Færsluflokkur: Mannréttindi
Sögulegur áfangi
12.3.2010 | 11:54
Í dag kl. 13:30 verður kynnt frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum vistheimila ríkisins, sem þola máttu óviðunandi misgjörðir á árum áður.
Frumvarp hafði áður verið smíðað, í stjórnartíð Geirs H. Haarde, en því var illa tekið af samtökum fyrrum vistbarna, enda hugmyndir sem þar komu fram um "sanngjarnar" bætur frámunalega nánasarlegar auk þess sem boðuð aðferðarfræði við ákvörðun bótanna sem þótti fráhrindandi svo vægt sé til orða tekið.
Stjórnvöld settu málið þá í frost og svo helltist Hrunið yfir samfélagið. Ljós í því myrkri var að við tóku skilningsríkari stjórnvöld. Eitthvert fyrsta verk Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra var að biðja þessi fyrrum vistbörn afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar. Síðan hafa verið í gangi hægfara viðræður og þreifingar, við Breiðavíkursamtökin og aðra aðila, en með afleiðingar Hrunsins yfir hausamótunum. Smám saman náðist að breyta aðferðarfræðinni og viðmiðunum öðrum. Fulltrúar ríkisins í þessum viðræðum, yfirleitt lögfræðingar, hafa flestum stundum verið helteknir af lagahyggju og múlbundnir við fyrirliggjandi lagasetningu um bætur og dóma á grundvelli hennar, þótt sama löggjöf sé meira og minna samin af tryggingafélögum landsins í því skyni að hafa bætur sem allra lægstar og jafnframt skorti skilning á því tækifæri sem við hendina var að marka nýtt fordæmi, ný viðmið, nýja forvörn. Á sama tíma varð fulltrúum Breiðavíkursamtakanna ljóst að vegna aðstæðna í samfélaginu, eftir Hrunið, var ekki við því að búast að fallist yrði á ítarkröfur og að til málamiðlunar yrði að koma sem fæli í sér eftirgjöf á höfrðustu væntingum.
Breiðavíkursamtökin (sem eru opin samtök vistbarna allra vistheimilanna og stuðningsaðila) töldu um leið að úrlausn mætti ekki dragast til muna lengur en orðið væri. Samráð stjórnvalda hefur verið gott og viðræður vinsamlegar og þær leiddu til niðurstöðu nú í vikunni. Frumvarpið mun tilgreina hámarks upphæð bóta, sem gjarnan hefði mátt sjást hærri og sem leitað verður til Alþingis um að hækka, eins og gengur, en á félagsfundi samtakanna í gær var samhljóða samþykkt að frumvarpið væri orðið svo viðunandi að ekki yrði lagst gegn framlagningu þess. Stjórn samtakanna taldi enda að ekki yrði lengra komist að svo stöddu og ekki réttmætt að bíða með lagasetningu lengur.
UPPFÆRSLA (texti visis.is):
"Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur vegna misgjörða á stofnunum og heimilum.
Samkvæmt frumvarpinu geta bætur numið allt að 6 milljónum króna til hvers einstaklings.
Þar er kveðið á um bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á tilteknum heimilum og stofnunum fyrir börn.
Við mat á því hvort bótaskilyrði eru uppfyllt verður ekki einvörðungu litið til líkamlegra og sálrænna afleiðinga af vistinni heldur einnig félagslegra eins og missis tækifæra.
Þá segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni að náið samráð hefur verið haft við Breiðavíkursamtökin við vinnslu frumvarpsins og hefur meðal annars verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra um erfðarétt barna vistmanna sem fallnir eru frá.
Þá verður skipaður sérstakur tengiliður við fyrrverandi vistmenn sem munu aðstoða við kröfugerð á hendur ríkinu og leiðbeina um önnur úrræði sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á eins og varðandi menntun og endurhæfingu.
Málsmeðferð verður í tveimur þrepum samkvæmt frumvarpinu.
Dómsmála- og mannréttindaráðherra, sem fara mun með framkvæmd laganna, mun fela tilteknum sýslumanni að gefa út innköllun, fara yfir lýstar kröfur og gera viðkomandi sáttaboð telji hann líkur á að bótaskilyrði séu uppfyllt. Lögð er áhersla á hraða og einfalda málsmeðferð af hálfu sýslumanns.
Uni fyrrverandi vistmaður ekki sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann snúið sér til sérstakrar úrskurðarnefndar sem komið verður á laggirnar. Þar mun fara fram ítarlegri könnun á aðstæðum viðkomandi einstaklings og honum gefinn kostur á að gefa munnlega skýrslu. Á báðum stigum verða sönnunarkröfur vægari en venja er í skaðabótamálum.
Erfitt er að áætla kostnað fyrir ríkið af bótagreiðslum, m.a. vegna þess að rannsókn er ekki enn lokið á öllum þeim heimilum sem falla undir lögin. Komið hafa út skýrslur um Breiðavíkurheimilið, Heyrnleysingjaskólann, Bjarg og Kumbaravog. Skýrslur um Reykjahlíð, Silungapoll og Jaðar eru væntanlegar síðar á árinu.
Síðustu skýrslurnar verða um Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins og munu koma út árið 2011. Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis er tekið það dæmi að ef 100 manns eigi rétt á bótum og hljóti meðalbætur þá verði kostnaður ríkisins 300 milljónir króna auk kostnaðar af starfi úrskurðarnefndar og málskostnaðar.
Frumvarpið var unnið af starfshópi sem í áttu sæti Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, formaður, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðilegur ráðunautur félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra, Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður og Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild HÍ.
Starfshópurinn skilaði af sér fullbúnu frumvarpi fyrr í vikunni nema hvað ákvörðun um hámarksfjárhæð bóta og erfðarétt var vísað til forsætisráðherra.
Frumvarpið verður nú sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til frekari meðferðar og væntanlega lagt fram á Alþingi í næstu viku."
![]() |
Fá bætur vegna illrar meðferðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Breiðavíkurmálin þremur árum síðar
7.2.2010 | 13:55
Um þessar mundir eru liðin þrjú ár síðan Breiðavíkurdrengirnir stigu fram og sögðu sína sögu, fyrst í DV og Kastljósi. Þjóðarmein var afhjúpað og þjóðarsálin var þrumu slegin. Lesendur og áheyrendur fengu vitneskju um fáheyrða harðneskju sem mætti vistheimilabörnum fyrir bara 30-50 árum. Miðaldra menn stigu fram, lýstu líkamlegu og andlegu ofbeldi og annarri illri meðferð, missi og skort.
Við þekkjum þessa sögu hún gleymist ekki svo glatt. Ekki síður hefur heimildamyndin Syndir feðranna dýpkað þessa umræðu, til viðbótar við mynd Guðnýjar Halldórsdóttur og félaga, Veðramót.
Við þekkjum líka að samfélag nútímans tók þessar frásagnir alvarlega og hrinti af stað rannsókn á fortíð fjölda vistheimila og er sú vinna enn í gangi, í höndum Spanó-nefndarinnar svokölluðu. Fyrst kom Breiðavíkur-skýrslan, en nýverið kom önnur skýrslan út, um Kumbaravog og fleiri heimili. Óljóst er með þriðju skýrsluna, en vinna við sum vistheimili er langt komin.
Stétt stjórnmálamanna á Íslandi þótti málið alvarlegt og ríkisstjórn Geirs H. Haarde (D+S) boðaði sanngirnisbætur og sérstakt frumvarp um það. Vel kom fram að hugsanleg lögbrot frá þessum tímum væru fyrnd. Drög að frumvarpi voru kynnt, en þeim var illa tekið af ætluðum bótaþegum. Á þeim tímapunkti kom Hrunið.
Við það varð ljóst að vísitala manngæsku samfélagsins gæti lækkað, í áðurnefndri sanngirni mælt. Það á eftir að koma í ljós, en eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við málinu hefur bæði komið afsökunarbeiðni innan úr Stjórnarráðinu, fyrir þjóðarinnar hönd og ráðamenn hennar, og betur hefur gengið að eiga samráð við fulltrúa stjórnvalda um hið minnsta aðferðarfræðina við að ákvarða bætur til handa samþykktum bótakrefjendum. Nýtt frumvarp um sanngirnisbætur er í námunda við lokavinnslu. Þar er ýmislegt jákvætt að finna, en sumt vantar enn og þá ekki síst upphæðir. Þær eru enn á huldu.
Breiðavíkursamtökin var fyrst félagsskapur drengjanna frá Breiðavík, en fyrir tveimur árum voru samtökin galopnuð sem samtök fyrrum vistbarna á öllum vistheimilum hins opinbera og þau voru opnuð almenningi. Bæði vegna nafnsins og út frá því hverjir eru duglegastir við að mæta á fundi, hafa samtökin stimpil þessa sérstaka vistheimilis á sér, en þetta eru regnbogasamtök eftir sem áður. Vonandi verða raddir fyrrum vistbarna annarra vistheimila sterkari innan samtakanna þegar frá líður, ef til vill eftir nafnabreytingu (ef til þess stendur vilji). Í sínum samtölum og öðrum samskiptum við fulltrúa stjórnvalda um frumvarpið hafa samtökin að sjálfsögðu hugsað út frá hagsmunum heildarinnar, enda mörkuðu stjórnvöld þá stefnu, sem ekki var vikið frá, að boða lög sem næðu til heildarinnar, en ekki einstakra vistheimila. Reyndar held ég að fáum dyljist sérstaða vistheimilisins að Breiðavík hvað umfang hörmunga varðar, en út af fyrir sig hafði hver staður sína sérstöðu. Ég hygg að árangur hafi náðst, en á lokasprettinum gefur augaleið að það þarf að pressa á Alþingi um að gera betur en ríkisstjórnin. Og það þarf að skýra betur ábyrgð og aðkomu þeirra sveitarfélaga sem áttu hlut að máli.
Það er sanngjarnt í þessu máli að þau fyrrum vistbörn sem urðu að þola MIKIÐ ofbeldi og mikla aðra illa meðferð, persónubundna og félagslega, kulda og skort á hlýju, vinnuþrælkun, menntunarskort, einangrun frá fjölskyldu og eigin menningu og fleira ámóta eigi að fá MIKLAR bætur. Þau sem upplifðu lítið af ofangreindu fái eftir því minna. Þau sem upplifðu ekkert af ofangreindu fái ekkert. Erfitt árferði í samélaginu breytir því ekki á nokkurn hátt, að til að bæturnar verði sanngjarnar verða þær í viðeigandi tilfellum vera í því mæli að það breyti lífi viðtakandans algjörlega til betri vegar.
Það er á teikniborði forsætisráðuneytisins að leggja viðkomandi frumvarp fram um eða eftir miðja febrúar-mánuð. Ástæða er til að hvetja almenning til að liðsinna við að þrýsta á um að uppgjör þessara mála verði þannig að sómi sé að.
Friðrik Þór Guðmundsson
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Leitað að vistbörnum á Silungapolli
5.2.2010 | 17:17
Kona, sem vistuð var á Silungapolli um 1945, vill gjarnan komast í samband við fyrrum vistbörn sem voru þar á sama tíma. Upplýsinga má leita í netfanginu elinhirst@gmail.com.
Miðað við sögu vistehimilanna er ljóst að leitað er eftir vistbörnum í fyrstu hópunum sem sendir voru á Silungapoll. Silungapollur var starfræktur frá 1945 til 1971. Þar var rými fyrir 30 einstaklinga í heilsársvistun auk 80 til viðbótar á sumrin. Meginhlutverk Silungapolls var að annast börn í skamman tíma vegna erfiðra heimilisaðstæðna. Dvalartími var mjög breytilegur. Frá nokkrum dögum til nokkurra mánaða og jafnvel nokkurra ára í sumum tilfellum. Flest börn sem voru í heilsársvistun voru ekki á skólaskyldualdri. Þ.e.a.s. ekki orðin 7 ára þó á þvi hafi vissulega verið undantekningar. Silungapollur er í nágrenni Reykjavíkur rétt austan við Rauðhóla og lét Reykjavíkurborg rífa húsakostinn fyrir nokkrum árum.
Lög um sanngirnisbætur eru handan hornsins
18.1.2010 | 23:36
Kæru félagar.
Mörg ykkar sáu eflaust frétt í 10-fréttum Sjónvarpsins sl. Þorláksmessukvöld, þar sem fjallað var um væntanlegt frumvarp um sanngirnisbætur og rætt við lögmann okkar Ragnar Aðalsteinsson um helstu athugasemdir samtakanna. Af því tilefni og öðrum er rétt að fara lauslega yfir stöðu mála.
Við héldum félagsfund 8. desember síðastliðinn, þar sem við fórum yfir drög starfshóps á vegum forsætisráðuneytisins að frumvarpi um bæturnar. Við í stjórninni greindum frá aðalatriðum draganna og meðtókum bæði þær athugasemdir sem gerðar voru og þann fögnuð sem fram kom yfir því að málið væri farið að þróast verulega og styttast í niðurstöðu.
Í framhaldi af félagsfundinum kom stjórnin skilaboðum til Ragnars, sem síðan tók saman fantagóða umsögn um frumvarpsdrögin.
Til hafði staðið að leggja frumvarp fram fyrir jólahlé þingsins og freista þess að klára fyrstu umræðu þar og koma málinu til þingnefndar í frekari vinnslu. Það hefur dregist, í sjálfu sér ekki óeðlilega. Bæði tók Icesave alla orku stjórnvalda, sem kunnugt er, og síðan er ekki annað hægt að segja en að starfshópur ráðuneytisins og ráðherra sjálfur þurfi tíma til að melta umsögn okkar/Ragnars. Sú vinna er núna í gangi að okkur er sagt.
Ekki verður annað skilið en að forsætisráðuneytið hyggist klára þessa vinnu með þeim hætti að frumvarp verði lagt fram einhvern tímann um eða eftir 15. febrúar. Ef allt er eðlilegt og sátt ríkir um efni þess eins og það lýtur þá út ættu lög um sanngirnisbætur að sjá dagsins ljós í vor. Án nokkurs vafa verður áfanganum bæði fagnað og ýmislegt í lögunum gagnrýnt. Ekki síður á þá eftir að reyna á framkvæmdina og túlkun á viðkomandi lagaklásúlum og reglugerð.
Líklegt er að saman fari í vor, ný lög um sanngirnisbætur og endalok setutíma núverandi stjórnar Breiðavíkursamtakanna. Því er rétt að félagar fari að huga að því hvað skuli taka við, hvaða fólk eigi að taka við stjórnartaumunum, hvernig unnt sé að breikka starfsgrundvöll samtakanna og ná til fleiri fyrrum vistbarna hins opinbera o.s.frv. Bótamálið hefur eðlilega verið fremur plássfrekt að undanförnu og tímabært að gefa öðrum málum samtakanna aukna athygli!
Að lokum: Fyrirhugað er að halda reglulegan félagsfund að venju síðasta þriðjudagskvöld mánaðarins, 26. janúar næstkomandi, á venjulegum stað kl. 20. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna.
Stjórnin.
Svipting barnaverndarnefndar fordæmd
10.11.2009 | 19:39
Hvað segir og gerir Jóhanna? Allir á fund! Lesið úr fróðlegri bók...
5.10.2009 | 18:18
Kæru félagar í Breiðavíkursamtökunum - eftir að við öll höfum vandlega hlustað á hæstvirtan forsætisráðherra halda stefnuræðu í kvöld og væntanlega heyrt hana fara lofandi orðum um sanngirnisbætur og fleiri réttlætismál - verður upplagt að mæta á félagsfundinn annað kvöld.
... "lögregluþjónn kom og sótti hann og í fylgd lögreglumannsins var honum ekið vestur í Breiðuvík og það í leigubíl. Í Breiðuvík dvaldist hann á mánuðum saman, aðeins lítið hrætt grey sem þurfti hlýju en hana var víst ekki að finna í Breiðuvík fremur en í heimahögunum"...
Einhver hluti þeirra barna sem vistuð voru á þessu barnaheimili höfðu áður verið á Breiðuvík en verið send suður en svo voru einhverjir sendir aftur til Breiðuvíkur. Sum börnin áttu erfiðara en önnur, man sérstaklega eftir nokkrum mjög ódælum drengjum en þeir voru samt bestu skinn inn við bein, þetta var þeirra varnarháttur eftir mikla erfiðleika á fyrstu árum sínum í foreldrahúsum"...
... "Á heimilið kom stundum maður í heimsókn, frændi Kristjáns, hann var alltaf með sælgæti meðferðis og sumir drengjanna áttu oft sælgæti eftir heimsóknir hans, við vissum fljótt hvers vegna en þögðum þunnu hljóði, héldum að þetta væri bara eðlilegt....
![]() |
Stefnuræða flutt í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enn deyr Breiðavíkurdrengur - og félagsfundur framundan
23.9.2009 | 13:36
Enn einn Breiðavíkurdrengurinn er fallinn langt fyrir aldur fram. Sigurður Lindberg Pálsson lést á heimili sínu 13. september síðastliðinn og fer útför hans fram frá Fossvogskirkju fimmtudaginn 24. september kl. 13 - á morgun.
Sigurður Lindberg var fæddur 12. nóvember 1946 og var á Breiðavík í rúm 2 ár, frá apríl 1958 til ágúst 1960, þegar hann var 11-13 ára. Félagsmenn BRV eru hvattir til að mæta í kirkjuna á morgun.
Ef talningin er rétt þá er Sigurður að líkindum 34. Breiðavíkurdrengurinn af 128, miðað við vistun á tímabilinu 1954-1972. Liðlega fjórðungur manna á besta aldri. Margir þeirra hafa fallið fyrir eigin hendi.
Félagsmenn eru minntir á að reglulegir félagsfundir eru að hefjast á ný, síðasta þriðjudag í hverjum mánuði. Félagsfundur verður því þriðjudagskvöldið 29. september, eftir tæpa viku. Væntanlega í fundarsalnum í JL-húsinu, en það á eftir að staðfesta það og verður tilkynnt um þetta tímanlega.
Skýrsla um Kumbaravog, Bjarg og Heyrnleysingjaskólann
8.9.2009 | 22:23
Og þá er komin Spanónefndar-skýrsla um Kumbaravog, Bjarg og Heyrnleysingjaskólann. Fréttin sem færsla þessi er tengd við segir frá afsökunarbeiðni Jóhönnu til fyrrum vistbarna og nemenda þessara stofnana, en hér að neðan er að finna texta Eyjunnar um skýrsluna og hvað Jóhanna Forsætis er nú að boða. Einnig er neðst að finna tengil á tilkynningu forsætisráðuneytisins og skýrsluna sjálfa.
Innlent - þriðjudagur - 8.9 2009 - 18:16
Forsætisráðuneytið: Lög verða sett um skattfrjálsar bætur vegna misgjörða á vistheimilum. Eftirlit bætt
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að sett verði almenn lög um bætur vegna misgjörða á vistheimilum og að skipuð verði bótanefnd sem tengiliður vistmanna starfar með.
Þetta eru meðal fyrstu viðbragða ríkisstjórnarinnar við skýrslu vistheimilisnefndar um Heyrnleysingjaskólann, Kumbaravog og skólaheimilið Bjarg, sem skýrt er frá í tilkynningu forsætisráðuneytisins nú undir kvöld.
Þar er einnig rætt um skattfrelsi bóta og erfðarétt vegna einstaklinga sem fallið hafa frá og jafnframt að eftirlit með vistheimilum af hálfu hins opinbera verði bætt.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem segir þessa atburði svartan blett í sögu þjóðarinnar, og Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra, báðust formlega afsökunar á misgjörðunum fyrir hönd stjórnvalda í dag. Félagsmálaráðherra viðurkennir að opinbert eftirlit með starfsemi vistheimilanna hafi í öllum tilvikum brugðist.
Samkvæmt fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins ákvað ríkisstjórnin ákvað eftirfarandi sem fyrstu viðbrögð:
1. Starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins verði falið að semja drög að frumvarpi til laga þar sem mælt verði fyrir um greiðslu bóta til þeirra sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum er heyra undir gildissvið laga nr. 26/2007. Þar verði byggt á þeim viðræðum sem þegar hafa átt sér stað milli ráðuneytisins og Breiðavíkursamtakanna en hliðsjón höfð af niðurstöðum vistheimilisnefndar í hinni nýju áfangaskýrslu. Stefnt verði að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi fljótlega eftir að haustþing kemur saman.
2. Starfshópi á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins verði falið að undirbúa stefnumótun stjórnvalda í málefnum heyrnarlausra með hliðsjón af áður fram komnum tillögum og áfangaskýrslu vistheimilisnefndar.
3. Ítrekað verði að úrræði þau á sviði geðheilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisyfirvöld komu á laggirnar í kjölfar skýrslu vistheimilisnefndar um Breiðavíkurheimilið standi einnig til boða fyrrverandi vistmönnum á öðrum heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.
4. Félags- og tryggingamálaráðherra taki mið af áfangaskýrslunni við endurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd og eftirliti á því sviði.
Sett verði almenn lög
Að því er varðar mögulegar bætur til fyrrverandi vistmanna á heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 þá hefur forsætisráðuneytið frá því í apríl síðastliðnum átt í viðræðum og bréfaskiptum við Breiðavíkursamtökin. Er þar meðal annars rætt um hvernig megi endurbæta það frumvarp sem þáverandi ríkisstjórn hafði látið vinna vorið 2008 og kynnt hafði verið samtökunum á þeim tíma. Það frumvarp var meðal annars gagnrýnt fyrir að bætur væru of lágar og of mikil áhersla lögð á að sýnt væri fram á geðrænar afleiðingar vistunar. Síðustu samskipti voru þau að ráðuneytið sendi bréf með ákveðnum hugmyndum 8. júlí sl. og Breiðavíkursamtökin svöruðu með bréfi dags. 18. ágúst sl. Ráðuneytið hafði lýst sig reiðubúið til að útfæra bráðabirgðasátt varðandi Breiðavíkurheimilið á grundvelli núgildandi fjárheimilda en því var hafnað.
Þess vegna er áfram unnið að því að sett verði almenn lög sem geti átt við um bætur vegna misgjörða á öllum þeim heimilum sem koma til skoðunar á grundvelli laga nr. 26/2007 um vistheimilisnefnd. Áður en rætt er um fjárhæðir í einstaka tilfellum er mikilvægt að ná sátt um aðferðafræðina við ákvörðun bóta, þ.e. rammann um sátt samfélagins við þá sem eiga um sárt að binda eftir dvöl á vistheimilum fyrir börn.
Meginatriði löggjafar
Ráðuneytið sér fyrir sér að meginatriði löggjafar verði þessi:
a. Sett verði á fót bótanefnd en samhliða henni starfi tengiliður vistmanna við stjórnvöld er aðstoði fyrrverandi vistmenn við að ná fram rétti sínum, m.a. varðandi félagslega aðstoð, heilbrigðisþjónustu og menntun. Þegar skýrsla vistheimilisnefndar liggur fyrir verði auglýst eftir þeim sem telja sig eiga rétt á bótum.
b. Bótanefnd geti úrskurðað almennar bætur er nemi tiltekinni fjárhæð, sem eftir er að ákveða, og sé meginskilyrði að vistmaður hafi sjálfur orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan vistun stóð. Ekki verði um strangar sönnunarkröfur að ræða.
c. Í sérstökum tilfellum verði heimilað að hækka bætur að álitum. Hækkun bóta geti m.a. komið til vegna alvarleika ofbeldis eða illrar meðferðar, aðdraganda vistunar eða tímalengdar vistunar.
d. Kveðið verði á um skattfrelsi bóta, erfðarétt vegna einstaklinga sem fallnir eru frá, aðgang bótanefndar að gögnum vistheimilisnefndar til að einfalda málsmeðferð og lögmannsaðstoð.
Forsætisráðherra mun nú fela starfshópi að undirbúa frumvarp á grundvelli samskipta ráðuneytisins við Breiðavíkursamtökin og í ljósi fyrstu áfangaskýrslu vistheimilisnefndar sem fjallar um þrjú heimili til viðbótar eins og áður segir. Samráð verður haft við samtök fyrrverandi vistmanna og hlutaðeigandi sveitarfélög.
Skýrsla vistheimilisnefndar verður lögð fram á Alþingi í næsta mánuði, segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.
Skýrsla vistheimilanefndar í heild
![]() |
Jóhanna biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Breiðavíkurlífið um 1980
5.8.2009 | 19:05
Á þessari slóð er hægt að hlusta á mjög fróðlegt viðtal Jónasar Jónassonar frá því um 1980 við nafna sinn, forstöðumann á Breiðavík um 1980, við uppeldisfulltrúa þar og tvo ónafngreinda "vistmenn".
Þetta er löngu á eftir ofbeldisfyllsta tímabilið og vistmenn orðnir miklu færri en áður, en kvartanir forstöðumannsins eru athyglisverðar; heimilið fjárvana, engin eftirfylgni eftir vistun og öll loforð um umbætur vanalega svikin. Uppeldisfulltrúinn er ekki glöð heldur og enn síður piltarnir tveir sem rætt er við - og einhver depurð að svífa yfir vötnunum, hálfgert vonleysi. Holl hlustun.
Gaman væri að fá komment frá fyrrum vistmönnum þessa tímabils, um 1978-1980. Að öllum líkindum var endanlega búið að loka breiðavík skömmu eftir viðtalið. Kannski átti það sinn þátt í því!?
Og þá tökum við þrjú skref áfram!
10.7.2009 | 13:20
Eins og sagt var frá hér á bloggsíðunni í gær hefur samtökunum borist bréf frá forsætisráðuneytinu og í Morgunblaðinu í dag (sbr. viðtengd frétt) tjáir Bárður R. Jónsson formaður sig um bréfið. Hann bendir réttilega á að viss atriði í bréfinu séu neikvæð, en tekur jafnframt fram að stjórnvöld vilji vinna að málinu í sátt við stjórnvöld og að útspilinu sem slíku sé fagnað.
Við ræðum efni bréfsins á félagsfundinum sem boðaður hefur verið n.k. þriðjudagskvöld (sjá síðustu færslu), en umsjónarmaður þessarar bloggsíðu bendir á neðangreinda færslu á bloggsíðu ritara stjórnar samtakanna (sem er einn og sami maðurinn!):
"Ég er stjórnarmaður í Breiðavíkursamtökunum og tek að sjálfsögðu undir að viss atriði í nýju útspili (bréfi) forsætisráðuneytisins eru alls ekki jákvæð. Og fela jafnvel í sér afturför. En eins og Bárður formaður þá fagna ég líka (það stendur þarna í fréttinni) að unnið sé að málinu í sátt við Breiðavíkursamtökin, útspilinu er almennt fagnað og áfram munu viðræðurnar halda.
Staðreyndin er sú að viðræðurnar um bætur hafa skilað aðilum nokkuð áleiðis, þótt sumir vilji fara hraðar en aðrir og hugmyndir sumra um sanngjarnar bætur allt aðrar en hugmyndir annarra um hvað geti talist sanngjarnt í þessu efni. Klárlega - og það er mín skoðun - eru viðræðurnar að þoka málinu áfram hvað aðferðarfræði varðar; menn eru ekki að þjarka um upphæðir eins og er.
Og klárlega setti ráðuneytið í bréfið klásúlu sem leggst illa í fyrrum vistbörn á Breiðavík, þ.e. um mikla takmörkun á greiðslu bóta til erfingja látinna fyrrum vistbarna. Af um 150 fyrrum vistbörnum á Breiðavík 1954-1980 eru líklega 35-36 látin (sem er óhugnanlega hátt hlutfall hjá nú miðaldra fólki) og samkvæmt klásúlunni ættu aðeins erfingjar 2-3 þeirra að fá bætur (þ.e. vegna fyrrum vistbarna sem náðu að gefa Vistheimilanefnd skýrslu fyrir andlátið!). Þegar á þetta var bent í gær var ráðuneytið hins vegar fljótt að taka fram að viðkomandi orðalag yrði tekið til endurskoðunar.
Ég skil gremju formannsins mjög vel og eins er ég sammála honum um að það sé takmarkað skjól í því að bera efnahagsástandið fyrir sig. Þessar bætur eru "smámunir" miðað við ýmislegt sem er að taka til sín fjármuni úr ríkissjóði. Og það má alltaf semja um tilhögun greiðslu bótanna, t.d. dreifa afborgunum. Eru menn ekki að tala um bætt efnahagsástand strax eftir næsta ár? Og enn vil ég vitna í Gylfa Ægisson: Ef það eru ekki til peningar fyrir Breiðavíkurbörnin þá eru ekki til peningar fyrir Icesave.
Ég vil persónulega ekki túlka það sem viljaleysi hjá stjórnvöldum að bótamálið gangi ekki hraðar fyrir sig. Mál þessi hafa þó þokast áfram eftir að Jóhanna tók við í forsætisráðuneytinu í upphafi þessa árs. Og það er samkvæmt vilja Breiðavíkursamtakanna að ekki var stefnt að samkomulagi um frumvarp nú á sumarþingi, heldur stefnt á haustþing, enda ástæða til að þoka hugmyndum um bótarétt og upphæðir upp á við".
www.lillo.blog.is/blog/lillo/entry/911476/
![]() |
Ný tillaga í Breiðavíkurmálinu skref aftur á bak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |