Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verkefnalisti stjórnar SBV.

 

VERKEFNALISTI STJÓRNAR SVB .

           

             VARANLEGT HÚSNÆÐI.

1.      Bráðnauðsynlegt er að taka á húsnæðismálum SVB með viðræðum við Reykjavíkurborg.

  • Ný stjórn SVB mun fara fram á viðræður við þá borgarfulltrúa sem getið er um í gögnum fyrrverandi stjórnar SVB.
  • Að samþykkt borgarráðs um húsnæðismál SVB, frá 18.11.2010 verði virkjuð og komið í framkvæmd.

 

ÁRGJALD   SVB.

2.      Ákvarða gjalddaga t.d. 1.maí vegna 1000,- króna árgjaldsins, og auglýsa bankareikning SVB svo félagsmenn sem hafa möguleika á að leggja inn á reikninginn með heimabanka á netinu geti gert svo.

  • Þeir sem ekki hafa slíka aðstöðu, þ.e. að greiða árgjaldið rafrænt, geta greitt það á þeim fundum sem fram fara fram fyrir 1. september ár hvert, eða komið við í banka og lagt upphæðina þannig inn á reikning SVB.

Frjáls framlög:

  • Sömu greiðslumátar eiga við fyrir þá aðila sem vilja styrkja SVB með frjálsum framlögum.

 

FÉLAGATAL   SVB.

3.      Farið verður í að uppfæra félagatal SVB og hún gerð rafræn með þeim

upplýsingum sem nauðsynlegar eru.

 

             

SANNGIRNISBÆTUR :

STYTTING  BIÐTÍMA  SÍÐARI HLUTA  SANNGIRNISBÓTA.

4.      Farið verður í eftirfylgni með flýtingu útborgunar á síðari hlutum sanngirnisbóta. Ný stjórn  skal fara fram á fund með innanríkisráðherra, með aðstoð tengiliðar, þar sem könnuð verði hver staða flýtimeðferðarinnar er á síðari greiðslum sanngirnisbóta.

  • Fordæmið er þegar til staðar þar sem fórnarlömb biskups fengu sínar sanngirnisbætur greiddar í einu lagi.

 

STYRKTARAÐILAR:

5.      Gerð verði áætlun um að sækja um styrki hjá fyrirtækjum.  Samið verði staðlað bréf um styrkbeiðni til handa SVB,  sem sent verður til fyrirtækja. Í bréfinu komi fram  að stjórnarmenn SVB séu reiðubúnir til að koma til fundar vegna styrkbeiðninnar, ef óskað er eftir.

 

FÉLAGSSTARF  SVB.

6.      Þau atriði sem falla undir félagsstarf  SVB gætu verið eftirfarandi

  • Spilakvöld - Félagsvist - Bridge
  • Bingókvöld - Einfalt mál er að halda rafrænt Bingó með tölvuútdrætti.
  • Fræðslukvöld um ýmis mál - Fyrirlestrar með myndastuðningi.
  • Mynda- og Videokvöld með myndvarpa.
  • Einföld nám
  • Farið verði í 1 ferðalag á ári t.d. dagsferð.

SKYPE væðing

7.      Stjórnin mun stefna að SKYPE væðingu eða öðru samskiptaformi vegna þeirra félagsmanna sem búa út á landi og erlendis.

 

HEIÐURSFÉLAGAR:

8.      Heiðra þá sem teljast velunnarar SVB.

  • Ýmsir aðilar hafa unnið þrotlaust og óeigingjarnt starf fyrir samtökin. Menn eins og Friðrik Þór, Þór Saari og fl. sem hafa í raun engra hagsmuna að gæta, en hafa verið mikilvægir fyrir okkar ungu samtök.

