Færsluflokkur: Dægurmál

Komin með "kompu" - hittumst 31. mars

Næsti félagsfundur Breiðavíkursamtakanna verður að vanda síðasta þriðjudag mánaðarins, sem að þessu sinni er síðasti dagur mánaðarins, 31. mars.

Nú ber svo við að við fögnum saman opnun nýrrar (lítillar og sætrar) skrifstofu á fjórðu hæð í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar að Hringbraut 121. Fundurinn verður þó haldinn í fundarsalnum á hæðinni fyrir neðan, en við skoðum auðvitað "kompuna" saman.

Í tilefni dagsins leitumst við að hafa þennan félagsfund í léttari kantinum, nema ný og þyngri tíðindi neyði okkur til annars. Með fyrirvara um breytingar nefni ég hér fundartímann kl. 20:00 til 22:30, en við viljum að fólk sé helst farið áður en þjófavarnarkerfið er sett á kl. 23:00. 

Sjáumst þá eftir 11 daga frá deginum í dag að telja!


Breiðavíkursamtökin huga að efldu starfi

Það er óhætt að segja að hugur hafi verið í fólki á vel sóttum félagsfundi BRV sl. fimmtudagskvöld, þegar félagsmenn komu saman til að ræða hagsmunamál sín. Að stjórnarmönnum slepptum tóku um tuttugu fundarmenn til máls og þótt áherslur hafi á köflum verið misjafnar þá er óhætt að segja að fundurinn hafi boðað aukna samstöðu og eflda sókn. Hér að neðan er fundargerð félagsfundarins (skrásett af FÞG).

Fundargerð félagsfundar BRV 27. nóvember 2008.

Dagskrá:

1. Hagsmunamál félagsins; staða og starfsemin framundan. 2. Önnur mál. Fundarstjóri og -ritari: FÞG.

Bárður Ragnar Jónsson formaður BRV gerði grein fyrir stöðu mála. Fram kom að hrun fjármálakerfis landsins hefði haft mikil áhrif á það starf sem komið var í gang gagnvart stjórnvöldum í bótamálum og hefði stjórn BRV meðvitað ákveðið að hlé yrðu á þeim viðræðum meðan stjórnvöld fengju andrými til að kljást við hinn mikla vanda. Augljóslega væri hætta á því að samtökin glötuðu samúð og skilningi meðal þjóðarinnar ef hart væri gengið eftir bótum akkúrat á meðan á mestu krísuaðgerðunum stæði. Fjarri sé þó að um nokkra eftirgjöf sé að ræða. Í samráði við Ragnar Aðalsteinsson lögmann hefði og verið ákveðið að senda forsætisráðuneytinu bréf eftir helgina til að inna eftir fréttum og óska eftir áframhaldandi fundarhöldum. Formaðurinn taldi að á næstu vikum hlyti meginþunginn á starfsemi samtakanna að liggja í bótamálinu, en áhersla á önnur baráttumál myndi aukast í kjölfarið.

Formaðurinn kom inn á þau vandræði sem verið hefðu uppi vegna heimasíðu samtakanna; að þótt miklir peningar hefðu farið í hana væri hún mjög illa notendavæn og enn unnið í málinu. Þá nefndi formaðurinn að nú styttist í að samtökin fengju skrifstofuherbergi til leigu í JL-húsinu hjá ReykjavíkurAkademíunni gegn sanngjarnri leigu og standa vonir til þess að slík aðstaða marki tímamót fyrir eflda starfsemi.

Þór Saari, gjaldkeri BRV greindi stuttlega frá fjármálum samtakanna og er ljóst að þau eru ekki til vandræða þótt fjárráð séu ekki mikil.

Mælendaskrá var síðan opnuð og tóku fjölmargir til máls:Tómas, Gunnar Júl., Gunnar Snorra, Konráð Ragnars, Óli Svend, Gísli Már, Maron, Sigurður, Ester, Hannes, Jón Guðmunds, Sigurgeir Friðriks, Víglundur, Eymar Einars, Jóhannes Bjarna auk stjórnarmanna. Stjórnin fékk eðlilega ákúrur fyrir fremur dapurt félagsstarf að undanförnu og margar spurningar voru bornar fram um bótamálið og skort á fundarhöldum og upplýsingagjöf. Stjórnin fékk þó einnig hrós. Ritari stjórnar gat þess að félagaskrá samtakanna væri mjög ófullkomin og lítt gengi að fjölga félögum - ekki mætti gleyma því að ekki væri hægt að skrá öll fyrrum vistbörn í félagið; fólk yrði að óska eftir inngöngu. Þess má geta að eftir fundinn teljast félagsmenn "aðeins" vera 48, en vistbörn á hinum umdeildum vistheimilum auðvitað margfalt fleiri. hvatti FÞG mætta til að fá öll "vistbörn" sem þau þekktu til inn í samtökin. 

Á fundinum var samþykkt tillaga um að efla starfsemi félagsins hvað "léttari" samkomur varðar, þ.e. að huga einnig vel að félagslífi á borð við spilakvöld og slíkt. Var samþykkt tillaga um kosningu í þriggja manna "skemmtinefnd" í því skyni. Hins vegar var felld tillaga þess efnis að beina því til forsætisráðuneytisins að greiðslur til fyrrum vistbarna eigi að hefjast þegar í stað og nema 250 þúsund krónum á mánuði þar til málin yrðu gerð upp, en helsta mótbáran gegn þessu var að slík tillaga eða krafa myndi flækja alla samningsgerð. Þá kom og til tals að fyrrum vistbörn, sem ekki voru í Breiðavík, séu enn ekki farin að líta á samtökin sem sín, líkast til vegna nafnsins og þeirrar áherslu sem lögð hefði verið á Breiðavíkurheimilið í umræðunni. Þessu yrði að breyta, en rifja má upp að fyrir síðasta aðalfund var nafnabreyting rædd en henni ekki hrint í framkvæmd.

Fjölmargt annað kom fram sem þarfnaðist ekki sérstakrar bókunar og fleira ekki gert. FÞG.


Rífandi stemning á félagsfundi BRV

Það var vel mætt á fjörugan félagsfund hjá Breiðavíkursamtökunum í gærkvöldi, þar sem staða og horfur í málefnum samtakanna voru rædd í þaula. Nánari frásögn upp úr fundargerð kemur síðar og vonandi um helgina, en óhætt er að segja að andi fundarins hafi lotið að efldu félagsstarfi og nýrri sókn í hagsmunamálum, ekki síst bótamálunum, sem undanfarið hafa setið á hakanum vegna hrunsins á fjármálakerfi landsins.

Á fundinum var samþykkt tillaga þess efnis að kjósa þriggja manna "skemmtinefnd" og efla þannig innbyrðis samstöðu og um leið fjalla um fleira en það sem grafalvarlegt er. Bótamálin hafa verið nokkuð fyrirferðarmikil undanfarið, en langur vegur frá að það sé eina og jafnvel ekki aðalmálið hjá félagsmönnum. Áríðandi sé að huga vel að þeim málum en jafn mikilvægt að félagsmenn komi saman á léttari nótunum til að hífa upp andann og styrkja hver annan. 

Nánar um fundinn sem fyrst!


Mistök gerast með ýmsum hætti og misalvarlegum afleiðingum

Nú virðast þingmenn allra stjórnmálaflokka sammála um að þeir hafi gert mistök við samningu og samþykkt eftirlaunalaganna svo kölluðu. Öllum verða á mistök og sem betur fer ekki alltaf sem mistök hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Eitt er að gera mistök sem fyrst og fremst fóðra vasa ráðamanna og þau mistök eru einna verst fyrir skattgreiðendur, sem gjarnan vildu sjá þennan pening renna til verðugri málefna.

Í gegnum árin hafa ráðamenn og barnaverndaryfirvöld því miður gert mörg mjög alvarleg mistök og vonandi oftast sökum vanþekkingar frekar en út af hugsunarleysi og heimsku, ef ekki illvilja. Uppsetning vistheimilisins Breiðavíkur á sjötta áratug síðustu aldar er dæmi um grafalvarleg mistök. Ákvörðun var tekin út frá óskhyggju og kjördæmapoti, en undirbúningurinn og útfærslan var mjög áfátt. Svo virðist einnig eiga við um fleiri vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda fyrr á árum og enn í dag kann pottur víða að vera brotinn.

Breiðavíkursamtökin vilja að öll verk barnaverndaryfirvalda í gegnum árin verði krufin til mergjar og af þeim lært. Það er óásættanlegt með öllu að börn og unglingar verði beint eða óbeint að fórnarlömbum barnaverndaryfirvalda eða starfsmanna á þeirra vegum. Tökum þessu alvarlega. 


mbl.is Mistök gerð við setningu eftirlaunalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband