Færsluflokkur: Fjölmiðlar
„Faðir minn átti aldrei möguleika“
20.4.2011 | 10:42
Nýtt í DV.
Faðir minn átti aldrei möguleika, segir Þráinn Eðvaldsson, sonur Eðvalds Magnússonar. Eðvald var einn Breiðavíkurdrengja og féll fyrir eigin hendi árið 2005. Hann svipti sig lífi kvöldið áður en til stóð að Breiðavíkurdrengir hittust allir í fyrsta sinn til þess að ræða dvölina þar.
Hlutfall þeirra vistbarna sem eru látin í dag segir sína sögu. 33 af alls 158 vistbörnum Breiðavíkurheimilisins á árunum 19521979 eru látin. Þess utan hefur Breiðavíkurnefndin sem leitaði vistmenn uppi greint frá því að ellefu einstaklinga hafi hún ekki fundið. Eðvald Magnússon dvaldi á Breiðavík frá 24. febrúar 1966 til 21.desember 1967. Þá var yfirmaður heimilisins Þórhallur Hálfdánarson sem viðurkennt er að hafi beitt vistbörn ofbeldi.
Gat ekki haldið heimili
Þráinn ólst upp hjá móðurforeldrum sínum því Eðvald sinnti föðurhlutverkinu illa enda glímdi hann við mikla vanlíðan öll sín ár.
Þráinn fékk samt stundum að hitta föður sinn þegar hann átti góða daga og var ekki langt leiddur af áfengis- og fíkniefnaneyslu. Þá fórum við í bíó eða gerðum eitthvað skemmtilegt saman, segir Þráinn frá. Faðir minn gat ekki annast mig. Hann hélt til að mynda aðeins einu sinni á lífsleiðinni heimili. Ég man að mér fannst nokkuð til þess koma. En það stóð ekki lengi því hann gat ekki hugsað um sjálfan sig eins og aðrir. Honum leið of illa til þess. Móðir mín var of ung til að annast mig og því kom það í hlut foreldra hennar. Hún var mér eins og systir og er enn í dag. Ég ólst upp við gott atlæti hjá ömmu og afa og það er lukkan í mínu lífi.
Opinskátt viðtal við Þráinn Eðvaldsson í páskablaði DV
Í greininni er rangfært að Björn Loftsson hafi verið yfirmaður á þessum tíma. Það er Þórhallur Hálfdánarson sem var yfirmaður á þessum tíma.
http://www.dv.is/frettir/2011/4/20/sonur-breidavikurdrengs-berst-fadir-minn-atti-aldrei-moguleika/
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)