 

FUNDAGERÐIR:

9.      Fyrirkomulag fundargerða.

  • Fundargerð verður rituð á hverjum fundi með hefðbundnum hætti, það er hún verður rituð með bráðabirgða formi á hverjum fundi, en hreinskrifuð á milli funda. Ritari mun svo lesa fundargerð síðasta fundar í upphafi þess næsta og stjórnarmenn munu undirrita hverja fundargerð að loknum upplestri.
  • Mögulegt er að setja fundargerðir inn á vef SVB.

 

FRÉTTABRÉF:

10.  Kannað verður hvort ekki sé rétt að samtökin gefi út Fréttabréf sem sett verður inn á vef og Facebook SVB.

  • Fréttabréfið innihéldi m.a. upplýsingar frá stjórn SVB til félagsmanna.
  • Félagsmenn verði hvattir til að senda inn stuttar greinar/myndir til ritara sem mun ritstýra Fréttabréfinu.
  • Útgáfa slíks Fréttablaðs færi eftir efnum og ástæðum, þó helst ekki sjaldnar en annan hvern m
  • Hugsanlega mun stjórnin hafa samkeppni meðal félagsmanna um nafn á Fréttabréfinu.

 

 

 

Þessi verkefnalisti er ekki endanlegur, því önnur mál sem ekki eru tilgreind hér koma upp þá auðvitað verður tekið á þeim.

 


Fundarboð á aukaaðalfund SVB.

Stjórn samtaka vistheimilabarna boðar hér með til aukaaðalfundar þann 27. september kl. 19:30 í Reykjavíkur-Akademíunni JL húsinu Hringbraut 121.

Efni fundar: Stjórnarkjör og önnur mál.

Félagar eru hvattir til að mæta tímanlega.

 ATH: Á aðalfundum og auka-aðalfundum hafa eingöngu þeir kosningarétt og kjörgengi sem formlega eru skráðir í samtökin, í framhaldi af inntökubeiðni. Skráning á facebook-síðu er ekki ígildi þess. Því er brýnt að áhugafólk um þátttöku í auka-aðalfundinum sé visst um að vera skráðir félagar. Félagatalið sem kjörskrá verður opið til 20. september kl. 19:30 en þá verður því lokað sem kjörskrá og eingöngu þau sem þá eru skráð í félagatalið hafa atkvæðis- og framboðsrétt á auka-aðalfundinum.

Inntökubeiðnir fram til 20. september: ernaagnars56@gmail.com

 Stjórn Samtaka Vistheimilabarna


Sævar Ciesielski, Breiðavíkurdrengur, er látinn

Sævar Ciesielski lést af slysförum í Kaupmannahöfn aðfaranótt miðvikudags. Hann hafði verið búsettur þar um skeið. Sævar var einn sakborninganna í Geirfinnsmálinu og hlaut þyngsta dóminn, ævilangt fangelsi í héraðsdómi.

Hæstiréttur mildaði dóminn í sautján ár og sat Sævar inni í níu ár. Eftir að hann losnaði úr fangelsi, árið 1984, hóf hann baráttu fyrir endurupptöku málsins, en hann hélt því alla tíð fram að á honum hefði verið framið réttarmorð. Árið 1993 fór hann fram á endurupptöku málsins, en henni hefur ætíð verið hafnað.

Þættir úr ævi Sævars voru skrásettir í bókinni Stattu þig drengur eftir Stefán Unnsteinsson sem kom út árið 1980. Þar lýsir Sævar barnæsku sinni, en hann dvaldi meðal annars í Breiðavík. Í skýrslu nefndar um áfangaheimilið í Breiðavík er bókin sögð mikilvæg heimild um ástandið þar. (Tekið af Vísi.is)

 

Sævar dvaldi á Breiðavík meðan Þórhallur réðbilde.jpg heimilinu.


Langflest fyrrum vistbörn taka sáttatilboði

 Miðað við reynsluna af kröfum vegna Breiðavíkur og Kumbaravogs virðist sem langsamlega flest fyrrum vistbörn þessara staða, sem kröfur gerðu um sanngirnisbætur, hafi tekið flýtimeðferðinni með sáttatilboði frá sýslumanni mjög vel. Ef til vill mætti túlka það sem mikinn sigur fyrir það samkomulag sem náðist og lögin um sanngirnisbætur byggja á.

