Stefán Þ. Karlsson - enn deyr Breiðvíkingur

stefan karlssonBreiðvíkingurinn Stefán Þorkell Karlsson ljósmyndari andaðist heima hjá sér þann 2. júní síðastliðinn. Af Breiðvíkingum á tímabili drengjavistunar, 1953-1972, hafa þar með andast að lágmarki 33 af 126 drengjum eða rúm 26% (en óljóst er með afdrif eins til þriggja til viðbótar).

Stefán fæddist 15. maí 1954 og var því 56 ára. Hann var vistaður á Breiðavík aðeins 10 ára gamall, í september 1964 og var vistaður vestra í tæp 2 ár, "losnaði" í ágúst 1966. 

Stefán átti 5 eigin börn, með fjórum mæðrum, og var fósturfaðir tveggja til viðbótar. Breiðavíkursamtökin senda þeim og öðrum aðstandendum sínar innilegustu samúðarkveðjur. Formaður samtakanna, Bárður Ragnar Jónsson (sem var samtíða Stefáni vestra) minnist hans í athugasemdadálki við færslu þessa.

Jarðarförin fer fram frá Digraneskirkju þriðjudaginn 15. júní kl. 15.

Minningargreinar úr Morgunblaðinu er að finna í athugasemdadálk færslunnar. Blessuð sé minning Stefáns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við Stefán vorum samtíða í Breiðavík á þeim tíma sem Þórhallur Hálfdánarson fór fyrir heimilinu. Stefán var árinu yngri en ég og með okkur tókst strax vinátta. Stefán var  uppátækjasamur og hugmyndaríkur, elskur að náttúrunni og hafði sérstakt dálæti á fuglum, hændi þá að sér og hélt mikið upp á máva-ungana sem við tókum í fóstur. Hann ætlaði að verða ríkur á því að finna upp gegnsætt stál og hlustaði ekkert á efasemdir mínar í því efni. En þrátt fyrir að hafa tengst vináttuböndum í Breiðavík þá röknuðu þau sundur þegar við fórum hvor í sína áttina og þótt við hittumst stundum í þeim ólgusjóum sem við báðir sigldum voru æskuárin að baki og við báðir nokkuð harðnaðir. Ég hitti svo Stefán á fundi hjá Breiðavíkursamtökunum, hafði þá ekki séð hann í átján ár nema tilsýndar. Hann vildi strax gagnast samtökunum og filmaði nokkra fundi og kom því að skráningu sögu samtaka okkar. Það þykir ekki löng ævi, 55 ár, en það hafa orðið örlög margra mannanna sem dvöldu á Breiðavík að deyja fyrir aldur fram. Enn einn er farinn og þetta eru dýrmætir menn.

Ég votta aðstandendum Stefáns samúð mína.

Bárður R. Jónsson

Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 10.6.2010 kl. 23:10

2 Smámynd: Anna

Ég votta aðstandendum Stefáns samúð mína. Við vitum ekki hver verður næstur það gæti alveg eins verið bróðir minn. Ég hræðis símtalið þegar það kemur. Ég veit hvað hann upplífið á þessu heimili. Helvíti með von um frelsi. Dag hvern.

Anna , 12.6.2010 kl. 16:34

3 Smámynd: SVB

Þriðjudaginn 15. júní, 2010 - Minningargreinar í Morgunblaðinu:

Stefán Þorkell Karlsson

Stefán Þorkell Karlsson var fæddur 15. maí 1954 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu 2. júní sl.

Foreldrar hans voru Karl G. Ingimarsson, f. 20.9. 1925, d. 18.1. 2006, og Stella Stefánsdóttir, f. 20.5. 1932, d. 2.7. 2009. Systur Stefáns eru: Jóna, f. 11.7. 1950, Stefanía, f. 25.2. 1953, m.h. Jóhannes G. Pétursson, og Guðbjörg Edda, f. 14.7. 1959, m.h. Gunnar Sigurðsson. Samfeðra: Sólveig Gyða Guðmundsdóttir, f. 17.7. 1946.

Kona Stefáns var Hafdís Erna Harðardóttir, f. 25.4. 1955. Þau skildu. Börn: 1) Stefán Bjartur, f. 28.7. 1972, börn: Jóhannes Helgi og Selma Björt, 2) Helga Sonja, f. 16.2. 1975, börn: Líf Hafdís, Bryndís Eir og Gyða. Dóttir með Björgu Jónsdóttur, f. 23.8. 1955, er Ingibjörg Elíasdóttir, f. 21.8. 1977, í sambúð með Þórði Má Sigurðssyni, börn: Guðlaug Elísa, Jóhann Bergur og Alexandra Sigurbjörg. Sonur með Önnu Maríu Haraldsdóttur, f. 28.1. 1961, er Davíð, f. 29.3. 1988, í sambúð með Ölmu Ósk Árnadóttur, og dóttir með Þóru Vilhjálmsdóttur, f. 18.5. 1966: Stefanía Katrín Sól, f. 24.7. 1997. Þóra átti fyrir Júlíus Þór og Vilhjálm Þór er Stefán gekk í föðurstað.

Hann fór á togara 15 ára og vann hin ýmsu störf en hefur átt við veikindi að stríða undanfarin 13 ár.

Útför Stefáns Þorkels fer fram í Digraneskirkju í dag, 15. júní 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Það er erfitt að kveðja eina bróður sinn langt um aldur fram. En nú þurfum við að gera það í dag. Honum tókst alltaf að koma manni á óvart og einnig í þetta sinn. Hann var einstakur maður og átti sér engan líka. Hann lenti í því eins og fleiri að fara á Breiðuvík. Allt hans líf einkenndist af því eftir það og má rekja hans snemmbæra dauða til dvalarinnar þar. En hann átti skemmtilegar hliðar. Hann var góður sögumaður. Hann var alltaf í góðu skapi á hverju sem gekk. Hann var bráðvel gefinn. Hann var einstaklega gjafmildur. Og nú síðustu ár kom í ljós að hann var listhneigður. Hann fór að stunda ljósmyndun fyrir meira en áratug og tók glettilega góðar myndir. Og í vetur höfum við systkinin ásamt fleiri hist einu sinni í viku til að gera skartgripi. Og hann vissi alveg hvernig hann vildi hafa gripina og voru þeir ávallt fallegir og mjög listrænir og auðvitað öðruvísi en okkar. Hann varð mjög ungur faðir. Ekki bar hann gæfu til að fá að ala börnin sín upp nema það yngsta og tvo fóstursyni og sýndi hann okkur þar hversu ábyrgur og góður faðir hann var. Stefán lifði lífinu lifandi alla tíð og á methraða. Við munum ávallt sakna hans og allra góðu stundanna sem við höfum átt saman.

Megi æðri máttur vaka yfir honum og styrkja Þóru og börnin hans í sorginni sem og aðra aðstandendur.

Systurnar, Jóna, Stefanía og Guðbjörg Edda.

Eitt sinn þegar ég var tíu ára eða svo, sinnaðist mér harkalega við móður mína. Ég þrammaði upp í herbergið mitt, setti helstu nauðsynjar í gulan sjópoka og tilkynnti móður minni að ég væri farin að heiman, ég ætlaði að fara og finna hann pabba minn. Fljótlega gerði ég mér þó ljóst að erfitt væri fyrir svo litla hnátu að finna einhvern úti í hinum stóra heimi, ég tala nú ekki um á árunum fyrir tíma Google. Ég neyddist því til að bíða enn um sinn.

Svo fór að leiðir okkar lágu ekki saman fyrr en ég varð sextán ára og urðum við strax hinir mestu mátar. Loksins fékk ég að vita hvaðan ég hafði þrjóskuna og hirspursleysið, það kom klárlega frá þér elsku pabbi. Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk að hafa þig í lífi mínu og fyrir allar stundirnar sem við eyddum saman. Ég dáðist alltaf að styrk þínum, sem þú sýndir alltaf þrátt fyrir mikil og erfið veikindi í fjölmörg ár. Þú varst alltaf jákvæður og æðrulaus gagnvart þeim erfiðleikum sem steðjuðu að og þú hefur kennt mér mikið um það hvernig best sé að takast á við lífið. Mér þótti alltaf gott að koma til þín þegar ég var í vandræðum, einkum vegna þess að þú náðir alltaf að láta mig sjá björtu hliðina og oft fékk ég að heyra „Það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessu og væla, það sem skiptir máli er að rífa sig upp á rassgatinu og redda málunum,“ og það hef ég alltaf gert, þökk sé þér.

Oft komu tímar þegar þú varst sem veikastur, að ég hélt ég myndi missa þig. En þú náðir alltaf að koma til baka af ótrúlegum styrk og það að missa þig svona óvænt var mikið áfall. Bæði ég, Raggi og allar afastelpurnar þínar munum geyma þig og öll þínn skemmtilegu uppátæki í minningunni, við söknum þín óskaplega en huggum okkur þó við að þú hefur fundið lausn frá veikindunum og að nú ertu hjá ömmu, afa og Védísi.

Við munum ávallt elska þig elsku pabbi.

Helga Sonja, Ragnar,

Líf, Bryndís og Gyða (afastelpurnar)

SVB, 18.6.2010 kl. 10:49

4 Smámynd: SVB

Laugardaginn 26. júní, 2010 - Minningargreinar mbl

Við hittumst fyrst á vertíð í Ólafsvík á netaveiðum. Ég hafði lítið af honum að segja þann vetur. Um sumarið fór Stebbi að búa með Ilmi vinkonu minni og tókst þá strax með okkur hinn ágætasti vinskapur sem stóð óslitinn fram á þennan dag. Við vorum um margt ólíkir en báðir uppátækjasamir og hressir. Við vorum mjög samrýndir í þann tíð að Stebbi og Ilmur bjuggu í Aðalstræti 16 ásamt fáeinum öðrum krökkum og var þar oft gestkvæmt. Mér er það minnisstætt að við vorum svo þreytt á að hlaupa niður að opna fyrir gestum að við settum niður streng sem var tengdur við litla klukku og áttu gestir að toga í strenginn og láta vita af sér. Það varð til þess að allir sem áttu leið framhjá toguðu í strenginn og varð hálfu gestkvæmara á eftir. Þetta tímabil varð okkur örlagavaldur og tókum við til þess að við krakkarnir sem vorum í Aðalstræti héldum mikið saman eftir þetta eða vissum hvert af öðru.

Stebbi var á sjó á Reykjavíkurtogurum á þessum tíma og var það sagt að harðari togarajaxl væri ekki í gangi á þeim tíma. Óteljandi er það fólk sem hann kynntist í gegnum súrt og sætt og er hann minnisstæður öllum sem þekktu hann. Seinna eftir mörg ævintýri hittumst við aftur og hann bjó hjá mér í Breiðholtinu um tíma og hafði hann þá verið um nokkurra ár skeið í Svíþjóð. Hann hafði alltaf lag á að sjá um að hans heimili hefðu nóg að bíta og brenna og leið enginn skort sem umgekkst Stebba. Hann hélt alltaf mikið upp á foreldra sína og systur. Er mér Stella, móðir hans, mjög minnisstæð. Hún lést ekki alls fyrir löngu og tregaði Stebbi hana mikið. Mikið gekk á í æsku Stebba og var það eins og annað á hans ævi mótandi á alla hans tilveru. Hann var góður við vini sína og muna allir hans vinir eftir því þegar hann tók Védísi Leifsdóttur að sér þar sem hún kom heim með þann vágest í farteskinu að hún var með alnæmi. Stebbi annaðist hana af nærgætni til dauðadags. Eftir það fór hann að búa með Þóru Vilhjálmsdóttur og átti með henni eina dóttur að nafni Stefanía Katrín Sól. Eins gekk hann tveimur sonum Þóru í föðurstað og kom þeim áfram. Stebbi átti mikð af börnum og kann ég ekki að nefna þau, enda þekkti ég þau lítið en hann lét sér annt um allan skarann og var alltaf til í að fara í vasann ef þau vanhagaði um eitthvað. Á seinni árum tók Stebbi sig til og fór að stunda ljósmyndun af kappi og hélt vel áfram við það. Alltaf hélt ég sambandi við Stebba og talaði við hann oft í viku eða þá við hittumst. Ég talaði við Stebba á föstudeginum í síðasta sinn og kvartaði hann þá yfir lasleika, eins og svo oft eftir að hann lenti í erfiðum veikindum sem hann stóð aldrei að fullu upp úr. Ég frétti á miðvikudeginum að hann væri látinn og kom mér það eiginlega ekki á óvart, þótt ég vonaði að hann fengi lengri tíma með okkur, fólkinu sínu, vinum sínum. Kveð ég Stebba Karls með trega og ég veit að þið öll sem þekktuð hann gerið sama.

Björgvin Kristjánsson Spoon.

SVB, 1.7.2010 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband