Lög um sanngirnisbætur eru handan hornsins
18.1.2010 | 23:36
Kæru félagar.
Mörg ykkar sáu eflaust frétt í 10-fréttum Sjónvarpsins sl. Þorláksmessukvöld, þar sem fjallað var um væntanlegt frumvarp um sanngirnisbætur og rætt við lögmann okkar Ragnar Aðalsteinsson um helstu athugasemdir samtakanna. Af því tilefni og öðrum er rétt að fara lauslega yfir stöðu mála.
Við héldum félagsfund 8. desember síðastliðinn, þar sem við fórum yfir drög starfshóps á vegum forsætisráðuneytisins að frumvarpi um bæturnar. Við í stjórninni greindum frá aðalatriðum draganna og meðtókum bæði þær athugasemdir sem gerðar voru og þann fögnuð sem fram kom yfir því að málið væri farið að þróast verulega og styttast í niðurstöðu.
Í framhaldi af félagsfundinum kom stjórnin skilaboðum til Ragnars, sem síðan tók saman fantagóða umsögn um frumvarpsdrögin.
Til hafði staðið að leggja frumvarp fram fyrir jólahlé þingsins og freista þess að klára fyrstu umræðu þar og koma málinu til þingnefndar í frekari vinnslu. Það hefur dregist, í sjálfu sér ekki óeðlilega. Bæði tók Icesave alla orku stjórnvalda, sem kunnugt er, og síðan er ekki annað hægt að segja en að starfshópur ráðuneytisins og ráðherra sjálfur þurfi tíma til að melta umsögn okkar/Ragnars. Sú vinna er núna í gangi að okkur er sagt.
Ekki verður annað skilið en að forsætisráðuneytið hyggist klára þessa vinnu með þeim hætti að frumvarp verði lagt fram einhvern tímann um eða eftir 15. febrúar. Ef allt er eðlilegt og sátt ríkir um efni þess eins og það lýtur þá út ættu lög um sanngirnisbætur að sjá dagsins ljós í vor. Án nokkurs vafa verður áfanganum bæði fagnað og ýmislegt í lögunum gagnrýnt. Ekki síður á þá eftir að reyna á framkvæmdina og túlkun á viðkomandi lagaklásúlum og reglugerð.
Líklegt er að saman fari í vor, ný lög um sanngirnisbætur og endalok setutíma núverandi stjórnar Breiðavíkursamtakanna. Því er rétt að félagar fari að huga að því hvað skuli taka við, hvaða fólk eigi að taka við stjórnartaumunum, hvernig unnt sé að breikka starfsgrundvöll samtakanna og ná til fleiri fyrrum vistbarna hins opinbera o.s.frv. Bótamálið hefur eðlilega verið fremur plássfrekt að undanförnu og tímabært að gefa öðrum málum samtakanna aukna athygli!
Að lokum: Fyrirhugað er að halda reglulegan félagsfund að venju síðasta þriðjudagskvöld mánaðarins, 26. janúar næstkomandi, á venjulegum stað kl. 20. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna.
Stjórnin.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Mannréttindi, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.