Börn dagsins í dag eru líka í vanda

Hér fyrir neðan eru tvær fréttir úr Fréttablaðinu á síðasta ári sem ástæða er til að rifja upp, til áréttingar því að slæm meðferð á börnum og unglingum er ekki fortíðarvandi og einskorðast að sjálfsögðu ekki við vistunarúrræði. Ofbeldi og vanræksla eru því miður víða fyrir hendi.

 

 

Fréttablaðið, 04. nóv. 2007 00:30

Á fjórða þúsund börn í vanda

Fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu sex mánuðum þessa árs reyndist vera 3.567, en í sumum tilvikum var tilkynnt oftar en einu sinni um sama barn. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda hér á landi fjölgaði mjög á milli ára 2006 og 2007, um ríflega eitt þúsund. Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs voru þær 3.321 talsins en samtals 4.383 á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Þetta sýna nýjar niðurstöður Barnaverndarstofu sem hefur nú borið saman fjölda tilkynninga milli fyrstu sex mánaða beggja ára. Samkvæmt þessu er aukningin á fjölda tilkynninga milli ára tæp 32 prósent. „Ég finn til með öllum þessum börnum hvort sem þau eru ársgömul eða á unglingsaldri," segir Guðjón Ólafur Jónsson, formaður Barnaverndar Reykjavíkur. Hann segir að mörg þeirra mála sem koma inn á borð hjá Barnavernd séu vegna vímuefnaneyslu foreldra en það sé þó ekki einhlítt.

Samtals 3.078 tilkynningar voru af höfuðborgarsvæðinu og 1.305 af landsbyggðinni. Fjöldi barna sem tilkynnt var um reyndist vera 3.567, en í sumum tilvikum var tilkynnt oftar en einu sinni um sama barn. Til samanburðar var tilkynnt um 3.092 börn á fyrstu sex mánuðum ársins 2006, þannig að aukningin milli ára er 15 prósent. Barnaverndarnefndir hófu könnun á högum 1.487 barna af þeim sem tilkynnt hefur verið um á þessu ári.

„Því miður er það þannig að mál fólks sem hefur verið í langvarandi vímuefnaneyslu koma ítrekað inn á borð til okkar," segir Guðjón. Hann segir að vissulega spyrji starfsmenn Barnaverndar sig hvort ekki sé oftar ástæða fyrir forræðissviptingu en raun ber vitni. „Það er samt mjög harkaleg aðgerð að taka barn frá foreldri og því þarf að fara mjög varlega í þeim efnum." Fimm til tíu foreldrar eru sviptir forræði barna sinna á ári.
Fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda má einkum skýra með fjölda lögregluskýrslna, að því er fram kemur hjá Barnaverndarstofu. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 bárust barnaverndarnefndum 1.813 tilkynn­ingar frá lögreglu en á árinu 2007 voru þær 2.568.

Tilkynningum um kynferðis­ofbeldi gagnvart börnum fjölgaði á milli ára. Fyrstu mánuði 2006 voru þær 172 en 226 á árinu 2007. Fjöldi tilkynninga sem berast í gegnum Neyðarlínuna 112 hefur staðið í stað milli ára. Samtals voru tilkynningar 346 bæði árin 2006 og 2007. Hins vegar tekur Barnaverndarstofa fram að fleiri tilkynningar sem bárust í gegnum Neyðarlínuna voru raunverulegar barnaverndartilkynningar í ár heldur en í fyrra, því sumt af því sem tilkynnt er til Neyðarlínunnar flokka nefndir ekki sem barnaverndartilkynningar.
jss@frettabladid/karen@frettabladid.is

 
Fréttablaðið,
03. júlí. 2007 06:15

Fimmti hver nemandi hefur sætt ofbeldi

 

Um tíunda hvert barn sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd.

Um fimmti hver nemandi í 7. og 9. bekk sem svaraði spurningalistum Barnaverndarstofu sagðist hafa sætt líkamlegu ofbeldi á heimili sínu. Svipað hlutfall sagðist hafa sætt ofbeldi í skóla. Um þriðjungur barnanna sögðust hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi í einhverri mynd.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Barnaverndarstofu sem birtar voru í gær. Um forprófun á spurningarlistum var að ræða og úrtakið því aðeins rúmlega 100 börn. Af þeim orsökum bendir Barnaverndarstofa á að varhugavert sé að alhæfa út frá niðurstöðunum, en þær gefi vísbendingar um reynslu barna af ofbeldi. Rannsóknin var gerð fyrir Alþjóðasamtök gegn ofbeldi og vanrækslu á börnum (ISPCAN).
Í könnuninni voru börnin spurð um hvort einhver á heimilinu hafi barið þau, löðrungað eða flengt með lófanum. Tæplega átta prósent sögðu það gerast stundum, og um tíu prósent sögðu það hafa gerst, en ekki á síðasta ári. Börnin sögðu að í um helmingi tilfella hafi það verið fullorðnir einstaklingar sem beittu ofbeldinu.

Einnig var spurt um kynferðislegt ofbeldi. Tæplega einn af hverjum tíu greindi frá því að viðkomandi hafi sætt kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd. Til dæmis sögðu um fimm prósent barnanna að einhver á heimili þeirra hafi reynt að neyða þau til að hafa við sig samfarir.

(allar feitletranir og undirstrikanir fþg)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband