Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Þór Saari: Í engu samræmi við væntingar

Frétt á mbl.is: "Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að sanngirnisbæturnar sem hafa verið greiddar út vegna dvalar á vistheimilinu í Breiðavík séu smánarlegar og ósanngjarnar. Þór hyggst leita eftir því að málið verði skoðað aftur á vettvangi þingsins og að það verði leiðrétt með einhverjum hætti.

„Það er að mínu mati Alþingi til vansa ef það lætur þetta mál fá svo skammarlegan endi. Ég mun því leita eftir því við formann allsherjarnefndar, allsherjarnefnd og alla formenn þingflokka um að málið verði skoðað aftur á vettvangi þingsins með það fyrir augum að niðurstaða sýslumanns og framganga framkvæmdavaldsins verði með einhverjum hætti leiðrétt,“ sagði Þór á Alþingi í dag.

Alþingi samþykkti lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum þann 28. maí í fyrra. Sýslumaðurinn á Siglufirði hafði umsjón með fyrstu afgreiðslu bótanna fyrr í þessum mánuði.

„Afgreiðslan var í engu samræmi við þær væntingar sem lagt var upp með, hvorki af hálfu Breiðavíkurdrengja, forsætisráðherra, allsherjarnefndar eða Alþingis sjálfs, sé tekið mið af umræðunni sem var í þinginu og nefndinni um málið,“ sagði Þór.

„Sýslumaðurinn á Siglufirði virðist hafa farið út fyrir hlutverk sitt og sett upp einhverskona reikniverk byggt á stigum og hvers aðferðafræði er mjög óljós. En þess má geta að nefnd undir stjórn Viðars Más Matthíassonar lagaprófessors hafði einmitt lagt til slíkt reikniverk á sínum tíma, en það var slegið út af borðinu sem óframkvæmanlegu. Ekki er heldur kveðið á um slíkt reikniverk í lögunum,“ sagði Þór.

Hann segir að reikniverk sýslumannsins á Siglufirði hafi gert það að verkum að „sanngirnisbætur til Breiðavíkurdrengja eru smánarlegar og ekki að neinu marki sanngjarnar, og enginn þeirra er sáttur við þær.“

Margir hverjir hafi þó samþykkt bæturnar. „Bæði vegna lítt dulbúins hótunartóns í bréfi sýslumanns en ekki síður vegna þess að þeir hafa persónulega fengið nóg af málinu og því sem þeir kalla endalausa fyrirlitningu stjórnvalda í sinn garð,“ sagði Þór".

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/03/30/althingi_leidretti_sanngirnisbaetur/ 


Fundir með Ögmundi og félagsfundur á þriðjudag

Erna Agnarsdóttir formaður og Unnur Millý Georgsdóttir varaformaður SVB hittu Ögmund Jónasson innanríkisráðherra á fundi í dag til að ræða sanngirnisbótamálin í kjölfar sáttatilboða sýslumannsins á Siglufirði á dögunum. Margar spurningar hafa vaknað um framkvæmd laganna um sanngirnisbætur og upphæðir sáttatilboðanna, en margir kröfuhafanna eru óánægðir með tilboðin.

"Ég og Unnur Millý vorum að koma af fundi hjá innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni og ráðuneytisstjóra Ragnhildi Hjaltadóttur. Mjög góður fundur. Farið var yfir málin í heild sinni. Þau ætla að athuga hvernig stendur á þessum töfum á greiðslum, einnig var ákveðið að reyna að hafa aftur fund í næstu viku. Að öllum líkindum á mánudag," segir Erna á facebook-síðu samtakanna, en meðal annarra umræðuefna voru eingreiðslur, útreikningar á punktum og sú staðreynd að enginn í þessum fyrsta hópi kröfuhafa hafi náð hámarksbótum.

Ekki þykir rétt að greina nánar frá þessum viðræðum fyrr en nánari svör hafa komið á mánudags-fundinum með ráðherra. Þau verða hins vegar vonandi komin skýr þegar félagsfundur samtakanna brestur á, næsta þriðjudagskvöld kl. 19:30 á hefðbundnum fundarstað.


Fundur um sendinguna frá Sýsla

Félagsfundur Samtaka vistheimilabarna í mars-mánuði verður að gefnu tilefni flýtt og verður hann haldinn í fundarsalnum í JL-húsinu þriðjudagskvöldið 15. mars klukkan 19:30.


Aðal umræðuefni fundarins er útkoma bréfs sýslumanns á Siglufirði er varða sanngirnisbætur til handa fyrrum vistbörnum Breiðavíkur. Vegna fyrstu skýrslu Spanó-nefndarinnar, um Breiðavíkurheimilið, komu fram 120 kröfur um sanngirnisbætur. Þar af eru 17 vegna erfingja látinna fyrrum vistbarna og taka þau mál eitthvað lengri tíma, en á miðvikudag í næstu viku sendir sýslumaður þá um 103 sáttatilboð. Þessi tilboð varða hins vegar ekki bara Breiðavíkurbörnin, því þau gefa um leið tóninn fyrir bætur vegna annarra vistheimila.

Rétt er að minna á að sáttatilboð sýslumanns getur hver kröfuhafi samþykkt eða hafnað. Finnist einhverjum tilboðið of lágt er einfaldlega næsta skref að kæra tilboðið til úrskurðarnefndar og fá þá kröfuhafar á kostnað ríkissjóðs 10 klukkustunda vinnu lögfræðings sér til fulltingis. Þeir sem aftur á móti eru sáttir við tilboðið taka því einfaldlega, fá greitt fljótlega og skrifa undir afsal á frekari kröfum.


Sáttatilboð Sýsla koma "fyrstu dagana í mars"

sysli siglufirdi

Vildi bara koma þessari athugasemd frá vefsíðu sýslumanns á framfæri, ef fólk er að bíða fyrir framan póstkassann núna;-)

"Stefnt er að því að tilboð um bætur verði send flestum fyrstu dagana í mars, en skv. lögum um sanngirnisbætur er skylt að senda þeim sem dvöldu á tilteknu heimili tilboð um bætur samtímis eftir því sem unnt er."

En maður veit aldrei, kannski fá einhverjir í bréf í dag. Ekki það að manni hafi ekki grunað að þetta myndi seinka eitthvað, ríkið er svo fyrirsjánlegt í svona málum.


Bestu kveðjur,
Konni

UPPFÆRSLA AF VEF SÝSLUMANNS:

"Vegna dvalar á vistheimilinu Breiðavík bárust 120 kröfur.  Margar þeirra bárust á síðustu dögum frestsins og afla þarf gagna vegna þeirra og fjalla um þær efnislega. Stefnt er að því að tilboð um bætur verði sendar með ábyrgðarpósti eigi síðar en þann 9. mars n.k

Samþykkja þarf tilboðið innan 30 daga frá móttöku þess. Að öðrum kosti telst því hafa verið hafnað. Greiðsludagur bóta er fyrsti virki dagur næsta mánaðar eftir að tilboð hefur verið samþykkt. Rétt er að geta þess að bótakröfur vegna látinna vistmanna munu taka lengri tíma til afgreiðslu".

http://www.syslumenn.is/serstok-verkefni/onnur-verkefni/sanngirnisbaetur/

 


Pex og kex - vel sóttur félagsfundur

Félagsfund Samtaka vistheimilabarna, sem haldinn var þriðjudaginn 22. febrúar, sóttu 42 manns og þar af voru 2 viðmælendur, þau Guðrún Ögmundsdóttir tengiliður vistheimila og séra Bjarni Karlsson sóknarprestur í Laugarneskirkju.

 

Guðrún sagði frá framvindu mála hjá vistmönnum og -konum Breiðavíkur er varðaði framgang sýslumannsins á Siglufirði og að menn mættu eiga von á bréfi þaðan mánudaginn 28. febrúar.

 

Séra Bjarni talaði um fyrirgefninguna og hvernig við getum unnið úr okkar málum er varða æskuuppeldið og þær þjáningar sem hver og einn hefur orðið fyrir í þeim efnum. Guðný Sigurgeirsdóttir nýr félagi og æskuvinur sr. Bjarna sagði okkur frá því hvernig hún hafi tekið til í sínum málum undanfarin þrjú ár, hafi hún leitað á náðir Jesú Krists í bænum hans og fundið ró í bænum hans.

 

Miklar umræður fóru fram og fyrirspurnir voru mestar er varðaði framgang mála hjá „Sýsla“ á Siglufirði og ekki voru allir sáttir eins og gefur að skilja því mennirnir eru misjafnir eins og þeir eru margir.

 

En allt fór þó vel fram og bauð Unnur Millý uppá kleinur og kex sem hún verslaði sjálf og við hin í stjórninni færum henni bestu þakkir fyrir.

 

Fundi var slitið af formanni rétt fyrir 23:00 og fóru menn sáttir af fundi.

 

Kær kveðja að norðan

Marió H. Þórisson ritari stjórnar.

Félagsfundur SVB með góðum gestum

breidavikurdrengir 4 Stjórn Samtaka vistheimilabarna (SVB, áður Breiðavíkursamtakanna) minnir á komandi félagsfund þriðjudagskvöldið 22. febrúar næstkomandi kl. 19:30 í fundarsal Reykjavíkurakademíunnar í JL-húsinu.

Að þessu sinni er boðið upp á tvo gesti á fundinum. Í annað sinn kemur tengiliður vistheimila á okkar fund og gerir grein fyrir störfum tengiliðs og svarar spurningum. Þá mætir á fundinn og flytur erindi séra Bjarni Karlsson og mun ekki síst fjalla um fyrirgefninguna. Enn fremur eru líkur til þess, en óstaðfest enn, að Pétur Tyrfingsson sálfræðingur mæti til að ræða um sálfræðiþjónustu og annað því tengt, vegna fyrrum vistbarna vistheimila hins opinbera.

Fundurinn er opinn öllum sem hafa verið vistaðir utan heimilis síns og þeim sem áhuga hafa á barnaverndarmálum.

75% Breiðvíkinga með bótakröfu - næsta innköllun auglýst í dag

brv drengir Alls fær sýslumaðurinn á Siglufirði 119 kröfur um sanngirnisbætur frá fyrrum vistmönnum Breiðavíkur og erfingjum látinna vistmanna Breiðavíkur. Vistmenn á Breiðavík voru alls 158 og því koma fram bótakröfur vegna 75% þeirra. Innköllun krafna vegna vistmanna Kumbaravogs og Heyrnleysingjaskólans hefst í dag, 3. febrúar, samkvæmt auglýsingu í blöðum dagsins.

Viðtöl hófust hjá tengilið vistheimila vegna Breiðavíkurbarna þann 11. október síðastliðinn og síðasta krafan fylltist út 26. janúar. Alls höfðu 191 einstaklingar hringt og rætt við tengilið til að fá ýmsar upplýsingar og bóka viðtalstíma. Af 119 kröfum á umsóknareyðublaði voru 17 frá erfingjum látinna Breiðvíkinga, en alls eru látnir Breiðvíkingar (tímabilsins 1953-1980) nokkuð á fjórða tuginn.

Auk þess að veita liðveislu vegna kröfuumsókna vann tengiliður í ýmsum öðrum málum fyrir eða vegna Breiðvíkinga; svo sem Félagsþjónustu sveitarfélaga (gert samkomulag eftir því sem mál bárust vegna stuðningsþjónustu við einstaklinga sem þess óskuðu og þurftu á að halda), sálfræðinga (sem haft hafa einstaklinga í viðtölum vegna vistunar, svo og til að koma nýjum einstaklingum í viðtöl), einstaklinga/fagmenn með sérþekkingu á þessum málaflokki, lögfræðinga vegna einstaklingsmála og ráðgjöf til lögfræðinga, samtöl við starfsmenn heimila/stofnana sem hafa með fyrrum vistmenn að gera (geðhjálp,athvörf,félagsþjónusta ofrv.), Reykjavíkurborg (starfandi er teymi starfsmanna í þessum málaflokki og er tengiliður aðili að því) og ráðuneyti málaflokksins. Fyrir utan samstarf við aðila eins og Vistheimilanefnd (Spanó-nefnd) og Breiðavíkursamtökin (nú Samtök vistheimilabarna).

Innköllun krafna vegna skýrslu nr. 2 er auglýst í blöðum dagsins og nær til fyrrum vistmanna Kumbaravogs (1965-1984) og Heyrnleysingjaskólans (1947-1992). Í auglýsingunni kemur fram að kröfur þurfi að berast fyrir 20. maí en annars fellur rétturinn niður.  Kröfu má lýsa á eyðublaði sem er að finna á www.sanngirnisbætur.is eða hjá tengilið vistheimila (sjá upplýsingar hér til vinstri á síðunni).

Nú í byrjun febrúar eru 4 ár liðin frá því að málefni Breiðavíkur og fleiri heimila komust í kastljós fjölmiðlanna.

UPPFÆRSLA um sálfræðiþjónustu:

Tengiliður vistheimila hefur unnið í samstarfi við ýmis sveitarfélög vegna kostnaðar við sálfræðiþjónustu við einstaklinga sem dvalið hafa á þeim stofnunum sem lög um sanngirnisbætur ná til.  

Þar sem stór hluti þessara einstaklinga kemur frá Reykjavík var búið til sérstakt teymi hjá Reykjavíkurborg sem er með þessi mál og er Tengiliður aðili að því teymi.  Um er að ræða fagfólk með mikla reynslu og þekkingu á úrræðum og stuðningi.  Gert hefur verið samkomulag við nokkra sálfræðinga til að sinna þessum hóp (bæði frá Reykjavík og öðrum sveitarfélögum).  Nokkrir hafa þegar nýtt sér þessa þjónustu sveitarfélaganna og má búast við að fleiri notfæri sér  slíkt eftir því sem fleiri heimili bætast við vegna innköllunar um sanngirnisbætur.


Samtök vistheimilabarna (SVB)

Aðalfundur Breiðavíkursamtakanna var haldinn í gær, 25. janúar 2011, og er þess fyrst að geta að á fundinum var samþykkt sú lagabreyting að nafn samtakanna skuli eftirleiðis vera „Samtök vistheimilabarna“.

    Á 33ja manna fundinum var samþykkt með þorra atkvæða gegn einu að breyta um nafn samtakanna og er það hugsað sem liður í frekari útvíkkun samtakanna, en reynslan þykir hafa sýnt að það hefur hamlað vexti samtakanna að kenna þau við eitt vistheimilanna umfram önnur. 2008 var sú lagabreyting samþykkt að samtökin yrðu „regnbogasamtök“ fyrrum vistbarna allra vistheimila á vegum hins opinbera og stuðnings- og áhugamanna um málefnið. Í sérstakri kosningu um nokkur nöfn hlaut nafnið „Samtök vistheimilabarna“ kosningu í fyrstu umferð.

    Fyrir utan nafnabreytinguna má geta þess að á aðalfundi fyrir ári var samþykkt lagabreyting sem heimilar stofnun undirfélaga í samtökunum um hvert vistheimili fyrir sig.

    Í nýja stjórn Samtaka vistheimilabarna (áður Breiðvíkursamtakanna) voru kjörin:

Erna Agnarsdóttir, formaður og meðstjórnendurnir

Unnur Millý Georgsdóttir,

Þór Saari,

Esther Erludóttir og

Marinó Hafnfjörð Þórisson.

Í varastjórn voru kjörin Sigurveig Eysteinsdóttir og Georg Viðar Björnsson.

Í skýrslu fráfarandi stjórnar segir meðal annars: "Núverandi stjórn skilar af sér nokkuð sátt við frammistöðu sína, en jafnframt þess alviss að nú sé komið að „kynslóðaskiptum“ innan samtakanna. Tímabært sé að fylgja eftir útvíkkun samtakanna og að fulltrúar annarra vistheimila en drengjaheimilisins Breiðavík (1953-1973) taki sem mest við, með meirihluta í nýrri stjórn. Fráfarandi stjórn þakkar fyrir sig og óskar nýrri stjórn og samtökunum öllum velfarnaðar á nýju starfsári".


Stolin æska eða Vistheimilasamtökin?

EstherEsther Erludóttir boðar tillögu á aðalfundi samtakanna um nafnabreytingu úr "Breiðavíkursamtökin" yfir í "Stolin æska". Það er hér með tilkynnt, en þess má geta að þetta nafn varð undir í nafnakosningu á stofnfundi samtakanna 29. apríl 2007.

Nú eru breyttir tímar og vaxandi vilji til þess að nafn samtakanna endurspegli ekki aðeins eðli þeirra heldur hafi ekki yfir sér stimpil eins vistheimilis umfram önnur.

Þegar hefur komið fram tillaga frá tveimur félögum um nafnabreytingu yfir í "Vistheimilasamtökin" og stefnir því í skemmtilegar kosningar um nýtt nafn samtakanna.


Styttist í að kröfufrestur Breiðvíkinga renni út

Síðasti dagur innköllunar kröfu (umsóknar) um sanngirnisbætur vegna vistunar á Breiðavíkur-vistheimilinu er fimmtudagurinn 27. janúar.

Samkvæmt upplýsingum Guðrúnar Ögmundsdóttur, tengiliðs vistheimila, eru þegar innsendar kröfur vegna Breiðavíkur að nálgast hundraðið og 7 viðtöl bókuð í þessari viku. Alls voru að talið er 158 börn vistuð á Breiðavík 1952-1979. Af 127 einstaklingum sem voru vistbörn 1952-1973 eru 34 látnir, en börn þeirra erfa kröfuréttinn. Af þeim nálægt 31 sem vistuðust vestra 1973-1979 munu 2-4 vera látnir, en það eru óstaðfestar upplýsingar.

Breiðvíkingar (og börn látinna) eru hér með hvattir til að hafa innköllunarfrestinn í huga. Tengiliður vistheimila er talsmaður kröfugerðar fyrrum vistbarna og veitir ljúflega liðveislu í því skyni. Kontakt-upplýsingar vegna tengiliðs er að finna hér til vinstri á síðunni.

Jafnframt minnir stjórn samtakanna á aðalfund samtakanna þriðjudagskvöldið 25. janúar, samanber færslur hér fyrir neðan. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband