af þessu!
fþg
Þingfundur hefst í dag kl. 10:30 og er frumvarpið um sanngirnisbætur þriðja mál á dagskrá. Að líkindum hefst umræða um það mál um eða upp úr kl. 11. Hvetjum fyrrum vistbörn til að mæta á þingpallana, fagna frumvarpinu en huga að draugnum (gengið inn um dyr sem snúa að Dómkirkjunni).
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Mannréttindi, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.