Breiðavíkurmálin þremur árum síðar
7.2.2010 | 13:55
Um þessar mundir eru liðin þrjú ár síðan Breiðavíkurdrengirnir stigu fram og sögðu sína sögu, fyrst í DV og Kastljósi. Þjóðarmein var afhjúpað og þjóðarsálin var þrumu slegin. Lesendur og áheyrendur fengu vitneskju um fáheyrða harðneskju sem mætti vistheimilabörnum fyrir bara 30-50 árum. Miðaldra menn stigu fram, lýstu líkamlegu og andlegu ofbeldi og annarri illri meðferð, missi og skort.
Við þekkjum þessa sögu hún gleymist ekki svo glatt. Ekki síður hefur heimildamyndin Syndir feðranna dýpkað þessa umræðu, til viðbótar við mynd Guðnýjar Halldórsdóttur og félaga, Veðramót.
Við þekkjum líka að samfélag nútímans tók þessar frásagnir alvarlega og hrinti af stað rannsókn á fortíð fjölda vistheimila og er sú vinna enn í gangi, í höndum Spanó-nefndarinnar svokölluðu. Fyrst kom Breiðavíkur-skýrslan, en nýverið kom önnur skýrslan út, um Kumbaravog og fleiri heimili. Óljóst er með þriðju skýrsluna, en vinna við sum vistheimili er langt komin.
Stétt stjórnmálamanna á Íslandi þótti málið alvarlegt og ríkisstjórn Geirs H. Haarde (D+S) boðaði sanngirnisbætur og sérstakt frumvarp um það. Vel kom fram að hugsanleg lögbrot frá þessum tímum væru fyrnd. Drög að frumvarpi voru kynnt, en þeim var illa tekið af ætluðum bótaþegum. Á þeim tímapunkti kom Hrunið.
Við það varð ljóst að vísitala manngæsku samfélagsins gæti lækkað, í áðurnefndri sanngirni mælt. Það á eftir að koma í ljós, en eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við málinu hefur bæði komið afsökunarbeiðni innan úr Stjórnarráðinu, fyrir þjóðarinnar hönd og ráðamenn hennar, og betur hefur gengið að eiga samráð við fulltrúa stjórnvalda um hið minnsta aðferðarfræðina við að ákvarða bætur til handa samþykktum bótakrefjendum. Nýtt frumvarp um sanngirnisbætur er í námunda við lokavinnslu. Þar er ýmislegt jákvætt að finna, en sumt vantar enn og þá ekki síst upphæðir. Þær eru enn á huldu.
Breiðavíkursamtökin var fyrst félagsskapur drengjanna frá Breiðavík, en fyrir tveimur árum voru samtökin galopnuð sem samtök fyrrum vistbarna á öllum vistheimilum hins opinbera og þau voru opnuð almenningi. Bæði vegna nafnsins og út frá því hverjir eru duglegastir við að mæta á fundi, hafa samtökin stimpil þessa sérstaka vistheimilis á sér, en þetta eru regnbogasamtök eftir sem áður. Vonandi verða raddir fyrrum vistbarna annarra vistheimila sterkari innan samtakanna þegar frá líður, ef til vill eftir nafnabreytingu (ef til þess stendur vilji). Í sínum samtölum og öðrum samskiptum við fulltrúa stjórnvalda um frumvarpið hafa samtökin að sjálfsögðu hugsað út frá hagsmunum heildarinnar, enda mörkuðu stjórnvöld þá stefnu, sem ekki var vikið frá, að boða lög sem næðu til heildarinnar, en ekki einstakra vistheimila. Reyndar held ég að fáum dyljist sérstaða vistheimilisins að Breiðavík hvað umfang hörmunga varðar, en út af fyrir sig hafði hver staður sína sérstöðu. Ég hygg að árangur hafi náðst, en á lokasprettinum gefur augaleið að það þarf að pressa á Alþingi um að gera betur en ríkisstjórnin. Og það þarf að skýra betur ábyrgð og aðkomu þeirra sveitarfélaga sem áttu hlut að máli.
Það er sanngjarnt í þessu máli að þau fyrrum vistbörn sem urðu að þola MIKIÐ ofbeldi og mikla aðra illa meðferð, persónubundna og félagslega, kulda og skort á hlýju, vinnuþrælkun, menntunarskort, einangrun frá fjölskyldu og eigin menningu og fleira ámóta eigi að fá MIKLAR bætur. Þau sem upplifðu lítið af ofangreindu fái eftir því minna. Þau sem upplifðu ekkert af ofangreindu fái ekkert. Erfitt árferði í samélaginu breytir því ekki á nokkurn hátt, að til að bæturnar verði sanngjarnar verða þær í viðeigandi tilfellum vera í því mæli að það breyti lífi viðtakandans algjörlega til betri vegar.
Það er á teikniborði forsætisráðuneytisins að leggja viðkomandi frumvarp fram um eða eftir miðja febrúar-mánuð. Ástæða er til að hvetja almenning til að liðsinna við að þrýsta á um að uppgjör þessara mála verði þannig að sómi sé að.
Friðrik Þór Guðmundsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Mannréttindi, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:52 | Facebook
Athugasemdir
'Eg þarf að koma upplýsingum (leiðrétta) sem komu fram í Breiðaviku-bloggi(sem ég skrifaði(Svari)) og kom síðan í fréttum einhverjum dögum seina. Í þessu bloggi vildi ég vita hvort einhverjir hefðu upplifað það sama og ég þegar þeir fóru fyrir Spanó-nefnd, ekkert svar fékk ég, einhverjar vikur liðu, og þá kom fram í fréttaauka hjá Elínu H. að það var óánægja með nefndina, það sem fór mest fyrir brjóstið á mér, var að í fréttatíma sama dag á RÚF kom Róbert S. fram og sagði að við þessi sem værum að fara fyrir nefndina mættum ekki nota hana sem sálfræðiaðstoð og að hún væri ekki ætluð í það.
Þetta verð ég að segja að sé HROKI, og að það sé verið að tala niður til okkar.
Að sjálfsögðu var ég ekki að nota þessa nefnd sem Sálfræðing, enda ekki þörf á því og hafði ekki áhuga á því, enda 45.mín viðtal ekki getað bjargað miklu, Það væri mikil máttur ef það væri hægt. 'Eg hef verið hjá Sálfræðingi, þar sem ég hef farið aftur og aftur í gegnum allt mitt líf, svo það segir sig sjálft að ég þurfti ekki að notast við þessar 45.mín sem Sálfræðiþjónustu, enda var ég komin fyrir þessa nefnd til að lýsa þeim hörmungum sem ég varð fyrir á Silungapolli, og ekkert annað vakti fyrir mér, ég held að þessi Spanó-nefnd þurfi að fá skírari skilaboð frá okkur. Og við þessi sem erum búin að fara vel í gegnum líf okkar og fengið mikla hjálp skiljum kannski ekki af hverju ekki má tala um afleiðingarnar af þessum hörmungum fyrir Spanó-nefnd, þar sem við erum mjög meðvituð um afleiðingarnar sem þetta hefur haft á okkur, og engin betri að lýsa því en við sjálf, þar sem jú, það eru við sem upplifum afleiðingarnar.
Sigurveig Eysteins, 8.2.2010 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.