Ég óskaði eftir tilteknum upplýsingum frá sýslumanni og fékk svör greiðlega. Fyrst er að tiltaka að ákvæðin um innköllunarfrest hafa verið túlkuð kröfuhöfum í vil og hafa þannig bæst við kröfur vegna Breiðavíkur frá því sem áður var greint frá - og þessar "nýju" kröfur hafa verið afgreiddar þótt frestur væri liðinn. Nú er staðan sú að vegna Breiðavíkur bárust alls 123 kröfur. Sýslumanni hafa borist 108  "samþykkt sáttaboð" - sem er 88% krafnanna (9 af hverjum 10 skrifa undir). 5 mál hafa farið til úrskurðarnefndarinnar. Tveimur umsóknum var hafnað. Þrjár umsóknir eru óafgreiddar hjá sýslumanni (bárust nýlega), þrjú sáttaboð eru í skoðun hjá bótakrefjanda (fóru frekar nýlega). Afdrif tveggja sáttaboða eru ókunn, þar sem þeim hefur hvorki verið skilað til okkar, né vísað til úrskurðarnefndarinnar.

Kumbaravogur

Það bárust 18 kröfur vegna Kumbaravogs. Sáttaboð eru farin í 15 tilvikum. Tvö eru ósend og það stafar af því að þau bárust aðeins nýlega. Einni umsókn hefur verið hafnað. Til baka hafa komið 14 undirrituð sáttaboð eða 78%.  Eitt er til skoðunar hjá bótakrefjanda.

 Heyrnleysingjaskólinn

124 kröfur bárust vegna Heyrnleysingjaskólans . Útsendingu sáttaboða var frestað vegna sumarleyfa, allt í senn sumarleyfa hjá sýslumanni, hjá skrifstofu Félags Heyrnarlausra, hjá viðkomandi starfsmönnum innanríkisráðuneytisins og hjá tengiliði vegna vistheimila. Til að mæta þessu er verið að reyna að koma því þannig fyrir að þeir sem fá sáttaboð þurfi ekki að bíða eftir greiðslu til fyrsta dags næsta mánaðar eins og verið hefði, heldur verði reynt að greiða út bæturnar jafnóðum. Með öðrum orðum, segir sýslumannsembættið, þá fá bótakrefjendur fyrstu greiðslu bótanna væntanlega eftir sem áður í ágústmánuði, þótt sáttaboðin berist síðar en áætlað var í fyrstu.

Innkallanir nú og framundan

Núna er í gangi innköllun á kröfum frá vistmönnum á Reykjahlíð og Bjargi. Næst á dagskrá er innköllun á kröfum frá þeim sem voru vistaðir á Silungapolli. Þar voru vistaðir í heildina nálega 1.000 einstaklingar svo það er ekkert vitað hversu margar kröfur kunna að berast. Síðan verður innköllun vegna Jaðars og að lokum vegna Unglingaheimilis ríkisins og Upptökuheimilis ríkisins. "Það er ekki ljóst hvenær það verður en rannsóknarnefnd Róbert Spanó mun skila skýrslu vegna þessara síðustu heimila í október. Á þessum níu heimilum sem falla undir lög um sanngirnisbætur voru vistaðir um 4.600 einstaklingar, sem margir hverjir eiga líklega bótarétt.  Þess má geta að Norska ríkið greiddi 9.800 einstaklingum bætur á árunum 2006-2010 (líklega mest vegna vistheimila þó það sé ekki nákvæmlega sundurgreint), en það eru 15,3 Norðmenn á móti hverjum Íslendingi, svo þessi tala hér er býsna há í því samhengi," segir Hallór Þormar hjá sýslumanni (Norðmenn eru sem sagt 15,3 sinnum fleiri en Íslendingar).

fþg


Innköllun vegna Bjargs og Reykjahlíðar

Athygli er vakin á því að innköllun krafna um sanngirnisbætur vegna Bjargs og Reykjahlíðar hefur verið auglýst.  Texti auglýsingarinnar er eftirfarandi:

 

Í samræmi við ákvæði laga nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 og tóku gildi hinn 28. maí 2010, hefur sýslumanninum á Siglufirði verið falið að gefa út innköllun, fara yfir kröfur og gera þeim sem eiga rétt á bótum skrifleg sáttaboð. Skal sýslumaður eftir því sem kostur er fjalla samtímis um allar kröfur er lúta að sama heimilinu.

Á grundvelli þessa er nú kallað eftir kröfum frá þeim sem dvöldu á:

skólaheimilinu Bjargi og

vistheimilinu Reykjahlíð

Hér með er skorað á alla þá sem voru vistaðir á skólaheimilinu Bjargi einhvern tíma á árabilinu 1965-1967 eða á vistheimilinu Reykjahlíð einhvern tíma á árabilinu 1956-1972 og urðu þar fyrir illri meðferð eða ofbeldi sem olli varanlegum skaða, að lýsa kröfu um skaðabætur fyrir undirritaðri fyrir 20. september 2011. Kröfu má lýsa á eyðublaði sem er að finna á vefnum www.sanngirnisbætur.is og hjá tengiliði vegna vistheimila.

Allar kröfur skulu sendar sýslumanninum á Siglufirði, Gránugötu4-6, 580 Siglufirði.

Verði kröfu ekki lýst fyrir 20. september 2011 fellur hún niður.

Bent er á að unnt er að leita aðstoðar tengiliðar vegna vistheimila við framsetningu og skil á bótakröfu. Aðstoð tengiliðar er að kostnaðarlausu.

Skrifstofa tengiliðar er að Tryggvagötu 19, 101 Reykjavík.

Sími tengiliðar er 545 9045.

Siglufirði 3. júní 2011

Ásdís Ármannsdóttir sýslumaður.


Úrskurðarnefndin mönnuð

Til þeirra sem hafna sáttatilboði sýslumanns: Úrskurðarnefnd hefur verið skipuð og fregn um það á leiðinni hjá innanríkisráðuneytinu. Í nefndinni eru: Þorbjörg Inga Jónsdóttir, hrl., formaður, skipuð án tilnefningar, Andrés Magnússon, læknir, skipaður án tilnefningar og Vigdís Erlendsdóttir, sálfræðingur, án tilnefningar.

Þorbjörg hefur verið formaður Kvenréttindafélagsins og fulltrúi feminista í jafnréttisráði og fulltrúi í Félagsmálanefnd Mosfellsbæjar (fjölskyldunefnd). Andrés er geðlæknir, stjórnlagaþingsframbjóðandi og að eigin sögn baráttumaður fyrir réttlæti og gegn áfengisbölinu, Vigdís var um árabil forstöðumaður Barnahúss og var líka stjórnlagaþingsframbjóðandi.

Úr lögunum um sanngirnisbætur: "7. gr. Úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur.
Ráðherra skipar, án tilnefningar, nefnd þriggja manna og þriggja til vara til þess að taka afstöðu til krafna um sanngirnisbætur samkvæmt lögum þessum ljúki málum ekki á grundvelli 6. gr. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu skipaðir til allt að þriggja ára í senn. Einn nefndarmaður skal fullnægja skilyrðum til að vera hæstaréttardómari, en hann skal jafnframt vera formaður nefndarinnar. Einn skal vera læknir og einn sálfræðingur. Um sérstök hæfisskilyrði gilda reglur stjórnsýslulaga. Varamenn skulu fullnægja sömu hæfisskilyrðum og aðalmenn.
Kostnaður við störf úrskurðarnefndarinnar greiðist úr ríkissjóði, sbr. þó 13. gr. Nefndinni er heimilt að ráða sér starfslið í samráði við ráðherra
".


Fundur í Laugarneskirkju

Reglulegur félagsfundur Samtaka vistheimilabarna, sá síðasti fyrir hefðbundið sumarhlé, verður haldinn þriðjudagskvöldið 31. maí kl. 19:30 - og að þessu sinni í Laugarneskirkju.

Dagskráin er venjuleg félagsfundarstörf og önnur mál.  Kaffi verður í boði kirkjunnar og mun starfsmaður kirkjunnar hella upp á. Séra Bjarni mun taka á móti fólki þó svo að hann verði ekki á fundinum sjálfum. Mætum tímanlega.


Frestur vegna Kumbaravogs að renna út

Frá Tengilið:

Frestur rennur út 20.maí vegna þeirra einstaklinga sem dvöldu á Kumbaravogi á því tímabili sem skýrsla vistheimilanefndar nær til.  Tengiliður vill hvetja þá sem ekki hafa sótt um sanngirnisbætur að gera slíkt áður en frestur rennur út.  

Vinsamlegast hringið í síma 545-9045 og bókið viðtal til að ganga frá umsókn  eða sendið tölvupóst á tengilidur@tengilidur.is og bókið viðtalstíma.  Einstaklingar geta einnig sjálfir fyllt út sína umsókn og sent beint til sýlslumannsins á Siglufirði.


Hvað varðar Heyrnleysingjaskólann og þá sem þar dvöldu, þá vinnur tengiliður náið með Félagi heyrnalausra vegna þeirra umókna.  Á vef Tengiliðs er að finna allar upplýsingar  á táknmáli og á svo einnig við um síðu Félags heyrnalausra.


Gangi ykkur vel
Guðrún Ögmundsdóttir Tengiliður vistheimila


Vorið komið og fundur í kvöld!

Stjórn Samtaka vistheimilabarna (SVB) minnir félagsfólk sitt á félagsfund sem haldinn verður í kvöld kl. 19:30 á venjulegum stað, þ.e. í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar á 4. hæð (lyfta) í JL-húsinu við Hringbraut.

Til umræðu verður framgangur bótamálsins og önnur mál, en vonir standa til þess að Ragnar Aðalsteinsson sjái sér fært að koma á fundinn sem gestur og ræða málin frá sínu lögmanns-sjónarhorni og svara spurningum. Kaffi á staðnum, en hvernig væri að fólk taki með sér smá bakkelsi?


Jón Guðmundur og Gunnar Lár eru látnir

Tveir Breiðvíkingar hafa nú látist með stuttu millibili, að líkindum 35. og 36. látnu vistmennirnir af drengjatímabili Breiðavíkur 1952-1973. Eru þá um 28% Breiðavíkurdrengja látnir.

Jón Guðmundur Guðmundsson lést í gær, 20. apríl, 67 ára að aldri, en hann vistaðist á Breiðavík frá 17. júní 1955 til 22. apríl 1958, 11 til 14 ára, og aftur um skeið 1959. Móðir hans hét Sigríður Kristmunda Jónsdóttir, en hún dó meðan Jón var vistaður fyrir vestan og faðir hans var Guðmundur Maríasson, matsveinn, dáinn 1979. Jón var duglegur að sækja fundi samtakanna allt undir það síðasta og hvers manns hugljúfi.

Þá lést 14. mars síðastliðinn Gunnar Þ. Lárusson, 73 ára, en hann var vistaður á Breiðavík frá 17. maí 1953 til 21. maí 1954, er hann var 15-16 ára. Gunnar dó ókvæntur og barnlaus. Hann var sonur Sigurástar Aðalheiðar Kristjánsdóttur frá Ólafsvík og Lárusar „í Pólnum“ Guðmundar Gunnarssonar frá Hafnarfirði.

Þeirra Jóns og Gunnars verður vonandi minnst nánar við fyrsta tækifæri. Blessuð sé minning þeirra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband